Ferill 629. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1544  —  629. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Á fundum nefndarinnar og í umsögnum sem bárust um málið kom fram að mikill ágreiningur er um það. Fulltrúar ­sveitarfélaga voru á þeirri skoðun að verulega hafi skort á að málið hefði verið unnið í fullu samráði við þau. Að mati minni hlutans er ótækt annað en að mál af þessu tagi, sem tekur til skipulagsvalds ­sveitarfélaga og ­vegur að sjálfstjórnarrétti þeirra og þar sem lagðar eru til grundvallarbreytingar á skipulagslögum, sé unnið í víðtæku samráði. Raunar hefði slíkt samráð leitt í ljós að málinu bæri að vísa frá eins og lagt er til í áliti þessu.

Gengið er gegn sjálfstjórnarrétti ­sveitarfélaga.
    Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins tekur ráðherra ákvörðun um vernd byggðar að fenginni tillögu ­sveitarstjórnar eða Minjastofnunar Íslands. Minni hlutinn tekur undir sjónarmið umsagnaraðila að þessi tilhögun stríði gegn skipulagsvaldi ­sveitarfélaga landsins, sem er einn af hornsteinum sjálfsákvörðunarréttar þeirra. Í stað þess að nálgast varðveiðslugildi byggða sem einn þátt í skipulagi ­sveitarfélaga er vald í þessum efnum fært ráðherra án þess að færð hafi verið fyrir því gild efnisleg rök. Þar með er mat á varðveislugildi og umfjöllun um það rofin úr tengslum við aðra skipulagsvinnu sem stríðir gegn markmiðum málsins og eykur hættu á því að söguleg sjónarmið verði fyrir borð borin.

Hlutverk ráðherra.
    Að mati minni hlutans er verulega aðfinnsluvert að færa völd úr höndum ­sveitarstjórna yfir til eins ráðherra. Sveitastjórnir eru fjölskipað stjórnvald skipaðar lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem standa borgurnum næst og fara með almennt skipulagsvald í heimabyggðum landsmanna. Að mati minni hlutans yrði um að ræða huglægt mat þess einstaklings sem gegnir embætti forsætisráðherra hverju sinni. Slíkt fyrirkomulag ber keim af ráðherraræði og getur valdið ófyrirsjáanleika og óvissu í allri ákvarðanatöku.

Skortur á nauðsyn og aukið flækjustig í skipulagsmálum.
    Í umsögnum til nefndarinnar kemur fram að með því móti að aðskilja verklag og ákvarðanatöku um verndarsvæði í byggð frá almennu skipulagi ­sveitarfélaga er flækjustig löggjafar á þessu sviði aukið til muna og bent á að með þessu verði málsmeðferð allrar skipulagsgerðar tafin og hún þyngd verulega. Af hálfu minni hlutans er sérstaklega vísað til umsagnar Skipulagsstofnunar sem telur regluverk af þessu tagi ekki til bóta. Þvert á móti er þörf á því að einfalda og skýra skipulagsferla og auka gagnsæi.
    Að mati minni hlutans hefði betur verið hugað að því að finna markmiðum og efni frumvarpsins stað innan þeirra laga sem standa vörð um sambærileg gildi og má þar sérstaklega nefna skipulagslög, nr. 123/2010, og lög um menningarminjar, nr. 80/2012. Með því móti hefði mátt samþætta þá vinnu sem tengist ákvörðunum um verndarsvæði í byggð við almenna skipulagsvinnu ­sveitarfélaga.

Skortur á kæruleið.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir kæruleið vegna ákvörðunar ráðherra um verndarsvæði í byggð. Af hálfu minni hlutans er bent á að það er meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun sæti endurskoðun æðra setts stjórnvalds. Slík endurskoðun er til þess fallin að bæta réttaröryggi borgaranna og hún eykur einnig líkur á að málefnaleg sjónarmið ráði för við töku stjórnvaldsákvarðana. Engar röksemdir eru hér lagðar fram því til stuðnings að víkja frá þeirri meginreglu.
    Öll þróun í skipulagslöggjöf undanfarinna ára hefur einkennst af því að gagnsæi er aukið og vald íbúanna sjálfra og aðkomu þeirra á öllum stigum. Hér er eindregið farið gegn þeirri þróun, ráðherraræði aukið og flækjustig sömuleiðis. Vandséð er að frumvarpið eigi yfir höfuð erindi eða sé til þess fallið að auka vernd sögulegrar byggðar í raun.
    Minni hlutinn leggst gegn samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 30. júní 2015.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Páll Valur Björnsson.