Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1648  —  712. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um bifreiðahlunnindi ríkisstarfsmanna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve margir starfsmenn A-hluta ríkissjóðs nutu bifreiðahlunninda sl. tvö ár og hvaða stofnanir veittu þau hlunnindi?
     2.      Ef samningar um bifreiðahlunnindi hafa verið gerðir, telur ráðherra að þeir samrýmist 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1281/2014 um að einkaafnot starfsmanna af bifreiðum ríkisins séu óheimil?
     3.      Hversu margir starfsmenn B–E-hluta ríkissjóðs nutu bifreiðahlunninda sl. tvö ár? Óskað er eftir að upplýsingar séu flokkaðar eftir stofnunum og fyrirtækjum og að matsverð hlunninda komi fram.
     4.      Hversu margir aksturssamningar eru í gildi skv. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1281/ 2014? Samningar óskast flokkaðir eftir ráðuneytum A-hluta fjárlaga og stofnunum og fyrirtækjum B–E-hluta ríkissjóðs.
     5.      Hvaða reglur gilda um bifreiðahlunnindi og aksturssamninga E-hluta ríkisins?
     6.      Hversu margir starfsmenn hafa gert skriflegan aksturssamning við ríkissjóð, flokkað eftir A–E-hluta?

    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hafði ekki undir höndum upplýsingar um öll þau bifreiðahlunnindi sem spurt er um í fyrirspurninni. Til að afla þessara upplýsinga var öllum ráðuneytum ritað bréf þar sem óskað var eftir að þau létu fjármála- og efnahagsráðuneytinu í té framangreindar upplýsingar.
    Jafnframt var óskað eftir því að umrædd ráðuneyti öfluðu svara hjá stofnunum á þeirra vegum auk ríkisfyrirtækja sem undir þau heyrðu. Erfiðlega gekk í einhverjum tilvikum að afla umbeðinna upplýsinga frá öllum þeim fjölda ríkisstofnana og félaga sem í hlut eiga og er það skýringin á því hversu seint svarið er fram komið.
    5. tölul. fyrirspurnarinnar sem snýr almennt að þeim reglum sem gilda um bifreiðahlunnindi og aksturssamninga E-hluta ríkisins er svarað undir þeim tölulið í svari fjármála- og efnahagsráðuneytis.
    Hér að neðan eru svör einstakra ráðuneyta:

Forsætisráðuneyti.
     1.      Hvorki starfsmenn forsætisráðuneytis né stofnana í A-hluta ríkissjóðs sem undir ráðuneytið heyra hafa notið bifreiðahlunninda.
     2.      Á ekki við.
     3.      Engir.
     4.      Einn samningur við starfsmann Þjóðminjasafns Íslands.
     5.      Sjá svar fjármála- og efnahagsráðuneytis undir þessum tölulið.
     6.      Einn skriflegur samningur hefur verið gerður, sbr. 4. tölul.

Utanríkisráðuneyti.
     1.      Hvorki starfsmenn utanríkisráðuneytis né stofnana í A-hluta ríkissjóðs sem undir ráðuneytið heyra hafa notið bifreiðahlunninda.
     2.      Á ekki við.
     3.      Engir
     4.      Alls 29 starfsmenn Íslandsstofu fá akstursgreiðslur sem er föst mánaðarleg upphæð samkvæmt ráðningarsamningi.
     5.      Sjá svar fjármála- og efnahagsráðuneytis undir þessum tölulið.
     6.      Engir.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     1.      Engir starfsmenn mennta- og menningarmálaráðuneytis njóta bifreiðahlunninda. Samkvæmt svari ráðuneytisins hefur rektor Háskóla Íslands bifreið til afnota frá Happdrætti Háskóla Íslands sem er stofnun í B-hluta ríkissjóðs.
     2.      Almennt eru ekki gerðir slíkir samningar hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu né undirstofnunum þess nema þessi eini samningur við rektor Háskóla Íslands sem virðist byggjast á langri hefð.
     3.      Starfsmenn stofnana ráðuneytisins sem heyra undir B–E hluta ríkissjóðs hafa ekki notið bifreiðahlunninda sl. tvö ár.
     4.      Stofnanir greiða í einhverjum tilvikum starfsmönnum fyrir akstur á eigin bifreið í þágu stofnunar samkvæmt akstursskýrslu/akstursbók sem staðfest er af viðkomandi yfirmanni.
                 Af stofnunum ráðuneytisins í A-hluta nutu þrír starfsmenn Fjöl­brautaskóla Vesturlands sérstakra akstursgreiðslna fram til síðustu áramóta. Einn starfsmaður Menntaskólans á Egilsstöðum fær greiddan akstur vegna ferða til og frá vinnu þar sem ekki hefur tekist að fá kennara í viðkomandi stöðu með búsetu nær skólanum. Þrír starfsmenn Menntaskólans á Laugar­vatni fá greiddan akstur vegna fjarlægðar frá vinnustað. Ekki hefur tekist að manna stöður nema með slíkum stuðningi. Einn starfsmaður á Gljúfrasteini fær greitt vegna fjarlægðar frá vinnustað. Hjá ráðuneytinu og hjá nokkrum stofnunum er greitt fyrir akstur í þágu stofnunarinnar samkvæmt akstursskýrslu/akstursbók sem staðfest er af viðkomandi yfirmanni.
     5.      Sjá svar fjármála- og efnahagsráðuneytis undir þessum tölulið.
     6.      Mennta- og menningarmálaráðuneytinu er ekki kunnugt um að starfsmenn sem heyra undir ráðuneytið hafi gert skriflegan aksturssamninga við ríkissjóðs.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     1.      Hvorki starfsmenn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis né stofnana í A-hluta ríkissjóðs sem undir ráðuneytið heyra hafa notið bifreiðahlunninda.
     2.      Á ekki við.
     3.      Forstjóri Byggðastofnunar nýtur bifreiðahlunninda sem nema 181.499 kr. á mánuði.
     4.      Engir samningar eru í gildi, hvorki hjá stofnunum né ráðuneytinu. Hins vegar kemur fram í svari Nýsköpunarmiðstöðvar að um 75 starfsmenn stofnunarinnar haldi akstursdagbók og fái greitt ef eigin bifreið er notuð. Sama gildir um ráðuneytið; starfsmenn sem nýta eigin bifreið vegna starfa sinna fá greitt kílómetragjald samkvæmt akstursdagbók.
     5.      Sjá svar fjármála- og efnahagsráðuneytis undir þessum tölulið.
     6.      Ekki er kunnugt um að starfsmenn sem heyra undir ráðuneytið eða stofnanir þess hafi gert skriflegan aksturssamninga við ríkissjóðs.

Innanríkisráðuneyti.
     1.      Hjá Sam­göngustofu var einn starfsmaður sem naut bifreiðahlunninda. Sá samningur var felldur úr gildi í ársbyrjun. Samningurinn var tilkominn vegna eldri ráðningarsamnings starfsmanns við Skráningarstofuna ohf. Að öðru leyti hafa engir starfsmenn ráðuneytisins né stofnana þess notið bifreiðahlunninda sl. tvö ár.
     2.      Á ekki við.
     3.      Á ekki við.
     4.      Samkvæmt upplýsingum innanríkisráðuneytisins frá ráðuneytinu og stofnunum á vegum þess eru engir slíkir samningar í gildi.
     5.      Sjá svar fjármála- og efnahagsráðuneytis undir þessum tölulið.
     6.      Engir.

Velferðarráðuneyti.
     1.      Samkvæmt svari velferðarráðuneytis er því ekki kunnugt um að starfsmenn ráðuneytisins né starfsmenn stofnana í A-hluta ríkissjóðs sem heyra til ráðuneytisins hafi notið bifreiðahlunninda sl. tvö ár. Í þeim tilfellum sem stofnanir eiga eða reka bifreiðar eru þær ein­göngu notaðar í þágu starfseminnar.
     2.      Á ekki við, sbr. svar við 1. tölul.
     3.      Ein stofnun velferðarráðuneytisins tilheyrir B–E hluta ríkissjóðs en starfsmenn hennar njóta ekki bifreiðahlunninda.
     4.      Ráðuneyti og stofnanir greiða í einhverjum tilvikum starfsmönnum fyrir akstur eigin bifreiða í þágu starfsins gegn framvísun akstursskýrslu sem er undirrituð og staðfest af viðkomandi yfirmanni. Velferðarráðuneytinu er ekki kunnugt um að í gildi séu aksturssamningar samkvæmt umræddri grein reglugerðarinnar.
     5.      Sjá svar fjármála- og efnahagsráðuneytis undir þessum tölulið.
     6.      Velferðarráðuneytinu er ekki kunnugt um að starfsmenn ráðuneytis eða stofnana sem heyra undir ráðuneytið hafi gert skriflega aksturssamninga við ríkissjóð.

Um­hverfis- og auðlindaráðuneyti.
     1.      Hvorki starfsmenn um­hverfis- og auðlindaráðuneytisins né stofnana í A-hluta ríkissjóðs sem undir ráðuneytið heyra hafa notið bifreiðahlunninda.
     2.      Á ekki við.
     3.      Á ekki við.
     4.      Tveir aksturssamningar eru í gildi. Annar er við starfsmann Vatnajökulsþjóðgarðs og hinn við Náttúrufræðistofnun Íslands.
     5.      Sjá svar fjármála- og efnahagsráðuneytis undir þessum tölulið.
     6.      Tveir skriflegir samningar hafa verið gerðir, sbr. 4. tölul.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     1.      Einn starfsmaður hefur notið bifreiðahlunninda um tíma sl. tvö ár, fyrrum forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, samkvæmt ráðningarkjörum hans frá þeim tíma sem hann var ráðinn til starfsins. Núverandi forstjóri nýtur engra slíkra bifreiðahlunninda.
     2.      Slíkir samningar eru ekki lengur gerðir hjá ráðuneytinu.
     3.      Enginn starfsmaður stofnana í B–E hluta ríkissjóðs sem undir ráðuneytið heyra naut bifreiðahlunninda sl. tvö ár aðrir en þeir sem sérstaklega eru taldir upp hér að neðan undir stofnunum í E-hluta ríkissjóðs að meiri hluta í eigu ríkisins.
     4.      Engir aksturssamningar eru í gildi við starfsmenn ráðuneytisins aðrir en þeir sem gerð er grein fyrir í 6. tölul.
     5.      Það er sérstaklega tekið fram í 1. gr. reglugerðar nr. 1281/2014 um bifreiðamál ríkisins að hún gildir ekki um stofnanir í E-hluta ríkissjóðs, þ.e. hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkisins. Stjórn hlutaðeigandi félags tekur ákvörðun um slík mál og ber á þeim ábyrgð gagnvart ríkinu sem eiganda eða ríkinu og öðrum eigendum í þeim tilvikum þegar slíkt félag er í eigu fleiri aðila en ríkisins. Eigandi hefur ekki bein afskipti af þeim samningum sem félagið gerir við einstaka starfsmenn sína að þessu leyti. Um félög sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins gildir hins vegar sérstök eigandastefna þar sem almenn sjónarmið eiganda varðandi rekstur félagsins eru tíunduð.
     6.      Átta starfsmenn hafa gert skriflegan aksturssamning við ríkissjóð. Um er að ræða starfsmenn hjá Ríkiseignum sem leggja til eigin bifreið til notkunar við störf sín að kröfu stofnunarinnar.

Stofnanir í E-hluta ríkissjóðs að meiri hluta í eigu ríkisins.

Landsvirkjun.
    Á sl. tveimur árum (2013–2014) hefur Landsvirkjun látið fjórum starfsmönnum í té bifreiðar sem þeir hafa full og ótakmörkuð umráð yfir og metin eru starfsmanni til tekna. Matsverð hlunninda er í samræmi við ákvörðun ríkisskattstjóra. Í dag falla tveir starfsmenn undir þetta fyrirkomulag. Á sl. tveimur árum hefur Landsvirkjun látið tólf starfsmönnum í té bifreiðar sem þeir hafa takmörkuð umráð yfir og metin eru starfsmanni til tekna. Um er að ræða takmörkun við ákveðinn kílómetrafjölda. Hlunnindin eru metin í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra. Í dag falla ellefu starfsmenn undir þetta fyrirkomulag. Af hálfu Landsvirkjunar eru ekki gerðir aksturssamningar sem bundnir eru við vissan kílómetrafjölda.

RARIK ohf.
    Enginn starfsmaður hjá RARIK hefur notið bifreiðahlunninda sl. tvö ár. Engir aksturssamningar eru gerðir hjá RARIK, en fyrirtækið greiðir starfsmönnum fyrir akstur í þágu þess. Engar greiðslur eru inntar af hendi nema samkvæmt akstursdagbók og greitt er fyrir akstur samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar. Á árinu 2014 fengu 99 starfsmenn fyrirtækisins einhverjar akstursgreiðslur. RARIK hefur ekki gert skriflega aksturssamninga við starfsmenn þar sem í flestum tilvikum er um greiðslur fyrir tilfallandi erindi í þágu fyrirtækisins að ræða.

Isavia ohf.
    Alls nutu tíu starfsmenn Isavia bifreiðahlunninda sl. tvö ár. Átta af þessum tíu starfsmönnum nutu takmarkaðra hlunninda og greiddu af þeim tekjuskatt. Í takmörkuðum afnotum felst að þeim voru einungis heimil afnot af bifreið til aksturs á milli heimilis og vinnustaðar og til einstakra tilfallandi afnota. Verðmæti hlunninda, þegar um þessi afmörkuðu afnot er að ræða, miðast við vegalengd á milli heimilis og vinnustaðar. Matsverð hlunninda er fundið með því að kílómetrafjöldi er margfaldaður með kílómetragjaldi. Matsverð takmarkaðra bifreiðahlunninda þessara starfsmanna er 892.667 kr. Tveir starfsmenn nutu fullra bifreiðahlunninda og greiddu af þeim tekjuskatt í samræmi við gildandi reglur. Enginn starfsmaður Isavia er með aksturssamning við félagið. Meginþorri starfsmanna er með fastan bifreiðastyrk sem hluta að sínum heildarkjörum, flestir samkvæmt kjarasamningi en aðrir samkvæmt persónubundnum ráðningarsamningi. Á árinu 2014 fengu 699 starfsmenn bifreiðastyrk en 641 á árinu 2013.

Íslandspóstur ohf.
    Framkvæmdastjórn Íslandspósts, sem samanstendur af forstjóra og fimm framkvæmdastjórum, hefur bíl til umráða frá fyrirtækinu sem hluta af launakjörum samkvæmt ráðningarsamningi. Hlunnindin eru færð til tekna samkvæmt matsreglum RSK og voru samtals að fjárhæð 9,3 millj. kr. á árinu 2014. Aksturssamningar eru gerðir við þá starfsmenn sem nota eigin bifreiðar í þágu fyrirtækisins. Samningar eru nú 90 talsins. Að auki fá einstakir starfsmenn greitt fyrir akstur samkvæmt akstursdagbók vegna nota á eigin bifreið í þágu Íslandspósts. Sex samningar um bifreiðahlunnindi framkvæmdastjórnar og aksturssamningar við 90 starfsmenn eru hluti af 96 skriflegum ráðningarsamningum.

Kadeco ehf.
    Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur ekki greitt bifreiðahlunnindi sl. tvö ár. Nú eru átta skriflegir aksturssamningar í gildi hjá félaginu.

Neyðarlínan ohf.
    Engir starfsmenn Neyðarlínunnar nutu bifreiðahlunninda sl. tvö ár. Gerðir hafa verið sjö skriflegir aksturssamningar fyrir starfsmenn Neyðarlínunnar en noti starfsmaður Neyðarlínunnar bifreið sína í ferðum á vegum fyrirtækisins fær hann greitt kílómetragjald samkvæmt auglýsingu ferðakostnaðarnefndar fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Harpa ohf.
    Engir starfsmenn Hörpu njóta bifreiðahlunninda. Síðastliðin tvö ár hafa 16 starfsmenn Hörpu fengið greiðslur vegna notkunar á eigin bifreið. Nú njóta níu starfsmenn slíkra greiðslna og eru þeir allir skriflegir.

Nýr Landspítali ohf.
    Engin bifreiðahlunnindi né akstursgreiðslur eru inntar af hendi af hálfu félagsins.

Rúv ohf.
    Samkvæmt svari Rúv ohf. hafa 38 starfsmenn fengið greiddan akstur sl. tvö ár. Í dag fá 28 starfsmenn greiddan akstur samkvæmt samningi sem hluta af ráðningarkjörum.