Ferill 779. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1599  —  779. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hjörvar
um samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvers vegna hefur ekki verið framlengt samkomulag við lífeyrissjóði sem kemur í veg fyrir skerðingar örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyris, sbr. lög nr. 137/2014? Geta lífeyrisþegar treyst því að gildistími umræddra lagaákvæða verði framlengdur fyrir for­göngu ráðherra á yfirstandandi ári? Hyggst ráðherra leita leiða til að finna framtíðarlausn á málinu?

    Með lögum nr. 137/2014 voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða í því skyni að stemma stigu við því að víxlverkanir skerðinga færu aftur af stað þegar ákvæði laga nr. 106/2011 runnu út. Vegna óvissu um hvort fyrir hendi væru nægar fjárheimildir til að mæta þeim auknu útgjöldum sem hlytust af framlengingu lagaákvæðanna var skipaður starfshópur til að skoða nokkrar leiðir til að sporna við því að víxlverkunin hæfist að nýju.
    Sú leið sem ákveðið var að fara og síðar varð að lögum nr. 137/2014 felur það í sér að gagnvart hverjum og einum örorkulífeyrisþega er gerður samanburður á þeim fjárhæðum sem hann nyti annars vegar miðað við frítekjumörk og skerðingarhlutföll ársins 2013, þ.e. samkvæmt þeim sérreglum sem leiða af framkvæmd lagaákvæðisins, ásamt 3,6% bótahækkunum sem komu til framkvæmda 1. janúar 2014, og hins vegar fjárhæðum miðað við almennar reglur ársins 2014. Þeim útreikningi sem er hagstæðari fyrir lífeyrisþegann er beitt. Samanburður þessi fer fram í endurreikningi bóta sem fram fer í ágúst á þessu ári þegar fyrir liggja endanlegar tekjur lífeyrisþega vegna ársins 2014 og þar með endanlegur útreikningur greiðslna almannatrygginga vegna þess árs.
    Gert er ráð fyrir að reglur ársins 2013 komi betur út fyrir þá örorkulífeyrisþega sem hafa lífeyrissjóðstekjur á bilinu 27.400 kr. til 261.924 kr. á árinu 2014. Þeir sem eru með lífeyrissjóðstekjur utan þessa tekjubils munu fá greitt samkvæmt almennum reglum ársins 2014. Breytingin sem lögfest var á síðasta ári mun því hlífa tekjulágum lífeyrisþegum við afleiðingum þess að bráðabirgðaákvæði laganna runnu út í árslok 2013 en á sama tíma hefur verið komið böndum á þann útgjaldaauka sem framkvæmd laga nr. 106/2011 felur í sér og fór ört vaxandi frá ári til árs.
    Það er allra hagur, ekki síst lífeyrisþeganna sjálfra, að víxlverkanir í samspili örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða hefjist ekki að nýju. Þess vegna var farin sú leið á síðasta ári að leita leiða til að leysa það vandamál sem um ræðir til skemmri tíma á meðan þær nefndir sem vinna að endurskoðun bæði almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins eru að störfum og lög voru sett til að tryggja það að örorkulífeyrisþegum væri hlíft við afleiðingum þess að víxlverkanir þessar hæfust á nýjan leik.
    Ráðherra mun beita sér fyrir því að svo verði áfram á yfirstandandi ári en lögð er á það áhersla að á sama tíma finnist lausn á málinu sem ekki sé aðeins ætlað að gilda í eitt ár heldur leysi vandann til lengri tíma.
    Nú er starfandi nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins. Nefndin mun vera langt komin í vinnu sinni og eitt af mikilvægustu verkefnum hennar er að fjalla um samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða og hvernig samstilla megi betur þessar tvær meginstoðir lífeyriskerfisins. Nefndin mun nýlega hafa fjallað nokkuð ítarlega um víxlverkanir í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða og vinnur nú að því að leita leiða til að finna framtíðarlausn á málinu. Þetta mál tengist óhjákvæmilega því starfi nefndarinnar sem lýtur að upptöku starfsgetumats í stað gildandi örorkumats sem og fyrirkomulagi nýs bótakerfis samhliða nýju starfsgetumati.
    Því er gert ráð fyrir að í tillögum endurskoðunarnefndarinnar verði að finna framtíðarlausn á víxlverkunum í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða.