Ferill 692. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1558  —  692. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld,
nr. 74/2012 (veiðigjald 2015–2018).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn gagnrýnir harðlega hversu seint frumvarpið var lagt fyrir þingið en því var útbýtt á síðasta degi framlagningar þingmála skv. 3. mgr. 37. gr. þingskapalaga, eða 1. apríl sl. Mælt var fyrir málinu 16. apríl, atvinnuveganefnd sendi það til umsagnar 24. apríl og veitti frest til þess að skila umsögn til 30. apríl. Fulltrúar ráðuneytisins komu á fund nefndarinnar 21. apríl og kynntu frumvarpið. Í kjölfarið voru nokkrir fundir haldnir í nefndinni þar sem umsagnaraðilar og gestir komu til að ræða málið. Síðan liðu um það bil fjórar vikur þar til málið var næst rætt. Fulltrúar ráðuneytisins komu fyrir nefndina 16. júní og kynntu veigamiklar breytingar á frumvarpinu sem lúta að því að lækka veiðigjöld frá því sem lagt er til í frumvarpinu. Þær voru sendar til umsagnar og ræddar með gestum 18. júní, málið var svo á dagskrá 23. júní og lagði formaður til á fundi nefndarinnar 24. júní að það yrði afgreitt frá nefndinni.
    Minni hlutinn áréttar andstöðu sína við það hversu seint frumvarpið kom fram og hversu langur tími leið án þess að málið væri tekið fyrir í nefndinni.
    Hér er um stórt, veigamikið og flókið mál að ræða sem þarfnast lengri umræðu og ítarlegri gagna. Minni hlutinn beinir því til ráðherra að leggja lagafrumvörp af þessu tagi fyrr fyrir þingið en raun ber vitni.

Um veiðigjöld.
Veiðigjöld voru fyrst lögð á árið 2004 og hafa álögð gjöld og þróun þeirra verið eins og fram kemur í eftirfarandi töflu:

Veiðigjöld á verðlagi hvers árs.
Uppreiknað verðlag miðað við vísitölu neysluverðs frá meðaltali árs til meðaltals 2014.
Tegund gjalda/Fiskveiðiár 02–03 03–04 04–05 05–06 06–07 07–08 08–09
Þróunarsjóðsgjald per þorskígildistonn 1.358/1.441 1.441
Veiðigjald per þorskígildiskíló 1,99 1,53 0,91 1,45 0,71
Sérstakt veiðigjald ­botnfiskafli
Sérstakt veiðigjald uppsjáfarafli
Upphæð hvers árs á þorskígildiskíló, almennt gjald 1,358/1,4 1,441 1,99 1,53 0,91 1,45 0,71
Sérstakt veiðigjald á ­botnfisk, á þorskígildiskíló
Sérstakt veiðigjald á uppsjávarfisk,á þorskígildiskíló
Uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs 2,65 2,67 3,57 2,64 1,47 2,23 0,97
Sérstakt gjald á ­botnfisk
Uppreiknað sérstakt gjald á ­botnfisk
Sérstakt gjald á uppsjávarfisk
Uppreiknað sérstakt gjald á uppsjávarfisk
Tegund gjalda/Bókhaldsár 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008
Gjald í Þróunarsjóð sjávarútvegsins í þús. kr. 632.809 729.537 187.325 -20.534
Gjald í Þróunarsj. sjávarútv., almennt gjald, þús. kr. 95.000
Veiðigjald í þús. kr. 695.250 755.705 421.120 425.283 180.005
Sérstakt veiðigjald í þús. kr.
727.809 729.537 882.575 735.171 421.120 425.283 180.005
Uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs 1.376.821 1.351.553 1.584.196 1.268.253 680.482 654.317 246.344

Tegund gjalda/Fiskveiðiár 09–10 10–11 11–12 12–13 13–14 14–15
Þróunarsjóðsgjald per þorskígildistonn Afkomuígildi
Veiðigjald per þorskígildiskíló 3,47 6,44 9,46 9,50 9,50 Sjá reglug.
Sérstakt veiðigjald ­botnfiskafli 23,20 7,38 Sjá reglug.
Sérstakt veiðigjald uppsjáfarafli 27,50 38,25 Sjá reglug.
Upphæð hvers árs á þorskígildiskíló, almennt gjald 3,47 6,44 9,46 9,50 9,50 7,54
Sérstakt veiðigjald á ­botnfisk, á þorskígildiskíló
Sérstakt veiðigjald á uppsjávarfisk,á þorskígildiskíló
Uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs 4,24 7,47 10,55 10,07 9,69 7,54
Sérstakt gjald á ­botnfisk 23,20 7,38 3,63
Uppreiknað sérstakt gjald á ­botnfisk 24,59 7,53 3,63
Sérstakt gjald á uppsjávarfisk 27,50 38,25 12,73
Uppreiknað sérstakt gjald á uppsjávarfisk 29,15 39,03 12,73
Tegund gjalda/Bókhaldsár 2009 2010 2011 2012 2013 2014
Gjald í Þróunarsjóð sjávarútvegsins í þús. kr.
Gjald í Þróunarsj. sjávarútv., almennt gjald, þús. kr.
Veiðigjald í þús. kr. 1.014.771 2.264.973 3.667.851 4.698.703 4.906.458 4.183.970
Sérstakt veiðigjald í þús. kr. 5.092.016 4.797.504 3.896.837
1.014.771 2.264.973 3.667.851 9.790.719 9.703.962 8.080.807
Uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs 1.240.047 2.626.047 4.089.309 10.377.226 9.901.474 8.080.807

    Eins og sjá má hafa veiðigjöld hækkað á síðustu árum. Allir stjórnmálaflokkar hafa ályktað á landsfundum sínum að sanngjarnt sé að leggja á hóflegt veiðileyfagjald sem endurgjald til þjóðarinnar fyrir afnot atvinnugreinarinnar af auðlindinni. Deilan snýst því um hvað sé hóflegt og sanngjarnt gjald, svo og aðferðafræði við álagningu þeirra. Þetta verður viðfangsefni Alþingis næstu árin og er mikilvægt að ná sem mestri sátt um bæði aðferðafræði við álagningu svo og upphæð gjaldsins.

Aðferðafræði og gjaldstofn frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um álagningu veiðileyfagjalda miðað við þá aðferðafræði sem samþykkt var af núverandi stjórnarmeirihluta á síðasta löggjafarþingi. Á einum af fyrstu fundum nefndarinnar komu fram upplýsingar um hækkun gjaldanna fyrir næsta ár miðað við framangreinda aðferðafræði.
    Frá því að núverandi stjórnarmeirihluti tók við völdum er enn verið að handstýra álagningu veiðigjalda. Sú aðferðafræði, að byggja á afkomustuðlum fiskteg­unda, endurspeglar ekki afkomuna enda liggja upplýsingar, t.d. um rekstur fyrirtækja, ekki fyrir. Í frumvarpinu er horfið frá því að reyna að ná utan um auðlindarentuna og er aðferðafræði ráðherra sú að skattleggja greinina handvirkt eftir því hversu mikið á að ná út úr henni hverju sinni.
    Gjaldstofn veiðileyfagjalds fyrir næsta fiskveiðiár byggist á tölum frá Hagstofu Íslands fyrir árið 2013 og þær tölur má m.a. sjá í töflu sem fylgir frumvarpinu, svo og breytingar milli ára:

Tafla 1: Rekstraryfirlit fiskveiða 2009 2013.
Hreinn hagnaður EBT m.kr. Samtals Bátar undir 10 brl. Bátar 10–200 brl. Bátar > 200 brl. Upp- sjávar- veiðiskip Ísfisk- togarar Botnfisk- frysti- togarar* Upp- sjávar- frystiskip
2009 10.733 227 -261 154 591 2.837 7.184
2010 18.617 645 3.808 5.106 1.859 3.330 3.867
2011 23.218 344 2.428 1.818 3.972 2.216 12.440
2012 22.119 -284 2.363 2.078 4.523 4.021 4.936 4.482
2013 27.985 -299 4.571 2.993 2.326 4.922 6.000 7.471
*Samtals frystitogarar á árunum 2009–2011

Tafla 2: Rekstraryfirlit fiskvinnslu 2009–2013.
Hreinn hagnaður EBT m.kr. Samtals Frysting ­botnfisks Frysting uppsjávar- fisks Söltun og hersla Mjöl-
vinnsla
Ferskfisk vinnsla
2009 17.957 4.016 1.133 8.190 4.619 0
2010 14.694 6.740 1.901 3.568 4.173 -1.689
2011 21.713 11.868 3.347 2.723 4.891 -1.117
2012 24.437 12.770 3.602 1.768 8.550 -2.253
2013 32.779 15.003 4.231 3.133 8.409 2.003

    Eins og fram kemur í töflu þessari má sjá að afkoma veiða og vinnslu batnaði að meðaltali milli þessara ára um 26% í fiskveiðum og að meðaltali um 34% í fiskvinnslu. Eins og áður er getið um eru þessar afkomutölur ársins 2013 að meginhluta álagningarstofn veiðigjalda fyrir fiskveðiárið 2015/2016.
    Fram hefur komið að stærstu fyrirtækin í ­botnfisks- og uppsjávarveiðum geti hæglega borið hærri veiðigjöld enda afkoma þeirra góð. Hins vegar er brýnt að mæta þeim minni og meðalstóru og leggur minni hlutinn til breytingartillögu sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali þar sem mælt er fyrir um aukna afslætti sem fyrst og fremst skuli gagnast þeim. Heildarafslættir af veiðigjaldi samkvæmt þessari tillögu nema um 500 millj. kr.
    Heildarálagning veiðileyfagjalds þetta fiskveiðiár, þ.e. 2014/2015, er talið verða 9,45 milljarðar kr. eða 20,3% af hreinum hagnaði (EBT) veiða og vinnslu árið 2012 samkvæmt töflunni hér að framan. Að teknu tilliti til tímabundinna lækkunaráhrifa vegna ákvæðis til bráðabirgða er áætlað að heildarveiðileyfagjald til ríkissjóðs þetta fiskveiðiár verði 8 milljarðar kr. eða um 17,2% af hreinum hagnaði (EBT) veiða og vinnslu árið 2012 samkvæmt töflunni. Ef notaður er sami hlutfallsútreikningur fyrir komandi fiskveiðiár og reiknað út frá afkomu veiða og vinnslu árið 2013 gæfi það ríkissjóði um 10,4 milljarða kr. í veiðileyfagjald án þess að lögfest væri sérstakt gjald fyrir makríl, um 1,5 milljarðar kr.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10,8 milljörðum kr. í veiðileyfagjald á komandi fiskveiðiári, þ.e. 2015/2016, miðað við sama aflamagn og var notað í áætlun um veiðileyfagjöld á yfirstandandi fiskveiðiári, auk þess sem reiknað er með tæplega 1,5 milljörðum kr. í tekjur af sérstöku álagi á makríl, þannig að heildarálagning veiðigjalds yrði 12,3 milljarðar kr. Frá þessari upphæð dragast áðurnefndir tímabundnir afslættir svo og áætlað frítekjumark eða um 1,4 milljarðar kr. Heildartekjur ríkissjóðs vegna frumvarpsins voru því áætlaðar 10,9 milljarðar kr. á næsta fiskveiðiári, 2015/2016.
    Áætluð veiðigjöld fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt upphaflegri áætlun um magn afla í hverri fiskteg­und en samkvæmt breyttu gjaldi eins og meiri hlutinn leggur til hefði orðið 9.543 millj. kr. brúttó (þ.e. án frítekjumarks og án lækkunar vegna skuldaafsláttar). Samkvæmt ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um heildarafla fiskveiðiárið 2015/2016 eru veiðigjöld áætluð 9.604 milljónir kr. brúttó.
    Minni hlutinn styður ekki framkomnar breytingartillögur meiri hlutans né frumvarpið í heild sinni enda er það að fullu á ábyrgð meiri hlutans sem að auki hefur unnið breytingartillögur sínar til lækkunar án nokkurrar aðkomu minni hlutans eða nefndarinnar í heild. Ákvörðun og aðferðafræði við álagningu veiðileyfagjalds fyrir komandi þrjú fiskveiðiár eru því alfarið á ábyrgð meiri hlutans.
    Minni hlutinn telur brýnt að þar til endanleg niðurstaða um útreikninga liggur fyrir sé rétt að leggja veiðigjöld aðeins á til eins árs. Minni hlutinn leggur til breytingartillögu í þá veru auk breytingartillögu um afslætti líkt og framar er getið. Gerð er grein fyrir breytingartillögum minni hlutans í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. júní 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
frsm.
Kristján L. Möller.