Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 29  —  29. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun á skilyrðum gjafsóknar.


Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Páll Jóhann Pálsson, Willum Þór Þórsson,
Þorsteinn Sæmundsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir,
Páll Valur Björnsson, Brynhildur Pétursdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að endurskoða tekjuviðmið sem eru skilyrði gjafsóknar. Ráðherra endurskoði þau tekjuviðmið samhliða vinnu við undirbúning á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 144. löggjafarþingi (668. mál).
    Fyrir liggur að innanríkisráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp um breytingu á ákvæðum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sem eiga við um gjafsókn. Almennar reglur þar að lútandi eru í XX. kafla laga um meðferð einkamála. Skv. 1. mgr. 126. gr. laganna verður gjafsókn aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og að annað tveggja eigi við: Að fjárhagur umsækjanda sé þannig að kostnaður af gæslu hagsmuna hans yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé eða að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Þannig er gjafsókn ætlað að aðstoða þá sem eru illa staddir fjárhagslega við að gæta réttinda sinna fyrir dómi eða þegar um verulega mikilvæga persónulega hagsmuni er að ræða. Ráðherra skipar þriggja manna nefnd til fjögurra ára í senn sem metur umsóknir um gjafsókn og ráðherra veitir gjafsókn þá og því aðeins að gjafsóknarnefnd mæli með því. Um nánari skilyrði gjafsóknar er fjallað í reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, nr. 45/2008. Gjafsókn má einnig veita á grundvelli lögbundinna gjafsóknarheimilda, t.d. á grundvelli 230. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og 60. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Gjafsókn skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, þ.e. þóknun lögmanns o.fl. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Þóknun lögmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls skal ákveðin með dómi eða úrskurði.
    Enn í dag, tæplega sjö árum eftir efnahagshrunið haustið 2008, er stór hópur einstaklinga sem situr uppi með gengistryggð lán með ólögmætri gengistryggingu sem stökkbreyttust í hruninu. Um er að ræða lánasamninga hjá fjármála- og fjármögnunarfyrirtækjum. Margir þessara einstaklinga hafa ekki fengið ólögmæt lán sín leiðrétt eins og eðlilegt væri þrátt fyrir að lán þar sem gengistrygging hefur verið byggð á sams konar skilmálum hafi verið dæmd ólögmæt í héraðsdómi og Hæstarétti. Eina leið þessara einstaklinga til að sækja rétt sinn til viðsemjenda sinna er því að höfða mál fyrir dómstólum þar sem ekki er vilji hjá fyrirtækjunum til að endurreikna þau lán sem eru með ólögmætri gengistryggingu. Það reynist mörgum erfitt a höfða mál fyrir dómi, um er að ræða flókið og langt ferli sem tekið getur á og verið kostnaðarsamt. Margir sækja ekki rétt sinn sökum þessa.
    Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, nr. 45/2008, skal miða við að einstaklingur hafi ekki hærri heildartekjur en 2 millj. kr. á ári við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda. Sé einstaklingur í sambúð eða í hjúskap ber að hafa hliðsjón af tekjum maka og skulu samanlagðar árstekjur þeirra ekki nema hærri fjárhæð en 3 millj. kr. á ári. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal höfð hliðsjón af samanlögðum tekjum foreldra. Hækka skal viðmiðunarmörk tekna um 250 þús. kr. fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þ.m.t. stjúp- og fósturbörn, sem búa hjá umsækjanda eða hann framfærir að mestum hluta.
    Tekjumörkin sem miðað er við eru því afar lág. Þau eru raunar svo lág að umsækjandi sem býr einn þarf að hafa tekjur undir lágmarkslaunum og sé hann í hjúskap og samanlagðar tekjur umsækjanda og maka undir 3 millj. kr. á ári, þá þurfa tekjur hvors um sig að vera töluvert langt undir lágmarkslaunum. Þá eru þessi tekjuviðmið langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins en samkvæmt þeim er framfærslukostnaður einstaklings sem býr einn ríflega 234 þús. kr. á mánuði án húsnæðiskostnaðar. Tekjuviðmiðum reglugerðarinnar var síðast breytt í desember 2010, með reglugerð nr. 1059/2010, þegar þau voru hækkuð í annars vegar 2 millj. kr. og hins vegar 3 millj. kr. í heildarlaun og má telja að það hafi einnig á þeim tíma verið mjög lág viðmið. Frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um rúm 15% en tekjuviðmið reglugerðarinnar staðið í stað. Að mati flutningsmanna er ljóst að taka þarf þessi viðmið til endurskoðunar ef gjafsókn á að vera raunhæft úrræði fyrir tekjulága einstaklinga.
    Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að einstaklingar geti allir sótt rétt sinn til dómstóla ef svo ber undir óháð efnahag og stöðu. Ljóst er að aðstöðumunur er mjög mikill milli einstaklinga og fjármálafyrirtækja og því brýnt nú, svo löngu eftir hrunið sem raun ber vitni, að eftirmál þess verði leyst á farsælan hátt og þannig að enginn þurfi að glata rétti sem hann kann að eiga vegna þess eins að viðkomandi er í bágri fjárhagsstöðu en ekki svo bágri þó að uppfylla skilyrði fyrir gjafsókn. Verði tekjuviðmiðum reglugerðarinnar ekki breytt er hætt við því að margir einstaklingar og fjölskyldur muni ekki geta sótt rétt sinn fyrir dómi og fái þannig ekki leiðréttingu á ólögmætum gengistryggðum lánum.
    Flutningsmenn telja brýnt að við endurskoðun á skilyrðum fyrir gjafsókn verði tekjuviðmiðið endurskoðað.