Ferill 694. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1548  —  694. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,
lögum um Matvælastofnun og tollalögum (stjórnsýsluverkefni,
ónýttar og skertar beingreiðslur, gæðastýrð sauðfjárframleiðsla).

(Eftir 2. umræðu, 30. júní.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu
á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Verðlagsnefnd annast verðskráningu þeirra búvara sem tekin er verðákvörðun um samkvæmt kafla þessum og auglýsir verðákvarðanir sínar.

2. gr.

    V. kafli laganna fellur brott.

3. gr.

    6. mgr. 39. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna. Þar skal koma fram til hvaða verkefna í sauðfjárrækt skertum og ónýttum beingreiðslum skuli ráðstafað og hvaða opinberi aðili ráðstafi þeim.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir 2. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tíðni eftirlits skal byggjast á áhættuflokkun, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti og samkvæmt eftirlitsáætlun.

5. gr.

    3. og 4. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna orðast svo: Við ákvörðun þess skal byggt á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöðvar undanfarið tólf mánaða tímabil og áætlun Matvælastofnunar fyrir komandi verðlagsár, að teknu tilliti til birgða. Matvælastofnun skal byggja áætlun fyrir komandi verðlagsár á upplýsingum frá afurðastöðvum.

6. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 59. gr. laganna orðast svo: Matvælastofnun skal halda skrá yfir rétthafa beingreiðslna samkvæmt þessum kafla.


7. gr.

    Orðin „heimilt að láta hlutkesti ráða úthlutun eða“ í 3. málsl. 3. mgr. 65. gr. laganna falla brott.

8. gr.

    77. gr. laganna orðast svo:
    Matvælastofnun skal safna upplýsingum og birta ár hvert skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Þá skal Matvælastofnun gera áætlanir um framleiðslu og sölu búvara.
    Skylt er öllum þeim er hafa með höndum vinnslu eða sölu búvara að láta Matvælastofnun í té allar upplýsingar sem að gagni geta komið við störf stofnunarinnar og þeir geta veitt, þar með talið upplýsingar um verð búvöru til framleiðenda.

9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Verðskerðingargjöldum af verði hrossakjöts til framleiðenda og af kindakjöti á heildsölustigi sem innheimt hafa verið frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2015 skal ráðstafað samkvæmt tillögu Bændasamtaka Íslands sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra. Bændasamtök Íslands skulu ganga frá lokauppgjöri og ráðstafa eftirstöðvum verðskerðingargjalda innan sex mánaða frá staðfestingu ráðherra.

10. gr.

    Heiti laganna verður: Búvörulög.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Matvælastofnun, nr. 80/2005, með síðari breytingum.
11. gr.

    F-liður 2. gr. laganna orðast svo: að annast verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt búvörulögum, nr. 99/1993.

12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Matvælastofnun er heimilt til 1. janúar 2017 að bjóða þeim starfsmönnum Bændasamtaka Íslands sem sinnt hafa verkefnum sem stofnuninni er falið að sinna samkvæmt búvörulögum, nr. 99/1993, starf hjá stofnuninni. Um réttarstöðu þeirra starfsmanna fer eftir ákvæðum laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

III. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
13. gr.

    Í stað orðanna „laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum“ í 2. mgr. 5. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: búvörulaga, nr. 99/1993.

14. gr.

    Í stað orðanna ,,laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum“ í 1. mgr. 12. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum; og orðanna „laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993“ í 5. mgr. 12. gr. laganna kemur: búvörulaga, nr. 99/1993.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.