Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 10  —  10. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um þjóðgarð á miðhálendinu.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir,
Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að undirbúa og hrinda í framkvæmd í samstarfi við hlutaðeigandi aðila stofnun þjóðgarðs sem taki yfir allt miðhálendi Íslands. Ráðherra leggi áætlun um þjóðgarðsstofnun og ráðstafanir sem gera þarf vegna verkefnisins fyrir Alþingi á haustþingi 2017 með það að markmiði að miðhálendisþjóðgarður verði stofnaður vorið 2018 þegar 90 ár verða liðin frá því að sett voru lög um friðun Þingvalla.

Greinargerð.

    Vorið 1928 samþykkti Alþingi lög nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, sem lýstu Þingvelli við Öxará friðlýstan helgistað allra Íslendinga frá og með upphafi þjóðhátíðarársins 1930. Voru með þessu mörkuð þau mikilvægu tímamót í sambúð lands og þjóðar að verndargildi landsvæðis í almannaeigu hlaut viðurkenningu löggjafans og gerðar voru ráðstafanir í samræmi við það sem miðuðu að því að varðveita þar menningarminjar og náttúrufar.
    Vissulega skipti hér miklu að um var að tefla hinn forna þingstað þjóðarinnar. Alþingi var stofnað á Þingvöllum og þingið háð við Öxará, í sérstæðu og mikilúðlegu umhverfi, frá stofnun þess á þjóðveldistíma allt fram til 1798 að þinghald þar lagðist af. Táknrænt gildi Þingvalla sem sögustaðar var því ótvírætt og náttúrufarið heillaði einnig enda sagði í niðurlagi greinargerðar með frumvarpi til laga um friðun Þingvalla (þskj. 23 á 40. löggjafarþingi) að takmark þjóðrækinna manna með friðlýsingu Þingvalla væri „að vernda sem best hina sögulegu helgistaði og náttúrufegurð Þingvallasveitar“. Þjóðrækni var þannig talin drifkraftur aðgerða til að varðveita menningu og náttúrufar hins merka staðar og þótt undirbúningur Alþingishátíðarinnar, sem haldin var á Þingvöllum árið 1930, væri meðal áhrifavaldanna sem urðu til þess að friðlýsingin komst í kring einmitt á þessum tíma, einkenndust áformin um hana einnig af langtímahugsun og vilja til að „vernda Þingvöll og hinar sögulegu minningar vegna óborinna kynslóða“ eins og segir í fyrrnefndri greinargerð.
    Ekki þótti vanþörf á að mati þeirra sem unnu að framgangi málsins. Sérstakur umsjónarmaður staðarins hafði raunar komið því til leiðar að minna var en áður um tómar öskjur, flöskur og annan úrgang eftir ferðamenn sem áður hafði gert Þingvallagestum gramt í geði, en ásýnd staðarins hafði beði hnekki með klunnalegum byggingum á óviðeigandi stöðum, vegalagningu af sama toga, ofbeit, jarðraski og hirðuleysislegri umgengni í hvívetna. Ekki þótti það bæta stöðuna að eins og lögum var háttað hefðu leiguliðar á Þingvöllum getað tekið sig saman um að virkja Öxarárfoss til heimilisnota fyrir sig ef þeim hefði boðið svo við að horfa. Má ætla að mörgum þyki ábendingar friðunarsinna árið 1928 kunnuglegar með skírskotun til umræðu um náttúruvernd, virkjanaframkvæmdir og áhrif ferðamannaiðnaðar á síðari tímum.
    Stofnun Þingvallaþjóðgarðs var fyrsti áfanginn í verndun tiltekinna svæða hér á landi fyrir mannvirkjagerð og öðru raski í því skyni að gera almenningi kleift að njóta þeirra óspilltra. Slíkar ráðstafanir fela það jafnan í sér að náttúrufar nýtur verndar þannig að mannvirkjagerð eru settar þröngar skorður og takmarkast að jafnaði við að þjóna því markmiði að almenningur eigi færi á að komast um verndarsvæðin og hafa þar viðdvöl.
    Næst var ráðist í stofnun þjóðgarðs árið 1967 er Skaftafellsþjóðgarður var stofnaður á grundvelli þágildandi náttúruverndarlaga, nr. 48/1956, og með tilstyrk alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna World Wildlife Fund (WWF). Þjóðgarður var og settur á stofn í Jökulsárgljúfrum á grundvelli sömu náttúruverndarlaga árið 1973 og árið 2001 var Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull stofnaður á grundvelli laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
    Allmikil umræða fór fram hérlendis um málefni miðhálendisins á 10. áratug síðustu aldar og stafaði m.a. af því að þá var unnið að svæðisskipulagi miðhálendisins sem lyktaði með staðfestingu þess árið 1999. Það var í þessu andrúmi vaxandi áhuga á miðhálendinu og aukins skilnings á náttúruverndarmálefnum sem Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur lagði fram á 122. löggjafarþingi tillögu til þingsályktunar um þjóðgarða á miðhálendinu (406. mál) þar sem lagt var til að stofnaðir yrðu fjórir þjóðgarðar á miðhálendinu umhverfis helstu jökla þess; Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul. Tillagan varð ekki útrædd á 122. þingi og endurflutti Hjörleifur hana óbreytta á 123. löggjafarþingi (16. mál) þar sem hún var samþykkt sem þingsályktunartillaga nr. 15/123, að því leyti breytt frá upphaflegu orðalagi að í stað fjögurra þjóðgarða var gert ráð fyrir stofnun eins – Vatnajökulsþjóðgarðs – og varð heiti þingsályktunarinnar til samræmis við það.
    Eftir áralangan undirbúning lagði Jónína Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, fram frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð á 133. löggjafarþingi (395. mál) sem varð að lögum nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð. Með þessari ráðstöfun varð til víðáttumesti þjóðgarður Íslands og runnu þjóðgarðarnir sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum inn í hinn nýstofnaða þjóðgarð.
    Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2008 var mikill og góður áfangi fyrir náttúruvernd fyrir margra hluta sakir. Þjóðgarðurinn tekur yfir Vatnajökul, stærsta jökul landsins, og næsta áhrifasvæði hans þar sem er að finna einstakt landslag, jarðmyndanir og lífríki sem nú njóta verndar. Þjóðgarðurinn er ríkisstofnun og er stefna hans mótuð af ráðherraskipaðri stjórn. Innan marka hans eru lendur í eigu hins opinbera og einkaaðila og nokkur sveitarfélög eru innan stjórnsýslu- og áhrifasvæðis hans. Ætti sú reynsla sem fengist hefur af starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs og beitingu stjórntækja hans til þess að rækja það meginhlutverk slíkra stofnana að vernda náttúruna og gera hana aðgengilega almenningi að nýtast vel til nýrra sókna á þessu sviði.
    Hofsjökulsþjóðgarður var meðal þeirra fjögurra þjóðgarða sem Hjörleifur Guttormsson lagði til að yrðu á miðhálendi Íslands, tengdir meginjöklum þar. Í þeim anda hefur á nokkrum þingum verið flutt þingsályktunartillaga um stofnun Hofsjökulsjóðgarðs, fyrst á 140. löggjafarþingi (106. mál) og aftur á 141. löggjafarþingi (522. mál) af Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og nokkrum þingmönnum öðrum. Þá fluttu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, með Katrínu Jakobsdóttur fremsta í flokki, tillöguna lítt breytta á 143. löggjafarþingi (169. mál) og því 144. (26. mál) án þess að hún næði fram að ganga.
    Í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu er lagt til að þjóðgarði verði komið á sem taki yfir allt miðhálendi Íslands, sem stundum er nefnt „hjarta landsins“. Þetta er gert í ljósi þess að skilningur á nauðsyn og gildi náttúruverndar fer sívaxandi og sökum þess að kröfunni um friðun miðhálendisins eykst fylgi ár frá ári á sama tíma og sótt er eftir því að svipta það sérkennum sínum, breyta ásýnd þess og eiginleikum og eyða því þar með sem einstöku fyrirbæri á heimsvísu.
    Árið 2011 fengu helstu náttúruverndarsamtök landsins fyrirtækið Capacent Gallup til að annast skoðanakönnun um viðhorf landsmanna til stofnunar þjóðgarðs á miðhálendinu. Í ljós kom að 56% svarenda reyndist hlynntur stofnun slíks þjóðgarðs. Önnur vísbending um mikinn stuðning almennings við verndun hálendisins er húsfyllir á hálendishátíð um það efni sem haldin var vorið 2015 í Háskólabíói í Reykjavík af ýmsum samtökum sem láta sig varða náttúruvernd og útivist.
    Hugmyndir og áætlanir um stórfellda mannvirkjagerð á miðhálendi Íslands ganga meðal annars út á vatnsaflsvirkjanir, lagningu raflína og gerð uppbyggðra vega. Allt er þetta til þess fallið að svipta þetta landsvæði, og þar með landið í heild, mikilsverðum sérkennum og eiginleikum sem erfitt eða ómögulegt er að endurheimta en hafa ómetanlegt gildi í sjálfum sér og búa auk þess yfir aðdráttarafli fyrir fjölda ferðamanna, innlendra og erlendra, sem nú gegna stóru hlutverki í hagkerfi landsins. Mikilvægt er að hindra að slíkt glapræði verði framið og ber okkur að halda í heiðri þá langtímahugsun og ræktarsemi við land og þjóð sem einkenndi ákvarðanatökuna á Alþingi árið 1928 þegar afráðið var að vinna gegn hnignun og niðurlægingu Þingvalla með stofnun þjóðgarðs þar, eða óskar þess nokkur að það skref hefði ekki verið stigið?