Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 16  —  16. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs.


Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Steinunn Þóra Árnadóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa sjö manna starfshóp sem í sitji fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis, fulltrúi velferðarráðuneytis, fulltrúi fjármálaráðuneytis, fulltrúi innanríkisráðuneytis, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúi Félags leikskólakennara og fulltrúi Vinnumálastofnunar, sem er vörsluaðili Fæðingarorlofssjóðs. Mennta- og menningarmálaráðherra tilnefni formann starfshópsins.
    Starfshópurinn geri tillögur um:
     a.      hvernig staðið skuli að lengingu fæðingarorlofs í 18 mánuði og fjármögnun þessa verkefnis,
     b.      afmörkun þess tímaskeiðs sem sveitarfélögum gefst til að byggja upp leikskóla sína þannig að þeir geti tekið við öllum ársgömlum börnum í gjaldfrjálsan leikskóla og fjármögnun þessa verkefnis,
     c.      nauðsynlegar lagabreytingar til að styrkja stöðu leikskólanna sem fyrsta skólastigsins í menntakerfi landsins, staðfesta skyldu sveitarfélaganna til að starfrækja leikskóla og gera leikskólunum skylt og kleift að taka við nemendum frá 12 mánaða aldri.
    Mennta- og menningarmálaráðherra leggi tillögur starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en 1. maí 2016.

Greinargerð.

    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að stuðla að því að sú skipan komist á hið fyrsta að leikskólastigið hljóti fulla viðurkenningu og skýra stöðu sem fyrsta skólastigið í íslenska menntakerfinu og samkvæmt því verði gerðar ráðstafanir til þess að öllum börnum frá 12 mánaða aldri gefist kostur á endurgjaldslausri leikskólavist. Með þessu er stuðlað að bættum hag barna hér á landi og lagður traustur grunnur að framtíð þeirra.
    Fyrsti leikskóladagurinn hefur markað upphaf skólagöngu barna hér á landi um áratugaskeið enda eru leikskólar menntastofnanir þar sem lögð er áhersla á nám og þroska og frá árinu 1994 hafa þeir talist fyrsta skólastigið lögum samkvæmt. Í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, er staða leikskólans sem fyrsta stigs skólakerfisins staðfest og gerðar hafa verið námsskrár sem marka námsbrautina á öllum skólastigum og er grunnur þeirra lagður með leikskólastarfinu. Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla samkvæmt leikskólalögum og móta stefnu um starfsemi þeirra, en ótvíræð skylda til að starfrækja leikskóla hvílir ekki enn á sveitarfélögunum. Lagt er til í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu að þessu verði breytt þannig að leikskólinn verði meðal þeirrar grunnþjónustu sem stendur hvarvetna til boða.
    Málefni leikskólanna, áhersla á mikilvægi þeirra og réttlætið sem í því felst að öll börn á leikskólaaldri eigi kost á leikskólavist án tillits til fjárhags forráðamanna þeirra hefur verið snar þáttur í baráttu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir betra samfélagi allt frá stofnun stjórnmálaflokksins enda er málefnið til þess fallið að bæta og treysta hag barna í menntunarlegu og félagslegu tilliti, létta fjárhagsbyrði efnaminni barnafjölskyldna, bæta hlutskipti yngsta hluta þjóðarinnar og stuðla að jafnrétti kynjanna. Það var í þessum anda sem þingmennVinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttu á 142. og 143. löggjafarþingi tillögu til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi sem samþykkt var á 143. löggjafarþingi sem þingsályktun nr. 5/143.
    Þingsályktun nr. 5/143 fól það í sér að skipaður var starfshópur er hafði það hlutverk að meta kosti þess að bjóða leikskólavist við lok fæðingarorlofs, þ.e. við 12 mánaða aldur eins og fæðingarorlofi var þá háttað og er enn. Starfshópurinn skilaði ágætri skýrslu sinni í maí 2015 og ber hún heitið Skýrsla starfshóps vegna þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi.
    Starfshópurinn færir mörg traust rök fyrir því að æskilegt sé að börn eigi kost á leikskólavist. Leikskólanám byggir undir góðan hag og velferð barnanna sem þess njóta og styður velferðar- og uppeldismarkmið samfélagsins eins og þeim er lýst í lögum um leikskóla, nr. 90/2008. Það varðar því hag hvers og eins barns hvort það á þess kost að verða leikskólanemi eða ekki og hag heildarinnar einnig þar sem talinn er ótvíræður þjóðhagslegur ávinningur af því að börn eigi kost á leikskólavist. Óhætt mun að fullyrða að allur þorri landsmanna sé sammála þessu sjónarmiði enda voru starfræktir 257 leikskólar í landinu árið 2013. Þeir höfðu innan sinna veggja tæplega 20 þúsund börn og er raunin sú að allur þorri barna í hverjum árgangi sem náð hefur tveggja ára aldri sækir leikskóla þar til grunnskólanám hefst. Segir þetta sitt um þörfina fyrir starfsemi leikskólanna og mat foreldra á gagnsemi þeirra fyrir börn.
    Af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið litið svo á að rétt væri að leikskólinn væri gjaldfrjáls og flutt var á 130. löggjafarþingi þingsályktunartillaga (þskj. 4, 4. mál) þess efnis. Hún hlaut ekki samþykki og eins og nú háttar til starfrækja sveitarfélög eða einkaaðilar leikskóla og greiða forráðamenn barna hlutdeildargjald fyrir dvöl þeirra þar, um 18% að meðaltali á landsvísu samkvæmt skýrslu starfshópsins. Rekstur leikskólanna hefur að sjálfsögðu kostnað í för með sér og veldur sveitarfélögunum útgjöldum, en miðað við þann ávinning sem fæst af þessari starfsemi í bráð og lengd er örðugt að ímynda sér nokkuð annað sem veitti betra og mikilvægara endurgjald en einmitt leikskólastarfið. Vissulega mun þurfa að gera ráðstafanir til að útvega aukið fé til reksturs leikskólanna þegar starfsvettvangur þeirra verður stækkaður þannig að ársgömlum börnum og eldri verði gefinn kostur á námi þar. Í þessari þingsályktunartillögu er enn fremur gengið út frá því að leikskóli framtíðarinnar verði gjaldfrjáls, enda felst í starfsemi leikskólanna mikilvæg grunnþjónusta sem á að standa öllum jafnt til boða. Fjármögnun leikskólastarfseminnar þarf að miðast við þetta og virðist liggja beint við að ríkissjóði verði ætlað hlutverk á þessum vettvangi við hlið sjóða sveitarfélaganna og nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að viðræður þessara aðila um málið fari fram og leiði til niðurstöðu.
    Ljóst er að leikskólakennarar eru nú of fáir hér á landi til að unnt sé að manna rekstur þessa skólastigs með sérmenntuðu starfsliði eins og kröfur eru gerðar um. Það hlýtur því að verða liður í uppbyggingu leikskólastigsins að bæta kjör leikskólakennara og hvetja ungt fólk til náms í leikskólakennarafræðum. Til þess gætu til dæmis gefist tækifæri í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Að mati tillöguflytjenda er mikilvægt að leikskólavist barns geti hafist þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur þannig að aldrei komi rof í umönnun og öryggi barnsins. Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði úr þeim níu mánuðum sem það varir nú, en dvöl barns á leikskóla geti þó hafist við 12 mánaða aldur. Með þessu móti gefst góður tími til aðlögunar barnsins að leikskólanum og uppbyggingar samskipta og samvinnu milli forráðamanna barnsins og starfsliðs leikskólans.
    Gjaldfrjáls leikskóli sem starfræktur er á faglegum grunni og stendur öllum börnum, ársgömlum og eldri, opinn er mikilvægur grunnþáttur í mennta- og félagskerfi landsins. Slík mennta- og uppeldisstofnun stuðlar að þroska og velferð barna og jafnrétti barna og fullorðinna með ýmsu móti. Því er mikilvægt að slíkum gjaldfrjálsum leikskólum verði komið á fót á vegum sveitarfélaganna fyrr en síðar. Þannig er stigið mikilvægt skref í þá átt að tryggja sterkari stöðu barnafjölskyldna á Íslandi óháð efnahag og búsetu.