Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 43  —  43. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 41/1979, um landhelgi,
efnahagslögsögu og landgrunn (aðlægt belti).

Flm.: Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Vilhjálmur Árnason,
Frosti Sigurjónsson, Valgerður Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Á eftir I. kafla laganna kemur nýr kafli, I. kafli A, Aðlægt belti, með tveimur nýjum greinum, 2. gr. a og 2. gr. b, svohljóðandi:

    a. (2. gr. a.)
    Aðlægt belti er svæði utan landhelgi sem afmarkast af línu sem alls staðar er 24 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar.

    b. (2. gr. b.)
    Innan aðlægs beltis hefur Ísland heimild til að beita nauðsynlegu valdi til að:
     a.      afstýra brotum á lögum og reglum í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða heilbrigðismálum á landi eða innan landhelginnar,
     b.      refsa fyrir brot á framangreindum lögum og reglum sem framin eru á landi eða innan landhelginnar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 144. löggjafarþingi (110. mál) en náði ekki fram að ganga.
    Íslensk stjórnvöld hafa í gegnum árin verið óhrædd að taka af skarið og gera ýtrustu kröfur þegar kemur að samskiptum við önnur ríki um málefni hafsins. Stjórnvöld hafa þó ekki nýtt sér möguleika á að stækka lögsögu íslenska ríkisins í ákveðnum málaflokkum með því að taka upp svokallað aðlægt belti sem 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna heimilar.
    Ákvæðið um aðlægt belti var upphaflega í Genfarsamningnum frá 1958 þar sem ríkjum varð heimilað að þjóðarétti að taka upp aðlægt belti. Samkvæmt samningnum mátti aðlægt belti ná 12 sjómílna fjarlægð frá grunnlínu. Íslensk stjórnvöld fullgiltu aldrei Genfarsamninginn og Ísland lýsti aldrei yfir aðlægu belti á grundvelli hans. Í 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna er ákvæði sem ber yfirskriftina „aðlægt belti“ og er það talið endurspegla þjóðréttarlegar venjur um lögsögu strandríkja á aðlægu belti. Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að aðlæga beltið nái allt að 24 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar.
    Fram hafa komið þau sjónarmið að mikilvægi aðlægs beltis hafi minnkað með tilkomu ákvæða hafréttarsamningsins um efnahagslögsögu. Strandríkjum sé nú heimilað að taka sér allt að 200 sjómílna efnahagslögsögu og þá sé aðlæga beltið innan þeirrar lögsögu. Flutningsmenn telja að þrátt fyrir 200 mílna efnahagslögsögu hafi aðlæga beltið mikilvæga þýðingu þar sem réttindi sem fylgja efnahagslögsögunni taki ekki til þeirra málaflokka sem fylgja aðlæga beltinu. Þrátt fyrir að aðlæga beltið feli ekki í sér eiginlega stækkun á yfirráðasvæði ríkisins, þá mundi þannig fjölga þeim málaflokkum sem ríkið hefði forræði yfir á svæðinu sem það tekur til.
    Á aðlæga beltinu getur strandríki farið með nauðsynlegt vald annars vegar til að afstýra brotum á lögum og reglum í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða heilbrigðismálum á landi eða innan landhelgi þess og hins vegar til þess að refsa fyrir brot á fyrrgreindum lögum og reglum sem framin eru á landi eða innan landhelgi viðkomandi ríkis. Með aðlægu belti fengi Landhelgisgæslan því rýmri heimildir til eftirlits í þeim veigamiklu málaflokkum sem hér hafa verið nefndir.
    Með frumvarpinu er lögð til einföld breyting á lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, þess efnis að skilgreint verði svokallað aðlægt belti (e. contiguous zone) í skilningi 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Gert er ráð fyrir að nýjum kafla verði bætt inn í lög nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, þar sem aðlægt belti verður skilgreint og þau réttindi sem íslenska ríkið hefur á aðlæga beltinu tiltekin á sama hátt og gert er með landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn í I.–III. kafla laganna.