Ferill 787. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1611  —  787. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (nauðasamningar).

Frá minni hluta efnahags- og við­skipta­nefndar.


Inngangur.
    Minni hluti efnahags- og við­skipta­nefndar vekur athygli á að frumvörpin tvö sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi og tengjast aðgerðum til undirbúnings losunar, eða rýmkunar, á fjármagnshöftunum sem hér voru innleidd síðla árs 2008, eru seint fram komin. Þau voru fyrst lögð fram um miðjan júní sl. Alþingi hefur því gefist naumur tími til umfjöllunar um málin og gildir það einnig um vinnu efnahags- og við­skipta­nefndar sem þó hefur unnið vel og kappsamlega að rannsókn þeirra. Einnig háði það minni hlutanum að svonefnd samráðsnefnd fulltrúa allra flokka um afnám fjármagnshafta var nær alveg óvirk síðasta missirið og hafði enga aðkomu að málinu frá páskum og þar til frumvörpin komu fram. Þá er þess að geta að grundvallarmunur er á málunum tveimur hvað skýrleika varðar. Stöðugleikaskatturinn liggur tiltölulega ljós fyrir. Hann mun leggjast á heildareignir búanna eins og þær munu standa um næstu áramót. Búin sæta einskiptis skattlagningu með 39% skatthlutfalli og á móti koma tilteknir frádráttarmöguleikar. Samkvæmt upplýsingum í athugasemdum við frumvarp til laga um stöðugleikaskatt mundi skatturinn án frádráttarliða skila ríkissjóði 845 milljörðum kr. Hámarksfjárhæð fjárfestinga sem komið gætu til frádráttar skattinum er 163 milljarðar kr. og þannig mundi skatturinn að lágmarki skila 682 milljörðum kr. í ríkissjóð. Sú leið sem þetta frumvarp opnar hins vegar fyrir búin, þ.e. að ljúka uppgjöri sínu með nauðasamningum og greiðslu svonefnds stöðugleikaframlags er hins vegar mun óljósari hvað fjárhæðir og fjárhagslega útkomu varðar. Stöðugleikaskilyrðin eru ekki opinber og mat á því hvaða fjármunir muni skipta um hendur í því tilviki, þ.e. hvert verði endanlegt verðmæti stöðugleikaframlaganna sem búin reiða af hendi, liggur á breiðu bili. Hafa í því tilviki oftast verið nefndar tölur allt frá 300 til 450 milljarða kr. Mismunurinn eða afslátturinn á stöðugleikaframlögunum miðað við skattinn, ef svo má að orðið komast, gæti því orðið af stærðargráðunni 250 og upp undir 400 milljarðar kr. Nánar verður vikið að þessum atriðum síðar í áliti þessu í umfjöllun um hvort frumvarpið fyrir sig og reifuð rök og gagnrök.

Forsagan.
    Minni hlutinn stendur að sam­eigin­legu nefnadaráliti efnahags- og við­skipta­nefndar um frumvarp til laga um stöðugleikaskatt og mun því fjalla að nokkru leyti um bæði málin í þessu nefndaráliti til að skýra sjónarmið sín til málsins í heild. Er þá rétt að rifja fyrst stuttlega upp forsögu málsins. Ekki ætti að þurfa að deila um að það var óumflýjanlegt og rétt að setja höftin á haustið 2008. Gjaldeyrisforði landsins var upp urinn, aðgangur að fjármálamörkuðum harðlokaður og orðspor landsins í rúst. Landið var algerlega háð utanaðkomandi aðstoð í formi gjaldeyrislána og óvissa um fram­haldið mikil. Þegar svo við bættist að erlendir aðilar áttu óhemju krónueignir innan hagkerfisins vegna hinna miklu vaxtamunaviðskipta sem stunduð voru árin fyrir hrun (snjóhengjan) var enginn annar kostur í stöðunni. Höftin hafa án vafa auðveldað hina efnahagslegu endurreisn og átt þátt í þeim stöðugleika í gengis- og verðlagsmálum sem þó hefur tekist að skapa. Smátt og smátt skýrðist einnig að umtalsverður greiðslujafnaðarvandi til viðbótar mundi tengjast uppgjörum þrotabúa stóru bankanna. Loks má ekki gleyma því að höftin lokuðu á fjármagnshreyfingar innlendra aðila úr landi, svo sem fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis, þannig að til samans myndaði þetta allt stöðu sem ljóst var að leysa yrði úr með vel undirbúnum og heildstæðum aðgerðum.
    Með þessi mál hefur verið unnið síðan, allt síðasta kjörtímabil og fram til þessa dags. Fyrsta áætlunin um losun hafta var samþykkt í ríkisstjórn þegar í júlí 2009 byggð á tillögum Seðlabanka Íslands og unnin í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í mars 2011 var svo samþykkt ný og mun ítarlegri áætlun sem kalla má einu fullbúnu áætlunina um losun haftanna þar til nú. En þegar fyrir þann tíma hófust aðgerðir til að vinna niður „snjóhengjuna“ svokölluðu eða aflandskrónuvandann. Samningar tókust um að „kaupa“ heim frá Lúxemborg á afar hagstæðum kjörum miklar krónueignir sem íslensku bankarnir höfðu sett að veði erlendis rétt fyrir hrun. Voru það svonefnd Avens-viðskipti og síðan hófust uppboð á kvikum aflandskrónum samhliða fjárfestingarleiðinni auk tiltekinna sérviðskipta Seðlabankans. Hafa allar þessar aðgerðir til samans meira en helmingað þann hluta vandans, þ.e. fjárhæðir aflandskróna, eða snjóhengjan svonefnda, hefur farið úr um 650–700 milljörðum kr. niður í um 300 milljarða kr. nú, eða úr liðlega 40% af vergri landsframleiðslu niður í um 15%.

Lagabreytingin 12. mars 2012.
    Mikilvægasta einstaka aðgerðin í þessu sambandi á síðasta kjörtímabili var þó án vafa lagabreytingin 12. mars 2012 þegar allar eignir hinna föllnu banka voru færðar á bak við höftin. Á þeirri aðgerð hefur allt byggst síðan og á grunni þeirra lagabreytinga hefur staða Íslands byggst. Það er á grunni þessara breytinga og þeirrar forsjálni sem Seðlabankinn og þáverandi ríkisstjórn sýndi sem nú er hægt að taka á greiðslujafnaðarvandanum sem tengist uppgjöri gömlu bankanna með þeim hætti sem til stendur. Þáverandi stjórnarandstöðuflokkar, sem nú skipa ríkisstjórn, áttuðu sig ekki betur en svo á mikilvægi þessarar aðgerðar að þeir studdu ekki málið, ýmist sátu hjá eða greiddu atkvæði gegn því.
    Lengi hefur legið fyrir að nokkrar leiðir eða blanda leiða kæmu til greina til að takast á við þennan vanda í heild. Það eru í fyrsta lagi útboð eins og notuð voru til að minnka aflandskrónuvandann sem hefur meira en helmingast frá árinu 2008. Með útboðunum var kvikum aflandskrónum skipt út fyrir gjaldeyri sem aðrir komu með á móti á mun lægra gengi en á markaði. Þá var einnig strax ljóst að skattlagningarleið, hvort sem talað er um út­gönguskatt eða stöðugleikaskatt gæti að einhverju leyti orðið hluti af lausn vandans og loks það að binda einhvern hluta þessa fjár til langs tíma. Það hefur því legið fyrir frá upphafi að erlendir aðilar mundu þurfa að sætta sig við verulega afskrift á krónueignum, í formi út­gönguskatts, með samningum um verulega eftirgjöf eða gegnum möguleg viðskipti þar sem niðurstaðan yrði hin sama, að því e.t.v. viðbættu að binda einhvern hluta þessa fjármagns hér til langs tíma.
    Í kjölfar lagabreytingarinnar í mars 2012 hófst vinna á vegum þáverandi ríkisstjórnar og í fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu að úrlausn þess þáttar haftanna sem tengdist uppgjöri búa hinna föllnu fjármálafyrirtækja. Sú vinna fólst í ítarlegum greiningum á þeim þrýstingi sem innlendar eignir búanna mundu valda á greiðslujöfnuð og tillögugerð um mögulegar lausnir. Gert var ráð fyrir að ríkinu yrði tryggð hlutdeild í hagnaði af sölu bankanna og að Seðlabankinn eða ESÍ kæmi að yfirtöku innlendra eigna úr þrotabúunum til að greiðslujafnaðarhlutleysa þau. Þær áætlanir voru því mjög í samræmi við þá niðurstöðu sem nú verður, ef slitabú kýs að fara leið nauðasamninga og inna af hendi stöðugleikaframlag.
    Þær aðgerðir sem frumvörpin nú fela í sér byggjast á allri þessari aðferðafræði. Búin eiga þannig þess kost að komast hjá greiðslu stöðugleikaskatts, skattlagningarleiðinni, með því að ljúka nauðasamningum og reiða fram stöðugleikaframlag. Í báðum tilvikum er svo einnig hluti af lausninni að búin binda tiltekna fjármuni til langs tíma, annars vegar yrði hluti stöðugleikaframlaganna á því formi og hins vegar yrðu frádráttarliðir stöðugleikaskattsins af sama tagi. Lausnin nú byggist því á sömu efnisþáttum og kynntir voru til sögunnar í áætluninni frá mars 2011 og voru undir í vinnunni í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Stöðugleikaskattur (frumvarp til laga um stöðugleikaskatt, 786. mál).
    Eins og fram kom í inngangi þessa nefndarálits er álagning stöðugleikaskattsins í sjálfu sér einföld aðgerð í lagalegu og skattalegu tilliti. Röksemdafærslan eða réttlætingin fyrir skattinum er þar hið vandasama álitamál. Vísast í þeim efnum f.o.f. til ítarlegrar greinargerðar með því frumvarpi. Á mannamáli má segja að réttlæting stöðugleikaskattsins sé hin útblásna krónueign búanna sem gjaldeyrisjöfnuður þjóðarbúsins býður ekki upp á að skipta yfir í erlendan gjaldeyri nema þá á mjög löngum tíma og með kostnaðarsömum afleiðingum fyrir íslenska þjóðarbúið. Því mundi einnig fylgja að óumflýjanlegt yrði að viðhafa hér umtalsverð höft á stærri fjármagnshreyfingar árum saman. Til þess að unnt sé að létta af eða a.m.k. rýmka höftin umtalsvert þarf því að takast á við og leysa úr þessari stöðu, auk þess að taka á því sem eftir er af aflandskrónuvandanum eða snjóhengjunni. Frekari tafir á því að leysa úr flækjunni mundu einnig valda enn frekari töfum á því að kröfuhafar í búin fengju til sín þær greiðslur sem þeir eiga von á. Að því leyti eiga hagsmunir þjóðarbúsins og kröfuhafanna að fara að nokkru leyti saman. Búin hafa nú verið í skila- eða slitameðferð í bráðum sjö ár og mál að linni. Þeim hefur gefist ærinn tími til að innheimta eignir sínar og breyta þeim í laust fé, hvað þau hafa þegar gert að mestu leyti. Því eru íslensk stjórnvöld í sterkri stöðu til að segja sem svo: Nú er kominn tími til að leysa upp þessa stöðu og þó fyrr hefði verið. Til þess að við getum í fram­haldinu aflétt hömlum á fjármagnshreyfingar og gert það þannig að það raski hvorki gjaldeyris- né verðlagsstöðugleika né verði á kostnað almennings á Íslandi eða þjóðarbúsins á nokkurn hátt, þá þarf skattlagningu á eignir búanna sem þessu nemur. Aðgerðin verður fullkomlega hlutlaus gagnvart framangreindum þáttum, gengur ekki lengra en þarf og eftir skattlagninguna geta búin ráðstafað eignum sínum til eigendanna, kröfuhafanna, án frekari tafa. Þegar svo eftirstöðvar aflandskrónuvandans hafa verið hreinsaðar út með uppboðum síðar á árinu erum við laus við þá mengun úr hagkerfinu sem vaxtamunaviðskiptin og útblásnir efnahagsreikningar gömlu bankanna skildu eftir sig í hagkerfinu.
    Stöðugleikaskatturinn er einföld og hreinleg aðferð til að leysa þennan vanda hvað bú fallinna fjármálafyrirtækja varðar. Skatturinn og skatthlutfallið endurspeglar efnahagslegan veruleika sem er til staðar á Íslandi og ríkir þjóðarhagsmunir standa að baki aðgerðinni. Minni hlutinn telur því skattinn fullkomlega réttlætanlegan og standast í lagalegu tilliti þó skatthlutfallið sé vissulega hátt, en svo verður að vera til að öruggt sé að höfuðmarkmiðin náist, þ.e. að unnt sé að hreinsa mengunina út úr hagkerfinu, gera upp búin og losa um höftin án neikvæðra áhrifa á almenning og þjóðarhag.

Nauðasamningaleiðin (breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, 787. mál).
    Leið nauðasamninga hefur vissulega ýmsa kosti og þá þann ekki síst að málin leysast þá á grundvelli samkomulags um nauðasamninga og greiðslu stöðugleikaframlags sem a.m.k. tilskilinn meiri hluti kröfuhafa í búin óskar sjálfur eftir. Einnig má segja að með því sé dregið úr lagalegri áhættu (ekki reynir þá í þeim tilvikum á lögmæti stöðugleikaskattsins) og minni hætta er á tafsömu ferli, enda búunum sett þröng tímamörk til að ljúka nauðasamningum og reiða fram stöðugleikaframlög eða greiða stöðugleikaskatt ella. Þá má færa fyrir því rök að það sé til styrktar málinu öllu og þar með stöðugleikaskattinum og hafi betri áferð að boðið er upp á valkvæða leið. Loks má nefna að hluti stöðugleikaframlaganna eða skilyrðanna felur í sér fjármögnun og fjárbindingu innan lands sem þjónar hagnýtum markmiðum og einnig bætist markvert við óskuldsettan gjaldeyrisforða. Á móti kemur að færu búin leið stöðugleikaskattsins mundi nýting búanna á frádráttarliðum sem þar eru í boði væntanlega tryggja sambærileg markmið hvað varðar a.m.k. fjármögnun innlendu bankanna.
    Stöðugleikaskilyrðin hafa hins vegar ekki verið gerð opinber og aðeins gerð grein fyrir hvað þau feli í sér með almennum hætti af Seðlabankanum. Engu síður má talsvert ráða í inntak þeirra af þeim tillögum eða viljayfirlýsingum sem stóru búin þrjú hafa lagt fram í formi bréfa og fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt. Einnig átti efnahags- og við­skipta­nefnd gagnlegan fund með fjármála- og efnahagsráðherra og seðlabankastjóra þar sem farið var all rækilega yfir m.a. grundvöll stöðugleikaskilyrðanna. Þó vissulega kunni að vera ákveðin rök fyrir því að birta ekki opinberlega eða útlista í smáatriðum grundvöll stöðugleikaskilyrðanna og þau sjálf, þá er bagalegt að ekki skuli liggja fyrir meiri upplýsingar um svo mikilvægan þátt málsins og meira gagnsæi þar með ríkja um aðgerðirnar.

Stöðugleikaskattur eða nauðasamningaleið.
    Þegar frumvörpin sem hér eru til umfjöllunar voru kynnt með við­höfn í Hörpu á dögunum fór nánast öll sú kynning í frumvarpið um stöðugleikaskatt. Að nauðasamningaleiðinni var aðeins vikið óbeint og ekkert fjallað um stöðugleikaskilyrðin. Hugtakið stöðugleikaframlag kom þar ekki einu sinni fyrir. Þetta er þeim mun undarlegra þar sem samdægurs var ljóst að viðræður við lykilkröfuhafa í bú stóru bankanna þriggja voru svo þroskaðar að þeir höfðu allir skilað inn bréfum með tillögum að stöðugleikaframlögum í samræmi við nauðasamningaleið væntanlegs frumvarps þar um. Einnig upplýstist að verkefnisstjórn um afnám hafta hafði farið yfir tillögur búanna eða kröfuhafanna og komist að þeirri niðurstöðu að þær uppfylltu stöðugleikaskilyrðin. Allt stefnir því í, og gerði þegar við kynningu málanna, að kröfuhafar stóru búanna þriggja velji leið nauðasamninga með stöðugleikaframlögum og þar með mun ekki koma til greiðslu stöðugleikaskatts af þeirra hálfu. Kröfuhafar stóru bankanna meta það augljóslega svo að það sé þeim mun hagstæðari kostur að uppfylla stöðugleikaskilyrðin en lenda í greiðslu stöðugleikaskatts. Gildir það meira að segja um það búanna sem mestar innlendar eignir á og þarf í samræmi við það að leggja fram hæsta stöðugleikaframlagið. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu, samanber það sem nú hefur fram komið um samskiptin við lykilkröfuhafa stóru búanna undanfarna mánuði og það sem birtist á kynningardegi frumvarpanna, en að a.m.k. óformlegt samkomulag hafi þegar tekist við þá, þ.e. lykilkröfuhafa, um stöðugleikaframlögin. Er það nokkuð óvænt og önnur niðurstaða en ætla hefði mátt miðað við málflutning a.m.k. annars af oddvitum ríkisstjórnarinnar undanfarin missiri.
    Í ljósi þess að yfirlýstur tilgangur þessara aðgerða er ekki tekjuöflun í ríkissjóð heldur að skapa forsendur fyrir losun fjármagnshafta virðast fyrirliggjandi upplýsingar teikna til þess að báðar leiðir þjóni því markmiði þó ekki sé hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að verulegur munur er á þeim fyrir fjárhagslega útkomu ríkissjóðs. Þá verður einnig að hafa í huga að þessir fjármunir eru ekki sambærilegir á nokkurn hátt við venjulegar skatttekjur í ríkissjóð í hagkerfi í jafnvægi, þar sem peningamagn í umferð er hóflegt og aðrar aðstæður til staðar til að vinna með þá fjármuni. Að þessu verður vikið nánar síðar. Fjárhæðirnar sem þarna skilja á milli eru þó af þvílíkri stærðargráðu að óeðlilegt væri að skoða það ekki nánar. Eins og fram kom í inngangi er oftast talað um tölur sem eru á bilinu 250–400 milljarðar kr. sem nemur því hve stöðugleikaframlagaleiðin skilar minna til ríkissjóðs og/eða Seðlabankans. Samanburður á þessum grunni er þó ekki einfaldur. Að hluta til getur framtíðin ein skorið úr um það hvert endanlegt verðmæti stöðugleikaframlaganna mun reynast. Þá skiptir söluandvirði nýju bankanna máli og hvort þeir verða seldir til innlendra eða erlendra aðila. Eins er erfitt að meta til fjár gildi þeirra fjárbindinga og fjármögnunar banka til langs tíma sem bæði hluti stöðugleikaframlaganna eða nýting frádráttarliða frá stöðugleikaskatti tryggir. Óvissan er þó nær öll á stöðugleikaframlagahliðinni meðan niðurstaða sem fengist með stöðugleikaskatti er tiltölulega fyrirsjáanleg, að lágmarki rúmlega 680 milljarða kr. skatttekjur í ríkissjóð.
    Efinn hvað stöðugleikaframlögin varðar er að mati minni hlutans fremur sá hvort stöðugleikaframlögin séu örugglega nóg til að undirliggjandi markmið aðgerðanna náist og séu trygg, en hve miklum verðmætum þau endanlega skila. Það er að segja að unnt verði í fram­haldinu og að vel heppnuðum uppboðum og/eða bindingum aflandskróna með haustinu afstöðnu að taka skref til losunar hafta án þess að efnahagslegum stöðugleika verði raskað. Í þeim efnum er óhjákvæmilegt að undirstrika að afar litlir möguleikar og svigrúm hefur gefist til sjálfstæðs mats í knappri umfjöllun Alþingis og sökum takmarkaðra upplýsinga sem fyrir liggja um stöðugleikaviðmið eða skilyrði og grundvöll stöðugleikaframlaganna.
    Reyna má að draga þennan samanburðarkafla saman á eftirfarandi hátt:
    Óvissan um fjárhagslega niðurstöðu er nær öll á hlið nauðasamninga og stöðugleikaframlaga leiðarinnar. Líkleg niðurstaða af því að stóru búin öll fari þá leið er að umtalsvert minni „fjármunir“ (sem hér eru hafðir innan gæsalappa sökum þess hvers eðlis þeir eru og í ljósi aðstæðna) endi að lokum í hirslum ríkisins. Þar getur munað hundruðum milljarða. Sú leið hefur síðan sína kosti umfram hina en fæsta þeirra er hægt að meta beinlínis til verðs, svo sem það að leysa mál með samkomulagi og með lágmarks lagalegri áhættu. Áhættan sem nauðasamningaleið með stöðugleikaframlögum er samfara er ekki síður bundin þeirri spurningu hvort stöðugleikaframlögin reynist örugglega nóg til að markmiðum aðgerðanna verði náð.

Ráðstöfun fjármuna.
    Nokkur umræða hefur orðið bæði í þingsal og í efnahags- og við­skipta­nefnd um meðferð þeirra fjármuna sem renna munu til ríkisins, hvort sem heldur er í gegnum greiðslur stöðugleikaframlaga í þágu nauðasamninga eða með greiðslu stöðugleikaskatts. Fyrst er þá rétt að minnast þess hvernig þessi vandi er til kominn og hvers eðlis hann er. Greiðslujafnaðarvandi íslenska þjóðarbúsins nú um stundir og ein helsta frumorsök þess að óhjákvæmilegt var að setja á fjármagnshöft á sínum tíma er útblásin krónueign og kröfur í innlendum verðmætum í eigu erlendra aðila. Ástæður þessa eru hin gífurlega umfangsmiklu vaxtamunaviðskipti á bóluárunum fyrir hrun og hinir útblásnu efnahagsreikningar gömlu bankanna sem fjármögnuðu sig að uppistöðu til erlendis á árunum fyrir hrun. Þar af spretta kröfur erlendra aðila á búin sem aftur á móti eiga óhjákvæmilega talsverðar innlendar eignir sem fyrrum íslenskir við­skipta­bankar og lögaðilar. Auðvitað veldur mikil erlend skuldsetning almennt alltaf álagi á greiðslujöfnuð og hún var vissulega til staðar við hrunið og er enn. Þann hluta vandans hefði þó viðvarandi jákvæður við­skipta­jöfnuður gert tiltölulega auðvelt að ráða við ef ekki hefði komið til snjóhengjan og þrotabú bankanna. Ein afleiðing þessa útblásturs hagkerfisins var, eins og frægt er, þreföldun peningamagns í umferð á fáeinum árum. Við afleiðingar alls þessa glímum við enn.
    Það hefur verið ánægjulegt að í efnahags- og við­skipta­nefnd og með fáeinum undantekningum í almennri umræðu hefur verið ríkur skilningur á því að þessa miklu fjármuni, sem að miklu leyti hafa legið óvirkir eða sofandi í hagkerfinu undanfarin ár, væri óðs manns æði að setja í umferð. Af því mundi hljótast gríðarlegur óstöðugleiki og sennilega óðaverðbólga. Frá hagstjórnarlegu sjónarmiði mæla ugglaust ýmis rök með því að einfaldlega eyða að verulegu leyti eða taka til mjög langs tíma úr umferð þetta fé eða þessi reikningslegu verðmæti sem nær er að kalla það, því hér eru ekki beinlínis gullstangir á ferð. Að sjálfsögðu er mjög æskilegt að nota þessa fjármuni að einhverju leyti, og eftir því sem aðstæður bjóða, til að greiða niður skuldir og/eða leggja inn á framtíðarskuldbindingar. Þar blasir við að gera upp skuldabréfið sem ríkið gaf út til að endurfjármagna Seðlabankann þegar hann varð í reynd gjaldþrota haustið 2008 sem stendur í um 145 milljörðum kr. Freistandi væri ef aðstæður leyfðu að einhverjum fjármunum mætti með mjög varlegum hætti verja til brýnna innviðafjárfestinga eða til að greiða niður aðrar skuldir ríkisins. En til slíks kunna að vera mjög takmarkaðir möguleikar nú og á næstu árum þegar slakinn er þegar horfinn úr þjóðarbúskapnum, þökk sé samfelldum efnahagsbata frá síðari hluta árs 2010. Ábyrgðarlaust með öllu er að skapa væntingar með þessum fjármunum og nú mun reyna verulega á íslenska stjórnmálamenn hvort þeir standist freistnivandann. Ekki er í sjálfu sér ástæða til mikillar bjartsýni í þeim efnum í ljósi kosningabaráttunnar fyrir síðustu alþingiskosningar.
    Sá umbúnaður sem kveðið er á um í 1. gr. frumvarps til laga um stöðugleikaskatt varðandi meðferð fjármuna sem til ríkisins koma, og sama mun í bígerð að láta eiga við um stöðugleikaframlög, er til bóta. Einkum það að halda þessum fjármunum aðgreindum og hafa Seðlabankann sérstaklega með í ráðum hvað varðar meðferð þeirra. Æskilegt hefði þó verið að girða þessa fjámuni enn rækilegar af og tryggja með öllum ráðum, bæði lagalega og með pólitískri völdun, að þeir verði ekki ódýrum lýðskrumurum tilefni til að fara á loforðafyllerí. Skiptir þá ekki máli hvort slík loforð gengju út á skattalækkanir eða aðrar ætlaðar gjafir til atkvæðaveiða.

Niðurlag.
    Það er mat minni hlutans að frumvörpin til samans og málatilbúnaðurinn í heild mundi nokkuð traustan grundvöll til þess að ráðast í næstu og óumflýjanlegu skref til undirbúnings því að fara í kjölfarið í losun eða rýmkun fjármagnshafta. Ef vel tekst til í framkvæmdinni og uppboð og/eða binding aflandskróna á hausti komanda tekst sömuleiðis vel verður mikilvægum áföngum náð.
    Minni hlutinn á aðild að sam­eigin­legu nefndaráliti efnahags- og við­skipta­nefndar um frumvarp til laga um stöðuleikaskatt og er þar mælt með samþykki frumvarpsins án sérstaks fyrirvara.
    Hvað varðar þetta frumvarp sem ætlað er að greiða götu svonefndrar nauðasamningaleiðar með greiðslu stöðugleikaframlaga eru forsendur hins vegar óljósari og mun meiri óvissa um endanlega fjárhagslega útkomu. Fyrst og fremst verður, eða hefur verið, í höndum Seðlabankans að meta hvað skuli teljast fullnægjandi stöðugleikaframlög í tilviki þeirrar leiðar. Minni hlutinn efast ekki um að þar er málið í góðum höndum. En eftir sem áður verður að horfast í augu við að óvissan, bæði hvað varðar endanlega fjárhagslega útkomu ríkisins og hvort stöðugleikaframlögin reynist nægjanleg til að markmiðum aðgerðanna verði náð, liggur á þeirri hlið málsins.
    Frumvörpin tvö eru þó hluti af einni heild, fela í sér hina valkvæðu nálgun þar sem samkomulag, byggt á nauðasamningum og fullnægjandi stöðugleikaframlögum og í kjölfarið undanþágur fyrir útgreiðslur úr búunum býður kröfuhöfum upp á þá útleið í stað þess að greiða þvingaðan stöðugleikaskatt ella. Það er því niðurstaða minni hlutans að mæla einnig með samþykkt þessa frumvarps með þeim fyrirvara þó að mun meiri óvissa er þessum valkosti samfara, minni upplýsingar liggja fyrir til að meta forsendur málsins og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verður auðvitað að bera höfuðábyrgð á því óformlega samkomulagi sem þegar virðist hafa tekist við lykilkröfuhafa um stöðugleikaframlög. Endanlegt samþykki Seðlabankans er þó mikilvægur öryggisventill og allar meiri háttar undanþágur frá fjármagnshöftunum kalla einnig á samþykki fjármála- og efnahagsráðherra og krefjast samráðs við efnahags- og við­skipta­nefnd.

Alþingi, 2. júlí 2015.

Steingrímur J. Sigfússon,
frsm.
Árni Páll Árnason.