Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 2  —  2. mál.Frumvarp til laga

um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Í stað „3.480.000 kr.“ og „22,9%“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 8.400.000 kr.; og: 22,5%.
     b.      2. og 4. tölul. 1. mgr. falla brott.
     c.      Í stað „8.452.400 kr.“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 8.400.000 kr.
     d.      Í stað „30%“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: 50%; og við málsliðinn bætist: til búsetu leigjanda.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 68. gr. laganna:
     a.      Í stað „194.081 kr.“, „231.019 kr.“, „323.253 kr.“ og „331.593 kr.“ í 1. og 2. málsl. 4. mgr. kemur: 199.839 kr.; 237.949 kr.; 332.950 kr.; og: 341.541 kr.
     b.      Í stað „115.825 kr.“ í 7. málsl. 4. mgr. kemur: 119.300 kr.
     c.      Í stað 3. málsl. 8. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nánari reglur, m.a. um fyrirframgreiðslu og útborgun barnabóta og innheimtu ofgreiddra barnabóta, þ.m.t. ofgreiddar barnabætur erlendis, skulu settar í reglugerð. Barnabótum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

3. gr.

    Í stað hlutfallsins „30%“ í 3. málsl. a-liðar 5. tölul. 70. gr. laganna kemur: 50%; og við málsliðinn bætist: til búsetu leigjanda.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2015“ í 1.–5. mgr. kemur: 2015 og 2016.
     b.      Í stað orðanna „og 2014“ í 1.–5. mgr. kemur: 2014 og 2015.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–4. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna skal tekjuskattur reiknast með eftirfarandi hætti við staðgreiðslu á árinu 2016 og álagningu tekjuskatts á árinu 2017 vegna tekna ársins 2016:
     1.      Af tekjuskattsstofni að 3.709.680 kr. reiknast 22,68% tekjuskattur.
     2.      Af næstu 5.530.320 kr. reiknast 23,9% tekjuskattur.
     3.      Af því sem umfram er 9.240.000 kr. reiknast 31,8% tekjuskattur.
     4.      Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 9.240.000 kr. skal það sem umfram er skattlagt með 23,9% skatthlutfalli allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 9.240.000 kr., þó reiknast 23,9% skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 2.765.160 kr. við þessar aðstæður.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað „0–200.000 kr.“ og „22,9%“ í a-lið kemur: 0–700.000 kr.; og: 22,5%.
     b.      B-liður fellur brott.
     c.      Í stað „650.000 kr.“ í c-lið kemur: 700.000 kr.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði a–c-liðar 1. mgr. 9. gr. skal innheimtuhlutfall vera með eftirfarandi hætti í staðgreiðslu 2016 á tekjur á mánuði hjá þeim launamönnum sem eru skattskyldir skv. 1. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt:
     a.      á tekjur á bilinu 0–309.140 kr. á mánuði 22,68% að viðbættu útsvari,
     b.      á tekjur á bilinu 309.141–770.000 kr. á mánuði 23,9% að viðbættu útsvari,
     c.      á tekjur yfir 770.000 kr. á mánuði 31,8% að viðbættu útsvari.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.
8. gr.

    Í stað orðanna „og 2015“ í 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum kemur: 2015 og 2016.

IV. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
9. gr.

    Tollur á vörum í tollskrárnúmerum sem heyra undir eftirfarandi vöruliði eða eru í eftirfarandi tollskrárnúmerum í tollskrá í viðauka I við lögin verður 0% og 0 kr./kg: 2105.0021, 2105.0029, 3926.2000, 4011.5000, 4013.2000, 4015, 4203, 4303, 4818.5000, 6101–6117, 6201–6217, 6309.0000, 6401–6406, 6504.0000, 6505.0000, 6506, 6507, 6812.9100, 8306.1010, 8714.9100–8714.9900, 9606, 9607, 9619.0011, 9619.0091.

10. gr.

    Tollur á vörum í tollskrárnúmerum sem heyra undir 25.–97. kafla í tollskrá í viðauka I við lögin verður 0% og 0 kr./kg.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.
11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað „93,14 kr.“ í 1. tölul. kemur: 112 kr.
     b.      Í stað „83,78 kr.“ í 2. tölul. kemur: 102 kr.
     c.      Í stað „114,08 kr.“ í 3. tölul. kemur: 138 kr.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað „448,60 kr.“ í 1. tölul. kemur: 459,80 kr.
     b.      Í stað „14,71 kr.“ í 2. tölul. kemur: 15,10 kr.
     c.      Í stað „16,04 kr.“ í 3. tölul. kemur: 16,45 kr.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað „563,53 kr.“ í 1. tölul. kemur: 577,60 kr.
     b.      Í stað „28,17 kr.“ í 2. tölul. kemur: 28,85 kr.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
14. gr.

    Í stað orðanna „þó ekki“ í 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: þ.m.t.

15. gr.

    Orðin „og hópbifreiða“ í 1. málsl. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laganna falla brott.

16. gr.

    6. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
    Endurgreiða skal rekstraraðilum hópbifreiða, sem undanþegnir eru virðisaukaskatti skv. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr., 19,35% af söluverði hópbifreiða sem þeir sannanlega selja úr landi. Hafi hópbifreiðin verið nýtt í blandaðri starfsemi og virðisaukaskattur af kaupverði hennar að hluta til verið færður til innskatts lækkar endurgreiðslan sem því hlutfalli nemur.

17. gr.

    Við 43. gr. A laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvörðun ríkisskattstjóra um sérstaka endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. XIII. kafla og ákvæðum til bráðabirgða í lögum þessum má skjóta til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

18. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2015“ í 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum kemur: 31. desember 2016.

19. gr.

    Við viðauka laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Vörur (áfengi) í tollskrárnúmerum:
2204.1021–2204.1029
2204.1031–2204.1039
2204.2121–2204.2129
2204.2141–2204.2149
2204.2151–2204.2159
2204.2161–2204.2169
2204.2191–2204.2199
2204.2921–2204.2929
2204.2941–2204.2949
2204.2951–2204.2959
2204.2961–2204.2969
2204.2991–2204.2999
2204.3021–2204.3029
2205.1021–2205.1029
2205.1091–2205.1099
2205.9021–2205.9029
2205.9091–2205.9099
2206.0041–2206.0049
2206.0051–2206.0059
2206.0081–2206.0089
2208.2021–2208.2029
2208.2081–2208.2089
2208.3011–2208.3019
2208.4011–2208.4019
2208.5031–2208.5039
2208.5041–2208.5049
2208.6011–2208.6019
2208.7081–2208.7089
2208.9021–2208.9029
2208.9031–2208.9039
2208.9081–2208.9089
2208.9091–2208.9099


VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.
20. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      2. tölul. 2. mgr. fellur brott.
     b.      4.–6. mgr. falla brott.

22. gr.

    Í stað „24,96 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 25,60 kr.

23. gr.

    Í stað „40,30 kr.“ og „42,73 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 41,30 kr.; og: 43,80 kr.

24. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. skal vörugjald af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum lagt á árið 2016 samkvæmt undanþáguflokki 3. gr. miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Lækkunin getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en 350.000 kr. og er háð því skilyrði að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði nýtingu hennar og starfsemi ökutækjaleigu hagað sem hér segir:
     a.      Bifreið skal skráð á ökutækjaleigu sem hefur leyfi frá Samgöngustofu til reksturs ökutækjaleigu.
     b.      Ökutækjaleiga skal haga starfsemi sinni að öllu leyti í samræmi við ákvæði laga um leigu skráningarskyldra ökutækja.
     c.      Bifreið skal eingöngu nýtt til útleigu hjá ökutækjaleigu sem er skráð fyrir henni. Við mat á því skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 90% af akstri hennar með framlagningu leigusamninga eða með öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi.
     d.      Bifreið skal að öllum jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka, svo sem vegna ferðalaga eða tímabundins afnotamissis eigin bifreiðar. Ökutækjaleigu er óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili, hvort heldur sem um sömu bifreið er að ræða eða aðra bifreið, nema í eftirtöldum tilvikum, sbr. þó 3. mgr.:
                  1.      Þegar leigutaki er vátryggingafélag, sem hefur starfsleyfi hér á landi og bifreið er tekin á leigu vegna tímabundins afnotamissis vátryggingataka af eigin bifreið.
                  2.      Þegar leigutaki er lögaðili og bifreið er tekin á leigu vegna ferðalaga starfsmanna hans.
     e.      Ökutækjaleiga skal haga bókhaldi sínu þannig að hún geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri þeirra bifreiða sem bera lægra vörugjald samkvæmt þessari málsgrein. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um.
    Sé bifreið notuð til annars en útleigu hjá ökutækjaleigu sem er skráð fyrir henni, sbr. c-lið 1. mgr., er tollstjóra heimilt að innheimta fullt vörugjald samkvæmt aðalflokki 3. gr. með 50% álagi.
    Þeim sem hlotið hefur lækkun skv. 1. mgr. er heimilt að selja bifreið eða taka hana til annarrar notkunar en til útleigu hjá ökutækjaleigu innan tveggja ára tímabils, sbr. 1. mgr., enda greiði hann hluta eftirgefins vörugjalds, í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er af tímabilinu.
    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur og skilyrði um þær bifreiðar sem njóta undanþágu skv. 1. mgr., svo sem um notkun og búnað ökutækis, svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds skv. 3. gr. annars vegar og 1. mgr. hins vegar ef skilyrðunum er ekki fylgt. Brot á ákvæðum ákvæðis þessa og reglugerðarinnar varðar því að hin brotlega ökutækjaleiga missir rétt til lækkunar frá þeim tíma þegar brot var framið.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald,
með síðari breytingum.
25. gr.

    Í stað „56 kr.“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: 57,40 kr.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                      Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.

10.000–11.000 0,29 21.001–22.000 7,08
11.001–12.000 0,91 22.001–23.000 7,71
12.001–13.000 1,53 23.001–24.000 8,32
13.001–14.000 2,15 24.001–25.000 8,93
14.001–15.000 2,77 25.001–26.000 9,54
15.001–16.000 3,39 26.001–27.000 10,17
16.001–17.000 4,00 27.001–28.000 10,79
17.001–18.000 4,61 28.001–29.000 11,41
18.001–19.000 5,23 29.001–30.000 12,02
19.001–20.000 5,84 30.001–31.000 12,64
20.001–21.000 6,48 31.001 og yfir 13,25

     b.      6. mgr. orðast svo:
                      Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
5.000–6.000 8,69 18.001–19.000 22,94
6.001–7.000 9,40 19.001–20.000 23,97
7.001–8.000 10,12 20.001–21.000 25,03
8.001–9.000 10,84 21.001–22.000 26,07
9.001–10.000 11,54 22.001–23.000 27,10
10.001–11.000 12,57 23.001–24.000 28,14
11.001–12.000 13,92 24.001–25.000 29,18
12.001–13.000 15,24 25.001–26.000 30,22
13.001–14.000 16,57 26.001–27.000 31,25
14.001–15.000 17,91 27.001–28.000 32,30
15.001–16.000 19,24 28.001–29.000 33,34
16.001–17.000 20,56 29.001–30.000 34,38
17.001–18.000 21,91 30.001–31.000 35,40

31.001 og yfir 36,46

27. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á öðru álestrartímabili ársins 2015, sem stendur frá 1. til 15. desember 2015, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. janúar 2016.
    Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabilinu 1. júní til 15. júní 2016 skal ríkisskattstjóri deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. janúar 2016 og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. janúar 2016.

IX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta,
með síðari breytingum.
28. gr.

    Í stað „5,84 kr.“, „5,10 kr.“, „7,23 kr.“ og „6,44 kr.“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: 6,00 kr.; 5,25 kr.; 7,40 kr. og 6,60 kr.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.
29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „5.415 kr.“ og „130 kr.“ í 2. mgr. kemur: 5.550 kr.; og: 133 kr.
     b.      Í stað „50.705 kr.“, „2,16 kr.“ og „79.820 kr.“ í 4. mgr. kemur: 51.975 kr.; 2,22 kr.; og: 81.815 kr.

XI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
30. gr.

    Í stað orðanna „og 2015“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 2015 og 2016.

XII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 138/2013, um stimpilgjald, með síðari breytingum.
31. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 1. málsl. á ekki við þegar nafnabreyting verður á eiganda fasteignar eða skipa yfir 5 brúttótonnum í opinberum skrám, svo sem í þinglýsingabókum, í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar.

32. gr.

    8. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 1. og 3. málsl. 1. mgr. kemur: yfirskattanefndar.
     b.      2. og 3. mgr. falla brott.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.
34. gr.

    Í stað orðsins „úrskurði“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: ákvarðanir.

35. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „póstlagningu úrskurðar“ í 1. mgr. kemur: dagsetningu ákvörðunar.
     b.      Í stað orðanna „úrskurðar“ og „úrskurðinum“ í 2. og 3. málsl. 2. mgr. kemur: ákvörðunar; og: ákvörðuninni.

36. gr.

    Í stað orðsins „úrskurð“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: ákvörðun.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „uppkvaðningar nýs úrskurðar“ í 1. mgr. kemur: meðferðar að nýju.
     b.      Í stað orðsins „úrskurði“ í 2. mgr. kemur: meðferð málsins.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit
með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.
38. gr.

    Í stað orðanna „11. tölul.“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 11.–12. tölul.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað „1.000.000 kr.“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 1.200.000 kr.
     b.      Í stað „0,0277%“ í a-lið 1. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0297%.
     c.      Í stað „0,0251%“ í b-lið 1. tölul. 1. mgr. kemur: 0,026%.
     d.      Í stað „0,314%“ og „1.000.000 kr.“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 0,32%; og: 1.200.000 kr.
     e.      Í stað „0,172%“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 0,18%.
     f.      Í stað „0,49%“ og „1.000.000 kr.“ í 4. tölul. 1. mgr. kemur: 0,52%; og: 1.200.000 kr.
     g.      Í stað „0,49%“ og „600.000 kr.“ í 5. tölul. 1. mgr. kemur: 0,52%; og: 700.000 kr.
     h.      Í stað „1.000.000 kr.“ í 6. tölul. 1. mgr. kemur: 1.200.000 kr.
     i.      Í stað „0,70%“ og „600.000 kr.“ í 7. tölul. 1. mgr. kemur: 0,72%; og: 700.000 kr.
     j.      Í stað „0,80%“ og „600.000 kr.“ í 8. tölul. 1. mgr. kemur: 0,83%; og: 700.000 kr.
     k.      Í stað „0,0097%“, „1.250.000 kr.“, „2.050.000 kr.“, „3.580.000 kr.“, „6.650.000 kr.“ og „7.710.000 kr.“ í 9. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0093%; 1.350.000 kr.; 2.260.000 kr.; 3.950.000 kr.; 7.330.000 kr.; og: 8.500.000 kr.
     l.      Í stað „0,0059%“ og „1.000.000 kr.“ í 11. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0065%; og: 1.200.000 kr.
     m.      Í stað „0,0078%“ og „600.000 kr.“ í 12. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0082%; og: 700.000 kr.
     n.      3. mgr. fellur brott.

XV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, með síðari breytingum.
40. gr.

    Í stað „0,0148%“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,00491%.

XVI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
41. gr.

    Í stað „10.159 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 10.464 kr.

42. gr.

    Í stað orðanna „2014 og 2015“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2014, 2015 og 2016.

43. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Vegna útreiknings á dvalarframlagi skv. 21. gr. er á tímabilinu 1. janúar 2016 til og með 31. desember 2016 unnt að óska eftir því að Tryggingastofnun ríkisins beri saman útreikning dvalarframlags fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Ef samanburðurinn sýnir aukna kostnaðarþátttöku heimilismanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta dvalarframlag vegna framangreinds tímabils til samræmis við það.

XVII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.
44. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Í stað „2015“ í 14. tölul. kemur: 2016.
     b.      Í stað „2014“ þrívegis, „2013“ og „3,6%“ í 18. tölul. kemur: 2015; 2014; og: 6,7%.

XVIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar,
með síðari breytingum.
45. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2016 samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar vera 1.559,3 millj. kr. Framlag til Kristnisjóðs skal vera 71,4 millj. kr. á árinu 2016.

XIX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., með síðari breytingum.
46. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 898 kr. á mánuði árið 2016 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

XX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 75/2011, um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða,
með síðari breytingum.
47. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 3. gr. skal framlag ríkissjóðs nema 149 millj. kr. á árinu 2016.

XXI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, með síðari breytingum.
48. gr.

    Í stað „2015“ og „865 kr.“ í 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: 2016; og: 1.042 kr.

XXII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 124/2014, um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingu á fleiri lögum.
49. gr.

    Á eftir orðunum „ferðaþjónustu fatlaðs fólks“ í 2. efnismálsl. c-liðar 1. gr. laganna kemur: skipulagðrar ferðaþjónustu aldraðra.

XXIII. KAFLI
Gildistaka.
50. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
    Ákvæði a–c-liðar 1. og 6. gr. öðlast gildi 1. janúar 2017 og koma til framkvæmda við álagningu 2018 og staðgreiðslu opinberra gjalda 2017.
    Ákvæði d-liðar 1. og 3. gr. öðlast gildi 1. janúar 2016 og koma til framkvæmda við álagningu 2017.
    Ákvæði a- og b-liðar 2. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við ákvörðun barnabóta í fyrirframgreiðslu og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016.
    Ákvæði c-liðar 2. gr., 4.–5., 7.–8., 18., 24., 30., 38., 42.–45. og 47.–48. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 9., 11.–16., 19.–23., 25.–29., 31.–32., 39.–40., 46. og 49. gr. öðlast gildi 1. janúar 2016.
    Ákvæði 10. gr. öðlast gildi 1. janúar 2017.
    Ákvæði 17. og 33.–37. gr. öðlast gildi 1. janúar 2016 og frá þeim tíma tekur yfirskattanefnd við öllum óloknum ágreiningsmálum um stimpilgjald og endurgreiðslur virðisaukaskatts sem til meðferðar eru hjá ráðherra.
    Ákvæði 41. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Frumvarpið er samið í beinum tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 og hafa tillögur þess bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins verði það óbreytt að lögum.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
          Skattþrepum vegna tekjuskatts einstaklinga verði fækkað úr þremur í tvö á tveimur árum ásamt því sem tekjumörkum verði breytt. Við það mun skattbyrðin minnka og ráðstöfunartekjur einstaklinga hækka.
          Frítekjumark fjármagnstekjuskatts af leigutekjum manns af íbúðarhúsnæði verði hækkað úr 30% í 50%.
          Tollar verði felldir niður af öðrum vöruflokkum en landbúnaðarafurðum og tilteknum matvælum í tveimur skrefum, í ársbyrjun 2016 og 2017. Fyrra skrefið mun ná til fatnaðar og skófatnaðar og síðara skrefið til annarrar vöru.
          Tilfærsla milli virðisaukaskatts og áfengisgjalds. Áfengi færist í neðra þrep virðisaukaskatts og áfengisgjald verður hækkað á móti en samanlögð áhrif tilfærslunnar verða lítillega til lækkunar.
          Breytingar á álagningu vörugjalda á bílaleigubifreiðar sem komi til framkvæmda í tveimur áföngum.
          Hækkanir á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi á tóbak um 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga.
          Lagfæringar á lögum um virðisaukaskatt í beinum tengslum við þegar lögfestar breytingar á virðisaukaskattsskyldu fólksflutninga.
          Tímabundin heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða verði framlengd um eitt ár.
          Tímabundin breyting á hámarksútsvari sem gerð var með lögum nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, verði framlengd um eitt ár.
          Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta verði hækkaðar um 3% og komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016.
          Heimild til skuldajöfnunar barnabóta á móti opinberum gjöldum og vangreiddu meðlagi verði felld brott.
          Tímabundnar breytingar á vaxtabótum sem að óbreyttu hefðu fallið niður um næstu áramót verði framlengdar um eitt ár.
          Úrskurðarvald í ágreiningsmálum um stimpilgjald fært frá ráðuneyti til yfirskattanefndar.
          Skylda til greiðslu stimpilgjalds vegna samruna og skiptingar félaga felld niður.
          Úrskurðarvald í ágreiningsmálum um sérstakar endurgreiðslur á virðisaukaskatti sem ríkisskattstjóri ákvarðar fært frá ráðuneyti til yfirskattanefndar.
          Framlenging á ákvæði laga um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2016. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014 og 2015.
          Breytingar á gjaldskrám Fjármálaeftirlitsins í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar.
          Lækkun gjaldhlutfalls vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.
          Hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæði er kveður á um það að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæði er kveður á um það að komið skuli í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar.
          Framlenging á ákvæði til bráðabirgða til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæði um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
          Hækkun á framlagi íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar.
          Lækkun á framlagi til Kristnisjóðs.
          Hækkun á sóknargjöldum.
          Lækkun á framlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
          Breytingar á fjárhæð losunarheimilda auk mörkunar teknanna samkvæmt lögum um loftslagsmál.

3. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
    Eftirfarandi er nánari umfjöllun um breytingartillögur frumvarpsins.

3.1. Fækkun skattþrepa í tekjuskatti einstaklinga.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram markmið um að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara. Fyrsta skrefið varðandi tekjuskatt einstaklinga var stigið á árinu 2014 en þá var létt skattbyrði af tekjulægri heimilum með hækkun neðri þrepamarka tekjuskattsins og lækkun miðþrepsins. Í tengslum við gerð kjarasamninga á vormánuðum 2015 samþykkti ríkisstjórnin að beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem mundi leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega, en þó sérstaklega millitekjuhópa. Breytingarnar, sem fela í sér fækkun skattþrepa úr þremur í tvö í tveimur áföngum til ársins 2017 ásamt breytingum á tekjuviðmiðum, falla vel að markmiði ríkisstjórnarinnar um aukna skilvirkni og einföldun skattkerfisins.
    Í fyrri áfanganum sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2016 verður skatthlutfallið í þrepi 1 lækkað úr 22,86% í 22,68%, eða um 0,18 prósentustig. Skattþrep 2 lækkar um 1,4 prósentustig, úr 25,3% í 23,9%. Í seinni áfanganum sem mun koma til framkvæmda 2017 lækkar skatthlutfallið í þrepi 1 í 22,50% en skattþrep 2 fellur út. Skattþrep 3, sem með seinni áfanganum verður efra þrepið af tveimur, verður óbreytt frá því sem nú er í 31,8%. Á árinu 2016 verða efri þrepamörkin lækkuð úr um 836 þús.kr. í 770 þús.kr. á mánuði. Á árinu 2017 verða þrepamörkin aðeins ein, 700 þús.kr. á mánuði. Vekja þarf athygli á því að þannig ákvarðaðar fjárhæðir þrepamarka munu breytast í takt við launavísitölu í árslok í samræmi við ákvæði tekjuskattslaganna og verða ef að líkum lætur talsvert hærri en hér er tilgreint. Tekjuáhrif hvors áfanga eru áætluð um og yfir 5 ma.kr. á ári eða allt að 11 ma.kr. samanlagt til lækkunar þegar breytingin er að fullu komin til framkvæmda.
    Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig helstu grunnþættir skattkerfisins breytast á næstu árum samkvæmt tillögum frumvarpsins miðað við verðlag ársins 2015.

Kerfisbreyting í tekjuskatti einstaklinga 2016 og 2017.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sem fyrr segir tengist sú kerfisbreyting, sem hér er fjallað um, kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sl. vor þar sem áhersla var lögð á að bæta ráðstöfunartekjur launþega með meðaltekjur. Í eftirfarandi töflu eru sýnd dæmi um áhrif frumvarpstillagnanna miðað við misháar atvinnutekjur. Þar kemur glöggt fram að þeir launþegar sem eru með atvinnutekjur kringum meðaltalið bera hlutfallslega mest úr býtum verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Dæmi um tekjuskattsbreytingar fram til ársins 2017 (einstaklingar).
Breytingar á ráðstöfunartekjum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3.2. Hækkun á frítekjumarki af leigutekjum.
    Gert er ráð fyrir að skattskyldur hluti tekna af útleigu íbúðarhúsnæðis sem nú er 70% lækki í 50%. Virk skattbyrði leigutekna mun þar með lækka úr 14% í 10%. Þessi breyting er liður í stuðningi ríkisstjórnarinnar við almennan leigumarkað og er tilgangurinn að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða. Áréttað skal að hér er einungis átt við tekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis til varanlegrar búsetu en ekki skammtímaleigu til ferðamanna eða annarra sem fellur undir gistiþjónustu í atvinnuskyni. Tekjuáhrif þessarar breytingar eru áætluð neikvæð um 0,4 ma.kr. en áhrif koma ekki fram fyrr en við álagningu 2017 vegna þess að leigutekjur eru skattskyldar með árs töf, þ.e. að jafnaði einu ári eftir að leigan hefur verið greidd.

3.3. Afnám tolla af öðru en landbúnaðarafurðum og tilteknum matvælum.
    Hinn 17. mars 2015 skipaði ráðherra starfshóp um endurskoðun tollskrár. Starfshópnum var falið að skoða sérstaklega álagningu tolla á fatnað, leggja mat á tekjuáhrif mögulegra tollskrárbreytinga og semja drög að lagafrumvarpi um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005. Með fatnaði í framangreindum skilningi var átt við föt eða klæðnað og skófatnað. Hinn 13. apríl 2015 var skipun starfshópsins endurnýjuð, verkefni hans útvíkkað og honum falið að taka einnig til skoðunar að lækka tolla á allar vörur sem féllu undir 25.–97. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög. Í skilagrein starfshópsins, dags. 15. maí 2015, er í upphafi fjallað stuttlega um sjónarmið sem komu fram við vinnu hópsins og í framhaldinu um þær leiðir sem starfshópurinn taldi mögulegar og möguleg bein og óbein áhrif þeirra á tekjuöflun ríkissjóðs. Umfjöllun um mögulegar leiðir var skipt í tvennt, annars vegar var fjallað um lækkun tolla á fatnað og hins vegar um lækkun tolla á aðrar vörur sem falla undir 25.–97. kafla tollskrár.
    Í kjölfar afhendingar skilagreinar til ráðherra var starfshópnum falið að útfæra lagafrumvarp um lækkun tolla. Að meginstefnu til eru tollaákvæði þessa frumvarps afurð vinnu starfshópsins og er gert ráð fyrir að tollar á fatnað verði lækkaðir um áramótin 2015/2016 og tollar á aðrar vörur verði lækkaðir um áramótin 2016/2017. Almennt er 15% tollur lagður á fatnað við innflutning til Íslands. Efni til fatagerðar ber hins vegar 0–10% toll. Tollur sem lagður er á aðrar vörur í 25.–97. kafla tollskrár nemur að jafnaði 0–10%. Til að setja tekjuáhrifin í samhengi er eftirfarandi tafla birt sem sýnir þrískiptingu tolltekna ársins 2014 miðað við verðlag þess árs:

2014 millj. kr. hlutfall
Kaflar 1–24 1.936,5 34,2%
Fatnaður 1.783,5 31,5%
Aðrar vörur 1.945,7 34,3%
Samtals 5.665,7 100,0%

    Frekari upplýsingar um tillögurnar er að finna í skilagrein starfshópsins, sbr. fylgiskjal I með þessu frumvarpi.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga, dags. 28. maí 2015, var gerð grein fyrir beinum fjárhagslegum ráðstöfunum stjórnvalda á tilteknum sviðum skatta- og velferðarmála og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála. Þar kom m.a. fram að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að tollar á fatnað og skó verði felldir niður við árslok 2015 í því skyni að auka ráðstöfunartekjur heimila og stuðla að aukinni verslun á Íslandi. Áætlað er að tekjutap ríkissjóðs vegna lækkunar tolla verði 2,5 ma.kr. á árinu 2016 að meðtöldum virðisaukaskatti, en 5,7 ma.kr. þegar breytingin verður að fullu komin til framkvæmda á árinu 2017.
    Þrjú frávik er þó að finna í frumvarpinu varðandi áfangaskiptinguna en þau eiga rót sína að rekja til sérstakra erinda sem bárust til ráðuneytisins. Það fyrsta varðar vara- og aukahluti fyrir reiðhjól sem bera almennt 10% toll en reiðhjólin sjálf eru tollfrjáls. Í erindinu kom fram að þeir sem nota reiðhjól í miklum mæli þurfi iðulega að kaupa vara- og aukahluti hérlendis eða flytja þá inn og meiri hluti rekstrarkostnaðar reiðhjóla félli til vegna kaupa á slíkum hlutum. Þá var bent á að það hafi færst í vöxt að hjólreiðamenn panti sjálfir hjól í pörtum erlendis frá og setji saman það reiðhjól sem þeim hentar og greiði þá fulla tolla af öllum hlutum reiðhjólsins. Í öðru erindi var vakin athygli á því að misháir tollar væru lagðir á einnota bleiur og bleiufóður annars vegar og margnota bleiur og bleiufóður hins vegar. Í tengslum við tilfærslu á margnota bleium og bleiufóðri í neðra þrep virðisaukaskatts í ársbyrjun 2013 skapaðist misræmi í tollskrá vegna tilkomu nýs tollskrárnúmers. Í frumvarpinu er lagt til að tollur verði felldur niður í báðum tilvikum um næstu áramót. Þriðja og síðasta erindið hefur rík tengsl við breytingu sem Alþingi gerði með samþykkt laga nr. 76/2014. Með þeim voru tollar og vörugjöld felld niður af nokkrum staðgengdarvörum kúamjólkur, þ.e. drykkjarvörum úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum, í því skyni að gera þann hóp fólks, sem ekki gat neytt mjólkur, m.a. vegna mjólkurofnæmis eða mjólkuróþols, jafnsettan þeim sem neytti mjólkur. Breytingin náði hins vegar ekki til tilbúinna matvara eins og t.d. íss úr umræddum hráefnum. Könnun ráðuneytisins leiddi í ljós að umtalsverður munur er á smásöluverði hefðbundins rjómaíss og íss sem er að meginuppistöðu búinn til úr sojabaunum, hrísgrjónum, hnetum o.þ.h. og er því lagt til í þessu frumvarpi að innfluttur tilbúinn ís úr framangreindum innihaldsefnum verði almennt tollfrjáls frá 1. janúar 2016 að telja.

3.4. Tilfærsla á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi.
    Samkvæmt gildandi lögum um virðisaukaskatt er lagður 24% virðisaukaskattur á sölu áfengra drykkjarvara, en aðrar drykkjarvörur eru í lægra þrepi, eða 11%. Allt frá því að starfsemi veitingahúsa var færð í neðra þrep virðisaukaskatts hinn 1. mars 2007 hefur þessi mismunur í álagningu hans á drykkjarvörur skapað ákveðna hættu varðandi skilvirkni skattsins af þessari starfsemi. Síðan þá hafa vínveitingahús selt vöru og þjónustu úr báðum þrepum virðisaukaskatts.
    Í skýrslunni „Skattsvik í ferðaþjónustu – umfang og leiðir til úrbóta“, frá árinu 2014, er áætlað að yfir 40% söluandvirðis áfengis á vínveitingastöðum séu vantalin við uppgjör á virðisaukaskatti í almennu þrepi. Að hluta er það talið stafa af rangri skráningu áfengra drykkja í neðra virðisaukaskattsþrepið og í þeim tilvikum er skilað sem nemur 11% í stað 24% af skattstofninum. Að hluta stafar veltufrávikið af því að sala er ekki gefin upp til virðisaukaskatts og engum virðisaukaskatti skilað af henni. Þessi ályktun skýrsluhöfunda er studd bæði tölfræðilegum gögnum og áliti viðmælenda.
    Það hefur lengi verið þekkt að hvers konar frávik frá breiðum skattstofni og almennu skattþrepi virðisaukaskatts geta komið illa niður á tekjuskilvirkni (e. revenue efficiency) skattsins. Á síðustu árum hafa rannsóknir á sviði virðisaukaskatts beinst mikið að því að greina skilvirknitapið nánar. Frávikum frá fullkominni tekjuskilvirkni virðisaukaskatts má skipta upp í tvo aðgreinda þætti. Þann fyrri má kalla kerfisfrávik (e. policy gap), sem mælir að hversu miklu leyti frávikið skýrist af gerð skattkerfisins, svo sem undanþágum frá skattskyldu, umfangi neðri skattþrepa o.fl. Síðari þáttinn má kalla skilafrávik (e. compliance gap) og mælir hann hversu mikið vantar upp á að skattkerfið skili þeim tekjum sem það ætti að skila, þ.e. hlutdeild mistaka, undanskota og skattsvika í frávikinu frá 100% tekjuskilvirkni. Kerfisfrávikið mótast af gildandi löggjöf en skilafrávikið af þeim hvötum sem til staðar eru til að draga úr skiluðum skatti til ríkissjóðs. Skilafrávikið er ekki utan áhrifasviðs stjórnvalda, en þau geta aðeins haft áhrif á það með óbeinum hætti, með framkvæmd, eftirliti, viðurlögum o.s.frv. Segja má að einn þáttur kerfisfrávikisins, þ.e. bilið á milli skattþrepa, feli jafnframt í sér hvata til undanskota.
    Sú tillaga frumvarpsins að færa áfengi í 11% þrepið á móti hækkun á áfengisgjaldinu sjálfu beinist að skilafrávikinu. Með því að öll skattskyld sala veitingahúsa verði í sama virðisaukaskattsþrepinu ættu skattskilin að verða einfaldari og draga ætti úr mögulegum ávinningi af því að hagræða í álagningu við verðlagningu og hafa þannig áhrif á skilaskyldan virðisaukaskatt. Þannig ættu skil á virðisaukaskatti af áfengi sem selt er á veitingahúsum að batna verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Þótt kerfisfrávikið muni aukast við breytinguna og mæld tekjuskilvirkni virðisaukaskattsins í heild minnka, þá ætti hækkun áfengisgjaldsins á móti eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu að sjá til þess að á heildina litið verði ríkissjóður ekki fyrir tekjutapi af aðgerðinni. Að óbreyttu mundi slík nálgun leiða til þess að smásöluverð á ódýrari vörutegundum, sérstaklega á bjór og léttvíni, hækkar. Til þess að lágmarka þann fjölda áfengistegunda sem hækkar er áfengisgjaldið í vöruflokkunum þremur, þ.e. bjór, léttvíni og sterku áfengi, stillt þannig af að áhrifin af breytingunni verða óveruleg fyrir tekjuhlið ríkissjóðs. Þau áhrif ættu hins vegar að dvína til lengri tíma litið með bættum skattskilum, sérstaklega þegar litið er til þeirrar sérstöðu sem áfengi hefur sem leyfisskyld neysluvara.

3.5. Vörugjöld af ökutækjum bílaleiga.
    Í lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., er kveðið á um skyldu til að greiða vörugjald af skráningarskyldum ökutækjum, nýjum eða notuðum, sem flutt eru til landsins, framleidd eða sett saman hér á landi. Gjaldið leggst á tollverð innfluttra ökutækja að viðbættum gjöldum sem lögð eru á samkvæmt ákvæðum tollalaga, nr. 88/2005. Séu ökutækin framleidd eða sett saman hér á landi leggst vörugjaldið á svokallað verksmiðjuverð þeirra. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 3. gr. laganna er vörugjald lagt á ökutæki samkvæmt aðalflokki í tíu gjaldbilum (A–J). Gjaldhlutfallið hækkar eftir því sem skráð koltvísýringslosun bifreiðar er meiri, frá 0% nemi losunin 0–80 g upp í 65% nemi losunin yfir 250 g í tilviki fólksbifreiða til almennra nota, eins og sést í eftirfarandi töflu.

Álagning vörugjalds á fólksbifreiðar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna er hins vegar kveðið á um sérreglu (undanþáguflokk) þegar kemur að vörugjaldi sem lagt er á bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu á bílaleigum. Í þeim tilvikum er gjaldhlutfallið mun lægra og er í raun 0% nema skráð losun koltvísýrings sé yfir 141 g og fer hæst í 30% nemi losun yfir 250 g, sbr. töfluna hér á undan. Á móti er sett þak á lækkun vörugjalds eftir sérreglu 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna í 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. þeirra en þar segir að lækkunin geti aldrei numið hærri fjárhæð en 750.000 kr. Þá er kveðið á um ýmis skilyrði fyrir því að hljóta slíka lækkun í 2. tölul. 2. mgr. og 4.–6. mgr. 5. gr. laganna. Í stuttu máli eru skilyrðin eftirfarandi:
          Bifreiðin skal skráð á bílaleigu sem hefur svokallað bílaleiguleyfi eða á fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við bílaleigu.
          Einungis er heimilt að nýta bifreiðina til útleigu hjá bílaleigu sem er skráð fyrir bifreiðinni.
          Bílaleigan verður að haga bókhaldi sínu þannig að hún geti gert grein fyrir akstri bifreiðarinnar.
          Bílaleigan þarf að greiða svokallað leyfisgjald í ríkissjóð að fjárhæð 1.750–6.750 þús.kr. eftir fjölda bifreiða.
    Lækkunarákvæði 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna á rót sína að rekja til gildistöku laga nr. 8/2000 en með þeim var vörugjald lækkað á fólksbifreiðar sem ætlaðar voru til útleigu hjá bílaleigum. Það var gert með vísan til stefnu um að lækka vörugjald af ökutækjum sem notuð væru í atvinnurekstri. Í athugasemdum frumvarps þess er varð að framangreindum lögum kemur m.a. fram að bent hefði verið á að þjónusta við ferðamenn sem nýta sér bílaleigubifreiðar sem samgöngutæki væri arðvænleg en hátt verð á bifreiðum til þeirrar starfsemi hefði hins vegar hamlað uppbyggingu slíkrar þjónustu. Með þeim breytingum sem frumvarpið fól í sér var stefnt að því að koma til móts við ferðaþjónustu á þessu sviði og gera hana betur samkeppnishæfa í samanburði við slíka þjónustu í öðrum löndum.
    Með lögum nr. 146/2012 var bílaleigum sem nýttu lækkun á vörugjaldi gert að greiða sérstakt leyfisgjald auk þess sem ívilnunarþakið var lækkað úr 1.250 þús.kr. í 750 þús.kr. Með lögum nr. 141/2013 var þakið hækkað á ný í 1 m.kr. með þeim rökum að útsöluverð bifreiða hefði hækkað nokkuð árið 2013 og lækkunin því rýrnað að raungildi. Með lögum nr. 124/2014 var þakið lækkað að nýju í 750 þús.kr. en við þinglega meðferð frumvarps til þeirra laga hafði verið gert ráð fyrir lækkun í 500 þús.kr. vegna batnandi stöðu bílaleiga. Við þetta tilefni tók meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar sérstaklega fram í nefndaráliti að stjórnvöld gerðu ráð fyrir að lækka lækkunarþakið enn frekar í framtíðinni.
    Undanfarin ár hefur lækkun á vörugjaldi vegna bílaleigubíla sætt nokkurri gagnrýni. Gagnrýnin hefur m.a. komið fram í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá apríl 2014 1 og OECD frá 2014 2 . Þar er lagt til að lækkunarheimild 2. tölul. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, verði afnumin. Bent er á að lækkunin sé ónauðsynleg og brjóti gegn þeirri meginreglu að álagningarhlutfall vörugjalda af bifreiðum haldist í hendur við magn koltvísýrings í útblæstri þeirra. Telja skýrsluhöfundar lækkunarheimildina fela í sér að atvinnugreinum sé mismunað auk þess sem grafið sé undan hvötum til að draga úr koltvísýringsútblæstri. Jafnframt er gagnrýnt að lækkunin sé háð því skilyrði að bifreið þurfi einungis að vera í eigu bílaleigu í 15 mánuði eftir nýskráningu en eftir þann tíma megi selja hana án þess að til endurgreiðslu lækkunarinnar komi. Telja þeir að með þessum stutta eignarhaldstíma, að teknu tilliti til meðalaldurs fólksbifreiða, sé skapaður hvati fyrir bílaleigur til að beina sjónum sínum að bílasölu í auknum mæli sem aftur skekki samkeppni á bílasölumarkaði.
    Bílaleigum og bílaleigubílum í umferð hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár eins og sjá má í eftirfarandi töflu. Af 152 bílaleigum sem nú hafa bílaleiguleyfi eru 31 með leyfi til lækkunar.

   

Ár

Fjöldi
bílaleiga
Fjöldi bíla-
leigubíla
2006
58
4.756
2007
61
4.843
2008
64
5.649
2009
81
5.736
2010
93
6.572
2011
112
7.888
2012
127
9.641
2013
143
11.418
2014
151
13.723
2015
152
18.521 1

    Á árunum 2010–2015 hefur orðið veruleg fjölgun bílaleigubifreiða sem njóta lækkunar vörugjalda. Sem dæmi nam fjölgunin frá öllu árinu 2010 rúmlega 300% miðað við innfluttan fjölda í fyrri hluta ágústmánaðar. Sú ívilnun sem bílaleigur hafa notið vegna lækkunar vörugjalda samkvæmt undanþáguflokki nemur nú um 327% hærri fjárhæð í ágúst 2015 en árið 2010.
    Þá hefur nokkuð borið á gagnrýni á leyfisgjald til að njóta lækkunar á vörugjaldi samkvæmt undanþáguflokki. Þannig hefur verið bent á að þrep gjaldsins og fjárhæðir komi misjafnlega niður á bílaleigum eftir stærð auk þess sem gjaldið geti hindrað aðgang að atvinnugreininni.
    Á grundvelli framangreindra forsendna eru í frumvarpinu lagðar til eftirfarandi fjórar meginbreytingar á lögunum:
    Í fyrsta lagi verði þak það sem kveðið er á um í 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. lækkað úr 750 þús.kr. í 350 þús.kr.
    Í öðru lagi verði gerðar breytingar á orðalagi og fyrirkomulagi ákvæða 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. með hliðsjón af gildistöku nýrra laga nr. 65/2015, um leigu skráningarskyldra ökutækja.
    Í þriðja lagi verði kveðið á um það tímabil sem skilyrði til að hljóta lækkun skv. 2. tölul. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr., með beinum hætti í lögunum en það hefur hingað til verið ákvarðað í reglugerð nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum. Að auki er lagt til að tímabilið verði lengt úr 15 mánuðum í tvö ár.
    Í fjórða lagi verði fallið frá því að innheimta sérstakt gjald vegna leyfis til að njóta lækkaðra vörugjalda skv. 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna.
    Gert er ráð fyrir að framangreindar breytingar taki gildi í tveimur áföngum sem komi til framkvæmda 1. janúar 2016 og 1. janúar 2017. Tekjuáhrif þessara breytinga eru talin verða um 0,6 ma.kr. til hækkunar á árinu 2016 og 1,9 ma.kr. árið 2017. Þess skal getið að í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er hafin vinna við endurskoðun gjaldaumhverfis á ökutæki og eldsneyti með einföldun að leiðarljósi. Því er fyrirsjáanlegt að á síðari stigum verði lagðar til frekari breytingar á lögunum.

3.6. Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta og gjalda.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur um almenna 2,5% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám. Slíkar hækkanir hafa það markmið að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu með hliðsjón af verðlagsforsendum fjárlagafrumvarpsins 2016, en þó með 2,5% þaki til að stuðla að stöðugleika verðlags. Er hér um að ræða almennt og sérstakt bensíngjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald, gjald af tóbaki og kolefnisgjald af eldsneyti. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 0,9 ma.kr. á ári.

3.7. Breytingar á lögum um virðisaukaskatt vegna virðisaukaskattsskyldu fólksflutninga.
    Með lögum nr. 124/2014 var gerð viðamikil breyting á undanþágu fólksflutninga frá virðisaukaskatti. Tekur sú breyting gildi 1. janúar 2016 og frá og með þeim tíma verða fólksflutningar virðisaukaskattsskyldir aðrir en almenningssamgöngur, ferðaþjónusta fatlaðs fólks, akstur skólabarna og leigubifreiðaakstur.
    Skömmu eftir að lög nr. 124/2014 voru samþykkt kom fram ábending þess efnis að þar sem með lögunum hefði ekki verið gerð breyting á 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. væri uppi verulegur vafi um hvort þeim sem öfluðu og rækju hópbifreiðar yrði mögulegt að telja virðisaukaskatt af aðföngum til innskatts. Lagt er til af þessu tilefni, til að tryggja fulla virkni þeirra breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 124/2014, að sú breyting verði gerð á ákvæði 1. málsl. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt að orðin „og hópbifreiða“ verði felld brott. Með því er tryggt að þeim sem afla og reka hópbifreiðar verði heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem varða slíkan rekstur, m.a. að skilyrðum 1. mgr. 16. gr., sbr. 15. gr. laganna, uppfylltum.
    Samkvæmt 6. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt skal endurgreiða rekstraraðilum hópbifreiða, sem leyfi hafa samkvæmt lögum um skipulag á fólksflutningum með hópbifreiðum, 19,35% af söluverði hópbifreiða sem þeir sannanlega selja úr landi. Ákvæðið á rót sína að rekja til gildistöku laga nr. 105/2000, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt sérstökum athugasemdum við b-lið 5. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 105/2000 var með ákvæði frumvarpsgreinarinnar brugðist við því að hluti af verðmæti hópbifreiða væri virðisaukaskattur sem ekki fengist endurgreiddur innan lands þar sem fólksflutningar væru utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts. Var ákvæðinu „ætlað að greiða fyrir sölu notaðra hópbifreiða úr landi og auðvelda með þeim hætti endurnýjun hópbifreiða“. Í þeim breytingum sem voru gerðar á lögum um virðisaukaskatt með lögum nr. 124/2014 felst m.a. að fólksflutningar munu falla undir skattskyldusvið virðisaukaskatts frá og með 1. janúar 2016. Ljóst er að þeir rekstraraðilar hópbifreiða sem flytja slíkar bifreiðar inn til landsins eftir 1. janúar 2016 munu njóta innskattsréttar vegna öflunar þeirra og því munu þau rök sem lágu til grundvallar þeirri breytingu sem gerð var með lögum nr. 105/2000 ekki eiga við í slíkum tilvikum. Í 6. tölul. 3. mgr. 2. gr., sbr. c-lið 1. gr. laga nr. 124/2014, er hins vegar kveðið á um að frá og með 1. janúar 2016 verði almenningssamgöngur, skipulögð ferðaþjónusta fatlaðs fólks og skipulagður flutningur skólabarna undanþeginn virðisaukaskatti. Þau rök sem lágu að baki ákvæði b-liðar 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 105/2000 munu eiga fullum fetum við þegar kemur að hópbifreiðum sem nýttar eru við þjónustu sem verður undanþegin virðisaukaskatti skv. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr., sbr. c-lið 1. gr. laga nr. 124/2014, eftir 1. janúar 2016. Af þeim sökum er sú breyting lögð til á ákvæði 6. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt að þar verði kveðið á um að aðeins skuli endurgreiða 19,35% af söluverði hópbifreiða sem sannanlega eru seldar úr landi til þeirra rekstraraðila hópbifreiða sem undanþegnir eru virðisaukaskatti skv. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Í þeim tilvikum þegar hópbifreið er nýtt í blandaðri starfsemi og virðisaukaskattur af kaupverði hennar hefur að hluta til verið færður til innskatts er lagt til að endurgreiðslan lækki um sem nemur hlutfalli innskatts, sem færður hefur verið á móti útskatti við uppgjör virðisaukaskatts, af virðisaukaskatti af kaupverði.
    Í IV. kafla laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, er fjallað um þjónustu við aldraða, þ.e. öldrunarþjónustu. Opin öldrunarþjónusta er skilgreind í 13. gr. laganna en þar er átt við heimaþjónustu aldraðra, þjónustumiðstöðvar aldraðra, dagdvöl aldraðra og þjónustuíbúðir aldraðra. Í 3. tölul. 13. gr. laganna er fjallað um dagdvöl aldraðra sem er stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Í dagdvöl aldraðra skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu og samkvæmt ákvæði 3. málsl. 3. tölul. 13. gr. laganna skal m.a. boðið upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklings vegna dagdvalar. Skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 45/1990, um dagvist aldraðra, er greiðsla vegna flutningsþjónustu innifalin í gjaldi sem dagvistargestur greiðir hvern dvalardag.
    Í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, er m.a. kveðið á um þá þjónustu sem sveitarfélögum ber að veita öldruðum. Skv. 3. málsl. 40. gr. laganna skal sveitarstjórn tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi. Ákvæðið hefur verið túlkað á þann hátt að flutningsþjónusta milli heimilis og þess staðar þar sem félags- og tómstundastarfið fer fram teljist hluti af þeirri þjónustu sem sveitarfélögum ber að veita.
    Ferðaþjónusta aldraðra, samkvæmt ákvæðum 3. málsl. 3. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 og 3. málsl. 40. gr. laga nr. 40/1991, uppfyllir ekki skilyrði þess að teljast til almenningssamgangna í skilningi ákvæðis 1. efnismálsl. c-liðar 1. gr. laga nr. 124/2014. Eigi að síður er slík þjónusta sambærileg almenningssamgöngum, ferðaþjónustu fatlaðs fólks og skólaakstri barna vegna aðkomu opinberra aðila að henni. Því er lagt til að skipulögð ferðaþjónusta aldraðra verði undanþegin skattskyldusviði virðisaukaskatts.

3.8. Framlenging heimildar til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða.
    Í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt er kveðið á um heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ákvæðið kom inn í lög um virðisaukaskatt með gildistöku laga nr. 69/2012, um breyting á lögum um virðisaukaskatt. Ætlunin var að styrkja samkeppnishæfni umræddra ökutækja gagnvart hefðbundnum bensín- og dísilknúnum ökutækjum með það að markmiði að efla og flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum. Ljóst er að sú ívilnun sem felst í ákvæðinu hefur skipt sköpum þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum. Þess má m.a. sjá stað í sölutölum rafbíla en sala þeirra hefur aukist umtalsvert síðustu misseri þrátt fyrir lækkandi eldsneytisverð á heimsmarkaði. Uppbygging hraðhleðslustöðva innan lands hefur tekið verulega við sér en net þeirra er hins vegar ekki enn orðið það þétt og reglulegt að hægt sé að viðhalda nægilegri hleðslu við akstur landshluta á milli. Aukin nýting vistvænna orkugjafa við samgöngur hefur verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Endurskoðun gjaldaumhverfis í samgöngum með einföldun að leiðarljósi hefur staðið fyrir dyrum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en henni er hins vegar ekki lokið. Því er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðisins verði framlengdur um eitt ár.

3.9. Hækkun á hámarksútsvari framlengd.
    Lagt er til að sú tímabundna breyting sem gerð var til bráðabirgða með lögum nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, þ.e. að hækka hámarksútsvar í lögum um tekjustofna sveitarfélaga um 0,04 prósentustig, úr 14,48% í 14,52% á árinu 2014, verði að svo stöddu framlengd tímabundið um eitt ár. Í samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá árinu 2010 var útsvarshlutfall sveitarfélaga hækkað um 1,2 prósentustig á móti samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins til fjármögnunar á málaflokknum árin 2011–2013 að viðbættum tímabundnum beinum framlögum úr ríkissjóði. Í samkomulaginu var enn fremur gert ráð fyrir því að útsvarshlutfallið yrði fastsett frá og með árinu 2014 þannig að þjónustan yrði alfarið fjármögnuð með útsvari. Endanlegt útsvarshlutfall átti að byggjast á mati á fjárhagslegum forsendum samkomulagsins sem unnið yrði á árinu 2013 en þeirri vinnu var enn ólokið síðla árs 2013. Af þeim sökum var gerður viðauki við samkomulagið í nóvember 2013 þar sem samkomulagið var framlengt um eitt ár þannig að ákvörðun um endanlegt útsvarshlutfall yrði tekin á árinu 2014 og kæmi til framkvæmda frá og með árinu 2015. Samhliða því að samkomulagið var framlengt var útsvarshlutfall sveitarfélaga hækkað tímabundið í eitt ár um 0,04 prósentustig á móti samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins fyrir árið 2014 og aftur fyrir þetta ár. Endurmati á fjárhagslegum forsendum samkomulagsins er enn ólokið en gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki nú á haustmánuðum og að hún muni fela í sér tillögu að endanlegri ákvörðun um útsvarsprósentu.

3.10. Barnabætur og vaxtabætur.
    Lögð er til 3% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta sem koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Þá er lagt til að heimild til að skuldajafna barnabótum á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði felld brott varanlega en hún hefur verið óheimil á árunum 2009–2014 á grundvelli bráðabirgðaákvæða.
    Í lok árs 2010 voru gerðar margvíslegar breytingar á útreikningsreglum vaxtabóta í því skyni að draga úr fyrirsjáanlegum vexti þeirra, jafnframt því að bótunum var í meira mæli beint til þeirra fjölskyldna sem voru með lægri tekjur og minni eignir. Þessar reglur áttu að gilda í tvö ár, þ.e. við álagningu opinberra gjalda 2011 og 2012, en ákvæðið var síðan framlengt til ársins 2013, aftur til ársins 2014 og að lokum aftur til ársins 2015. Að óbreyttum lögum munu því vaxtabótareglurnar færast í sitt fyrra horf um næstu áramót og við það mun stuðningur ríkissjóðs í formi vaxtabóta dreifast á fleiri fjölskyldur, þ.e. fjölskyldur sem ekki njóta bóta í dag, en á sama tíma lækka bætur þeirra fjölskyldna sem notið hafa hámarksbóta (tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur). Í ljósi þess að nú er unnið að endurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda á ýmsum sviðum (vaxtabótakerfi, húsaleigubótakerfi, félagsleg aðstoð o.fl.), sbr. fram komið frumvarp velferðarráðherra um húsnæðisbætur (788. mál 144. löggjafarþings), er hér lagt til að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins haldist óbreyttar milli áranna 2015 og 2016.

3.11. Einföldun á innheimtu stimpilgjalds – úrskurðarvald í ágreiningsmálum fært til yfirskattanefndar.
    Lagðar eru til breytingar á lögum um stimpilgjald og lögum um yfirskattanefnd sem hafa þann megintilgang að einfalda frekar innheimtu stimpilgjalds ásamt því að færa úrskurðarvald fjármála- og efnahagsráðuneytisins í ágreiningsmálum er varða stimpilgjald til yfirskattanefndar.
    Ný heildarlög um stimpilgjald voru lögfest með lögum nr. 138/2013 sem tóku gildi 1. janúar 2014. Reynslan frá gildistöku laganna hefur sýnt að frekari breytinga er þörf til að einfalda álagningu stimpilgjalds. Breytingarnar eru í meginatriðum þríþættar:
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting sem varðar álagningu stimpilgjalds við samruna, breytingu einkahlutafélags í hlutafélag og skiptingu félaga. Lagt er til að nafnabreyting á eiganda fasteignar eða skips yfir 5 brúttótonnum í opinberum skrám, svo sem þinglýsingabókum, í kjölfar samruna eða skiptingar teljist ekki eignaryfirfærsla í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um stimpilgjald og beri því ekki að greiða stimpilgjald við þær aðstæður.
    Þegar frumvarpið sem varð að lögum nr. 138/2013 var í meðförum Alþingis bárust efnahags- og viðskiptanefnd ábendingar um það að skjöl sem kvæðu á um breytingu á eigandaskráningu fasteigna í kjölfar samruna teldust ekki vera stimpilgjaldsskyld þar sem slíkar tilfærslur eigna kvæðu ekki á um eigendaskipti í skilningi þágildandi laga um stimpilgjald. Í þessu sambandi var vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 27. janúar 2005 (Hrd. 306/2004) þar sem staðfest var að skjöl sem kvæðu á um breytingu á eigandaskráningu fasteigna í kjölfar samruna teldust ekki vera stimpilgjaldsskyld. Niðurstaða Alþingis varð þó engu síður sú að gjaldskyldan ætti að ná til þessara tilvika.
    Reynslan hefur sýnt að gjaldskylda við þessar aðstæður getur verið óheppileg hindrun við formbreytingar félaga og eftir frekari skoðun þykir rétt að lagt verði til að umræddar nafnabreytingar á eignum í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag og skiptingar félags teljist ekki vera eignaryfirfærsla í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. stimpilgjaldslaga og séu því undanþegnar stimpilgjaldi.
    Í öðru lagi er lagt til að afsláttur á stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði, sbr. 3. mgr. 5. gr. stimpilgjaldslaga, takmarkist ekki við eigin not þeirra á hinu keypta húsnæði. Þetta skilyrði laganna hefur reynst erfitt í framkvæmd enda getur verið örðugt að sýna fram á það að íbúðarhúsnæði sé eingöngu keypt til eigin nota. Þá getur þetta einnig leitt til fremur ósanngjarnrar og óheppilegrar niðurstöðu, t.d. í þeim tilvikum þegar eigandinn flytur tímabundið erlendis vegna náms eða starfa eða leigir húsnæðið út tímabundið til að fjármagna kaupin á því. Einnig hefur umboðsmaður Alþingis gert athugasemdir við framkvæmd á þessu ákvæði. Hafa verður í huga að einstaklingur á einungis rétt á umræddum afslætti á stimpilgjaldi í eitt skipti vegna kaupa á íbúðarhúsnæði og eru því ekki taldar ástæður til að setja frekari skorður fyrir afslættinum.
    Í þriðja lagi er lagt til að úrskurðarvald í ágreiningsmálum um stimpilgjald fari frá ráðuneytinu til yfirskattanefndar. Er sú tilfærsla á úrskurðarvaldi byggð á sömu sjónarmiðum og fram koma í kafla 3.12.

3.12. Sérstakar endurgreiðslur á virðisaukaskatti sem ákvarðaðar eru af ríkisskattstjóra – úrskurðarvald í ágreiningsmálum fært til yfirskattanefndar.
    Lagt er til að úrskurðarvald vegna sérstakra endurgreiðslna á virðisaukaskatti sem ríkisskattstjóri ákvarðar verði fært frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til yfirskattanefndar. Tilfærslan á verkefnunum er liður í því að framkvæma þá stefnu ráðuneytisins að samræma og einfalda kæruleiðir vegna skatta, gjalda og tolla ásamt því að styrkja enn frekar yfirskattanefnd og einfalda skattkerfið, sbr. einnig skýrslu nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í september 2013, um athugun á stjórnsýslu skattamála með tilliti til réttaröryggis, jafnræðis og skilvirkni. Nú þegar hefur verið stigið það skref að færa verkefni ríkistollanefndar til yfirskattanefndar en sú breyting tók gildi 1. janúar 2015.

3.13. Starfsendurhæfingarsjóðir.
    Lögð er til framlenging á ákvæði laga um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2016. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014 og 2015.
    Tilefnið er samkomulag milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra annars vegar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar frá 4. mars 2015. Í samkomulaginu er kveðið á um að framlög ríkisins til starfsendurhæfingarsjóða skv. 7. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, verði 650 m.kr. á árinu 2016. Það felur í sér að starfsendurhæfingarsjóðir fá ekki hlutdeild af gjaldstofni tryggingagjalds á árinu 2016 heldur er í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 gert ráð fyrir beinum framlögum úr A-hluta ríkissjóðs á árinu 2016 til starfandi starfsendurhæfingarsjóða.

3.14. Gjaldskrár vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins.
    Lagðar eru til breytingar á gjaldhlutföllum af álagningarstofnum skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem miðað er við þegar áætluð eru gjöld sem eiga að standa undir kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins, á grundvelli lögbundins endurmats á kostnaðarskiptingu við reksturinn, sbr. 2. gr. laganna. Áætlaðar heildartekjur stofnunarinnar árið 2016 eru 1.799 m.kr. og hækka um 4,6% milli ára. Þar af verði álagt eftirlitsgjald 1.711 m.kr. sem er 4,5% hækkun milli ára. Þá eru lagðar til tvær breytingar sem snúa annars vegar að því að hætt verði að innheimta sérstakt eftirlitsgjald af erlendum vörsluaðilum séreignarsparnaðar hér á landi og hins vegar að leiðrétt verði tilvísun í lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

3.15. Greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.
    Lögð er til lækkun gjaldhlutfalls af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara og er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 157 m.kr. á árinu 2016.

3.16. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Lögð er til 3% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra. Hækkun gjaldsins miðast við spá Hagstofu um verðbólgu milli áramóta árið á undan fjárlagaárinu. Þannig verður gjaldið 10.464 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði aukalega 55,4 m.kr.

3.17. Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna.
    Lagt er til að við lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2016.

3.18. Almannatryggingar.
    Lagt er til að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2016 og á þessu ári með framlengingu á 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 328.800 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Í gangi hefur verið vinna við heildarendurskoðun almannatryggingalaga sem ekki er lokið og því er lögð til framlenging á áðurnefndu bráðabirgðaákvæði.
    Þá er gert ráð fyrir að framlengja ákvæði til bráðabirgða til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju.

3.19. Framlag til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs.
    Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2016 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 72,7 m.kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs lækki um 0,6 m.kr. á árinu 2016.

3.20. Sóknargjöld.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 824 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 898 kr. fyrir árið 2016. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2015, með breytingu á lögum nr. 91/1987, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda.

3.21. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.
    Lagt er til að þrátt fyrir ákvæði laganna skuli framlag ríkissjóðs nema 149 m.kr. Í fjárlögum 2014 var gerð 9 m.kr. hagræðingarkrafa til sjóðsins og í fjárlögum 2015 var krafan aukin um 4 m.kr. Í samræmi við það er gert ráð fyrir því að hlutdeild Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í tekjum af gistináttaskatti á árinu 2016 skerðist um 13 m.kr.

3.22. Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárhæð losunarheimilda skv. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál. Í 14. gr. laganna er kveðið á um losunargjald sem lagt er á rekstraraðila starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir samkvæmt greininni. Í ljósi þess að losunargjaldið hefur einkenni skatts, sbr. 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, þarf að uppfæra gjaldið árlega og er því mælt fyrir um fjárhæð gjaldsins í frumvarpinu. Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2016 verði 1.043 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar. Nauðsynlegt er að lögfesta fjárhæð losunargjalds vegna losunar á árinu 2016 í síðasta lagi 31. desember 2015 svo að rekstraraðilum starfsstöðva, sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, verði ljóst fyrir upphaf árs 2016 hver fjárhæð losunargjalds verður sem lögð verður á vegna losunar 2016.
    Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, var lagt til að við ákvörðun losunargjaldsins yrði byggt á upplýsingum um markaðsverð losunarheimilda frá Intercontinental Exchange markaðnum í London (ICE) en þar fóru fram, þegar frumvarpið var lagt fram, rúmlega 90% af viðskiptum með losunarheimildir í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Fjárhæð losunargjalds var 892 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar árið 2014 en lækkaði niður í 865 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar árið 2015.
    Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. laga um loftslagsmál skal Umhverfisstofnun fyrir 31. maí ár hvert afhenda innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu um magn gjaldskyldrar losunar. Innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi starfsstöðvar skal því næst fyrir 1. júlí ár hvert leggja á og innheimta losunargjald af starfsstöðvum sem hafa verið undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun um magn gjaldskyldrar losunar vegna innheimtu fyrir losun árið 2014 voru fjórar starfsstöðvar undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Allar fjórar starfsstöðvarnar voru með minni losun á árinu 2014 en fjöldi heimilda sem þeim hefði verið úthlutað endurgjaldslaust hefðu þær verið þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og greiða því ekki losunargjald á árinu 2015.
    Til að fá traustar og hlutlægar upplýsingar um markaðsverðið var samið við KPMG ehf. um að útbúa skýrslu um meðalverð losunarheimilda á tímabilinu 1. ágúst 2014 til 31. júlí 2015. Í skýrslu KPMG, dags. 18. ágúst 2015, kemur fram að meðalverð losunarheimilda á fyrrgreindu tímabili hafi verið 6,92 evrur á hvert tonn af koldíoxíði eða ígildi þess, eða 1.043 íslenskar krónur miðað við meðaltal af miðgengi evru hjá Seðlabanka Íslands á tímabilinu. Við útreikning meðalverðs var tekið mið af verðmyndun losunarheimilda í þremur mismunandi kauphöllum.
    Lagt er til að framangreindir útreikningar KPMG verði lagðir til grundvallar við ákvörðun losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2016. Starfsstöðvar sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfisins, skv. 14. gr. laganna, skulu samkvæmt því greiða 1.043 kr. fyrir hvert tonn losunar gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á tímabilinu 1. janúar 2016 til 31. desember 2016. Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, er gert ráð fyrir að gjaldið verði endurskoðað á hverju ári miðað við nýjar upplýsingar. Það þarf því fyrir lok hvers árs að breyta því ártali og þeirri fjárhæð sem fram kemur í 4. mgr. 14. gr. laganna. Með þeim hætti verður losunargjaldið sem lagt verður á vegna losunar hvers almanaksárs ljóst fyrir upphaf viðkomandi árs.

4. Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var m.a. stuðst við drög að fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016. Við gerð þess var haft samráð við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, innanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóra, tollstjóra og yfirskattanefnd.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Í eftirfarandi yfirliti eru dregin saman heildaráhrif þeirra tillagna sem er að finna í frumvarpinu á tekjur ríkissjóðs á árunum 2016 og 2017. Meginhluti áhrifanna endurspeglast í minni skattbyrði heimila og þar með auknum ráðstöfunartekjum. Þannig verða samanlögð áhrif lækkunar á tekjuskatti einstaklinga, tollum og fjármagnstekjuskatti um 17 ma.kr. þegar síðari áfanginn kemur til framkvæmda á árinu 2017 eða sem svarar til 1,4% í auknum ráðstöfunartekjum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér á eftir er fjallað nánar um þær tillögur frumvarpsins sem vega þyngst varðandi áhrif á afkomu heimila og ríkissjóðs.

5.1. Tekjuskattur einstaklinga.
    Kerfisbreytingar á tekjuskatti einstaklinga 2016 og 2017 munu leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega, en þó sérstaklega millitekjuhópa, sbr. eftirfarandi mynd. Hún sýnir áætluð áhrif breytinganna á ráðstöfunartekjur einstaklinga þegar áhrifin verða að fullu komin til framkvæmda árið 2017. Áhrifin verða eins og að líkum lætur mest við þrepamörk efra þrepsins, eða við 700 þús.kr. á mánuði miðað við verðlag ársins 2015. Til samanburðar eru meðallaunatekjur einstaklinga, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni, tæplega 600 þús.kr. á mánuði á verðlagi ársins 2015.

Breyting á ráðstöfunartekjum einstaklinga eftir tekjum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Áhugavert er að skoða hvernig skattbyrði á meðallaunatekjur minnkar, sbr. myndina hér að aftan. Þar sést glöggt að skattbyrðin minnkar mest þar sem skattstofninn er um 675–700 þús.kr., eða nálægt 1,7%.

Meðalskattur (skattbyrði) eftir tekjum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Jaðarskattur breytist töluvert með þessum breytingum á tekjuskattskerfinu en með jaðarskatti er átt við þann skatt sem er greiddur af hverri viðbótarkrónu sem einstaklingur aflar þegar tekjur hans eru komnar yfir skattleysismörkin. Jaðarskatturinn lækkar á tekjur undir 700 þús.kr. á mánuði en hækkar á tekjur sem eru á tekjubilinu 700–836 þús.kr. á mánuði. Áréttað skal að þessar viðmiðunarstærðir eru allar miðaðar við verðlag ársins 2015, en þær munu hækka í ársbyrjun 2016 og aftur 2017 í takt við þróun launavísitölu.

Jaðartekjuskattur einstaklinga fyrir og eftir kerfisbreytingu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.5.2. Afnám tolla af öðru en matvöru.
    Lækkun tolla mun að öðru óbreyttu hafa áhrif á skatttekjur ríkissjóðs. Beinu áhrifin eru þau að tolltekjur dragast saman. Óbeinu áhrifin koma fram í lækkuðum virðisaukaskattstekjum. Virðisaukaskattur leggst m.a. á innflutning vöru og þjónustu. Til skattverðs, sem lagt er til grundvallar við álagningu virðisaukaskatts, teljast m.a. skattar og gjöld sem greidd hafa verið við innflutning til landsins, þar á meðal tollar. Við lækkun tolla lækkar því skattverð sem því nemur. Þar sem virðisaukaskattur er hlutfall af skattverði er viðbúið að tekjur af virðisaukaskatti við innflutning muni rýrna. Í þeim tilvikum þegar vara er ekki flutt inn til endursölu heldur beint til eigin nota utan rekstrar mun tekjulækkun af virðisaukaskatti koma að fullu fram strax við innflutning. Þegar vara er hins vegar flutt inn til nota í rekstri lækkar innskattur sem draga má frá útskatti. Ef álagningarhlutfall rekstraraðila breytist ekki við lækkun tolla ættu tekjur af virðisaukaskatti einnig að lækka og tollalækkun hefur því auk beinna áhrifa óbein áhrif á tekjur ríkissjóðs. Á móti má þó benda á að lækkun tolla hefur einnig jákvæð áhrif á virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs, að því marki sem hún leitar út í verðlag, þar sem ráðstöfunartekjur heimila aukast og neysla þeirra því einnig. Af því leiðir að rýrnun virðisaukaskattstekna verður eitthvað minni en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Til þess að glöggva sig frekar á áhrifum tollaniðurfellingarinar er í eftirfarandi töflu stillt upp dæmi um algenga innkaupakörfu barnafjölskyldu við upphaf skólagöngu. Þar kemur fram að kostnaður við körfu sem þessa gæti lækkað um tæplega 7 þús.kr., eða 12,2%, þegar tollalækkunin er að fullu komin til framkvæmda. Stærstur hluti áhrifanna ætti þó að koma fram strax á næsta ári.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Til fróðleiks er einnig tekið dæmi af heildarlækkun algengra heimilistækja að teknu tilliti til afnáms almenns vörugjalds og lækkunar virðisaukaskatts í ársbyrjun 2015 að viðbættri tollaniðurfellingu á árinu 2017.

5.3. Tollastjórnsýsla eftir tollabreytingar.
    Þrátt fyrir að tollar verði lækkaðir þarf áfram að leggja úrvinnslugjald, vörugjöld og virðisaukaskatt á vörur við innflutning. Slík gjaldálagning er tengd tollskrárnúmerum í flestum tilfellum. Það hagræði sem tollyfirvöld munu helst njóta er að tollflokkun verður einfaldari viðfangs. Almenn vörugjöld voru afnumin um áramótin 2014/2015. Skilsmunur úrvinnslugjalda og tolla er nokkuð skýr og gjaldflokkar einsleitir. Því má ætla að lækkun tolla leiði til þess að ágreiningsmálum fækki svo einhverju nemi.

5.4. Virðisaukaskattur og áfengisgjald.
    Ráðgert er að færa áfengi úr almennu þrepi virðisaukaskatts í neðra þrepið, þ.e. 11%, en hækka áfengisgjald um leið með þeim hætti að tekjur ríkissjóðs verði sem næst óbreyttar á næsta ári og að aðgerðin leiði ekki til hækkunar á verðlagi áfengis sem hefði neikvæð áhrif á þróun verðlagsvísitölu. Rökin fyrir slíkri aðgerð eru þau að virðisaukaskattsskil veitingahúsarekstrar yrðu einfaldari og hvatar og tækifæri til undanskota minni en við núverandi aðstæður. Til lengri tíma litið ætti aðgerðin því að stuðla að bættri skilvirkni í álagningu og innheimtu virðisaukaskattsins og um leið auknum tekjum ríkissjóðs. Ekki er gert ráð fyrir því að tillagan leiði til mikilla breytinga á tekjum ríkissjóðs af áfengi. Til skamms tíma litið er áætlað að tekjuáhrifin verði lítillega neikvæð en til lengri tíma litið ættu tekjur af virðisaukaskatti af áfengi að aukast, í samræmi við markmið aðgerðarinnar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


5.5. Vörugjald af bílaleigubílum.
    Tekjuauki ríkissjóðs á næsta ári er áætlaður 0,6 ma.kr. vegna fyrri áfanga afnáms ívilnunar bílaleiga á vörugjaldi af ökutækjum við innflutning á árunum 2016–2017, en 2,5 ma.kr. þegar ívilnunin er að fullu horfin ári síðar (að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt). Í eftirfarandi töflu kemur fram hvernig afsláttur af vörugjaldi innfluttra bílaleigubíla hefur farið stigvaxandi síðustu ár. Þar má sjá upplýsingar um heildarfjárhæðir í krónum og fjölda bílaleigubifreiða sem nutu lækkunar frá vörugjaldi árin 2010 til 2015 og samanlagða fjárhæð gjaldfærðra vörugjalda á bílaleigubíla fyrir sama tímabil. Tölur fyrir árið 2015 miðast við tímabilið 1. janúar til 7. ágúst.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


5.6. Áhrif annarra tillagna frumvarpsins.
    Aðrar tillögur frumvarpsins hafa áhrif ýmist til lækkunar eða hækkunar á tekju- eða útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins eins og fram kemur í 2. kafla, Meginefni frumvarpsins. Þau áhrif verða ekki rakin nánar hér, heldur er vísað til kostnaðarumsagnar frumvarpsins.

5.7. Áhrif á vísitölu neysluverðs.
    Áhrif tillagna frumvarpsins á verðlag verða að langmestum hluta vegna afnáms tolla. Einnig má þó gera ráð fyrir einhverjum áhrifum vegna breytinga á skattlagningu áfengis og afnáms ívilnunar bílaleiga af vörugjaldi. Afnám tolla í tveimur áföngum sem að framan er lýst hefur í för með sér um 0,5% lækkun á vísitölu neysluverðs á árinu 2016 og allt að 0,5% lækkun til viðbótar á árinu 2017, ef lækkunin gengur til fulls út í smásöluverð. Þannig má búast við því að verðlag á árinu 2017 verði allt að 1% lægra en verið hefði. Breytingar á skattlagningu áfengis eru gerðar með það að markmiði að þær auki ekki verðbólgu á næsta ári og gætu bein verðlagsáhrif orðið –0,02%. Þá gætu orðið einhver áhrif til hækkunar á verðlagi ef afnám ívilnunar til handa bílaleigum af vörugjaldi kemur fram í verðlagningu gagnvart innlendum neytendum en þau ættu að verða óveruleg á næsta ári.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um a–c-lið 1. gr. og 5.–7. gr.

    Gert er ráð fyrir því að skattþrepum vegna tekjuskatts einstaklinga verði fækkað úr þremur í tvö á tveimur árum. Við það mun skattbyrðin minnka og ráðstöfunartekjur einstaklinga hækka. Því er lagt til í 5.–7. gr. frumvarpsins að á árinu 2016 fari tekjuskattsstofn í 1. þrepi úr 22,86% í 22,68%, tekjuskattsstofn í 2. þrepi fari úr 25,3% í 23,9% og tekjuskattsstofn í 3. þrepi haldist óbreyttur eða 31,8%. Á árinu 2017 er síðan gert ráð fyrir því að þrepunum verði fækkað úr þremur í tvö, sbr. a–c-lið 1. gr. og 6. gr. frumvarpsins.
    Breytingarnar taka hvort tveggja til staðgreiðslu og álagningar og eru í samræmi við þrepaskiptan tekjuskatt. Staðgreiðsla er í eðli sínu bráðabirgðagreiðsla og endanleg ákvörðun tekjuskatts og útsvars fer fram við álagningu hvort heldur er um að ræða einstaklinga eða samskattaða aðila. Engu síður er mikilvægt að afdráttur í staðgreiðslu sé með sem réttustum hætti.
    Um frekari skýringar vísast til kafla 3.1. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Með ákvæði þessu er lögð til hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta sem koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016. Gert er ráð fyrir því að viðmiðunarfjárhæðir barnabóta verði hækkaðar um 3% en skerðingarhlutföll vegna tekna haldist óbreytt.
    Þá er í c-lið lagt til að bráðabirgðaákvæði XXXVIII í tekjuskattslögunum, sem kveður á um að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé óheimil á árunum 2009–2014, verði gert varanlegt.

Um d-lið 1. gr. og 3. gr.

    Gert er ráð fyrir því að frítekjumark tekjuskatts af leigutekjum manns af íbúðarhúsnæði verði hækkað úr 30% í 50%. Frítekjumarkið tekur einungis til leigutekna manns af leigu á íbúðarhúsnæði til búsetu leigjanda. Með því er átt við útleigu á húsnæði fyrir heimili og varanlega búsetu leigutaka. Taka verður þó tillit til þess að erfitt getur verið að afmarka þá leigu við ákveðinn tíma vegna breytinga á aðstæðum auk þess sem leigutími getur fyrirvaralaust breyst frá því að vera til lengri tíma yfir í styttri. Samkvæmt þessu er ljóst að undir ákvæðið fellur ekki hvers kyns gistiþjónusta sem ætíð telst til atvinnurekstrar, hvort sem um er að ræða lögaðila eða einstakling sem stundar sjálfstæða starfsemi.
    Þá er gert ráð fyrir því að sömu reglur gildi um leigutekjur manns af íbúðarhúsnæði, sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi, til samræmis við þá sem bera hér ótakmarkaða skattskyldu.

Um 4. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að tímabundin hækkun á vaxtabótum sem að óbreyttu hefði fallið niður um næstu áramót verði framlengd um eitt ár. Því er ártalinu 2016 bætt við ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum, en það hefur að geyma ákvæði um vaxtabætur á árunum 2011, 2012, 2013, 2014 og 2015. Gert er ráð fyrir að ákvæðið komi til framkvæmda við ákvörðun á fyrirframgreiðslu vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016. Til nánari skýringar vísast í kafla 3.10. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Lagt er til að sú tímabundna hækkun hámarksútsvars sem gerð var með lögum nr. 139/ 2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, verði framlengd tímabundið um eitt ár. Með ákvæðinu var hámarksútsvar hækkað um 0,04 prósentustig, úr 14,48% í 14,52% á árinu 2014. Hækkunin var einnig framlengd fyrir árið 2015 með lögum nr. 125/2014, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Þessi breyting var gerð í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um viðbótarfjármögnun á árinu 2014 í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðra á milli stjórnsýslustiganna.

Um 9. gr.

    Lagt er til að tollar á vörum sem falla undir tollskrárnúmer sem heyra undir tiltekna vöruliði og einstök tollskrárnúmer í tollskrá í viðauka I við tollalög verði lækkaðir í 0% og/eða 0 kr./kg. Verður nú fjallað kaflaskipt um hvern og einn vörulið og tollskrárnúmer sem tiltekin eru í greininni.

Ís úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum.
    Tollskrárnúmerin 2105.0021 og 2105.0029 eru í vöruliðnum 2105 í tollskrá. Undir þann lið fellur rjómaís og annar ís til manneldis, einnig ís með kakóinnihaldi. Undir téð tollskrárnúmer fellur ís sem inniheldur minna en 3% af mjólkurfitu miðað við þyngd.
    Samhliða framlagningu frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra birti auglýsingu í A- deild Stjórnartíðinda þar sem kveðið verður á um breytingu á vöruliðnum, við hann bætist tvö ný tollskrárnúmer, 2105.0091 og 2105.0099. Vörur sem nú falla undir númerin 2105.0021 og 2105.0029 verða felldar undir hin nýju númer. Með auglýsingunni verður ís til manneldis sem inniheldur minna en 3% mjólkurfitu miðað við þyngd og er úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum felldur undir númerið 2105.0029 en undir númerið 2105.0021 verður felldur sams konar ís með kakóinnihaldi.
    Þessi hluti tillögunnar samræmist breytingu sem Alþingi gerði með samþykkt laga nr. 76/2014. Markmið breytingarinnar er að stuðla að því að staða þeirra sem ekki neyta mjólkuríss af einhverjum ástæðum verði sambærilegri stöðu þeirra sem neyta íss úr mjólkurafurðum.

Fatnaður.
    Tollskrárnúmerið 3926.2000 ber heitið „Fatnaður og hlutar til hans (þar með taldir hanskar, belgvettlingar og vettlingar)“. Nánar tiltekið er númerið í VII. flokki tollskrár en sá flokkur ber heitið „plast og vörur úr því; gúmmí og vörur úr því“, í 39. kafla sem ber heitið „plast og vörur úr því“ og vörulið 3926 sem ber heitið „aðrar vörur úr plasti og vörur úr efnum í nr. 3901–3914“.
    Vöruliðurinn 4015 ber heitið „Fatnaður og hlutar til hans (þar með taldir hanskar, belgvettlingar og vettlingar), til hvers konar nota, úr vúlkaníseruðu gúmmíi, þó ekki harðgúmmíi.“ Undir hann falla tollskrárnúmerin 4015.1100–4015.9000, þ.e. hanskar, belgvettlingar og vettlingar, m.a. til skurðlækninga og öryggishanskar sem teljast viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501/1994.
    Vöruliðurinn 4203 ber heitið „Fatnaður og fylgihlutir, úr leðri eða samsettu leðri“. Undir hann falla tollskrárnúmerin 4203.1001–4203.4000, þ.e. fatnaður, en einnig hlífðarsvuntur og hlífðarermar, hanskar, belgvettlingar og vettlingar sem eru sérstaklega hannaðir til nota í íþróttum, röntgen- og rafsuðuhanskar, belti og axlarólar og hlutar til fatnaðar.
    Vöruliðurinn 4303 ber heitið „fatnaður, fylgihlutir og aðrar vörur úr loðskinni“. Undir hann falla tvö tollskrárnúmer, þ.e. 4303.1000, „fatnaður og fylgihlutir“, og 4303.9000, „annar fatnaður, aðrir fylgihlutir og aðrar vörur úr loðskinni“.
    Tollskrárnúmerið 4818.5000 er í vörulið 4818 en undir hann fellur m.a. „fatnaður og hlutar til hans, úr pappírsdeigi, pappír, sellulósavatti eða vef úr sellulósatrefjum“.
    Vöruliðirnir 6101–6117 eru í 61. kafla tollskrár sem ber heitið „Fatnaður og fylgihlutir, prjónað eða heklað“. Í þeim kafla má finna tollskrárnúmer sem ýmsar gerðir fatnaðar falla undir, t.d. frakkar, vindjakkar, hettuúlpur, jakkaföt, stakir jakkar, buxur, kjólar, pils, skyrtur, blússur, nærföt, sloppar, stuttermabolir, ungbarnafatnaður, sokkabuxur, heilsokkar, hanskar, vettlingar og fullgerðir fylgihlutir fatnaðar úr ýmsum efnum, svo sem baðmull, syntesískum efnum og öðrum spunaefnum.
    Vöruliðirnir 6201–6217 eru í 62. kafla tollskrár en hann ber heitið „Fatnaður og fylgihlutir, ekki prjónað eða heklað“. Undir þá vöruliði falla m.a. frakkar, vindjakkar, hettuúlpur, jakkaföt, stakir jakkar, buxur, kjólar, pils, skyrtur, blússur, nærföt, sloppar, stuttermabolir, ungbarnafatnaður, sokkabuxur, heilsokkar, hanskar, vettlingar og fullgerðir fylgihlutir fatnaðar úr ýmsum efnum, svo sem ull, baðmull, fíngerðu dýrahári, tilbúnum trefjum, syntesískum trefjum, gervitrefjum og öðrum spunaefnum.
    Undir tollskrárnúmerið 6309.0000 fellur notaður fatnaður og notaðar spunavörur.
    Vöruliðarnir 6401–6406 eru í 64. kafla tollskrár sem ber heitið „Skófatnaður, legghlífar og þess háttar; hlutar af þess konar vörum“. Undir þau tollskrárnúmer sem undir vöruliðina heyra falla t.d. stígvél, skófatnaður með táhlíf úr málmi, tennisskór, körfuboltaskór, leikfimiskór, æfingaskór, skíðaskór, barnaskór, kvenskór, ökklahlífar, legghlífar og ytri sólar og hælar.
    Tollskrárnúmerin 6504.0000 og 6505.0000 og vöruliðirnir 6506 og 6507 eru í 65. kafla tollskrár sem ber heitið „Höfuðfatnaður og hlutar til hans“. Undir tollskrárnúmerið 6504.0000 falla „hattar og annar höfuðfatnaður, fléttað eða úr ræmum úr hvers kyns efni, einnig fóðrað eða bryddað“. Undir tollskrárnúmerið 6505.0000 falla hins vegar „hattar og annar höfuðfatnaður, prjónað eða heklað, eða úr laufaborðum, flóka eða öðrum spunadúk, sem metravara (en ekki í ræmum), einnig fóðrað eða bryddað og hárnet úr hvers konar efni, einnig fóðruð eða brydduð“. Undir vöruliðinn 6506 fellur annar höfuðfatnaður, einnig fóðraður eða bryddaður, þ.m.t. hlífðarhjálmar og annar höfuðfatnaður úr gúmmíi, plasti eða öðrum efnum. Undir vöruliðinn 6507 falla svitagjarðir, fóður, hlífar, hattaform, hattagrindur, skyggni og hökubönd, fyrir höfuðfatnað.
    Tollskrárnúmerið 6812.9100 er í 68. kafla tollskrár sem ber heitið „Vörur úr steini, gipsefnum, sementi, asbesti, gljásteini eða öðrum áþekkum efnum“. Undir vöruliðinn 6812 falla tollskrárnúmer sem vörur sem teljast „unnar asbesttrefjar; blöndur að meginstofni úr asbesti eða að meginstofni úr asbesti og magnesíumkarbónati; vörur úr slíkum blöndum eða asbesti (t.d. þræðir, dúkur, fatnaður, höfuðfatnaður, skófatnaður, þéttingar), einnig styrktar, þó ekki vörur í nr. 6811 eða 6813“. Undir tollskrárnúmerið fellur „fatnaður, fatahlutar, skófatnaður og höfuðfatnaður“. Þessi hluti tillögunnar er liður í áformum um lækkun tolla á fatnað.
    Vöruliðurnir 9606 og 9607 eru í 96. kafla tollskrár sem ber heitið „Ýmsar framleiddar vörur“. Undir vöruliðinn 9606 falla „hnappar, þrýstitölur, smellur og smelluhnappar, hnappamót og aðrir hlutar til þeirra vara; hnappaefni (button blanks)“. Undir vöruliðinn 9607 falla „rennilásar og hlutar þeirra“.

Vara- og aukahlutir fyrir reiðhjól.
    Tollskrárnúmerin 4011.5000 og 4013.2000 eru í 40. kafla tollskrár sem ber heitið „gúmmí og vörur úr því“. Nánar tiltekið heyrir fyrrnefnda númerið undir vöruliðinn 4011 „nýir hjólbarðar, úr gúmmíi“ og undir það falla hjólbarðar fyrir reiðhjól. Síðarnefnda númerið fellur undir vöruliðinn „hjólbarðaslöngur, úr gúmmíi“.
    Tollskrárnúmerið 8306.1000 er í 83. kafla tollskrár sem ber heitið „Ýmsar vörur úr ódýrum málmi“. Undir vöruliðinn 8306 falla „bjöllur, bomböld (gongs) og þess háttar, ekki fyrir rafmagn, úr ódýrum málmi; myndastyttur og aðrir skrautmunir, úr ódýrum málmi; rammar fyrir ljósmyndir, málverk eða þess háttar, úr ódýrum málmi; speglar úr ódýrum málmi“. Undir tollskrárnúmerið 8306.1000 falla „bjöllur, bomböld og þess háttar“ og hafa t.d. bjöllur á reiðhjól flokkast undir það við innflutning. Í samhengi við áform um að lækka tolla á vara- og aukahluti fyrir reiðhjól er gert ráð fyrir því að tollskrárnúmerinu verði skipt upp í tvö númer með auglýsingu og undir annað þeirra, 8306.1010, falli bjöllur, bomböld og þess háttar fyrir reiðhjól.
    Tollskrárnúmerin 8714.9100–8714.9900 eru í 87. kafla tollskrár sem ber heitið „Ökutæki, þó ekki járnbrautar- eða sporbrautarvagnar, og hlutar og fylgihlutir til þeirra“. Undir vörulið 8714 falla hlutar og fylgihlutir bifhjóla, reiðhjóla og annarra hjóla og ökutækja fyrir fatlaða. Undir tollskrárnúmerin falla hlutar og fylgihlutir sem einkum tilheyra reiðhjólum, t.d. grindur og gafflar, gjarðir og teinar, hjólnafir, hemlar, hnakkar, fetlar og sveifargírar.

Bleiur.
    Tollskrárnúmerin 9619.0011 og 9619.0091 eru í vöruliðnum 9619 sem ber heitið „Dömubindi og tíðatappar, bleiur og bleiufóður fyrir börn og svipaðar vörur úr hvers konar efni“. Undir fyrrnefnda númerið falla svokallaðar einnota bleiur, þ.e. barnableiur og laust bleiufóður úr pappírsdeigi, pappír eða vatti. Undir hið síðarnefnda falla hins vegar margnota barnableiur og laust bleiufóður úr öðru en pappír eða vatti.
    Um nánari skýringu vísast til tollskrár í viðauka I við tollalög.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að tollur á vörum í tollskrárnúmerum sem heyra undir 25.–97. kafla í tollskrá í viðauka I við lögin verði 0% og 0 kr./kg. Með því er átt við að tollar á aðrar vörur en þær sem falla undir 1.–24. kafla tollskrár, þ.e. lifandi dýr, vörur úr jurtaríkinu, unnin matvæli, drykkjarvörur, áfengir vökvar og edik, tóbak og framleitt tóbakslíki o.fl. verði lækkaðir. Um nánari skýringu vísast til tollskrár í viðauka I við tollalög.

Um 11.–13. gr.

    Með greinunum er lagt til að fjárhæðir áfengisgjalda og tóbaksgjalda verði hækkaðar. Er hér annars vegar um að ræða 2,5% hækkun tóbaksgjalda vegna almennra verðlagsbreytinga 2016 og hins vegar hækkun áfengisgjalds í samræmi við það meginefni frumvarpsins að færa áfengi í 11% virðisaukaskattsþrepið á móti hækkun á áfengisgjaldinu sjálfu. Um frekari skýringar er vísað til kafla 3.4. og 3.6. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 14. gr.

    Með ákvæðinu er áfengi látið falla undir 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. núgildandi laga. Þannig fellur áfengi undir matvörur og aðrar vörur til manneldis eins og skilgreint er í viðaukanum við lögin. Verði frumvarpið að lögum mun áfengi vera í lægra þrepi virðisaukaskatts og því bera 11% virðisaukaskatt.

Um 15. gr.

    Lagt er til að gerð verði sú breyting á ákvæði 1. málsl. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt að orðin „og hópbifreiða“ verði felld brott. Með því er tryggt að þeim sem afla og reka hópbifreiðar verði heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem varða slíkan rekstur, m.a. að skilyrðum 1. mgr. 16. gr., sbr. 15. gr. laganna, uppfylltum. Um frekari skýringar vísast til kafla 3.7. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Lögð er til sú breyting á ákvæði 6. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt að þar verði kveðið á um að endurgreiða skuli rekstraraðilum hópbifreiða sem undanþegnir eru virðisaukaskatti skv. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna 19,35% af söluverði hópbifreiða sem þeir sannanlega selja úr landi. Þá verður einnig kveðið á um að ef hópbifreiðin hefur verið nýtt í blandaðri starfsemi og virðisaukaskattur af kaupverði hennar að hluta til verið færður til innskatts lækki endurgreiðslan sem því hlutfalli nemur. Um frekari skýringar vísast til kafla 3.7. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að úrskurðarvald vegna sérstakra endurgreiðslna á virðisaukaskatti sem ríkisskattstjóri ákvarðar, á grundvelli XIII. kafla laga um virðisaukaskatt og ákvæða til bráðabirgða við þau lög, verði fært frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til yfirskattanefndar. Í breytingunni felst m.a. að ákvarðanir um endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna nýbygginga eða endurbóta á íbúðarhúsnæði samkvæmt reglugerð nr. 449/1990, verða kæranlegar til yfirskattanefndar. Það sama á við um aðrar endurgreiðslur á virðisaukaskatti sem ríkisskattstjóri ákvarðar, svo sem endurgreiðslur til erlendra fyrirtækja samkvæmt reglugerð nr. 288/1995, endurgreiðslur á virðisaukaskatti til Landhelgisgæslu Íslands samkvæmt reglugerð nr. 868/2012 og endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna kaupa á varmadælum til upphitunar íbúðarhúsnæðis samkvæmt reglugerð nr. 850/2014. Samkvæmt úrskurðaframkvæmd hefur verið við það miðað að úrskurðir ríkisskattstjóra um endurgreiðslur á virðisaukaskatti til opinberra aðila séu kæranlegir til yfirskattanefndar.

Um 18. gr.

    Lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðis XXIV í lögum um virðisaukaskatt verði framlengdur um eitt ár. Í ákvæðinu er kveðið á um heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Um frekari skýringar er vísað til kafla 3.8. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Til samræmis við þær breytingar að færa áfengi í lægra þrep virðisaukaskatts eru gerðar breytingar á viðauka laganna þannig að tollskrárnúmer áfengis verði skráð í viðaukann undir nýjum bókstafslið hans, þ.e. h-lið.

Um 20. gr.

    Lagt er til að 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna verði felldur brott. Með því fellur brott ákvæði sem kveður á um þak á lækkun á vörugjaldi sem gjaldanda hlotnast samkvæmt undanþáguflokki 2. tölul. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Um nánari skýringu á ákvæðinu vísast til kafla 3.5. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 21. gr.

    Lagðar eru til tvær breytingar á 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þ.e. að 2. tölul. 2. mgr. og 4.–6. mgr. falli brott.
    Með brottfellingu 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna er lækkunarheimild á vörugjaldi sem gjaldanda hlotnast samkvæmt undanþáguflokki 2. tölul. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr., lögð af. Afleiðingin verður sú að ekki verður lengur heimilt að leggja vörugjald á bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum samkvæmt framangreindum undanþáguflokki heldur fer um álagninguna samkvæmt aðalflokki 1. mgr. 3. gr. laganna. Að sama skapi eru felld brott ákvæði sem kveða á um þau skilyrði sem bílaleigur þurfa að uppfylla til að hlotnast vörugjaldalækkunin. Um nánari skýringu vísast til kafla 3.5. í almennum athugasemdum frumvarpsins.
    Með brottfellingu 4.–6. mgr. 5. gr. eru felld brott ákvæði er varða skyldu bílaleiga til að standa skil á leyfisgjöldum til að njóta lækkaðra vörugjalda. Þar sem lækkunarheimild 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. verður felld brott munu forsendur fyrir innheimtu leyfisgjaldsins ekki verða lengur til staðar og því er eðlilegt að ákvæði sem kveða á um greiðslu þess verði felld brott.

Um 22. og 23. gr.

    Lagt er til að almennt vörugjald af bensíni hækki um 0,64 kr. á hvern lítra, úr 24,96 kr. í 25,60 kr., og að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 1,00 kr. á hvern lítra, úr 40,30 kr. í 41,30 kr. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni hækki um 1,07 kr. á hvern lítra, úr 42,73 kr. í 43,80 kr. Hækkunin nemur 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga milli áranna 2015 og 2016.

Um 24. gr.

    Í nýju ákvæði til bráðabirgða verður kveðið á um heimild til lækkunar á vörugjaldi vegna bifreiða sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum á árinu 2016 með sambærilegum hætti og nú er gert í 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna. Að stofni til er efni ákvæðisins sótt til framangreindra ákvæða en til skýringarauka verður hér í framhaldinu gerð grein fyrir helstu breytingum sem lagðar eru til á efni og uppsetningu.
    Hinn 30. júní 2015 voru lög nr. 65/2015, um leigu skráningarskyldra ökutækja, samþykkt á Alþingi. Við gildistöku þeirra féllu úr gildi lög nr. 64/2000, um bílaleigur. Í lögum nr. 65/2015 er gerður greinarmunur á ökutækjaleigu og einkaleigu. Hugtakið ökutækjaleiga er skilgreint á þann hátt að undir það falli starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem almenningi eða fyrirtækjum er boðið til leigu skráningarskylt ökutæki án ökumanns, að jafnaði til skemmri tíma. Undir einkaleigu fellur hins vegar starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem einstaklingum er gert kleift að bjóða til leigu, að jafnaði um skemmri tíma, skráningarskylt ökutæki í persónulegri eigu með milligöngu leigumiðlunar. Augljóst er að staða þeirra sem reka ökutækjaleigu er önnur en þeirra sem reka einkaleigu að því leyti, m.a. að ökutæki til útleigu eru ekki í eigu einkaleigu og hún ber ekki áhættu af öflun þeirra ökutækja sem hún leigir út. Lækkunarheimild 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, hefur hingað til verið ætlað að koma til móts við atvinnustarfsemi sem snýr að útleigu ökutækja m.a. í ljósi þeirrar fjárfestingar sem ráðast þarf í til að mögulegt sé að halda starfseminni gangandi. Með breyttri hugtakanotkun er í frumvarpinu tekinn af allur vafi um að það eru aðeins ökutækjaleigur sem notið geta lækkunar vörugjalda en ekki einkaleigur í skilningi laga nr. 65/2015. Af þeim sökum er lagt til að orðinu „bílaleiga“ verði skipt úr fyrir orðið „ökutækjaleiga“ í nýju ákvæði til bráðabirgða í lögunum.
    Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, er kveðið á um að lækkun vörugjalds skv. 2. tölul. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, sé háð því að skilyrði að næstu 15 mánuði eftir nýskráningu bifreiðar verði nýtingu hennar og starfsemi bílaleigu hagað á tiltekinn hátt, m.a. þannig að bifreið sé skráð sem bílaleigubifreið og tryggð sem slík. Lagt er til að kveðið verði á um framangreint tímabil í bráðabirgðaákvæðinu og það verði lengt úr 15 mánuðum í tvö ár. Í því felst samræming, tímabilið verður hið sama í öllum undanþáguflokkum 5. gr. laganna, þ.e. hvað varðar leigubifreiðar, bifreiðar ætlaðar til ökutækjaleigu, bifreiðar til ökukennslu og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga. Með lengingu tímabilsins er komið til móts við ábendingar þess efnis að samspil lækkunar vörugjalda á bifreiðar sem ætlaðar eru til ökutækjaleigu og skammur eignarhaldstími sem skilyrði fyrir því að njóta lækkunar kunni að skapa óæskilega hvata og skekkja samkeppni.
    Í 2. málsl. 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna er kveðið á um að bifreið sem ber lægra vörugjald samkvæmt lækkunarheimild 2. tölul. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, skuli skráð á bílaleigu sem hefur leyfi þess ráðuneytis sem fer með málefni bílaleiga til að leigja bifreiðar eða á fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við bílaleigu. Í 3. gr. laga nr. 65/2015, um leigu skráningarskyldra ökutækja, er kveðið á um að sá sem hyggst reka ökutækjaleigu skuli hafa til þess starfsleyfi frá Samgöngustofu. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 65/2015 að ökutækjaleiga verði að vera skráður eigandi skráningarskylds ökutækis eða skráður fyrsti umráðamaður samkvæmt samningi við löggilt lánafyrirtæki. Lagt er til að orðalag bráðabirgðaákvæðisins verði samræmt orðalagi ákvæðis 1. mgr. 3. gr. laga nr. 65/2015 og kveðið verði á um það í a-lið 1. mgr. ákvæðisins að lækkun vörugjalds verði háð því skilyrði að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði bifreiðin skráð á ökutækjaleigu sem hefur leyfi frá Samgöngustofu til reksturs ökutækjaleigu.
    Í 2. málsl. 1. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, er kveðið á um að lækkun vörugjalds skv. 2. tölul. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, sé m.a. háð því að bílaleiga hagi starfsemi sinni að öllu leyti í samræmi við ákvæði laga um bílaleigur. Þá er í 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar kveðið á um að bifreið sem ætluð er til bílaleigu skuli skráð sem bílaleigubifreið og tryggð sem slík. Til áréttingar og í samræmingarskyni er lagt til að í b-lið 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins verði kveðið á um að lækkun vörugjalds verði m.a. háð því skilyrði að ökutækjaleiga skuli haga starfsemi sinni að öllu leyti í samræmi við ákvæði laga nr. 65/2015, um leigu skráningarskyldra ökutækja. Í því felst m.a. að ökutæki til útleigu þurfa að vera skráð sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleigu hjá Samgöngustofu, vera í eigu ökutækjaleigu eða umráðum samkvæmt samningi við löggilt lánafyrirtæki, hafa fengið lögbundna aðalskoðun og þau séu tryggð lögbundinni ábyrgðartryggingu eins og kveðið er á um í 6. gr. laga nr. 65/2015.
    Í 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, er kveðið á um hámarkstímalengd útleigu bifreiða sem njóta lækkunar vörugjalda og lengd leigusamninga. Ástæða þessa er að nauðsynlegt og eðlilegt hefur þótt að girða fyrir að heimild til lækkunar vörugjalda vegna bifreiða sem ætlaðar eru til útleigu ökutækjaleigu verði misnotuð, bifreiðar aflað af ökutækjaleigu og hún leigð út um svo langa hríð að jafna mætti til hefðbundinna umráða. Lagt er til að ákvæði reglugerðarinnar verði tekið upp í lögin og í d-lið 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins verði kveðið á um að bifreið sem ber lægra vörugjald samkvæmt lækkunarheimild 1. mgr. ákvæðisins, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, skuli að jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka, svo sem vegna ferðalaga eða tímabundins afnotamissis eigin bifreiðar. Þá verði einnig kveðið á um að ökutækjaleigu sé óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili, hvort heldur sem um sömu bifreið er að ræða eða aðra bifreið. Þó er lagt til að heimilt verði að víkja frá framangreindum ákvæðum í þeim tilvikum (a) þegar leigutaki er vátryggingafélag sem hefur starfsleyfi hér á landi og bifreið er tekin á leigu vegna tímabundins afnotamissis vátryggingataka af eigin bifreið og (b) þegar leigutaki er lögaðili og bifreið er tekin á leigu vegna ferðalaga starfsmanna hans.
    Með brottfellingu 4.–6. mgr. 5. gr. laganna eru felld brott ákvæði er varða skyldu bílaleiga til að standa skil á leyfisgjöldum til að njóta lækkaðra vörugjalda. Um nánari skýringar vísast til kafla 3.5. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 25. og 26. gr.

    Með greininni er gerð tillaga um hækkun á olíugjaldi um 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga milli áranna 2015 og 2016, úr 56 kr. á hvern lítra í 57,40 kr., og sama gildir um fjárhæðir almenns kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds.

Um 27. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um það hvernig kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri ef ekki er komið með ökutæki til álestrar innan álestrartímabila.

Um 28. gr.

    Lagt er til að fjárhæð kolefnisgjalds af eldsneyti hækki um 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga á milli áranna 2015 og 2016.

Um 29. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að bifreiðagjald hækki um 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga á milli áranna 2015 og 2016.

Um 30. gr.

    Lögð er til framlenging á ákvæði laga um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2016. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014 og 2015. Um frekari skýringar vísast til kafla 3.13. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 31. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að nafnabreyting á eiganda fasteignar eða skips yfir 5 brúttótonnum í opinberum skrám, svo sem þinglýsingabókum, í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar, þ.m.t. samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, teljist ekki vera eignaryfirfærsla í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. stimpilgjaldslaga þannig að slík nafnabreyting verði ekki gjaldskyld samkvæmt lögunum.
    Ákvæðið á meðal annars við þegar einkahlutafélagi eða hlutafélagi er slitið án skuldaskila þannig að það er algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi eða hlutafélagi þar sem annað félag tekur við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum hins yfirtekna félags (samruni með yfirtöku) og þegar tvö eða fleiri hlutafélög renna saman í nýtt félag (samruni með stofnun nýs félags) á grundvelli XIV. eða XIV. kafla A hlutafélagalaga eða XIV. kafla einkahlutafélagalaga. Margvíslegar ástæður geta legið að baki ákvörðun um samruna eða skiptingu félaga, svo sem áætlun um vöxt félags, ávinningur af samlegðaráhrifum breytingar í rekstri eða fjármálatengd atriði.
    Ákvæði frumvarpsins á ekki við þegar tilfærsla eigna verður milli félaga innan félagasamstæðna. Slíkar tilfærslur eigna teljast vera eignayfirfærslur í skilningi 1. mgr. 3. gr. stimpilgjaldslaga.

Um 32. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að 8. mgr. 5. gr. laga um stimpilgjald verði felld brott. Núgildandi ákvæði kveður á um að með íbúðarhúsnæði í 3.–7. mgr. 5. gr. sé eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota. Samkvæmt frumvarpinu er þannig lagt til að fellt verði brott það skilyrði fyrir afslætti á stimpilgjaldi að hin keypta fasteign sé einungis ætluð til eigin nota af kaupanda. Verði frumvarpið að lögum ættu ágreiningsmál um það hvað teljist „eigin not“ kaupanda að verða úr sögunni.

Um 33.–37. gr.

    Samkvæmt ákvæðunum er úrskurðarvald í ágreiningsmálum um stimpilgjald fært frá ráðuneytinu og til yfirskattanefndar. Í því skyni eru lagðar til breytingar á lögum um stimpilgjald sem og lögum um yfirskattanefnd. Ákvæðin eru liður í breyttu hlutverki yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 123/2014, um breytingu á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, og fleiri lögum. Lagt er til að núgildandi ákvæði í 2. og 3. mgr. 11. gr. laga um stimpilgjald falli brott þar sem hliðstæð ákvæði eru í lögum um yfirskattanefnd. Í samræmi við orðalag í lögum um stimpilgjald og fleiri lögum, sem mæla fyrir um kæruheimild til yfirskattanefndar, þykir eðlilegra að hugtakið „ákvörðun“ sé notað um þá stjórnvaldsákvörðun, sem skotið er til nefndarinnar, í stað hugtaksins „úrskurður“, hvort sem hið síðarnefnda orð er notað í viðkomandi skattalögum eða ekki. Er þessi breyting í samræmi við orðanotkun samkvæmt breytingum á lögum um yfirskattanefnd sem gerðar voru með lögum nr. 123/2014. Jafnframt er lagt til að kærufrestur til yfirskattanefndar miðist við dagsetningu kæranlegrar ákvörðunar í stað póstlagningar hennar. Er þá einkum haft í huga að ekki eru allar slíkar ákvarðanir póstlagðar til málsaðila í venjulegum skilningi þess orðs, og er m.a. heimilt að senda kæruúrskurði ríkisskattstjóra rafrænt til aðila. Tekið skal fram að í úrskurðaframkvæmd hefur verið gengið út frá því að úrskurður (ákvörðun) sé póstlagður þann dag sem hann er dagsettur. Komi í ljós frávik frá því er unnt að taka tillit til áhrifa þess á kærufrest í samræmi við almennar stjórnsýslureglur.

Um 38. gr.

    Lagt er til að við vísanir í ákvæðinu til 1.–9. og 11. tölul. 1. mgr. 5. gr. verði bætt tilvísun til 12. tölul. 1. mgr. sömu greinar. Um er að ræða leiðréttingu sem á rætur sínar að rekja til breytinga sem gerðar voru á frumvarpi því sem varð að lögum nr. 150/2010, um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, sem fram komu við 2. umræðu um frumvarpið. Með breytingunni var 12. tölul. bætt í 5. gr. sem varðar sérstakt álagningarhlutfall á Lánasjóð sveitarfélaga sem áður hafði flokkast með lánastofnunum.

Um 39. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir hækkun gildandi álagningarhlutfalla viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, Lánasjóðs sveitarfélaga, Íbúðalánasjóðs, vátryggingafélaga, vátryggingamiðlana, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, verðbréfamiðstöðva og kauphalla. Lögð er til lækkun á gildandi álagningarhlutfalli lífeyrissjóða og að álagningarhlutfall rekstrarfélaga verðbréfasjóða og fagfjárfestasjóða haldist óbreytt. Þá er lögð til hækkun á lágmarksgjaldi viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, vátryggingafélaga, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, rekstrarfélaga verðbréfasjóða, verðbréfamiðstöðva, kauphalla, Íbúðalánasjóðs og Lánasjóðs sveitarfélaga. Þá er lögð til hækkun á fastagjöldum lífeyrissjóða sem miðar að því að hlutur fastagjaldanna í heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóði haldist óbreyttur. Miðað er við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2016, sem gerir ráð fyrir að kostnaður við rekstur stofnunarinnar nemi 2.051 m.kr. á árinu. Í samræmi við 3. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er jafnframt tekið mið af áætluðum rekstrarafgangi stofnunarinnar í árslok 2015 að frádregnum varasjóði að fjárhæð 85,5 m.kr. Innheimtunni er samkvæmt því ætlað að skila tekjum sem svara til um 1.711 m.kr.
    Lagt er til að 3. mgr. 5. gr. laganna verði felld brott en hún kveður á um álagningu 1.600.000 kr. fastagjalds á erlenda vörsluaðila séreignarsparnaðar. Í ljósi reynslunnar af umfangi eftirlits með þessum aðilum og laga- og reglubreytinga sem átt hafa sér stað undanfarið, og varða m.a. starfsemi þeirra, er lagt til að hætt verði að innheimta sérstakt eftirlitsgjald af erlendum vörsluaðilum séreignarsparnaðar hér á landi.

Um 40. gr.

    Lögð er til breyting á því hlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, sem miðað er við þegar gjald sem ætlað er að standa undir kostnaði vegna reksturs umboðsmanns skuldara er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Um frekari skýringar vísast til kafla 3.15. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 41. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað um 3%, og nemi 10.464 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015.

Um 42. og 43. gr.

    Lögð er til framlenging á gildistíma ákvæðis til bráðabirgða VII þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóður aldraðra hafi tímabundna heimild til að kosta rekstur hjúkrunarrýma aldraðra.
    Þá er gert ráð fyrir að við lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að á tímabilinu frá 1. janúar 2016 til og með 31. desember 2016 sé unnt að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin geri samanburð á útreikningi á kostnaðarþátttöku vistmanna fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Með lögum nr. 166/2006 var dregið úr tengingum við tekjur maka vistmanna og þær síðar afnumdar með lögum nr. 120/2009. Sýni samanburðurinn aukna kostnaðarþátttöku vistmanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta vistunarframlag vegna ársins 2016 til samræmis við það. Sú niðurstaða sem er hagstæðari fyrir vistmanninn verður því ætíð valin við útreikning á kostnaðarþátttöku hans og útreikning vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er um framlengingu á sams konar ákvæði að ræða. Gildandi ákvæði um heimild til samanburðar á útreikningi á kostnaðarþátttöku vistmanna samkvæmt eldri og yngri lögum, sbr. ákvæði til bráðabirgða IX, rennur út 31. desember 2015.

Um 44. gr.

    Lögð er til framlenging á 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða út árið 2016 en að öðrum kosti hefði það runnið sitt skeið í lok árs 2015. Ákvæðið kveður á um það að þrátt fyrir ákvæði laganna skuli örorkulífeyrisþegi hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Um frekari skýringar vísast til kafla 3.18. í almennum athugasemdum frumvarpsins.
    Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir framlengingu bráðabirgðaákvæðis er kveður á um það að við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum á tímabilinu 1. janúar 2015 til og með 31. desember 2015 skuli gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2015 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2014 auk 3,6% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna fyrir lífeyrisþega skal beitt. Þá er lagt til að í stað 3,6% hækkunar komi 6,7% hækkun.

Um 45. gr.

    Í greininni er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2016 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 72,7 m.kr. og að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs lækki um 0,6 m.kr. á árinu 2016.

Um 46. gr.

    Í greininni er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 824 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 898 kr. fyrir árið 2016.

Um 47. gr.

    Lagt er til að þrátt fyrir ákvæði laganna skuli framlag ríkissjóðs nema 149 m.kr. Í fjárlögum 2014 var gerð 9 m.kr. hagræðingarkrafa til sjóðsins og í fjárlögum 2015 var krafan aukin um 4 m.kr. Í samræmi við það er gert ráð fyrir því að hlutdeild Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í tekjum af gistináttaskatti á árinu 2016 skerðist um 13 m.kr.

Um 48. gr.

    Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar skv. 4. mgr. 14. gr. verði breytt til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Gert er ráð fyrir að breytingin muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Um nánari skýringar vísast til kafla 3.22. í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 49. gr.

    Í c-lið 1. gr. laga nr. 124/2014 er kveðið á um að almenningssamgöngur, þ.e. fastar ferðir á ákveðinni leið innan lands samkvæmt fyrir fram birtri áætlun, jafnt á landi, í lofti og á legi, verði undanþegnar virðisaukaskatti frá og með 1. janúar 2016. Samkvæmt ákvæði 2. málsl. c-liðar 1. gr. laganna nær undanþágan einnig til skipulagðrar ferðaþjónustu fatlaðs fólks og skipulagðs flutnings skólabarna. Lagt er til að sú breyting verði gerð á ákvæði framangreinds 2. málsl. c-liðar 1. gr. laganna að sú undanþága sem þar er kveðið á um verði einnig látin ná til skipulagðrar ferðaþjónustu aldraðra, þ.e. ferðaþjónustu sem er veitt á grundvelli ákvæða laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Um 50. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal I.


Skilagrein starfshóps um endurskoðun tollskrár.


www.fjarmalaraduneyti.is/media/frettir/Skilagrein-starfshops-um-endurskodun-tollskrar.pdfFylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps
til fjárlaga fyrir árið 2016.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum, sem snúa að tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs, í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2016. Eins og sjá má í eftirfarandi tveimur töflum er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs muni versna um 8,1 mia.kr., frá því sem annars hefði orðið, verði frumvarp þetta að lögum. Annars vegar er um að ræða 7,5 mia.kr. verri afkomu vegna tekjuáhrifa af ýmsum skatta- og tollabreytingum og hins vegar 0,6 mia.kr. vegna ýmissa annarra breytinga er snúa að gjaldahlið frumvarpsins. Þegar þessar ráðstafanir verða komnar að fullu til framkvæmda á árinu 2017 er áætlað að áhrifin verði liðlega tvöfalt meiri þannig að afkoman verði tæplega 15 mia.kr. lakari en að óbreyttu. Það skýrist af því að áformað er að innleiða sumar skattkerfisbreytingarnar á tveimur árum. Tekið skal fram að hér er átt við bein skammtímaáhrif á viðkomandi tekjustofna en ekki heildaráhrif til lengri tíma litið að teknu tilliti til efnahagslegra víxlverkana, t.d. tekjuáhrif af auknum ráðstöfunartekjum heimila, en til þess þyrfti að fara fram mun flóknara mat í þjóðhagsspá. Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir þessum fjárhagsáhrifum frumvarpsins en í greinargerð þess er að finna ítarlegri útlistun á tillögum og markmiðum frumvarpsins.

Tafla 1 - Ýmsar skatta- og tollabreytingar vegna tekjuhliðar (m.kr.) 2016 2017
Tekjuskattur einstaklinga, kerfisbreyting. -5.500 -11.000
Tollar, niðurfelling á tilteknum flokkum. -2.500 -5.700
Virðisaukaskattur og áfengisgjald. -300 -300
Vörugjald á bílaleigubifreiðar. 600 2.500
Fjármagnstekjuskattur, leigutekjur. 0 -400
Hækkun á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins 2016 (2,5%). 900
Tímabundin 0,04% lækkun á lægsta þrepi tekjuskatts, og sama hækkun á hámarksútsvari, framlengd um eitt ár. -500
Undanþága frá vsk. við innflutning eða sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða framlengd um eitt ár. -200
Stimpilgjald, undanþága við nafnabreytingar í tilteknum tilvikum. -10
Virðisaukaskattsskylda fólksflutninga. 0,0  
Samtals -7.510 -14.900
     1.      Gert er ráð fyrir að skattþrepum í tekjuskatti einstaklinga verði fækkað úr þremur í tvö á tveimur árum ásamt því sem tekjumörkum verði breytt. Við það mun skattbyrðin minnka og ráðstöfunartekjur einstaklinga hækka. Í fyrri áfanganum sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2016 verður skatthlutfallið í þrepi 1 lækkað úr 22,86% í 22,68%, eða um 0,18 prósentustig. Skattþrep 2 lækkar um 1,4 prósentustig, úr 25,3% í 23,9%. Í seinni áfanganum, sem mun koma til framkvæmda 2017, lækkar skatthlutfallið í þrepi 1 í 22,50% en skattþrep 2 fellur út. Skattþrep 3, sem með seinni áfanganum verður efra þrepið af tveimur, verður óbreytt frá því sem nú er í 31,8%. Á árinu 2016 verða efri þrepamörkin lækkuð úr um 836 þús.kr. í 770 þús.kr. á mánuði. Á árinu 2017 verða þrepamörkin aðeins ein, 700 þús.kr. á mánuði. Þannig ákvarðaðar fjárhæðir þrepamarka munu breytast í takt við launavísitölu í árslok í samræmi við ákvæði tekjuskattslaganna. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs vegna þessara áforma muni lækka um 5,5 mia.kr. á ári eða allt að 11 mia.kr. þegar breytingin er að fullu komin til framkvæmda.
     2.      Lagt er til að tollar verði felldir niður af öðrum vöruflokkum en landbúnaðarafurðum og tilteknum matvælum í tveimur skrefum, í ársbyrjun 2016 og 2017. Fyrra skrefið mun ná til fatnaðar og skófatnaðar og síðara skrefið til annarrar vöru. Lækkun tolla mun hafa áhrif á þær skatttekjur ríkissjóðs auk lækkaðra virðisaukaskattstekna. Áætlað er að tekjutap ríkissjóðs vegna lækkunar tolla verði 2,5 mia.kr. á árinu 2016 að meðtöldum virðisaukaskatti, en 5,7 mia.kr. þegar breytingin verður að fullu komin til framkvæmda á árinu 2017. Gera má ráð fyrir að með lækkun tolla verði tollflokkun og skattálagning og innheimta einfaldari viðfangs þó að á móti megi gera ráð fyrir að álag við endurskoðun og leiðréttingu tollskýrslna geti aukist tímabundið.
     3.      Gert er ráð fyrir að áfengi verði fært úr almennu þrepi virðisaukaskatts í neðra þrepið, þ.e. 11%, en um leið verði áfengisgjald hækkað á móti. Ekki er gert ráð fyrir því að tillagan leiði til mikilla breytinga á tekjum ríkissjóðs af áfengi. Til skamms tíma litið er áætlað að tekjuáhrifin í heild verði óveruleg en til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að tekjur af virðisaukaskatti af áfengi eigi að geta aukist.
     4.      Lagt er til að breytingar verði gerðar á álagningu vörugjalda á bílaleigubifreiðar sem komi til framkvæmda í tveimur áföngum, 1. janúar 2016 og 1. janúar 2017. Breytingin felur í sér afnám ívilnunar bílaleiga á vörugjaldi af ökutækjum. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs muni aukast um 0,6 mia.kr. á árinu 2016 og 1,9 mia.kr. á árinu 2017 eða alls 2,5 mia.kr. þegar ívilnunin er að fullu horfin.
     5.      Gert er ráð fyrir að frítekjumark fjármagnstekjuskatts af leigutekjum manns af íbúðarhúsnæði verði hækkað úr 30% í 50%. Þá er gert ráð fyrir að skattskyldur hluti tekna af útleigu íbúðarhúsnæðis, sem nú er 70%, lækki í 50%. Með þessu mun virk skattbyrði leigutekna lækka úr 14% í 10%. Áætlað er að tekjuáhrif þessarar breytingar verði neikvæð um 0,4 mia.kr. en áhrifin munu ekki koma fram fyrr en við álagningu 2017 þar sem leigutekjur eru skattskyldar með árs töf, þ.e. að jafnaði einu ári eftir að leigan hefur verið greidd.
     6.      Lagðar eru til 2,5% hækkanir á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi á tóbak í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins 2016 en þar er miðað við að þessi gjöld hækki ekki umfram verðbólgumarkmið Seðlabankas þótt spáð sé 3% verðbólgu yfir árið 2015. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 900 m.kr.
     7.      Gert er ráð fyrir að sú tímabundna hækkun hámarksútsvars sem gerð var til bráðabirgða með lögum nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, verði framlengd tímabundið um eitt ár. Með ákvæðinu var hámarksútsvar hækkað um 0,04 prósentustig, úr 14,48% í 14,52% á árinu 2014. Hækkunin var einnig framlengd fyrir árið 2015 með lögum nr. 125/2014, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Er breytingin í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um viðbótarfjármögnun á árinu 2014 í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðra á milli stjórnsýslustiganna. Að óbreyttum lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs hefðu aukist um 500 m.kr. Verði frumvarpið að lögum mun afkoma ríkissjóðs því versna um 500 m.kr. frá því sem ella hefði orðið.
     8.      Lagt verður til að tímabundin heimild til að fella niður virðisaukaskatt, eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða, verði framlengd um eitt ár. Áætlað er að afkoma ríkissjóðs muni versna um 200 m.kr. frá því sem ella hefði orðið.
     9.      Gert er ráð fyrir að skylda til greiðslu stimpilgjalds vegna samruna og skiptingar félaga verði felld niður en áætlað er að sú breyting leiði til 10 m.kr. verri afkomu fyrir ríkissjóð.
     10.      Lagðar eru til lagfæringar á lögum um virðisaukaskatt í beinum tengslum við nú þegar lögfestar breytingar um virðisaukaskattsskyldu fólksflutninga. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin eigi að hafa í för með sér teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Tafla 2 Ýmsar aðrar breytingar vegna gjaldahliðar (m.kr.) 2016
Tímabundin hækkun á vaxtabótum verði framlengd um eitt ár. -1.100
Fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar verði óbreytt. 1.000
Óbreytt framlag til starfsendurhæfingarsjóða. -750
Framlenging á núverandi bráðab.ákv. um víxlverkun tekjuskerðingar örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum. 556
Fjárhæðir barnabóta hækkaðar um 3%. 315
Hækkun sóknargjalda. 276
Nýtt bráðabirgðaákvæði til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist. 200
Skuldbinding ríkissjóðs gagnvart þjóðkirkjunni. 72
Hlutdeild Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í tekjum af gistináttaskatti skerðist um 13 m.kr. vegna hagræðingarkrafna fyrri ára. 13
Hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. 0
Breyting á eftirlitsgjaldi í samræmi við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins. 0
Lækkun á gjaldahlutfalli vegna umboðsmanns skuldara. 0
Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda. 0
Samtals 582
Samtals afkomuáhrif á ríkissjóð 2016 -8.092
Samtals afkomuáhrif á ríkissjóð 2017 -14.900

     11.      Lagt er til að tímabundin hækkun á vaxtabótum, sem að óbreyttu hefði fallið niður um næstu áramót, verði framlengd um eitt ár. Gert er ráð fyrir að ákvæðið komi til framkvæmda við ákvörðun á fyrirframgreiðslu vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 og munu reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins haldast óbreyttar milli áranna 2015 og 2016. Ef tímabundin hækkun á hámarksfjárhæðum vaxtabóta og lækkun á skerðingarmörkum vegna eigna hefði fallið niður að óbreyttum lögum mundu áhrifin á ríkissjóð fela í sér 1.100 m.kr. aukin útgjöld á árinu 2016. Verði frumvarpið að lögum mun afkoma ríkissjóðs því batna sem því nemur frá því sem annars hefði orðið.
     12.      Gert er ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2016. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 328.800 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Að óbreyttu ákvæði hefðu útgjöldin lækkað um 1 mia.kr. á árinu 2016. Verði frumvarpið að lögum mun afkoma ríkissjóðs því versna um 1 mia.kr. frá því sem ella hefði orðið.
     13.      Lögð er til framlenging á ákvæði laga um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2016. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014 og 2015. Þess í stað er gert ráð fyrir að sjóðirnir fái 650 m.kr. framlag úr ríkissjóði á árinu 2016, sbr. samkomulag þar um. Miðað við núgildandi tryggingagjaldsstofn mundi 0,13% hlutdeild fela í sér 1,4 mia.kr. framlag úr ríkissjóði á ári en með þessari breytingu er komið í veg fyrir að þau falli til á árinu 2016.
     14.      Gert er ráð fyrir að framlengja núverandi bráðabirgðaákvæði um víxlverkun tekjuskerðingar örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum. Ef ekki væri gripið til þess að framlengja ákvæðið er gert ráð fyrir að nettó mundu útgjöld ríkissjóðs lækka um 556 m.kr.
     15.      Gert er ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir barnabóta verði hækkaðar um 3% og komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 auk þess sem heimild til skuldajöfnunar barnabóta á móti opinberum gjöldum og vangreiddu meðlagi verði felld brott. Útgjöld vegna barnabóta munu aukast um 315 m.kr. vegna þessarar hækkunar frá því sem annars hefði orðið og ráðstöfunartekjur heimila aukast um sömu fjárhæð.
     16.      Gert er ráð fyrir að sóknargjöld sem ríkið greiðir fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri til safnaða og trúfélaga hækki úr 824 kr. á mánuði, samkvæmt gildandi lögum, í 898 kr. fyrir árið 2016. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, svonefnd sóknargjöld, breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í tengslum við fjárlög undanfarinna ára, með breytingu á lögum nr. 91/1987, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda í samræmi við áform innanríkisráðuneytisins um að draga til baka hluta af aðhaldskröfum til trúfélaga og safnaða í fjárlögum fyrri ára. Því til viðbótar er lagt til að breyting verði gerð á fjárhæð sóknargjalda í samræmi við almennar verðlagsforsendur frumvarpsins. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir samtals 3.137,3 m.kr. framlagi á fjárlagaliðum 06- 705 Kirkjumálasjóður, 06-735 Sóknargjöld og 06-736 Jöfnunarsjóður sókna að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins. Heildarhækkun sóknargjaldsins frá fjárlögum 2015 nemur þannig 275,8 m.kr. og skiptist á milli framangreindra fjárlagaliða samkvæmt gildandi lögum.
     17.      Lagt er til að í lög um málefni aldraðra verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Að óbreyttum lögum má áætla að útgjöld ríkissjóðs hefðu lækkað um 200 m.kr. vegna þessa. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt. Það leiðir til þess að áfram verður heimilt að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2016 eins og verið hefur undanfarin ár. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs því aukast um 200 m.kr. frá því sem annars hefði orðið vegna þessara ákvæða.
     18.      Samkvæmt lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, skal framlag ríkisins til kirkjunnar fara samkvæmt samkomulagi sem gert var milli þessara aðila árið 1997. Í frumvarpinu er lagt til að það framlag til þjóðkirkjunnar muni hækka um 72,7 m.kr. frá gildandi fjárlögum og verða 1.559,3 m.kr. á næsta ári að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs lækki um 0,6 m.kr. á árinu 2015 og verði 71,4 m.kr.
     19.      Gert er ráð fyrir að vegna þeirrar almennu aðhaldskröfu sem gerð var í fjárlögum 2014 og 2015 hækki framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um 13 m.kr. minna en ella hefði orðið. Í fjárlögum 2014 var gerð 9 m.kr. hagræðingarkrafa til sjóðsins og í fjárlagafrumvarpi 2015 er krafan aukin um 4 m.kr. Í samræmi við það er gert ráð fyrir því að hlutdeild Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í tekjum af gistináttaskatti á árinu 2015 skerðist um 13 m.kr. Í þessu sambandi er einnig litið til þess að áformað er að veita umtalsverð viðbótarframlög til framkvæmda við ferðamannastaði á árinu 2015 eins og á árinu 2014 vegna mikils og vaxandi álags ferðamanna.
     20.      Lögð er til 3% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við spá Hagstofu um verðbólgu milli áramóta árið á undan fjárlagaárinu. Þannig verður gjaldið 10.464 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði aukalega um 55 m.kr. en hins vegar er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu 2016 að veitt verði jafn mikil hækkun útgjaldaheimildar vegna verðlagsbreytinga þannig að áhrif af þessum ráðstöfunum á afkomu ríkissjóðs verði engin.
     21.      Vegna álagðra gjalda sem renna til reksturs Fjármálaeftirlitsins er lögð til hækkun gildandi álagningarhlutfalla viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, Lánasjóðs sveitarfélaga, Íbúðalánasjóðs, vátryggingafélaga, vátryggingamiðlana, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, verðbréfamiðstöðva og kauphalla. Lögð er til lækkun á gildandi álagningarhlutfalli lífeyrissjóða og að álagningarhlutfall rekstrarfélaga verðbréfasjóða og fagfjárfestasjóða haldist óbreytt. Þá er lögð til hækkun á lágmarksgjaldi viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, vátryggingafélaga, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, rekstrarfélaga verðbréfasjóða, verðbréfamiðstöðva, kauphalla, Íbúðalánasjóðs og Lánasjóðs sveitarfélaga. Þá er lögð til hækkun á fastagjöldum lífeyrissjóða sem miðar að því að hlutur fastagjaldanna í heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóði haldist óbreyttur. Miðað er við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2016, sem gerir ráð fyrir að kostnaður við rekstur stofnunarinnar nemi 2.051 m.kr. á árinu. Í samræmi við 3. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er jafnframt tekið mið af áætluðum rekstrarafgangi stofnunarinnar í árslok 2015 að frádregnum varasjóði að fjárhæð 85,5 m.kr. Innheimtunni er samkvæmt því ætlað að skila tekjum sem svara til um 1.711 m.kr. Tekjur af eftirlitsgjaldinu eru markaðar Fjármálaeftirlitinu og renna því til stofnunarinnar en gert er ráð fyrir að þær hækki um 73,7 m.kr. frá fjárlögum 2015. Verði frumvarpið að lögum mun þessi breyting því ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
     22.      Lögð er til breyting á því hlutfalli af álagningarstofni, samkvæmt ákvæðum laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, sem miðað er við þegar gjald sem ætlað er að standa undir kostnaði vegna reksturs umboðsmanns skuldara er lagt á gjaldskylda aðila. Lagt er til að hlutfallið af álagningarstofni lækki úr 0,0148% í 0,00491%. Er þá miðað við að fjárheimildir umboðsmanns skuldara vegna rekstrarársins 2016 verði samtals 157,2 m.kr. Það er til samræmis við rekstraráætlun stofnunarinnar sem gerir ráð fyrir að umfang hennar verði 396 m.kr. á næsta ári og að mismunurinn verði fjármagnaður af uppsöfnuðum höfuðstól frá fyrra ári. Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir að breytingin muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
     23.      Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar verði hækkuð úr 865 kr. í 1.043 kr. til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. ágúst árið áður. Gert er ráð fyrir að sú breyting muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Þær ráðstafanir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs versni að öllu samanlögðu um 8 mia.kr. frá því sem hefði orðið að óbreyttu. Þær eru í samræmi við forsendur sem settar hafa verið fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki í skattkerfinu við að koma þessum breytingum í framkvæmd verði ekki verulegur og eigi að rúmast innan fjárheimilda fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Raunar má ætla að talsverður rekstrarsparnaður eigi að geta komið fram í rekstri skattkerfisins þar sem ekki þurfi lengur að leggja á og innheimta tolla af margvíslegri vöru auk hagræðis af því að stór hluti vörugjalda var felldur niður á árinu 2015. Ekki liggur hins vegar fyrir sérstök úttekt á þessu hagræði fyrir ríkið.
Neðanmálsgrein: 1
    1 „Technical assistance report—Modernizing the Icelandic VAT“. Sjá á vefslóðinni www.imf.org/external/pubs/ft/scr/2014/cr14291.pdf
Neðanmálsgrein: 2
    2 „OECD Environmental Performance Reviews: Iceland 2014“. Sjá á vefslóðinni www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Iceland-manuscript-BAT.pdf
Neðanmálsgrein: 3
     1.     Tölur um fjölda bílaleigubifreiða fyrir árin 2006–2013 eru byggðar á upplýsingum sem komu fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur frá 143. löggjafarþingi (sjá þskj. 1196 í 570. máli). Þær tölur byggðust á gögnum frá Samgöngustofu sem höfðu verið leiðréttar í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar til þess að fá raunhæfa mynd af fjöldanum m.t.t. þess að ekki eru allir skráðir bílaleigubílar nýttir sem slíkir. Tölur fyrir árin 2014 og 2015 eru byggðar á upplýsingum frá Samgöngustofu um skráða bílaleigubíla í árslok 2014 og um mitt ár 2015 en þær hafa hins vegar ekki verið leiðréttar m.t.t. nýtingar. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar er fjöldi skráðra bílaleigubíla sem eru nýttir sem slíkir um mitt ár 2015 um 16.000 talsins.