Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 28  —  28. mál.
Flutningsmenn. Viðbótartexti.




Frumvarp til laga



um leiðsögumenn ferðamanna.

Flm.: Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Bjarnason,
Haraldur Einarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þórunn Egilsdóttir,
Páll Jóhann Pálsson, Kristján L. Möller.


1. gr.
Leyfi.

    Rétt til að kalla sig leiðsögumann ferðamanna hefur sá einn sem til þess hefur leyfi Ferðamálastofu. Sama á við um erlend starfsheiti sömu merkingar.

2. gr.
Skilyrði leyfis.

    Leyfi skv. 1. gr. má aðeins veita:
     a.      þeim sem lokið hafa leiðsögunámi hérlendis sem uppfyllir kröfur námskrár um leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fer með fræðslumál,
     b.      þeim sem hafa haft leiðsögu ferðamanna hérlendis að aðalstarfi í samanlagt þrjú ár, enda sýni þeir með hæfnisprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi skv. a-lið,
     c.      þeim sem falla undir 2. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010.

3. gr.
Hæfnispróf.

    Ferðamálastofa ber ábyrgð á hæfnisprófi skv. 2. gr. Ferðamálastofa getur með samningi falið öðrum að sjá um hæfnispróf.

4. gr.
Þjónustugjöld.

    Heimilt er að taka gjald vegna kostnaðar við veitingu leyfis skv. 1. gr. og hæfnispróf skv. 2. gr.

5. gr.
Skrá yfir leyfi.

    Ferðamálastofa skal halda skrá yfir þá sem hafa fengið leyfi skv. 1. gr. og birta hana með aðgengilegum hætti.

6. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn lögum þessum varðar sektum. Tilraun eða hlutdeild í brotum gegn lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

7. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir 2. gr. má veita þeim leyfi skv. 1. gr. sem lokið hafa leiðsögunámi á framhalds- eða háskólastigi hérlendis sem ekki uppfyllir skilyrði a-liðar 2. gr., enda hafi þeir sótt um námið fyrir gildistöku laga þessara og sýnt með hæfnisprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi skv. a-lið 2. gr. Ákvæði 3. og 4. gr. eiga við um hæfnispróf samkvæmt þessu ákvæði.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 144. löggjafarþingi (642. mál). Með því er lagt til að starfsheitið leiðsögumaður ferðamanna verði lögverndað. Markmið þess er að tryggja að þeir sem beri það starfsheiti hafi ákveðna lágmarksþekkingu og -færni til að styðja við gæði ferðaþjónustu, öryggi ferðamanna og góða umgengni við náttúru landsins. Frumvarpið var unnið í samráði við Félag leiðsögumanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu felst að starfsheitið leiðsögumaður ferðamanna er lögverndað. Ákvæðið eitt og sér takmarkar ekki heimild annarra en leiðsögumanna ferðamanna til að veita ferðamönnum leiðsögu heldur aðeins til að nota það starfsheiti. Lögin geta þó greitt fyrir því að slíkur áskilnaður sé gerður á öðrum grunni. Til dæmis gætu ábyrg fyrirtæki í ferðaþjónustu áskilið að einstaklingur sem hefði starfsleyfi skv. 1. gr. laganna skyldi leiða allar ferðir á sínum vegum í óbyggðir eða á viðkvæm náttúruverndarsvæði og þannig stuðlað að öryggi ferðamanna og góðri umgengni við náttúru landsins.
    Til að taka af allan vafa er tekið fram í síðari málslið greinarinnar að ákvæðið taki til erlendra starfsheita sömu merkingar. Átt er við erlend samheiti leiðsögumanns ferðamanna. Þeim einum sem hefði leyfi skv. 1. gr. væri því t.d. heimilt að nota enska starfsheitið „tourist guide“ hérlendis.
    Ákvörðun Ferðamálastofu um veitingu leyfis er stjórnvaldsákvörðun. Um hana gilda því stjórnsýslulög, nr. 37/1993, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, þar á meðal 1. mgr. 26. gr. um kæruheimild til æðra stjórnvalds.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um skilyrði leyfis skv. 1. gr. Skilyrðunum er ætlað að tryggja að þeir einir fái leyfi til að kalla sig leiðsögumenn ferðamanna sem hafi tiltekna lágmarksþekkingu og -færni til að styðja við gæði ferðaþjónustu, öryggi ferðamanna og góða umgengni við náttúru landsins. Ráðgert er að sótt verði um leyfi til Ferðamálastofu sem meti hvort skilyrði 2. gr. séu uppfyllt.
    Gert er ráð fyrir því sem meginreglu að umsækjendur hafi lokið leiðsögunámi sem uppfyllir kröfur námskrár um leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fer með fræðslumál, sbr. a-lið greinarinnar. Núgildandi námskrá um efnið er námskrá menntamálaráðuneytisins fyrir leiðsögunám frá 2004. Ákvæðið tekur þó líka til náms sem uppfyllti á viðkomandi tíma kröfur eldri námskrár um leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fór með fræðslumál. Sama á við um námskrár sem síðar koma til.
    Í b-lið er heimild til að veita leyfi skv. 1. gr. á grundvelli tiltekinnar starfsreynslu, enda sýni umsækjandi með hæfnisprófi að hann búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að uppfylla skilyrði a-liðar. Með starfi við leiðsögu ferðamanna er átt við starf af því tagi sem leiðsögunámi skv. a-lið er ætlað að búa mann undir. Umsækjandi verður að hafa haft skattskyldar tekjur af leiðsögu, sbr. 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Leiðsaga án endurgjalds teldist því ekki til starfa við leiðsögu. Umsækjandi verður að hafa unnið við leiðsögu ferðamanna í meira en hálfu starfi til að teljast hafa haft hana að aðalstarfi. Ekki er gerð krafa um að störf við leiðsögu ferðamanna hafi verið samfelld, enda algengt að menn vinni aðeins hluta hvers árs við leiðsögu ferðamanna.
    Ákvæði c-liðar er ætlað að gæta samningsskuldbindinga Íslands, m.a. vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Að öðru leyti en leiðir af þessum lögum fer um leyfisveitingar skv. c-lið eftir ákvæðum laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, og stjórnvaldsfyrirmæla sem sækja stoð í þau lög.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu felst að það er á ábyrgð Ferðamálastofu að tryggja að þeim sem sækja um leyfi skv. 1. gr. á grundvelli b-liðar 2. gr. bjóðist að taka það hæfnispróf sem þar er mælt fyrir um. Sama á við um hæfnispróf fyrir þá sem sækja um leyfi skv. 1. gr. á grundvelli c-liðar 2. gr. þegar við á. Ferðamálastofu er heimilt að fela öðrum aðila að undirbúa og framkvæma hæfnispróf, en ber þá engu síður ábyrgð á því að forsvaranlega sé að málum staðið.
    Gert er ráð fyrir að hæfnisprófið taki mið af þeim kröfum sem gerðar eru í námskrá um leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fer með fræðslumál sem er í gildi hverju sinni. Eðlilegt er að Ferðamálastofa hafi samráð við það ráðuneyti sem fer með fræðslumál um efni prófsins. Hæfnispróf sem þeir sem falla undir c-lið 2. gr. gangast undir verður að taka mið af þeim reglum sem gilda um hæfnispróf samkvæmt lögum nr. 26/2010 og stjórnvaldsfyrirmælum sem sækja stoð í þau lög.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er heimild fyrir Ferðamálastofu til að innheimta þjónustugjöld vegna þess kostnaðar sem Ferðamálastofa hefur af veitingu leyfa skv. 1. gr. og undirbúningi og framkvæmd hæfnisprófa skv. 2. gr., að meðtaldri yfirferð á niðurstöðum prófa. Ferðamálastofu er heimilt að miða gjaldtöku við meðaltalskostnað við viðkomandi tegund leyfisveitinga eða hæfnispróf, að meðtöldum bæði föstum og breytilegum kostnaði.

Um 5. gr.

    Af ákvæðinu leiðir að unnt verður að nálgast með einföldum hætti áreiðanlegar upplýsingar um það hverjir hafi leyfi til að kalla sig leiðsögumenn ferðamanna. Telja má að það þjóni bæði hagsmunum þeirra sem hafa slíkt leyfi og þeirra sem eiga viðskipti við þá. Skrána má t.d. birta á vefsíðu Ferðamálastofu.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um viðurlög við brotum gegn lögunum, þar á meðal því að aðrir en þeir sem mega kalla sig leiðsögumenn ferðamanna geri það. Í því felast varnaðaráhrif sem talin eru nauðsynleg til að ná fram markmiði laganna. Alla jafna má þó gera ráð fyrir að sektir verði lágar séu brot ekki ítrekuð eða stórfelld. Almennt ætti því að vera unnt að ljúka slíkum málum án ákæru, sbr. XXIII. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
    Í síðari málslið greinarinnar er tekið af skarið um að unnt er að ákvarða refsingu fyrir tilraun og hlutdeild í brotum gegn 1. gr. til samræmis við ákvæði III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.

    Lagt er til að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017 svo að þeim sem lögin varða, þar á meðal aðilum sem bjóða leiðsögunám, gefist nægur tími til að búa sig undir þær breytingar sem af lögunum leiðir.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að lögin raski högum þeirra sem sótt hafa um nám í trausti fyrra réttarástands. Með leiðsögunámi í skilningi ákvæðisins er átt við nám sem lýtur fyrst og fremst að undirbúningi fyrir leiðsögu ferðamanna. Þótt ákvæðið áskilji ekki að námið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í námskrá fyrir leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fer með fræðslumál verður að gera ákveðnar lágmarkskröfur um að um skipulegt og heildstætt nám í leiðsögu ferðamanna hafi verið að ræða. Stakt námskeið í leiðsögu ferðamanna teldist því t.d. ekki leiðsögunám í þessum skilningi.