Ferill 740. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1635  —  740. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um vistvæna vottun matvæla .


     1.      Hvaða kröfur eru gerðar um framleiðslu á vöru sem ber merkingu um vistvæna vottun?
    Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu gilda eftirfarandi gæðakröfur:
    „Til vistvænna landbúnaðarafurða geta þær afurðir talist sem falla undir eftirfarandi skilyrði eftir því sem við á:
    Afurðirnar séu af eða komi frá gripum, sem aldrei hafa verið gefnir hormónar eða vaxtarhvetjandi efni á eldisskeiðinu og notkun sýkla- og sníklalyfja skal hafa verið í lágmarki við eldi og framleiðslu gripanna og í samræmi við ákvæði í viðaukum fyrir einstakar afurðir.
    Við ræktun nytjajurta og afurða þeirra skal notkun áburðar, lyfja eða varnarefna vera í samræmi við viðurkenndar reglur um hreinleika og hollustu afurða og verndun um­hverfis og í samræmi við ákvæði í viðaukum fyrir einstakar afurðir.
    Við framleiðslu vistvænna afurða skal árleg hámarksnotkun köfnunarefnis miðast við 120 kg N/ha fyrir tún í fjölærri ræktun og 180 kg N/ha fyrir grænfóður, kartöflur, grænmeti og aðra einæra útiræktun. Óheimilt er að nota áburð sem inniheldur meira en 10 mg af kadmíum í hverju kílói fosfórs. Áburðaráætlun skal hverju sinni yfirfarin og samþykkt af búnaðarráðunaut.
    Við framleiðslu vistvænna afurða skal þess ávallt gætt að beit búfjár rýri ekki landgæði né hamli eðlilegri framvindu gróðurs. Við beitarþolsmat og aðgerðir til úrbóta þar sem þeirra er þörf skal taka mið af ástandsflokkun lands samkvæmt aðferðum sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins viðurkenna með tilliti til hverrar búfjárteg­undar.“

     2.      Hvaða eftirlit er með framleiðslu á slíkum vörum og telur ráðherra eftirlitið nægjanlegt?

    Í 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar kemur eftirfarandi fram varðandi gæðaeftirlit:
    „Gæðaeftirlit er til þess að tryggja að framleiðsla sláturafurða, annarra búfjárafurða og afurða nytjajurta, sem merkt er „Vistvæn landbúnaðarafurð“, uppfylli kröfur þessarar reglugerðar. Eftirlitsaðilar með gæðastjórnun samkvæmt reglugerð þessari eru búnaðarráðunautar og dýralæknar, sem sótt hafa sérstök námskeið eins og krafist er hverju sinni og hlotið hafa viðurkenningu landbúnaðarráðuneytisins til að starfa við eftirlitið. Hver framleiðandi og afurðastöð sem óskar eftir viðurkenningu skal sækja um hana til viðkomandi búnaðarsambands sem felur eftirlitsaðila að framkvæma úttekt á framleiðsluaðstöðu umsækjanda. Eftirlitsaðilar skulu eigi sjaldnar en einu sinni á ári gera úttekt hjá framleiðendum og afurðastöðvum sem hafa hlotið viðurkenningu á aðstöðu þar með talið landgæðum og búnaði til framleiðslu og vinnslu.
    Hollustuhættir við vinnslu og dreifingu á vistvænum landbúnaðarvörum skulu uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Merkingar á vistvænum matvælum skulu uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingar, auglýsingu og kynningu matvæla.
    Framleiðendur og afurðastöðvar bera allan kostnað af eftirlitinu.“
    Í tengslum við efni fyrirspurnarinnar skal það upplýst að sl. haust var skipaður starfshópur um endurskoðun reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu. Hópnum var ætlað að fara yfir reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, skilgreiningar á henni og reglur um eftirlit. Jafnframt var hópnum falið að leggja mat á nauðsyn reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu.
    Hópurinn skilaði af sér tillögum í byrjun febrúar 2015. Hann var sammála um að núverandi fyrirkomulag, þar sem ekki er reglubundið eftirlit með þeim aðilum sem hafa fengið vistvæna vottun, væri óviðunandi. Jafnframt hafði hópurinn verulegar efasemdir um að heppilegt væri að stjórnvöld settu reglur um vistvæna framleiðslu og stæðu fyrir vottuninni með þeim hætti sem reglugerð nr. 504/1998 mælir fyrir um.
    Fram kom að einstakir framleiðendahópar (framleiðendafélög) hefðu ólíkar skoðanir á gildi og æskilegu fyrirkomulagi vistvænnar vottunar. Þetta rennir stoðum undir þá ályktun hópsins að ekki sé heppilegt að stjórnvöld setji eina heildarreglugerð fyrir allar teg­undir framleiðslu. Hins vegar mætti hugsa sér að stjórnvöld vinni með tilteknum framleiðendahópum að útfærslu sértækra vottunarkerfa.
    Á grundvelli umræðna og þeirra gagna sem hópurinn kynnti sér leggur starfshópurinn til að:
     a.      reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu verði felld úr gildi,
     b.      hugað verði að setningu rammareglugerðar sem skilgreini hvaða kröfur vistvæn vottunarkerfi þurfi að uppfylla til að mega nota hugtakið „vistvæn framleiðsla,“ og að
     c.      stjórnvöld vinni með einstökum framleiðendahópum að útfærslum á vistvænni vottun.
    Það skal viðurkennt að ekki hefur verið tekin formleg afstaða í ráðuneytinu til framkominna tillagna starfshópsins.