Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1543  —  434. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011,
með síðari breytingum (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu. Nefndin fjallaði sérstaklega um 1. gr. frumvarpsins sem heimilar ráðherra að ákveða aðsetur undirstofnana, nema á annan veg sé mælt í lögum. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að heimild ráðherra til að ákveða staðsetningu stofnana sem undir hann heyra sé eðlilegur hluti af stjórnunarheimildum ráðherra. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og telur að þau eigi einkum við þegar komið er á fót nýrri stofnun, þ.e. þegar ekki er um að ræða sameiningu stofnana eða flutning eldri stofnana. Telji ráðherra hins vegar mikilvægt að flytja eldri stofnanir eða ákveða sameinuðum stofnunum nýtt aðsetur telur meiri hlutinn rétt að ráðherra gefi Alþingi skýrslu um slíkar ráðagerðir áður en stjórnvaldsákvörðun liggur fyrir þar sem fram komi hvaða málefnalegu sjónarmið liggi að baki flutningnum og hvernig undirbúningi ákvörðunar ráðherra um nýtt aðsetur undirstofnunar verði háttað.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Áður en ákvörðun um flutning á aðsetri stofnunar er tekin skal ráðherra gefa Alþingi skýrslu um fyrirhugaðan flutning.
     2.      9. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal síðari málsliður 1. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. september 2015.

Alþingi, 30. júní 2015.

Brynjar Níelsson,
frsm.
Karl Garðarsson. Sigríður Á. Andersen.
Vigdís Hauksdóttir. Willum Þór Þórsson.