Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 25  —  25. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum (andvanafæðing).

Flm.: Páll Valur Björnsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall,
Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Í stað orðanna „sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði“ í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig, auk þriggja mánaða sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

2. gr.

    Í stað orðanna „sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði“ í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig, auk þriggja mánaða sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi (413. mál) og er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Frumvarp þetta er lagt fram í því skyni að leggja rétt foreldra sem eiga andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu að jöfnu við rétt foreldra sem missa barn stuttu eftir fæðingu á meðan á fæðingarorlofi stendur. Gildandi lög gera greinarmun á rétti til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks í slíkum tilvikum sem nemur sex mánuðum. Engin sanngirnisrök liggja því til grundvallar.
    Allt frá gildistöku laga nr. 97/1980, um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, hafa íslensk lög mælt fyrir um rétt foreldra til fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar. Samkvæmt fyrsta ákvæðinu um fósturlát og andvanafæðingar og athugasemdum með því var það móðirin sem átti rétt á eins mánaðar fæðingarorlofi og var sá tími hugsaður fyrir konuna til að jafna sig eftir barnsburð. Við þróun ákvæða um fæðingarorlof vegna fósturláta og andvanafæðinga má greina aukna áherslu á hinn andlega þátt slíks áfalls. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi er varð að lögum um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof, nr. 51/1997, er vísað til þess að það taki konu langan tíma að jafna sig bæði líkamlega og andlega eftir andvanafæðingu. Með gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, var réttur vegna andvana barns gerður sameiginlegur til þriggja mánaða í samræmi við almennar breytingar í þá veru að báðir foreldrar hefðu sama rétt við fæðingu barns.
    Fæðing andvana barns er mikið áfall. Missir barns skömmu eftir fæðingu er einnig mikið áfall. Vart er hægt að halda því fram að munur á þessu tvennu sé þess eðlis að hann réttlæti hin ólíku réttindi samkvæmt gildandi lögum. Ef barn deyr í móðurkviði fyrir fæðingu fá foreldrarnir sameiginlega þriggja mánaða fæðingarorlof. Þeir foreldrar sem eignast lifandi barn en missa það skömmu síðar fá hins vegar fulla níu mánuði í samræmi við hina almennu meginreglu um lengd fæðingarorlofs. Í báðum tilvikum þurfa foreldrarnir að takast á við sambærilegt sorgarferli, til viðbótar því álagi sem fylgir fæðingu barns. Hið andlega bataferli er af sama meiði hvort sem barnið lést í móðurkviði eða stuttu eftir fæðingu.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks við andvana fæðingu barns verði sjálfstæður í allt að þrjá mánuði fyrir hvort um sig og sameiginlegur í þrjá mánuði að auki, samtals níu mánuðir. Þetta er í samræmi við tilhögun gildandi reglna við andlát barns skömmu eftir fæðingu sem byggist á hinum almennu réttindum um lengd og skiptingu fæðingarorlofs og fæðingarstyrks.