Ferill 757. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1631  —  757. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn
frá Katrínu Jakobsdóttur um tónlistarnám .


     1.      Hver er framtíðarsýn ráðherra hvað varðar fyrirkomulag tónlistarnáms í landinu?
    Tónlistarskólum fjölgaði mjög á síðari hluta 20. aldar, sérstaklega í kjölfar lagasetningar um kostnaðarhlutdeild ríkis og sveitarfélaga, einkum eftir 1963 og 1975. Sama gildir um nemendafjölda. Langflestir skólanna bjóða grunnnám, nokkrir miðnám og fram­haldsnám í tónlist. Eðli málsins samkvæmt eru langflestir nemendur í grunnnámi; ríflega 1000 í hverjum árgangi, flestir á aldrinum 8–12 ára. Miðnámsnemendur eru mun færri; 150–200 í árgangi, flestir á aldrinum 13–16 ára. Fram­haldsnemendur eru um 60 í árgangi, flestir á fram­haldsskólaaldri, 16–19 ára.
    Með yfirtöku sveitarfélaga á tónlistarskólunum 1989 komu upp ýmis vafaatriði sem kröfðust lausna. Ljóst er að íslensk sveitarfélög eru misjafnlega í stakk búin til að reka tónlistarskóla, kosta búnað og sérmenntað starfslið. Meginálitaefnið snertir kostnað við tónlistarnemendur sem eiga lögheimili utan sveitarfélags sem rekur skólann. Þetta varðar sérstaklega tónlistarnema í fram­haldsnámi sem flytja (tímabundið) í fram­haldsskóla utan heima­sveitar. Eins hafa reglur um kostnað vegna fullorðinna tónlistarnema verið ólíkar eftir sveitarfélögum.
    Í kringum árið 2005 komu fram hugmyndir frá Við­skipta­ráði Íslands um svokallaðan listmenntaskóla sem starfað gæti á fram­haldsskólastigi og m.a. samþætt listnám í almenna skólakerfinu og sérskólakerfinu (t.d. tónlistarskólum). Þessar tillögur voru unnar áfram og kynntar ráðuneytinu 2008. Á næstu árum þrengdi mjög að fjárhag sveitarfélaga. Þá komu upp á yfirborðið ýmis álitamál um kostnað við tónlistarnám. Einkum var bent á kostnað við fram­haldsnám í tónlist sem oft er metið sem hluti almenns náms í fram­haldsskólum.
    Síðan 2009 hafa farið fram samræður milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ýmissa hagsmunaaðila í tónlistarfræðslunni um stöðu tónlistarnáms, eflingu þess og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Í október 2011 var undirritað samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu sem m.a. fól í sér árlegt (250–300 millj. kr.) framlag ríkisins vegna kostnaðar við miðnám og fram­haldsnám í tónlist án tillits til lögheimilis. Það samkomulag hefur verið endurskoðað og framlengt árlega. Jafnframt hefur um árabil verið unnið að gerð frumvarps um tónlistarfræðslu. Helsta markmið frumvarpsins er að sett verði heildarlög um starfsemi tónlistarskóla og um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Drög að frumvarpi liggja fyrir.
    Nýlega var skipaður starfshópur til þess að móta tillögur um í hvaða mæli og með hvaða hætti ríkið eigi að koma að fjárhagslegum stuðningi við tónlistarkennslu á fram­haldsstigi og á 4. hæfniþrepi. Ætlunin er að nýta tillögur hópsins að breyttu fyrirkomulagi og útfæra það í uppfærðum drögum að frumvarpi til laga um tónlistarkennslu.

     2.      Hvenær hyggst ráðherra leggja fram frumvarp til laga um tónlistarmenntun?
    Ráðuneytið stefnir á að leggja fram frumvarp á vorþingi 2016.