Ferill 571. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1509  —  571. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum (starfsleyfi, áhættustýring, stórar áhættuskuldbindingar,
starfskjör, eignarhlutir, eiginfjáraukar o.fl.).


Frá efnahags- og við­skipta­nefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Leif A. Skarphéðinsson, Tómas Brynjólfsson og Tinnu Finnbogadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elvar Guðmundsson, Jón Þór Sturluson, Björk Sigurgísladóttur, Arndísi Kristjánsdóttur og Hjálmar S. Brynjólfsson frá Fjármálaeftirlitinu, Guðmund Ásgeirsson og Vilhjálm Bjarnason frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Sigurð Guðmundsson hdl. frá Lögmannafélagi Íslands, Thomas S. Jensen og Lilju R. Jensen hdl. frá MP banka hf., Tryggva Axelsson og Þórunni Önnu Árnadóttur frá Neytendastofu, Guðjón Rúnarsson, Árnínu S. Kristjánsdóttur og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Mörtu G. Blöndal og Björn B. Björnsson frá Við­skipta­ráði Íslands, Hannes F. Hrólfsson og Tanyu Zharov frá Virðingu hf., Ara Teitsson frá Sparisjóði Suður-Þingeyinga og Sparisjóði Höfðhverfinga og Sigríði Benediktsdóttur, Ragnar Árna Sigurðsson og Jónas Þórðarson frá Seðlabanka Íslands.
    Umsagnir um málið bárust frá Arion banka hf., Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, Landsbankanum hf., Lögmannafélagi Íslands, MP banka hf., Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Rúnari Lárussyni, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Sparisjóði Suður-Þingeyinga og Sparisjóði Höfðhverfinga, Við­skipta­ráði Íslands og Virðingu ehf. Þá skiluðu Virðing ehf., MP banki hf. og Samtök fjármálafyrirtækja frekari athugasemdum við frumvarpið eftir fundi með nefndinni.

Almennt um efni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hvað varðar starfsleyfi, eftirlitskerfi með áhættu, virka eignarhluti, stjórn og starfsmenn fjármálafyrirtækja, innri stjórnarhætti, starfskjarastefnu fjármálafyrirtækja og breytileg starfskjör starfsmanna fjármálafyrirtækja, stórar áhættuskuldbindingar, eiginfjárauka, heimild fyrir ráðherra til þess að taka upp reglugerð (ESB) nr. 575/2013 í íslenskan rétt, heimild fyrir ráðherra og Fjármálaeftirlitið til þess að taka upp tæknilega framkvæmdarstaðla og tæknilega eftirlitsstaðla Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar í íslenskan rétt og breytingar á viðurlagakafla laganna til samræmis við framangreindar breytingar.

Vinna nefndarinnar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til töluverðar viðbætur og breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Í umsögnum voru gerðar fjölmargar efnislegar athugasemdir sem nefndin fór ítarlega yfir á fundum með fulltrúum umsagnaraðila og ráðuneytis.
    Fram komu ýmis sjónarmið við vinnslu málsins hjá nefndinni, m.a. ábendingar um að eðlilegt væri að gera ríkari kröfur til stærri fjármálafyrirtækja hvað varðar áhættutöku, takmarkanir á breytilegum starfskjörum og gildi eiginfjárauka sökum kerfislegs mikilvægis þeirra og þess tjóns sem samfélagið getur orðið fyrir ef slík fyrirtæki lenda í erfiðleikum. Af hálfu stærri fjármálafyrirtækja kom fram það sjónarmið að slík aðgreining geti skekkt samkeppnisstöðu á markaði. Fram kom að greiðslumiðlun í landinu sé háð innlánsstofnunum og því þurfi að gera strangar kröfur til innlánsstofnana hvað greiðslu breytilegra starfskjara varðar. Einnig komu fram efasemdir um að rétt væri að leyfa kaupaukagreiðslur til starfsfólks eftirlitseininga fjármálafyrirtækja.
    Hluti af þeirri gagnrýni sem fram kom í umsögnum lýtur að séríslenskum reglum sem þar er að finna. Nefndin telur að við innleiðingu erlendra reglna um fjármálamarkaði sé ávallt nauðsynlegt að gæta varfærnissjónarmiða og huga að sérstökum aðstæðum á Íslandi.
    Í ljósi umsagna og vinnu nefndarinnar eru lagðar til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Gerð er nánari grein fyrir inntaki breytinganna síðar í áliti þessu. Ljóst er að sá hluti frumvarpsins sem varðar starfskjarastefnu og breytileg starfskjör þarfnast verulegra breytinga. Nefndin telur því rétt að þær greinar sem fjalla um starfskjarastefnu og breytileg starfskjör verði teknar til frekari skoðunar hjá ráðuneyti og ekki afgreiddar með öðrum meira aðkallandi hlutum frumvarpsins sem nefndin telur nauðsynlegt að ljúka að þessu sinni. Nefndin leggur þó til breytingu til að styrkja lagastoð gildandi reglna Fjármálaeftirlitsins um kaupaukakerfi. Aðrar breytingar sem nefndin leggur til taka mið af athugasemdum sem lúta að skýrleika orðalags, lagatæknilegum atriðum og samræmi við efni tilskipunar 2013/36/ESB.

Tillögur nefndarinnar að breytingum og skýringar.
2. gr. frumvarpsins.
    Nefndin fjallaði um tilvísun 2. gr. frumvarpsins til 3. mgr. 2. gr. laganna sem gæti m.a. leitt til þess að hægt sé að svipta fjármálafyrirtæki starfsleyfi sökum þess að lögmaður sem situr í stjórn þess taki að sér verkefni fyrir annað fjármálafyrirtæki án þess að skilyrði laganna fyrir slíkri verktöku sé uppfyllt. Í umsögnum var bent á að önnur úrræði séu til staðar í slíkum tilvikum og að starfsleyfissvipting vegna slíks brots gangi mjög langt með hliðsjón af kröfum um meðalhóf. Nefndin fellst á þær röksemdir og leggur til þá breytingu á greininni að fallið verði frá tilvísun til 52. gr. a.

9. tölul. c-liðar 5. gr. frumvarpsins.
    Nefndin fjallaði um orðalag 9. tölul. c-liðar 5. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að afturkalla starfsleyfi fjármálafyrirtækis ef verulegur vafi leikur á að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og/eða innlánseigendum. Bent var á í umsögnum sem bárust nefndinni að orðalagið „verulegur vafi“ væri matskennt. Nefndin fellst á þau sjónarmið og leggur því til breytt orðalag sem felur í sér að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að afturkalla starfsleyfi ef fjármálafyrirtæki getur ekki sýnt fram á að það geti staðið við skuldbindingar sínar.

1. mgr. 10. gr. frumvarpsins.
    Í 10. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 29 gr. a laganna um lánveitingar til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna og eigenda virkra eignarhluta og tengdra aðila. Með breytingunum er gefið ríkara svigrúm til slíkra lánveitinga. Fram kom að reynslan af fyrri reglum hafi sýnt að lánveitingum til tengdra aðila hefðu verið settar of þröngar skorður, sem kom sér sérstaklega illa fyrir minni fjármálafyrirtæki, og að nauðsynlegt hafi verið að veita undanþágur í fjölda tilvika þar sem raunverulega var um tiltölulega lágar fjárhæðir og takmarkaða áhættu að ræða. Nefndin fellst á slík sjónarmið en leggur áherslu á mikilvægi þeirra röksemda sem liggja að baki reglum um viðskipti við tengda aðila. Frumvarpið felur þó að mati nefndarinnar ekki í sér frávik frá þeirri stefnu, enda er þar áréttað að armslengdarsjónarmið eigi að ráða för vegna viðskipta eigenda virkra eignarhluta, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna við fjármálafyrirtæki.

11. gr. frumvarpsins.
    Nefndin fjallaði um 11. gr. frumvarpsins þar sem fram koma tillögur um breytingar á reglum um takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum. Fyrir nefndinni kom fram að með reglunum væri verið að lögfesta reglur Fjármálaeftirlitsins um þetta efni og að um væri að ræða strangari takmarkanir á áhættuskuldbindingum en þau hámörk sem gert væri ráð fyrir samkvæmt tilskipun 2013/36/ESB.
    Af hálfu umsagnaraðila var lögð áhersla á að þau hámörk sem kveðið væri á um í 2. og 3. mgr. 11. gr. ættu einungis við þegar um væri að ræða þátt í lausafjárstýringu fjármálafyrirtækis. Nefndin fellst á gagnstæð sjónarmið sem fram komu fyrir nefndinni, þ.e. að þrátt fyrir að í framkvæmd yrðu umræddar heimildir fyrst og fremst þáttur í lausafjárstýringu gætu aðrar aðstæður einnig kallað á að eðlilegt mætti telja að umræddar heimildir væru notaðar og því óráðlegt að takmarka þær við lausafjárstýringu.
    Í 1. málsl. 4. mgr. athugasemda við 11. gr. í frumvarpinu er sú villa að vísað er til 3. mgr. 11. gr. þegar átt er við 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins. 2. málsl. 4. mgr. lýtur að 3. mgr. 11. gr.

15. gr. frumvarpsins.
    Í umsögn sem barst nefndinni var bent á að í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins segir að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að hafna því að aðili auki hlut sinn í fjármálafyrirtæki ef óskað hefur verið eftir viðbótarupplýsingum en þeim ekki skilað eða þær reynast ófullnægjandi. Í 15. gr. frumvarpsins sé hins vegar ekki getið skilyrðisins um ófullnægjandi viðbótarupplýsingar og að ráðlegt sé að bæta því við. Nefndin telur eðlilegt að bæta skilyrðinu við og leggur til viðeigandi breytingu á 15. gr. frumvarpsins.

2. og 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins.
    Skv. 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins er gerð sú krafa að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri hafi óflekkað mannorð. Í umsögnum sem bárust nefndinni var bent á að þetta hugtak hafi ákveðna og þrönga merkingu í íslenskum rétti en við mat á hæfni stjórnarmanna leggi Fjármálaeftirlitið mun víðtækara mat á feril viðkomandi. Þannig er litið til þess hvort fyrri háttsemi einstaklings sem sækist eftir því að verða stjórnarmaður sé á einhvern hátt til þess fallin að rýra álit hans með þeim hætti að ekki sé rétt með tilliti til hagsmuna fyrirtækisins, markaðarins í heild eða almennings að hann gegni þessum ábyrgðarstörfum. Að mati nefndarinnar er ekki æskilegt að raska tilhögun þessa mats Fjármálaeftirlitsins og gerir nefndin því þá tillögu að notað verði orðalagið „gott orðspor“ í stað óflekkaðs mannorðs.
    Í umsögnum var gagnrýnt það skilyrði 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Bent var á að fólk geti búið yfir gagnlegri þekkingu, menntun og reynslu sem getur nýst þó að það hafi ekki lokið háskólanámi. Nefndin bendir á að Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna til sérstakrar skoðunar. Nefndin leggur til að fallið verði frá skilyrði sem er að finna í 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins um að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skuli hafa lokið háskólaprófi. Með þeim hætti er kostur á fjölbreyttari samsetningu á stjórnum fjármálafyrirtækja án þess að slakað sé á kröfum um hæfi stjórnarmanna.

1. mgr. 22. gr. frumvarpsins.
    Þá fjallaði nefndin um hlutverk stjórnar skv. 22. gr. frumvarpsins sem felst í reglulegri yfirferð og endurnýjun ferla vegna áhættustýringar. Í samræmi við athugasemdir er það skoðun nefndarinnar að rétt sé að kveða á um að slík vinna skuli fara fram að minnsta kosti árlega með beinum hætti í lögunum og gerir tillögu þess efnis.

25. og. 26. gr. frumvarpsins.
    Nefndin fjallaði um ákvæði frumvarpsins um starfskjarastefnu og breytileg starfskjör starfsmanna fjármálafyrirtækja á nokkrum fundum. Ákvæðin byggjast á tilskipun 2013/36/ ESB, en þar sem þar er að finna lágmarksreglur gerir frumvarpið ráð fyrir aðlögun reglnanna með hliðsjón af íslenskum aðstæðum og reynslu í þessum efnum.
    Umsagnir um frumvarpið höfðu að geyma mismunandi skoðanir á reglum um breytileg starfskjör. Ólík sjónarmið hvað þessar reglur varðar voru uppi innan nefndarinnar en samhljómur var um að nauðsynlegt væri að reglur um breytileg starfskjör yrðu ekki til þess fallnar að ýta undir áhættutöku starfsmanna fjármálafyrirtækja og að slíkt, sérstaklega í tilviki kerfislega mikilvægra fyrirtækja og innlánsstofnana, gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni.
    Nefndin telur því, eins og áður sagði, rétt að falla frá áformum um lögfestingu reglna um fyrirkomulag og takmarkanir á breytilegum starfskjörum starfsmanna fjármálafyrirtækja að svo stöddu. Við vinnu ráðuneytisins við frekari innleiðingu á reglum tilskipunar 2013/36/ ESB og ákvæðum reglugerðar Evrópusambandsins nr. 575/2013 gefst tækifæri til þess að útfæra frekar reglur um breytileg starfskjör með hliðsjón af umsögnum sem borist hafa um frumvarpið og þess sem fram hefur farið á fundum nefndarinnar með fulltrúum ráðuneytisins.
    Að mati nefndarinnar er þó ráðlegt að styrkja frekar lagastoð heimildar Fjármálaeftirlitsins til þess að setja reglur um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja og leggur því til breytingar þess efnis á 57. gr. a laganna.
    Nefndin leggur til að 25. og 26. gr. frumvarpsins, sem lúta að fyrirkomulagi og takmörkunum á breytilegum starfskjörum til starfsmanna fjármálafyrirtækja og starfskjarastefnu, verði felldar brott.

30. gr. frumvarpsins.
    Nefndin fjallaði ítarlega um 30. gr. frumvarpsins þar sem lagðar eru til nýjar reglur um fjóra nýja eiginfjárauka sem bætast við lágmarkseiginfjárgrunn, sem nú er 8% skv 84. gr. laganna, og kröfu Fjármálaeftirlitsins um hærri eiginfjárgrunn einstakra fjármálafyrirtækja. Í athugasemdum við frumvarpið er rakið að eiginfjáraukar séu þjóðhagsvarúðartæki sem er ætlað að minnka kerfisáhættu og styðja við fjármálastöðugleika og slík tæki hafa fengið aukið mikilvægi á alþjóðavísu eftir áföll á fjármálamörkuðum undanfarin ár.
    Þá er í athugasemdum við frumvarpið gerð grein fyrir því að fyrirhugaðir eiginfjáraukar muni bæta magn og gæði eigin fjár sem fjármálafyrirtæki skulu viðhalda og gera þau betur í stakk búin til að takast á við áföll í rekstri og sveiflur í hagkerfinu.
    Frumvarpið setur fram efnisreglur um samspil mismunandi krafna um eigin fé, ákveðnar undanþáguheimildir og málsmeðferðarreglur við ákvarðanir um gildi þeirra. Á grundvelli ákvæða frumvarpsins og athugasemda við það má lýsa umræddum eiginfjáraukunum í stuttu máli með eftirfarandi hætti:
    Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu miðast við áhættu í fjármálakerfinu aðra en þá sem ræðst af hagsveiflum. Ekki er hægt að gefa tæmandi talningu á þáttum sem þar koma til greina, né er hægt að meta hvaða krafa gæti með fullnægjandi hætti mætt slíkri áhættu, og er því ekki að finna hámark á aukanum í frumvarpinu. Hægt er að beina aukanum að einu fjármálafyrirtæki eða fleirum og getur hlutfall hans verið mismunandi eftir fyrirtækjum, t.d. eftir stærð þeirra og eðli.
    Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki nemur allt að 2% af áhættuvegnum eignum fjármálafyrirtækis. Fjármálafyrirtæki getur vegna eðlis eða stærðar talist sérstaklega mikilvægt fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Verði slíkt fjármálafyrirtæki fyrir áfalli geta afleiðingarnar verið mjög íþyngjandi fyrir aðra aðila kerfisins, ríkissjóð og almenning og er því eðlilegt að gera frekari kröfur um hlutfall eigin fjár kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja.
    Sveiflujöfnunarauki nemur allt að 2,5% af áhættuvegnum eignum fjármálafyrirtækis og getur í undantekningartilfellum orðið hærri. Aukanum er ætlað að styrkja og vernda fjármálakerfið, einkum þegar útlánavöxtur er mikill en hröðum útlánavexti fylgir aukin kerfisáhætta. Nefndin vekur athygli á að hækkun sveiflujöfnunarauka er aðeins eitt af þeim varúðartækjum sem getur þurft að virkja til að bregðast við of hröðum útlánavexti.
    Verndunarauki nemur 2,5% af áhættuvegnum eignum fjármálafyrirtækis. Hann felur í sér að fjármálafyrirtæki þurfa að viðhalda auknu eigin fé til að auka viðnámsþrótt þeirra.
    Fyrir nefndinni var vakin athygli á því að sé eiginfjárauki vegna kerfisáhættu ekki uppfylltur geti það leitt til missis starfsleyfis. Í tilviki hinna eiginfjáraukanna er hins vegar gerð krafa um að fyrirtækið skili áætlun til Fjármálaeftirlitsins um ráðstafanir til verndunar eigin fjár og að auki settar ákveðnar skorður um greiðslu arðs og breytilegra starfskjara þar til eiginfjáraukarnir eru uppfylltir.
    Í vinnu nefndarinnar var rætt um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki og hvort tilefni væri til að fastsetja hann við 2% af áhættugrunni í ljósi þess að hér eru þrír stórir bankar samtals með yfir 90% markaðshlutdeild af innlánum. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu tekur sú aðferðafræði sem kerfisáhættunefnd hefur þróað, og fjármálastöðugleikaráð staðfest, mið af hlutfallslegum umsvifum fjármálafyrirtækja á markaði út frá stærð, mikilvægi, flækjustigi og tengslum við önnur fjármálafyrirtæki. Matið gerir ráð fyrir að vaxandi hlutdeild í þessum þáttum leiði til hækkandi eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis. Nefndin fellst á að slík aðferðafræði sé eðlileg og allar líkur á að stóru bankarnir þrír muni viðhalda 2% eiginfjárauka á grundvelli hennar.

42. gr. frumvarpsins.
    Nefndin fjallaði um heimildir frumvarpsins til handa ráðherra til að setja reglugerðir og til handa Fjármálaeftirlitinu til að setja stjórnvaldsfyrirmæli. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að þrátt fyrir að það hafi ekki enn verið leyst úr stjórnskipulegum álitaefnum er lúta að því með hvaða hætti hlutverki sam­eigin­legra eftirlitsstofnana Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaða verði háttað hvað varðar EFTA-stoð EES-samningsins, og því hafi tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 ekki enn verið teknar upp í EES- samninginn, sé það vilji íslenskra stjórnvalda að löggjöf á sviði fjármálamarkaða sé á öllum tímum í samræmi við þær lágmarkskröfur sem Evrópusambandið setur fjármálafyrirtækjum á innri markaði og að íslensk lög og reglur á þessu málefnasviði endurspegli þær reglur sem gilda í nágrannalöndum Íslands hverju sinni. Af hálfu nefndarinnar er áréttað að með þeirri aðlögun íslensks réttar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu felst engin afstaða gagnvart því með hvaða hætti hlutverki sam­eigin­legra eftirlitsstofnana Evrópusambandsins eða Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálamarkaða verði háttað í framtíðinni gagnvart íslenskum fjármálafyrirtækjum. Útfærsla þess og hvort hún samrýmist ákvæðum stjórnarskrár er sjálfstætt úrlausnarefni, sem væntanlega mun koma til umfjöllunar Alþingis á síðari stigum. Þar af leiðandi leggur nefndin til að tilvísun um að reglugerð ráðherra geti kveðið á um hvernig farið verði með eftirlit samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 575/2013 verði felld brott.
Í tilviki b-liðar 42. gr. var það mat nefndarinnar að orðalag heimildar Fjármálaeftirlitsins til setningar stjórnvaldsfyrirmæla væri of opið og því eru lagðar til breytingar sem miða að því að afmarka nánar umræddar heimildir.
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins komu fram tillögur um bráðabirgðaákvæði sem gera ráð fyrir heimildum til þess að taka upp gerðir og staðla frá Evrópusambandinu í íslenskan rétt með tilvísun til Stjórnartíðinda Evrópusambandsins á ensku. Nefndin telur þá framkvæmd ekki vera til eftirbreytni en með hliðsjón af mikilvægi úrbóta á þessu sviði, og umfangs þeirra réttarreglna sem um ræðir, leggur nefndin til að slíkar heimildir verði veittar.

45. gr. frumvarpsins.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ráðlegt sé að innleiða eiginfjáraukana fyrr en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Bent var á að eiginfjáraukarnir hafi nú þegar verið innleiddir annars staðar á Norðurlöndunum. Þá sé eiginfjárstaða stóru bankana sterk og ráðlegt að viðhalda þeirri stöðu í ljósi fyrirhugaðs afnáms fjármagnshafta. Nefndin felst á umrædd sjónarmið og gerir tillögu um að gildistöku eiginfjáraukanna verði flýtt.
    Nefndin leggur um leið áherslu á að þess verði gætt við innleiðinguna að gerður verði greinarmunur á stórum kerfislega mikilvægum fyrirtækjum og smærri fjármálafyrirtækjum þannig að eiginfjáraukar íþyngi ekki smærri fjármálafyrirtækjum meira en nauðsyn krefur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Unnur Brá Konráðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins og ritar undir álit þetta skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður afgreiðslu málsins.


Alþingi, 29. júní 2015.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Árni Páll Árnason. Brynjar Níelsson.
Guðmundur Steingrímsson. Líneik Anna Sævarsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon.
Unnur Brá Konráðsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason. Willum Þór Þórsson.