Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1527, 144. löggjafarþing 424. mál: loftslagsmál (EES-reglur, geymsla koldíoxíðs, vistvæn ökutæki, Kyoto-bókunin).
Lög nr. 62 9. júlí 2015.

Lög um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (EES-reglur, geymsla koldíoxíðs, vistvæn ökutæki, Kyoto-bókunin).


1. gr.

     Á eftir 7. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum: Niðurdæling og geymsla koldíoxíðs neðanjarðar í jarðlögum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
  1. Í stað „31. ágúst“ í 4. málsl. 3. mgr. kemur: 31. júlí.
  2. 1. málsl. 7. mgr. orðast svo: Rekstraraðilar starfsstöðva sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skulu fyrir 31. mars ár hvert skila skýrslu til Umhverfisstofnunar þar sem sýnt er fram á að losun frá starfsstöðinni sé undir 25.000 tonnum af koldíoxíðsígildum á undangengnu almanaksári og skilyrði um að uppsett afl starfsstöðvar sé undir 35 MW á undangengnu almanaksári þurfa einnig að vera uppfyllt ef brennsla er hluti af starfseminni.


3. gr.

     Á eftir IX. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, IX. kafli A, Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum, með einni nýrri grein, 32. gr. a, og IX. kafli B, Opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum, með einni nýrri grein, 32. gr. b, svohljóðandi:
     
     a. (32. gr. a.)
     Óheimilt er að geyma koldíoxíð í jarðlögum, sérefnahagslögsögu og á landgrunni.
     Bann 1. mgr. tekur ekki til verkefna í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni ef um er að ræða verkefni þar sem ætlunin er að geyma minna en samtals 100 kílótonn koldíoxíðs.
     
     b. (32. gr. b.)
     Opinberir aðilar, sem skilgreindir eru í lögum um opinber innkaup, skulu við innkaup á farþega- og vöruflutningabifreiðum yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu taka mið af líftímakostnaði farartækis vegna orkunotkunar og umhverfisáhrifa, sbr. 2. mgr., og nota a.m.k. aðra þeirra aðferða sem settar eru fram í 3. mgr. í því skyni að draga úr orkunotkun og skaðlegum umhverfisáhrifum.
     Að því tilskildu að upplýsingar liggi fyrir ber að taka tillit til eftirfarandi umhverfisáhrifa:
  1. orkunotkunar,
  2. losunar koldíoxíðs,
  3. losunar köfnunarefnisoxíða, kolefnissambanda annarra en metans og svifryks.

     Skilyrði 1. og 2. mgr. skal uppfylla með eftirtöldum aðferðum:
  1. með því að setja fram tækniforskriftir í útboðsskilmálum varðandi orkueyðslu og umhverfisáhrif farartækis auk hvers kyns annarra umhverfisáhrifa sem leiðir af kaupunum eða
  2. ákvörðun um innkaup með hliðsjón af líftímakostnaði vegna orkunotkunar og umhverfisáhrifa með því að setja slíkan kostnað fram sem valforsendu í skilmálum útboðs eða annars innkaupaferlis eða með reikningsaðferð sem sett er fram í reglugerð með stoð í lögum þessum.

     Ráðherra setur reglugerð um nánari skilgreiningu á því hvaða innkaup falla undir 1. mgr., ásamt lýsingu á þeirri aðferðafræði sem beita skal við útreikning á rekstrarkostnaði og endingartíma, svo og um framfylgd reglnanna.

4. gr.

     Við 47. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/31/EB frá 23. apríl 2009 um geymslu koltvísýrings í jörðu og um breytingu á tilskipun ráðsins 85/337/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB, 2001/80/EB, 2004/35/EB, 2006/12/EB, 2008/1/EB og reglugerð (EB) nr. 1013/2006 sem vísað er til í tölulið 19a í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2012 frá 15. júní 2012.
  2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/33/EB frá 23. apríl 2009 um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum sem vísað er til í tölulið 21av. III. kafla í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 173/2013 frá 8. október 2013.


5. gr.

     Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (V.)
     Líta skal svo á að allar kröfur sem gerðar eru til flugrekenda í 17. og 21. gr. séu uppfylltar að því er varðar:
  1. alla losun flugs til og frá flugvöllum sem staðsettir eru í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
  2. alla losun flugs á milli flugvalla sem staðsettir eru á Gvadelúpeyjum, Mayotte, Frönsku Gíneu, Martiník, Sankti Martins-eyjum, Asoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum og flugvallar sem staðsettur er á Evrópska efnahagssvæðinu, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
  3. alla losun flugs á milli flugvalla í ríkjum og á landsvæðum sem tilheyra ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en eru ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem á við um Grænland og Færeyjar, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016.

     Enn fremur skal ekki gripið til aðgerða gegn flugrekendum að því er varðar alla losun frá flugi í 1.–3. tölul. 1. mgr.
     Frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 er flug á vegum flugrekenda sem eru ekki með flugrekstur í atvinnuskyni og annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1.000 tonn undanskilið gildissviði viðskiptakerfisins og laga þessara.
     Umhverfisstofnun skal á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2016 endurúthluta endurgjaldslausum losunarheimildum til flugrekenda í samræmi við breytt gildissvið viðskiptakerfisins.
     
     b. (VI.)
     Ákvæði 1. mgr. 32. gr. a skal endurskoða ekki síðar en árið 2020.
     
     c. (VII.)
     4. gr. samnings milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sameiginlegum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skal hafa lagagildi hér á landi. Ákvæðið og 1. viðauki samningsins eru birt sem fylgiskjal með lögunum.

6. gr.

     Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, svohljóðandi:

Ákvæði 4. gr. og I. viðauka samnings milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sameiginlegum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

4. gr.

Beiting viðeigandi löggjafar Sambandsins
     1. Þær réttargerðir, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við þennan samning, skulu vera bindandi fyrir Ísland og gilda á Íslandi. Ef réttargerðirnar, sem falla undir þann viðauka, hafa að geyma tilvísanir til aðildarríkja Sambandsins skal litið svo á að tilvísanirnar, að því er þennan samning varðar, vísi einnig til Íslands.
     2. Breyta má 1. viðauka við þennan samning með ákvörðun nefndar um sameiginlegar efndir sem komið er á fót með 6. gr. þessa samnings.
     3. Nefndin um sameiginlegar efndir getur kveðið nánar á um tæknilegt fyrirkomulag varðandi beitingu þeirra réttargerða, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við þennan samning, að því er varðar Ísland.
     4. Ef breytingar á 1. viðauka við þennan samning kalla á breytingar á almennri löggjöf Íslands skal við gildistöku slíkra breytinga hafa hliðsjón af þeim tíma sem Ísland þarf til að samþykkja breytingarnar og þörfinni á að tryggja samræmi við kröfurnar í Kyoto-bókuninni og ákvörðunum.
     5. Það er sérstaklega brýnt að framkvæmdastjórnin fylgi venjulegri hefð og hafi samráð við sérfræðinga, þ.m.t. við sérfræðinga á Íslandi, áður en framseldar gerðir, sem felldar eru eða felldar verða undir 1. viðauka við þennan samning, verða samþykktar.
1. VIÐAUKI
(Skrá sem kveðið er á um í 4. gr.)
     1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB (sem vísað er til sem „reglugerð 525/2013“), nema 4. gr., f-liður 7. gr., 15.–20. gr. og 22. gr. Ákvæði 21. gr. gilda eftir því sem við á.
     2. Gildandi og síðari framseldar gerðir og framkvæmdargerðir sem byggjast á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. júní 2015.