Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 51  —  51. mál.
Flutningsmaður.




Frumvarp til laga



um spilahallir.

Flm.: Willum Þór Þórsson, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir,
Haraldur Einarsson, Páll Jóhann Pálsson, Ásmundur Einar Daðason,
Brynjar Níelsson, Unnur Brá Konráðsdóttir,
Vilhjálmur Árnason, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Guðmundur Steingrímsson, Páll Valur Björnsson.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið og orðskýringar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra. Enn fremur er það markmið laga þessara að starfsemi spilahalla á Íslandi fari fram undir opinberu eftirliti og henni verði sett almenn lagaumgjörð. Þannig skal stuðlað að ábyrgri spilamennsku á Íslandi, allsherjarreglu haldið uppi og hamlað gegn skaðlegum áhrifum á almenning.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til starfsemi spilahalla sem rekin er í atvinnuskyni hér á landi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
     1.      Spilahöll: Samkomustaður þar sem heimilt er að reka spilastarfsemi í atvinnuskyni á grundvelli rekstrarleyfis samkvæmt lögum þessum og viðskiptavinum þar boðið að taka þátt í spilum þar sem lagðir eru undir peningar til sigurs og geta einstaklingar þannig unnið eða tapað peningum en niðurstaða spila ræðst nær eingöngu eða að mestu af tilviljun.
     2.      Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í félagi, þ.e. leyfishafa, sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.
     3.      Húsbaukur: Ílát sem tekur á móti og geymir allt það þjórfé sem viðskiptavinir láta af hendi til starfsmanna spilahalla.
     4.      Spilakassar: Handvirkir og/eða vélrænir spilakassar sem ekki eru samtengdir og hafa að geyma fjárhættuspil fyrir einstaklinga með þremur eða fleiri hjólum sem snúast þegar gripið er í handfang, þrýst er á hnapp eða þrýst á tiltekinn hluta snertiskjás. Vinningar grundvallast af röð tákna en úthlutun vinninga byggist á tilviljun.
     5.      Spilapeningar: Gjaldeyrir sem sérstaklega er útbúinn og vottaður til notkunar í spilahöll.

II. KAFLI
Rekstrarleyfi.
A. VEITING REKSTRARLEYFIS
4. gr.
Leyfisveitandi og leyfisskyld starfsemi.

    Óheimilt er að gera sér fjárhættuspil að atvinnu. Ráðherra getur þó á grundvelli laga þessara veitt leyfi fyrir ákveðnum rekstri sem byggist á fjárhættuspilum.
    Leyfishafa er heimilt að hefja starfsemi þegar hann hefur fengið úthlutað rekstrarleyfi. Á grundvelli rekstrarleyfis er leyfishafa heimilt að bjóða upp á rúllettuspil, teningaspil, spilaleiki, spilakassa og önnur sambærileg spil sem almennt eru boðin í alþjóðlegum spilahöllum.

5. gr.
Umsókn.

    Umsókn um leyfi til reksturs spilahallar skal berast ráðuneytinu skriflega og henni skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar og gögn:
     1.      upplýsingar um hvaða tegundir spila sótt er um leyfi fyrir,
     2.      upplýsingar um reynslu af rekstri spilahalla,
     3.      upplýsingar um fastanúmer og landnúmer þeirrar fasteignar þar sem fyrirhugað er að rekstur á grundvelli leyfis samkvæmt lögum þessum fari fram,
     4.      viðskipta- og rekstraráætlun sem er til þess fallin að varpa ljósi á fjárhagslega burði umsækjanda,
     5.      samþykktir umsækjanda,
     6.      upplýsingar um eigendur virkra eignarhluta í umsækjanda,
     7.      upplýsingar um stjórnarmenn umsækjanda,
     8.      upplýsingar um framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur umsækjanda, ef ráðið hefur verið í þær stöður,
     9.      staðfesting endurskoðanda á innborgun hlutafjár eða stofnfjár,
     10.      aðrar viðeigandi upplýsingar sem ráðherra óskar eftir.

6. gr.
Skilyrði leyfisveitingar.

    Til þess að öðlast rekstrarleyfi þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      vera hlutafélag eða einkahlutafélag,
     2.      hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu,
     3.      hafa tilkynnt atvinnurekstur til skráningar hjá ríkisskattstjóra og lögmæltar skráningar hjá stjórnvöldum skulu að öðru leyti vera í samræmi við stöðu umsækjanda við umsókn,
     4.      vera fær um að reka spilahöll á ábyrgan hátt, m.a. hafa fjárhagslega burði til þess að reka spilahöll og hafa yfir að ráða alþjóðlegri reynslu af rekstri spilahalla,
     5.      hafa yfir að ráða nægilegum fjölda ferðamanna þannig að rekstrargrundvöllur spilahallar sé tryggur,
     6.      hafa ekki verið sviptur leyfi til rekstrar gististaðar, veitingastaðar eða áfengisveitinga á síðustu fimm árum frá umsókn,
     7.      hafa ekki á síðustu fimm árum gerst sekur um háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög, lög um ávana- og fíkniefni, lög um hlutafélög, lög um einkahlutafélög, lög um bókhald, lög um ársreikninga, lög um tekjuskatt, lög um virðisaukaskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, lög um tryggingagjald né lög þessi sem og reglur settar samkvæmt tilgreindum lögum,
     8.      skulda ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr.
    Skilyrði 6., 7. og 8. tölul. 1. mgr. skulu einnig taka til aðila sem fara með virkan eignarhlut í umsækjanda.

7. gr.
Leyfistími og takmörkun ráðstöfunarheimildar.

    Rekstrarleyfi sem veitt er á grundvelli laga þessara skal veitt til 15 ára í senn og getur leyfishafi sótt um endurnýjun leyfis að þeim tíma loknum.
    Rekstrarleyfi er bundið við leyfishafa, þ.e. nafn hans og kennitölu, og er á engan hátt framseljanlegt. Þá er rekstrarleyfið jafnframt bundið við hina tilgreindu staðsetningu spilahallar.
    Ráðherra er heimilt að binda rekstrarleyfi því skilyrði að ráðuneytinu verði sett bankaábyrgð eða samsvarandi ábyrgð til tryggingar kröfum ríkisins á álögðum opinberum gjöldum ef ráðherra telur slíkt nauðsynlegt að teknu tilliti til niðurstöðu mats á fjárhagslegum burðum umsækjanda, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr.

8. gr.
Veiting rekstrarleyfis.

    Ákvörðun ráðherra um veitingu rekstrarleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Ráðherra skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi.
    Í rekstrarleyfi skal tilgreint hvaða rekstrarleyfisskyldu starfsemi heimilt er að stunda á grundvelli þess. Í rekstrarleyfi skal koma fram gildistími leyfis, sú starfsemi sem veitt er leyfi fyrir og þau skilyrði sem sett eru fyrir leyfi.

9. gr.
Synjun rekstrarleyfis.

    Fullnægi umsókn eða umsækjandi ekki skilyrðum laga þessara að mati ráðherra skal hann synja um rekstrarleyfi.
    Synjun ráðherra á umsókn skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan þriggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Synjun skal þó alltaf hafa borist umsækjanda tólf mánuðum frá móttöku umsóknar.

10. gr.
Tilkynningarskyldar breytingar er varða rekstrarleyfi og leyfishafa.

    Leyfishafi skal tilkynna ráðherra þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi. Kalli þær á breytingar á skilmálum gildandi rekstrarleyfis skal sótt um slíkar breytingar sérstaklega til ráðherra.
    Þrátt fyrir áskilnað 1. mgr. er leyfishafa heimilt að gera breytingar á framboði tegunda spila í spilahöll án þess að þær breytingar séu háðar samþykki ráðherra. Leyfishafi skal þó tilkynna ráðherra um fyrirhugaðar breytingar og getur ráðherra innan mánaðar frá tilkynningu hafnað breytingu ef sérstakar ástæður mæla með því.

11. gr.
Endurnýjun rekstrarleyfis.

    Leyfishafi sem vill endurnýja rekstrarleyfi sitt skal sækja um endurnýjun til ráðherra a.m.k. tólf mánuðum áður en gildandi rekstrarleyfi rennur út.
    Meðan umsókn um endurnýjun er til meðferðar er leyfisveitanda heimilt að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra rekstrarleyfi til allt að þriggja mánaða. Gildistími bráðabirgðaleyfis verður þó aldrei lengri en þrír mánuðir frá því að rekstrarleyfi rann út. Að þeim tíma liðnum verður bráðabirgðaleyfi ekki framlengt nema tafir á afgreiðslu endurnýjunar verði ekki raktar til umsækjanda. Óheimilt er að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi hafi umsókn um endurnýjun borist eftir að fyrra rekstrarleyfi rann út.
    Við mat á umsókn um endurnýjun skal taka mið af því hvernig starfsemi hefur gengið á leyfistíma og þeirri reynslu sem fengist hefur af rekstrinum. Skal ráðherra framkvæma skoðun og mat á því hvort rekstur hafi verið starfræktur á ábyrgan og tryggan máta og sé svo er ráðherra heimilt að gefa út nýtt rekstrarleyfi.

B. AFTURKÖLLUN REKSTRARLEYFIS
12. gr.
Ástæður afturköllunar.

    Ráðherra getur afturkallað rekstrarleyfi í heild eða að hluta:
     1.      hafi leyfishafi fengið rekstrarleyfi á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
     2.      brjóti leyfishafi alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim,
     3.      brjóti leyfishafi alvarlega eða ítrekað gegn skilyrðum sem ráðherra hefur sett fyrir leyfi,
     4.      verði leyfishafi dæmdur fyrir refsivert athæfi sem er þess eðlis að leiða megi líkur að aukinni hættu á misnotkun rekstrarleyfis samkvæmt lögum þessum,
     5.      uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði 6. gr.,
     6.      verði breytingar á framkvæmdastjórn og/eða stjórn leyfishafa nema breytingin hafi verið tilkynnt ráðherra innan 14 daga og verið samþykkt af ráðherra eða
     7.      verði breytingar á eignarhaldi að virkum eignarhlutum í leyfishafa nema breytingin hafi verið tilkynnt ráðherra innan 14 daga frá skráningu í hlutaskrá og verið samþykkt af ráðherra.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal leyfishafa veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við að mati ráðherra.
    Ákvörðun um afturköllun skv. 1. mgr. skal vera rökstudd og í henni skal koma fram að hægt sé að bera afturköllunina undir dómstóla.
    Sé ákvörðun borin undir dómstóla frestar það ekki réttaráhrifum afturköllunar en að framkominni kröfu getur dómari úrskurðað að leyfishafa sé heimilt að reka spilahöll á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum.

13. gr.
Tilkynning um afturköllun.

    Afturköllun á rekstrarleyfi skal tilkynnt stjórn leyfishafa með sannanlegum hætti. Réttaráhrif afturköllunar skulu virk við móttöku stjórnar leyfishafa á afturköllun nema dómstólar kveði á um annað, sbr. 4. mgr. 12. gr.

III. KAFLI
Spilakassar, spilareglur og framkvæmd spila.
14. gr.
Spilakassar.

    Feli rekstrarleyfi skv. 4. gr. í sér heimild til að setja upp spilakassa í spilahöll skal tryggt að aðgangur að og notkun á spilakössum sé aðeins heimilaður viðskiptavinum viðkomandi spilahallar.
    Ráðherra setur nánari reglur um spilakassa þessa, þ.m.t. um öryggiskröfur, vinninga, útborgun vinninga, tölvukerfi og eftirlit.

15. gr.
Spilareglur.

    Leyfishafa er skylt að semja spilareglur fyrir hvert spil sem boðið er upp á í spilahöll, að frátöldum spilakössum.
    Í spilareglum spilahallar skal gerð grein fyrir þeim leikreglum sem fara skal eftir í þeim spilum sem í boði eru.
    Spilareglur spilahallar skulu vera aðgengilegar viðskiptavinum, a.m.k. á íslensku og ensku.
    Leyfishafa er jafnframt skylt að semja reglur um aðferðir sem notaðar eru til að fræða og þjálfa starfsfólk til að sinna hlutverki sínu í spilum sem boðið er upp á og hafa eftirlit með starfsfólki.
    Leyfishafi skal senda ráðherra afrit af reglum skv. 1. og 4. mgr.

16. gr.
Framkvæmd spila.

    Leyfishafa ber í hvívetna að gæta að aðbúnaði í spilahöll og ganga úr skugga um að veitt þjónusta standist áskilnað laga og sé að öllu leyti fagleg og traust. Leyfishafi skal jafnframt leitast við að tryggja að framvinda spila í spilahöll hans fari fram á drengilegan máta.
    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd spila, þ.m.t. um hæstu og lægstu upphæð sem heimilt er að leggja undir í hverju spili, tækjabúnað spilanna og eftirlit með þeim búnaði.

IV. KAFLI
Spilapeningar.
17. gr.
Spilapeningar.

    Í spilum, að undanskildum spilakössum, er einvörðungu heimilt að leggja undir fjármuni með sérstökum spilapeningum.
    Vinninga í spilum, að undanskildum spilakössum, skal greiða út í spilapeningum.
    Heimilt er að skipta reiðufé í spilapeninga við skiptikassa spilahallar og við spilaborð en aðeins er heimilt að skipta spilapeningum í reiðufé við skiptikassa spilahallar.
    Leyfishafa er skylt að halda daglegt bókhald yfir viðskipti með spilapeninga í spilahöll og fer eftirlitsmaður skv. 39. gr. með eftirlit með því.

18. gr.
Skipting reiðufjár í spilapeninga, talningu o.fl.

    Aðeins er heimilt að skipta reiðufé í spilapeninga við spilaborð ef starfsmaður á spilaborði setur reiðuféð strax ofan í rauf á spilaborði sem leiðir niður í lokaða hirslu sem er undir spilaborðinu.
    Þegar reiðufé er skipt í spilapeninga við spilaborð verður að skipta allri upphæð reiðufjár.
    Lokaða hirslan skv. 1. mgr. skal þannig útbúin að aðeins sé hægt að ná reiðufé úr hirslunni með því að opna tvo mismunandi lása. Skal eftirlitsmaður skv. 39. gr. hafa lykil að öðrum lásnum.
    Innihald hirslunnar verður að telja daglega. Eftir að spilaborði hefur verið lokað verður talning að fara fram áður en spilaborð er opnað aftur. Talning samkvæmt þessari grein skal framkvæmd af einum starfsmanni spilahallar ásamt eftirlitsmanni skv. 39. gr.
    Halda verður bókhald um hvert og eitt spilaborð þannig að ljóst sé hve miklu reiðufé var skipt í spilapeninga á hverjum degi. Slíkt bókhald verður eftirlitsmaður skv. 39. gr. að staðfesta.

19. gr.
Útgreiðsla vinninga.

    Aðeins er heimilt að skipta spilapeningum í reiðufé við skiptikassa spilahallar. Undir sérstökum kringumstæðum er ráðherra heimilt að leyfa spilahöll að greiða vinningsfjárhæðir út með ávísun til viðskiptavinar eða með því að leggja inn á bankareikning viðskiptavinar.
    Vinningsfjárhæð í spilakassa sem nemur allt að 250.000 kr. skal greiða út í reiðufé eða með útprentuðum miða sem hægt er að skipta þá þegar í reiðufé að beiðni viðskiptavinar.
    Vinningsfjárhæð í spilakassa sem nemur á milli 250.000 kr. og 750.000 kr. er heimilt að greiða út í formi ávísunar til viðskiptavinar eða með því að leggja inn á bankareikning viðskiptavinar.
    Vinningsfjárhæð í spilakassa sem nemur meira en 750.000 kr. er skylt að greiða út í formi ávísunar til viðskiptavinar eða með því að leggja inn á bankareikning viðskiptavinar.
    Sé vinningsfjárhæð í spilakassa greidd út með ávísun eða inn á bankareikning, sbr. 3. og 4. mgr., skal eftirlitsmaður skv. 39. gr. votta með undirskrift sinni að um sé að ræða vinningsfjárhæð úr spilakassa í viðkomandi spilahöll og að viðkomandi viðskiptavinur hafi framvísað persónuskilríkjum við útgáfu ávísunarinnar eða innborgun á bankareikning. Spilahöll skal halda eftir afriti af útgefnum ávísunum í fimm ár.
    Óski viðskiptavinur þess skal spilahöll geyma vinningsfjárhæðir í reiðufé, sbr. 1.–3. mgr., fyrir viðkomandi viðskiptavin. Skal spilahöll gefa út kvittun til viðkomandi viðskiptavinar sem staðfestingu á geymslunni.

20. gr.
Greiðsla fyrir tóbak og veitingar.

    Viðskiptavinum er heimilt að greiða fyrir tóbak og veitingar innan spilahallar með spilapeningum.
    Spilapeningum sem tekið er við sem greiðslu fyrir tóbak og/eða veitingar skal skipta daglega í reiðufé við skiptikassa spilahallar fyrir lokun.

V. KAFLI
Aðgangsheimild, öryggisgæsla o.fl.
21. gr.
Aðgangsheimild viðskiptavina.

    Í spilahöll er einstaklingum yngri en 21 árs óheimill aðgangur.
    Viðskiptavinum er skylt að framvísa persónuskilríkjum með mynd við komu sína í spilahöll sem og ef farið er fram á það af starfsmönnum spilahallar á meðan á heimsókn stendur.
    Viðskiptavinum spilahalla er óheimilt að hafa undir höndum hvers konar rafrænan hugbúnað sem kann að nýtast til útreikninga á vinningslíkum í spilum sem boðið er upp á í spilahöll. Verði viðskiptavinur uppvís að broti á þessari málsgrein er heimilt að vísa honum á dyr án þess að honum sé endurgreiddur aðgangseyrir.
    Skylt er að meina aðgang einstaklingum sem eru augljóslega ölvaðir, í vímu eða líklegir til að valda ónæði.

22. gr.
Öryggisgæsla.

    Leyfishafa er skylt að hafa mannaða gæslu í spilahöll á opnunartíma.
    Gæsla í spilahöll fer eftir tegund, stærð, afgreiðslutíma og hvort um áfengisveitingar er að ræða. Nánar skal kveða á um hæfni og þjálfun öryggisvarða í reglugerð og er heimilt að kveða þar á um að öryggisverðir skuli sækja sérstök námskeið þar sem farið er yfir atriði sem á reynir við gæslu, svo sem ákvæði áfengislaga, hjálp í viðlögum, viðbrögð við óspektum og hvernig þekkja megi merki um neyslu og sölu ólöglegra vímuefna.

23. gr.
Aðgangseyrir og opnunartími.

    Leyfishafa er heimilt að taka aðgangseyri.
    Heimilt er að hafa spilahöll opna alla daga frá kl. 14 til kl. 4.

VI. KAFLI
Skráning viðskiptavina o.fl.
24. gr.
Skráning viðskiptavina.

    Leyfishafa er skylt að skrá upplýsingar um sérhvern viðskiptavin við komu hans í spilahöllina, þ.e. nafn, kennitölu eða auðkennisnúmer persónuskilríkis og þjóðerni ásamt komutíma. Upplýsingarnar skal leyfishafi varðveita í fimm ár frá komu viðskiptavinar í spilahöllina. Að þeim tíma liðnum skal leyfishafi sjá til þess að upplýsingunum sé eytt.
    Við skráningu skv. 1. mgr. skal leyfishafi samtímis taka ljósmynd af viðkomandi viðskiptavin og vista í skráningarkerfi spilahallar samhliða skráningu skv. 1. mgr. Ljósmynd skal varðveita í fimm ár en að þeim tíma liðnum skal leyfishafi sjá til þess að henni verði eytt.
    Við skráningu skv. 1. mgr. er viðskiptavinum skylt að sýna gild persónuskilríki með mynd.
    Upplýsingar sem skráðar eru skv. 1. mgr. og ljósmynd sem tekin er og vistuð skv. 2. mgr. er ekki heimilt að afhenda þriðja aðila, öðrum en lögreglu, nema á grundvelli dómsúrskurðar.

25. gr.
Beiðni viðskiptavinar um að honum sé meinaður aðgangur að spilahöll.

    Viðskiptavinur getur krafist þess að ásamt þeim persónuupplýsingum sem leyfishafi skráir skv. 1. mgr. 24. gr. verði jafnframt skráð að viðkomandi aðili óski eftir að honum verði ekki heimilaður aðgangur að spilahöll leyfishafa og að á grundvelli þeirrar skráningar sé leyfishafa heimilt að meina viðkomandi aðgang að spilahöll leyfishafa. Slíka beiðni er viðskiptavinum heimilt að setja fram jafnt skriflega sem munnlega. Leyfishafa er þó skylt að fá í hendur undirritaða yfirlýsingu þess efnis frá viðkomandi viðskiptavini áður en skráning fer fram og henni framfylgt.
    Sá sem skráður er skv. 1. mgr. getur hvenær sem er óskað eftir að skráningunni sé eytt. Slík beiðni skal sett fram eftir sömu reglum og tilgreindar eru í 1. mgr. og fellur skráning skv. 1. mgr. úr gildi 30 dögum eftir að spilahöll hefur móttekið beiðnina.
    Hafi viðskiptavinur óskað eftir skráningu skv. 1. mgr. er starfsmanni leyfishafa, sem tekur á móti beiðni um skráningu, skylt að upplýsa viðkomandi um ráðgjöf og meðferðarúrræði við spilafíkn.
    Upplýsingum um skráningu samkvæmt ákvæði þessu skal eytt tveimur árum eftir afskráningu skv. 2. mgr. Slík eyðing er ekki háð ósk viðkomandi viðskiptavinar.
    Óheimilt er að veita upplýsingar um skráningu samkvæmt ákvæði þessu til þriðja aðila.

26. gr.
Heimild til að meina viðskiptavini aðgang að spilahöll.

    Verði viðskiptavinur uppvís að því að hafa rangt við í spilum eða að öðru refsiverðu athæfi í tengslum við spil, eða uppvís að því að vera hlutdeildarmaður í slíku athæfi, er viðkomandi leyfishafa heimilt að skrá slíkar upplýsingar um viðkomandi aðila, þó aðeins ef athæfið er kært samtímis til lögreglu. Á grundvelli slíkrar skráningar er leyfishafa heimilt að meina viðkomandi aðila aðgang að spilahöll.
    Lögreglan skal tilkynna leyfishafa um niðurstöðu sakamáls. Ef kæra leiðir ekki til ákæru eða fallið verður frá ákæru skal lögregla tilkynna viðkomandi leyfishafa um það og skal þá leyfishafi umsvifalaust eyða skráningu skv. 1. mgr. Hið sama á við ef viðkomandi aðili er sýknaður af ákæru.
    Upplýsingum sem skráðar eru skv. 1. mgr. og ekki skal eyða fyrr skv. 2. mgr. skal eyða sjálfkrafa fimm árum eftir að niðurstaða er komin í viðkomandi sakamál.
    Óheimilt er að veita upplýsingar um skráningu samkvæmt ákvæði þessu öðrum en lögreglu, en lögreglan hefur aðgang að þeim án dómsúrskurðar þegar þess er talin þörf. Þó er heimilt að veita öðrum leyfishöfum upplýsingar um slíka skráningu ef viðkomandi aðili hefur verið fundinn sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Leyfishafa, sem móttekur slíkar upplýsingar, er heimilt að skrá þær hjá sér og meina viðkomandi aðgang að spilahöll á grundvelli skráningarinnar en er þó skylt að eyða skráningunni í samræmi við ákvæði 3. mgr.
    Leyfishafa er heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga sem hafa verið fundnir sekir erlendis um að hafa rangt við í spilum eða um annað refsivert athæfi í sambandi við spil, eða verið fundnir sekir sem hlutdeildarmenn í slíku máli. Leyfishafa er heimilt að nota þær upplýsingar sem grundvöll fyrir því að meina viðkomandi aðgang að spilahöll. Upplýsingum, skráðum samkvæmt þessu ákvæði, skal eytt í samræmi við ákvæði 3. mgr.

27. gr.
Gögn um framkvæmd viðskipta og geymsla.

    Skjöl og skrár sem tengjast viðskiptum í spilahöll skal geyma í a.m.k. fimm ár frá framkvæmd viðskiptanna.
    Hætti leyfishafi starfsemi skal síðasta virka stjórn leyfishafa leitast við að tryggja að persónuupplýsingar, gögn og skrár sem um ræðir í 1. mgr. og 24. gr. verði áfram geymd í samræmi við viðkomandi ákvæði.
    Verði leyfishafi tekinn til gjaldþrotaskipta getur héraðsdómari ákveðið að fela þriðja aðila að framfylgja ákvæði 2. mgr.

28. gr.
Skráningarkerfi.

    Leyfishafa er skylt að halda utan um skráningu viðskiptavina spilahallar í öruggu skráningarkerfi.

VII. KAFLI
Starfsfólk spilahalla, o.fl.
29. gr.
Skilyrði fyrir ráðningu.

    Til starfa í spilahöll má aðeins ráða starfsfólk sem náð hefur 21 árs aldri og hefur hlotið samþykki lögreglu til að starfa í spilahöll.
    Lögregla skal leggja mat á það hvort einstaklingur telst nægilega traustur og öruggur til að geta starfað í spilahöll en við mat á því er m.a. rétt að líta til þess hvort viðkomandi hafi gerst sekur um brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga og laga um ávana- og fíkniefni eða önnur lög sem haft geta áhrif á hæfni hans til starfa í spilahöll.

30. gr.
Bann við spilamennsku starfsmanna, móttöku gjafa frá viðskiptavinum o.fl.

    Starfsmanni spilahallar er með öllu óheimilt að taka þátt í spili í spilahöll að undanskildum þeim tilvikum þar sem það er hlutverk starfsmanns að taka þátt í viðkomandi spili.
    Starfsmanni er með öllu óheimilt að þiggja gjafir eða önnur fríðindi frá viðskiptavinum spilahallar sem hann starfar hjá, að undanskildum framlögum í húsbauk, sbr. 2. mgr. 32. gr.
    Ákvæði þetta á einnig við um framkvæmdastjóra leyfishafa, þá sem eiga sæti í stjórn leyfishafa og jafnframt þá sem eiga virkan hlut í leyfishafa.

31. gr.
Grunur um spilafíkn viðskiptavinar.

    Ef grunur vaknar um að viðskiptavinur spilahallar eigi við spilafíkn að stríða skal leyfishafi gæta að því að viðkomandi viðskiptavini sé kynnt sú ráðgjöf og þau meðferðarúrræði sem einstaklingum standa til boða vegna spilafíknar.
    Leyfishafi skal setja sér reglur um hvernig bregðast skal við í aðstæðum sem þessum.

32. gr.
Húsbaukur.

    Leyfishafa er heimilt að hafa húsbauk í spilahöll sem gerir viðskiptavinum kleift að umbuna starfsfólki með þjórfé, hvort heldur sem er í formi reiðufjár eða spilapeninga.
    Framlagi því sem gefið er í húsbauka skv. 1. mgr. skal skipta milli starfsfólks viðkomandi spilahallar. Leyfishafa er þó heimilt að áskilja sér 10% hlut úr húsbaukssjóði í hverjum mánuði. Stjórn spilahallar, framkvæmdastjórn og eftirlitsmönnum skv. 39. gr. er þó óheimilt að taka við framlagi úr húsbauknum.
    Ráðherra setur nánari reglur um húsbaukssjóð, m.a. um uppgjör, eftirlit og bókhald.

VIII. KAFLI
Ársuppgjör og endurskoðun.
33. gr.
Samning ársreiknings og undirritun.

    Stjórn og framkvæmdastjóri leyfishafa skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Enn fremur skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár leyfishafa er almanaksárið.
    Ársreikningur skal undirritaður af stjórn og framkvæmdastjóra leyfishafa. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri leyfishafa mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.
    Eftirfarandi upplýsingar skulu vera í ársreikningi:
     a.      launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi leyfishafa til hvers og eins stjórnarmanns og framkvæmdastjóra,
     b.      nöfn og ríkisfang allra þeirra sem eiga virkan eignarhlut í leyfishafa í lok reikningsárs. Sé viðkomandi lögaðili skal jafnframt koma fram hver sé raunverulegur eigandi viðkomandi lögaðila.

34. gr.
Góð reikningsskilavenja.

    Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu leyfishafa. Hann skal gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og innihalda m.a. rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðsstreymi ásamt skýringum og upplýsingar um liði utan efnahagsreiknings.

35. gr.
Skýrsla stjórnar.

    Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi leyfishafa á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi leyfishafa og afkomu hans á reikningsárinu er ekki koma fram í ársreikningnum.
     Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda um atriði, sem koma skulu fram í skýrslu stjórnar, ákvæði VI. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga.

36. gr.
Endurskoðun.

    Ársreikningur leyfishafa skal endurskoðaður af endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi. Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki gegna öðrum störfum fyrir leyfishafa.
    Endurskoðandi má ekki eiga sæti í stjórn, vera starfsmaður leyfishafa eða starfa í þágu þess að öðru en endurskoðun.
    Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri eða atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu hlutaðeigandi leyfishafa eða atriði sem leiða til þess að hann mundi synja um áritun eða gera fyrirvara, svo og ef endurskoðandi hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um leyfishafa hafi verið brotnar, skal endurskoðandi gera stjórn leyfishafa og ráðherra viðvart.
    Tilkynning endurskoðanda skv. 3. mgr. felur ekki í sér brot gegn þagnarskyldu hvort sem hún er reist á lögum eða samningi. Skal tilkynnandi ekki sæta neins konar ábyrgð vegna tilkynningarinnar.
    Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda um endurskoðun leyfishafa ákvæði IX. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga.

37. gr.
Skil og birting ársreiknings.

    Endurskoðaður og undirritaður ársreikningur leyfishafa ásamt skýrslu stjórnar skal sendur ráðherra innan tíu daga frá undirritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
    Hafi á aðalfundi verið samþykktar breytingar á undirrituðum ársreikningi skal breyttur ársreikningur sendur ráðherra innan tíu daga frá aðalfundi og gerð grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið.
    Ársreikningur leyfishafa ásamt skýrslu stjórnar skal liggja frammi á afgreiðslustað hlutaðeigandi leyfishafa og afhentur hverjum viðskiptaaðila sem þess óskar innan tveggja vikna frá samþykkt aðalfundar.

IX. KAFLI
Eftirlit.
38. gr.
Eftirlit ráðherra og kostnaður við eftirlit.

    Ráðherra fer með eftirlit eftir lögum þessum.
    Ráðherra hefur heimild til að fá aðgang að öllum gögnum og upplýsingum frá leyfishafa sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirliti sínu samkvæmt lögum þessum. Ráðherra er jafnframt heimilt að framkvæma rannsókn í spilahöll, á hvaða tíma sem er, þegar hann telur þess þörf.
    Ráðherra er heimilt að fá þar til bært stjórnvald til að framkvæma rannsókn skv. 2. mgr. í sínu umboði.
    Nú er stofnað til sérstaks kostnaðar vegna eftirlitsins með þátttöku sérfróðra manna til að fara yfir búnað eða tækjakost leyfishafa eða athuga sérstaklega hvort skilyrðum þessara laga sé fullnægt og er þá heimilt að krefja viðkomandi leyfishafa um greiðslu á kostnaði sem stofnað er til í þessu skyni.

39. gr.
Eftirlitsmaður.

    Á opnunartíma skal ávallt vera til staðar óháður bókhaldsfróður eftirlitsmaður. Fjöldi eftirlitsmanna á vakt fer eftir tegund, stærð og umfangi starfsemi viðkomandi spilahallar.
    Eftirlitsmenn í spilahöll eru skipaðir af ráðherra til tveggja ára í senn. Eftirlitsmenn spilahallar lúta aðeins stjórn ráðherra.
    Eftirlitsmaður má ekki hafa verið úrskurðaður gjaldþrota eða hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Eftirlitsmaður skal vera með öllu óháður leyfishafa.
    Leyfishafi skal greiða í ríkissjóð fjárhæð sem svarar til alls launa- og stjórnunarkostnaðar sem ríkið hefur af eftirlitsmönnum vegna eftirlits í spilahöll viðkomandi leyfishafa.
    Eftirlitsmanni er skylt að tilkynna ráðherra eða lögreglu eftir atvikum ef hann verður þess var að ekki sé farið eftir reglum spilahalla eða verði hann að öðru leyti var við óreglu í framkvæmd spilanna.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um starfsskyldur eftirlitsmanna.

40. gr.
Grunur um peningaþvætti o.fl.

    Komi upp grunur um að peningaskipti tengist peningaþvætti eða um óreglu við framkvæmd spila skal sá sem verður þessa var tafarlaust tilkynna það eftirlitsmanni. Eftirlitsmaður tekur ákvörðun um hvort athæfið verði tilkynnt til ráðherra eða lögreglu, sbr. 6. mgr. 39. gr.

41. gr.
Myndbandseftirlit.

    Í spilahöll skal vera rafræn vöktun með myndavélum. Skal eftirlit haft með a.m.k. öllum aðgerðum skiptikassa og öllum aðgerðum við framkvæmd spila.
    Vöktun og varsla samkvæmt ákvæði þessu skal fullnægja áskilnaði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

X. KAFLI
Refsing.
42. gr.

    Það varðar sektum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      1. mgr. 4. gr. um að aðeins sé heimilt að hefja rekstur spilahallar að fengnu rekstrarleyfi hjá ráðherra.
     2.      2. mgr. 4. gr. um að á grundvelli rekstrarleyfis sé heimilt að bjóða upp á tiltekin spil sem talin eru upp í ákvæðinu.
     3.      3. mgr. 7. gr. um skilyrði rekstrarleyfis um bankaábyrgð.
     4.      1. mgr. 14. gr. um spilakassa og að aðgangur að þeim sé aðeins heimilaður viðskiptavinum.
     5.      15. gr. um að leyfishafi skuli semja spilareglur, þær séu sýnilegar og ráðherra sent afrit af þeim.
     6.      16. gr. um framkvæmd spila.
     7.      17.–20. gr. um notkun spilapeninga, skiptingu reiðufjár í spilapeninga, skiptingu spilapeninga í reiðufé, eftirlit með spilapeningum og uppgjör.
     8.      1., 3. og 4. mgr. 21. gr. um aðgangsheimild viðskiptavina o.fl.
     9.      22. gr. um öryggisgæslu.
     10.      23. gr. um opnunartíma.
     11.      24.–28. gr. um skráningu viðskiptavina, geymslu gagna um framkvæmd viðskipta í spilahöll.
     12.      1. mgr. 29. gr. um skilyrði fyrir ráðningu starfsfólks.
     13.      30. gr. um bann starfsmanna, leyfishafa, framkvæmdastjóra og stjórnarmanna við spilamennsku og móttöku gjafa frá viðskiptavinum o.þ.h.
     14.      31. gr. um skyldu til að bregðast við ef grunur vaknar um spilafíkn viðskiptavinar,
     15.      32. gr. um húsbauk.
     16.      VIII. kafla um ársuppgjör og endurskoðun.
     17.      1. mgr., 5. mgr. og 6. mgr. 39. gr. um óháðan eftirlitsmann.
     18.      40. gr. um peningaþvætti o.fl.
     19.      41. gr. um myndbandsvöktun.

XI. KAFLI
Skattlagning og ráðstöfun.
43. gr.
Skattskyldir aðilar.

    Fyrirtæki sem reka spilahallir á grundvelli rekstrarleyfis skv. 4. gr. skulu skattlögð í samræmi við fyrirmæli þessa kafla.

44. gr.
Spilaskattur.

    Stofn til sérstaks spilaskatts á leyfishafa samkvæmt lögum þessum skal fenginn með því að afmarka vergar spilatekjur leyfishafa. Allar skattgreiðslur vegna spilaskatts renna í ríkissjóð, að undanskildum þeim greiðslum sem renna í sérstakan sjóð sem er ætlað það hlutverk að stuðla að rannsóknum og efla meðferðarúrræði vegna spilafíknar, sbr. 45. gr.
    Vergar spilatekjur skv. 1. mgr. reiknast svo að fundin er sú fjárhæð sem lögð hefur verið undir í hvers konar spilum í spilahöll leyfishafa og frá henni dregin sú fjárhæð sem leyfishafi hefur greitt út í formi vinninga til viðskiptavina sinna sem og þau framlög sem safnast hafa í húsbauk leyfishafa, sbr. 32. gr.
    Spilaskattur skal reiknast af spilaskattsstofni skv. 1. mgr., sbr. 2. mgr., fyrir hvert uppgjörstímabil skv. 2. mgr. 46. gr. sem hér segir:
     1.      Af spilaskattsstofni að fjárhæð 200.000.000 kr. reiknast 40% spilaskattur.
     2.      Af næstu 50.000.000 kr. eftir fjárhæðina 200.000.000 kr. reiknast 50% spilaskattur.
     3.      Af næstu 50.000.000 kr. eftir fjárhæðina 250.000.000 kr. reiknast 60% spilaskattur.
     4.      Af næstu 50.000.000 kr. eftir fjárhæðina 300.000.000 kr. reiknast 70% spilaskattur.
     5.      Eftir fjárhæð að upphæð 350.000.000 kr. reiknast 80% spilaskattur.

45. gr.
Forvarnasjóður.

    Ráðherra skal stofna sjóð sem hefur það hlutverk að stuðla að rannsóknum og eflingu meðferðarúrræða sem miða að því að sporna við spilafíkn og afleiðingum hennar. Skulu 3% af öllum spilaskatti sem innheimtur er á grundvelli laga þessara renna til sjóðsins.
    Ráðherra skipar sjóðnum þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann sjóðsstjórnar. Þá skipar ráðherra jafnframt varamenn í stjórn. Ráðherra setur sjóðnum stofnskrá, auk nánari reglna um umsóknir og skilyrði um úthlutun fjármuna úr sjóðnum.

46. gr.
Álagning spilaskatts.

    Ríkisskattstjóri annast álagningu spilaskatts skv. 44. gr.
    Uppgjörstímabil spilaskatts skulu vera þau sömu og uppgjörstímabil virðisaukaskatts hjá skattaðila, sbr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virkan dag á eftir. Eigi síðar en á gjalddaga skulu skattskyldir aðilar ótilkvaddir skila innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu um fjárhæð vergra spilatekna og standa skil á greiðslu spilaskattsins.
    Skýrslur vegna spilaskatts skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

47. gr.
Álagður spilaskattur.

    Álagður spilaskattur telst ekki rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Skattkrafa á grundvelli laga þessara skal njóta rétthæðar skv. 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., við slitameðferð eða gjaldþrotaskipti sama aðila.

48. gr.
Skattlagning húsbauks.

    Fjármunir sem safnast fyrir í húsbauk skv. 32. gr., að undanskildum þeim fjármunum sem leyfishafi áskilur sér á grundvelli 2. mgr. 32. gr., teljast ekki til tekna leyfishafa sem ber að skattleggja heldur skal skattlagning á þeim fjármunum einvörðungu eiga sér stað í formi töku tekjuskatts við útgreiðslu umræddra fjármuna í formi launa til starfsmanna leyfishafa.

49. gr.
Skattlagning annarra tekna leyfishafa, álagning, eftirlit, kærur, innheimta og viðurlög.

    Fyrirtækjum sem reka spilahallir á grundvelli rekstrarleyfis skv. 4. gr. ber að greiða tekjuskatt og önnur opinber gjöld, sem almennt eru á lögð hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem mælt er um á annan veg í lögum þessum.
    Að öðru leyti en greinir í þessum lögum fer um álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu skatts samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. IX.–XIV. kafla þeirra laga. Varðandi viðurlög er sérstaklega vísað til XII. kafla laganna.

XII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
50. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd skattlagningar á grundvelli laga þessara í reglugerð.

51. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

52. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum: Í stað orðsins "fjárhættuspili" í 2. málsl. 181. gr. og 2. mgr. 183. gr. laganna kemur: ólögmætu fjárhættuspili; og í stað orðsins "fjárhættuspil" í 1. mgr. 183. gr. og 184. gr. laganna kemur: ólögmætt fjárhættuspil.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Lög þessi skulu endurskoðuð innan sjö ára frá gildistöku þeirra.

II.

    Ráðherra er aðeins heimilt að gefa út eitt rekstrarleyfi á grundvelli laga þessara.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi (501. mál) og 144. löggjafarþingi (153. mál) en fékk ekki efnislega meðferð og er nú endurflutt óbreytt. Því fylgdi svofelld greingargerð:

I. Inngangur – tilefni lagasetningar.
    Fjárhættuspil hafa fylgt mannkyni um aldir og má rekja sögu þeirra aftur til tíma Babýloníumanna, Rómverja, Grikkja og Kínverja. Þessi spil hafa þó tekið breytingum og smám saman orðið fjölbreyttari og háþróaðri.
    Fyrsta lagaákvæði íslensks réttar um happdrætti og hlutaveltur var fest í lög árið 1926 og hafa í kjölfarið margvísleg lög verið sett um rekstur einstakra tegunda happdrætta og fjárhættuspila. Sem dæmi má nefna voru lög sem heimiluðu dómsmálaráðherra að veita leyfi fyrir veðmálastarfsemi vegna kappróðurs og kappreiða, og verið höfðu í gildi frá árinu 1945, felld úr gildi þegar lög um happdrætti voru sett árið 2005.
    Á Íslandi hefur nokkur umræða farið fram á undanförnum árum um hvort rétt sé að lögleiða heimild til reksturs spilahalla, en samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er refsivert að framfleyta sér með fjárhættuspili, sbr. 183. gr. laganna. Þá er jafnframt lögð refsing við því að stunda fjárhættuspil og veðmál í atvinnuskyni og koma öðrum til þátttöku í þeim, svo og að hafa beinar eða óbeinar tekjur af því að láta þau fara fram í húsakynnum sínum, sbr. 184. gr. laganna.
    Staðreyndin er sú að þrátt fyrir framangreind ákvæði almennra hegningarlaga hefur gætt ákveðinnar þversagnar í íslenskum lögum þar sem ýmis fjárhættuspil hafa verið heimiluð á grundvelli sérlaga svo sem happdrætti, lottó, getraunir og spila-/söfnunarkassar. Þannig eru fyrir hendi margvíslegir möguleikar fyrir almenning til að stunda fjárhættuspil sem eru heimil samkvæmt gildandi löggjöf.
    Þessu til viðbótar hafa möguleikar almennings til að stunda óheimil fjárhættuspil einnig aukist verulega undanfarin ár og margfölduðust tækifæri til þátttöku í fjárhættuspilum með tölvuvæðingunni. Til marks um þessa þróun má sjá að í fjölmiðlum eru auglýstar vefsíður sem bjóða almenningi aðgang að fjárhættuspilum. Um er að ræða vefsíður sem alla jafna eru vistaðar utan Íslands og eiga íslensk stjórnvöld þar af leiðandi litla sem enga möguleika á því að hafa eftirlit með þeim eða setja um þær reglur, sbr. Hrd. 577/2008. Þá hafa fjölmiðlar og lögregla ítrekað greint frá því að ólögmætir spilasalir séu reknir hér á landi. Í ljósi framangreinds er erfitt að festa fingur á það hvers eðlis framboð á fjárhættuspilum á Íslandi er og enn fremur hvert umfang þess framboðs er. Gildandi löggjöf hefur þannig gert það að verkum að ákveðin starfsemi hefur þegar verið heimiluð en önnur starfsemi af sama meiði, sem vitað er að þrífst á Íslandi og virðist fara vaxandi, stendur utan alls eftirlits í eins konar svartholi.
    Markmið frumvarps þessa er að setja almenna lagaumgjörð um rekstur spilahalla á Íslandi. Með frumvarpinu er þannig lagt til að ákveðin leyfisskyld starfsemi spilahalla á Íslandi verði heimiluð og er það nýmæli í lögum. Vegna eðlis þessarar starfsemi er rík áhersla lögð á það í frumvarpinu að gera skilmerkilega grein fyrir inntaki leyfisveitingar, skilyrðum fyrir veitingu leyfis og skilyrðum settum um leyfishafa. Þá er jafnframt kveðið á um tiltölulega umfangsmiklar skyldur sem fyrirhugað er að leggja á leyfishafa en það er í raun sérstakt markmið frumvarps þessa að mæla fyrir um eftirlit með starfseminni. Er lagt til að eftirlit verði umfangsmikið, en til að auðvelda stjórnvöldum eftirlitshlutverkið eru lagðar ríkar skyldur á leyfishafa til að skrá og veita stjórnvöldum fullnægjandi upplýsingar.
    Raunin er sú að Ísland er eitt fárra ríkja í vestrænum heimi sem bannar rekstur spilahalla, en rekstur spilahalla er heimilaður í nánast öllum Evrópuríkjum að Íslandi og Noregi undanskildum. Hvað varðar Noreg er rétt að geta þess að í nýlegum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna þar í landi er kveðið á um að afnema eigi bann við fjárhættuspilum og heimila fjárhættuspil í Noregi. Reksturinn er jafnan háður leyfum hins opinbera og um hann gilda afar strangar reglur og eftirlitið er mikið. Við samningu frumvarps þessa var höfð til hliðsjónar samsvarandi löggjöf á Norðurlöndum, þá einna helst dönsk löggjöf.

Dönsk löggjöf.
    Umræða um lögleiðingu spilahalla í Danmörku fór fram undir lok níunda áratugarins. Umræðan einkenndist af spurningum og svörum um hvað kæmi danskri atvinnustarfsemi vel, hagsmunum ríkissjóðs og hvort hægt væri að tryggja nægilegt eftirlit með starfseminni. Umræðunni lauk þannig að starfsemi spilahalla var leyfð með samþykkt laga þar um á danska þinginu árið 1990.
    Í umræðunni var mikið horft til ferðaþjónustunnar og hagsmuna hennar. Velt var upp ýmsum spurningum, m.a. hvernig staða Kaupmannahafnar yrði best tryggð í samkeppni um ferðamenn við aðrar helstu borgir Evrópu. Einnig var því velt upp hvort lögleiðing spilahalla mundi styrkja stöðu borgarinnar. Þá var sérstaklega horft til möguleika Kaupmannahafnar á að fá fleiri skemmtiferðaskip og ráðstefnur til borgarinnar. Niðurstaðan af þeirri umræðu var sú að lögleiðing spilahalla mundi bæta samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar og veita ríkissjóði auknar tekjur. Þá hafði það einnig áhrif að á þessum tíma ferðuðust danskir ríkisborgarar í auknum mæli til borga þar sem spilahallir voru leyfðar. Vilji var til að stöðva þá þróun. Það var þó fleira sem leiddi til þess að ákveðið var að lögleiða heimild til reksturs spilahalla í Danmörku. Á þessum tíma voru margir ólöglegir spilasalir reknir í Kaupmannahöfn og víðar í Danmörku sem greiddu engin opinber gjöld og sættu ekki opinberu eftirliti. Oftar en ekki tengdist reksturinn skipulagðri glæpastarfsemi. Lögleiðing spilahalla var því m.a. rökstudd með því að hún væri framlag stjórnvalda til baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
    Þannig höfðu sjónarmið varðandi eftirlit verulega þýðingu í umræðunni um lögleiðingu í Danmörku en jafnframt var litið til fyrirsjáanlegs fjárhagslegs ágóða ríkissjóðs af lögleiðingu. Í samræmi við þessi sjónarmið var sú leið farin í Danmörku að gera ríkar kröfur til eftirlits og skráningar og skylda lögð á leyfishafa að standa að umfangsmikilli skráningu á viðskiptavinum sínum til að tryggja öryggi og eftirlit. Auk þess sem leyfishöfum var gert að veita stjórnvöldum og eftir atvikum lögreglu greiðan aðgang að upplýsingum í því skyni að auðvelda þeim að fullnægja eftirlitshlutverki sínu. Þá var farin sú leið að skattleggja hagnað spilahalla nokkuð hátt í Danmörku. Fullyrt er nú að starfsemi hinna ólöglegu spilasala hafi lognast út af í framhaldi af lagasetningunni, enda ekki samkeppnishæfir við löglegar spilahallir sem sæta ströngu eftirliti. Þá er ljóst að lögleiðing starfseminnar hefur skilað ríkissjóði Dana verulegum tekjum sem ekki skiluðu sér til ríkisins þegar slíkur rekstur var rekinn ólöglega.
    Ágæt sátt hefur verið um þá ákvörðun Dana að heimila rekstur spilahalla. Skiptir máli að strax í upphafi var lagt bann við aðgengi fólks að spilasölum undir tilteknum aldri og gerðar skilyrðislausar kröfur til gesta að sýna persónuskilríki, vegabréf eða ökuskírteini við komu í spilahöll. Þá eru lagðar kvaðir á leyfishafa um upplýsinga- og eftirlitsskyldu gagnvart spilafíklum. Þess er krafist að einstaklingum sem oft venja komur sínar í spilahallir séu kynnt meðferðarúrræði og þá er spilahöllum gert skylt að bjóða öllum viðskiptavinum þann möguleika að útiloka sig frá spilahöll. Þá hafa spilahallir til að mynda látið útbúa upplýsingabæklinga sem liggja frammi í spilahöllum um spilafíkn og meðferðarúrræði sem í boði eru fyrir spilafíkla, en til samanburðar má geta þess að slíkt eftirlit er ekki til staðar hér á landi að því er varðar söfnunar-/spilakassa í verslunum eða á veitingastöðum. Af rannsóknum má sjá að árið 2005 var algengi spilafíknar aðeins 0,1% í Danmörku hjá einstaklingum á aldrinum 18–74 ára, lægst allra á Norðurlöndum. Þá hefur tíminn leitt í ljós að ótti um peningaþvætti var ástæðulaus þar sem spilahallir veita ekki kvittanir fyrir vinningum og í flestum tilfellum er aðeins heimilt að skipta spilapeningum fyrir reiðufé.
    Rétt er að geta þess að í Danmörku hafa sjónarmið varðandi staðsetningu spilahalla haft mikið vægi þegar mat er lagt á umsóknir um leyfi. Danir hafa talið heppilegast að spilahallir séu staðsettar innan borgar þannig að aðgengi eftirlitsaðila og lögreglu sé greitt en þó ekki í miðbæjarkjarna viðkomandi borgar þar sem það er talið fara betur á því að einstaklingar þurfi að taka ákvörðun um að gera sér ferð í spilahöll fremur en að þeir detti inn af götunni. Þá hefur það verið talið jákvætt ef staðsetning er til þess fallin að vera sérstaklega aðgengileg fyrir ferðamenn og hefur því verið algengt bæði í Danmörku og víðar í Evrópu að starfrækja spilahallir í nálægð við hótel eða annan ferðamannatengdan rekstur. Er rétt að höfð sé hliðsjón af sjónarmiðum þessum varðandi staðsetningu spilahalla þegar mat er lagt á umsóknir um leyfi hér á landi.
    Reynsla Dana af spilahöllum hefur verið góð líkt og að framan hefur verið rakið og hafa þeir með síðari breytingum nokkuð slakað á þeim ríku kröfum sem upphaflega voru fyrir hendi í danskri löggjöf, m.a. með aukinni útfærslu reglna í formi reglugerða í stað laga. Frumvarp þetta tekur þó mið af strangasta áskilnaði danskra laga eins og þau voru við upphaf leyfisveitinga í Danmörku auk þess sem gerðar eru auknar kröfur í frumvarpi þessu til leyfishafa og eftirlits. Sú hugmyndafræði er lögð til grundvallar í frumvarpi þessu að gera ríkar kröfur til leyfishafa og hafa ríkt eftirlit með starfseminni en að reynslan kunni hugsanlega síðar að leiða í ljós að slaka megi á kröfum hér líkt og gert var í Danmörku.

II. Tilgangur lagasetningar og hagsmunir af henni.
    Hagsmunir af lögleiðingu leyfisskylds reksturs spilahalla á Íslandi eru margþættir en í umræðu síðustu ára hefur öðru fremur verið vísað til þriggja þátta. Í fyrsta lagi mundi slík lögleiðing vera líkleg til að styðja og efla ferðamannaþjónustu með auknum afþreyingarmöguleikum, fjölbreyttari ferðamönnum og lengingu ferðamannatímabilsins. Í öðru lagi mundi lögleiðingin leiða til aukinna tekna fyrir ríki og sveitarfélög og tryggja þannig nýtt innstreymi fjármagns í ríkissjóð. Í þriðja lagi væri með lögleiðingu hægt að koma starfsemi sem þegar þrífst á Íslandi í undirheimum og á netinu undir eftirlit, veita viðskiptavinum réttarvernd og senda skýr skilaboð um hverjir það eru sem eiga erindi til að stunda fjárhættuspil. Þessi atriði fela ekki aðeins í sér hvata fyrir lagasetningu heldur marka þau að nokkru tilgang lagasetningarinnar.
    Ferðaþjónusta er ein af stærstu atvinnugreinum í heiminum í dag. Á Íslandi hefur verið gríðarlegur vöxtur í greininni undanfarin ár og hefur erlendum ferðamönnum sem sækja landið heim fjölgað til muna. Mikilvægt er að hlúa vel að ferðaþjónustunni enda hefur hún ýmis jákvæð áhrif á íslenskt hagkerfi. Liður í því er að bjóða upp á sem fjölbreyttasta afþreyingu bæði til að laða að fleiri og fjölbreyttari ferðamenn og eins til að tryggja samkeppnishæfni okkar við önnur vestræn ríki, sem bjóða upp á afþreyingarferðir í spilahallir.
    Fjölbreytileiki þeirra ferðamanna sem heimsækja landið hefur verið að aukast undanfarin ár og hefur það verið þáttur í vexti ferðaþjónustunnar hér á landi. Í því samhengi má m.a. nefna að í vaxandi mæli hefur orðið vinsælt að halda hér ráðstefnur og stærri samkomur. Ætla má að fjölgun afþreyingarmöguleika komi til með að styðja mjög við þessa þróun og almennt vera til þess fallin að auka frekar á vinsældir landsins. Hefur sagan sýnt að staðir þar sem fjárhættuspil standa ferðamönnum til boða hafa aukið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Má ætla að það auðveldi aðilum á sviði ferðaþjónustunnar að markaðssetja sig á alþjóðavísu auk þess sem leyfishafar sjálfir eru líklegir til að kosta markaðssetningu á þjónustu sinni og Íslandi á erlendri grundu.
    Aukin aðsókn ferðamanna til landsins mundi eðli máls samkvæmt leiða til aukinna gjaldeyristekna. Það eitt mundi ekki aðeins auka hagvöxt heldur einnig hafa jákvæð áhrif á gjaldeyrisjöfnuð hér á landi. Það má ganga út frá því að ferðamenn komi ekki hingað til þess eins að stunda spilahallir heldur nýti þeir sér einnig annars konar þjónustu sem hér er í boði og stundi viðskipti við verslunareigendur hér á landi. Þannig mundu margir aðilar í fjölbreyttum og afleiddum greinum jafnframt njóta góðs af fjölgun ferðamanna svo sem verslunarmenn, aðilar í veitingasölu, leigubílstjórar og aðrir aðilar sem selja skemmtun hvers konar eins og skoðunarferðir eða annars konar afþreyingu svo fáeinir séu nefndir. Með auknu framboði afþreyingarmöguleika er enn fremur líklegt að ferðamannatímabilið á Íslandi komi til með að lengjast og að dreifing álags vegna ferðamanna verði jafnari.
    Í samræmi við framangreint og reynslu annarra þjóða af lögleiðingu leyfisskyldra spilahalla standa líkur til þess að spilahallir muni opna fyrir aukið innstreymi fjármuna í íslenskt hagkerfi, auka gjaldeyrisjöfnuð, lengja ferðamannatímabilið hér á landi og stuðla að auknum atvinnutækifærum og aukinni atvinnusköpun innan ferðaþjónustunnar. Lögfesting á heimild til að reka spilahöll á Íslandi er því líkleg til að verða mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna hér á landi og ætti að geta gegnt hlutverki samfélagslegs hvata fyrir efnahagsþróun íslensks samfélags.
    Efnahagslegur ávinningur af lögleiðingu reksturs leyfisskyldra spilahalla er ekki aðeins bundinn við atvinnusköpun á vegum leyfishafa og/eða áhrif á ferðamannaþjónustu, því hann felst ekki hvað síst í því að hagnaður af löglegri leyfisskyldri starfsemi getur verið skattlagður. Hefur verið áætlað að Íslendingar eyði um milljarði króna í fjárhættuspil á netinu á hverju ári og sá markaður fer vaxandi. Íslenska ríkið verður af verulegum tekjum með því að skattleggja ekki þá starfsemi sem þegar er til staðar. Færi ríkið þá leið að lögleiða og skattleggja starfsemi á þessu sviði væri þannig hægt að tryggja frekara innstreymi fjármuna til ríkissjóðs, sem gæti í kjölfarið nýtt þá fjármuni í heilbrigðis- eða menntakerfið, samgöngumál eða annað það sem löggjafinn á hverjum tíma telur nauðsynlegt til að bæta samfélagið. Eins og áður hefur komið fram fóru Danir þá leið að skattleggja hagnað af starfsemi á sviði fjárhættuspila nokkuð hátt og hafa önnur nágrannalönd okkar jafnframt farið þá leið. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að fara sömu leið.
    Það er þó ekki aðeins hinn efnahagslegi ávinningur sem mælir með lögleiðingu starfsemi sem gengur út á fjárhættuspil. Eins og fyrr getur er það á flestra vitorði að aðgengi að fjárhættuspilum fyrir almenning á Íslandi er nú þegar fyrir hendi, bæði í formi löglegrar starfsemi sem heimiluð hefur verið með sérlögum og ólöglegrar starfsemi sem fer fram neðanjarðar, í ólöglegum spilasölum eða á netinu.
    Hin ólöglega starfsemi er utan opinbers eftirlits. Þeir sem eiga viðskipti við slíka starfsemi eru að mörgu leyti án réttarstöðu og eiga á hættu að verða fyrir barðinu á svikum. Þá er ljóst að kröfur á báða bóga vegna viðskipta þessara njóta ekki lögverndar, þannig geta þeir sem hafa atvinnu af því að bjóða fjárhættuspil ekki farið með kröfur sínar á hendur viðskiptavinum í löginnheimtu og að sama skapi hafa viðskiptavinirnir enga tryggingu fyrir því að fá vinninga sína greidda út. Með lögleiðingu leyfisskylds reksturs spilahalla væri hægt að hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem þegar er boðin á Íslandi og hægt væri að veita viðskiptavinum eða neytendum réttarvernd sem þeir hafa ekki á grundvelli gildandi löggjafar.
    Þá er einnig rétt að líta til þess að vefsíður þær sem bjóða upp á fjárhættuspil gera viðskiptavinum sínum kleift að stunda fjárhættuspil hvar og hvenær sem er. Þá virðast litlar eða takmarkaðar aðgangskröfur vera fyrir hendi á vefsíðum sem þessum. Þannig geta börn, ungmenni og aðrir varnarlausir aðilar verið þátttakendur á slíkum vefsíðum, sem telja verður varhugavert, en yfirvöld eiga þó eðli málsins samkvæmt afar erfitt með að sinna eftirliti með slíkri starfsemi. Með lögleiðingu leyfisskylds reksturs spilahalla er samhliða lagt til að skýr ákvæði varðandi aðgangskröfur verði lögfest, til að mynda skilyrði um að viðskiptavinir spilahalla hafi náð 21 árs aldri. Slík skilyrði senda þau skilaboð út á við að fjárhættuspil séu hugsuð einvörðungu fyrir fullorðna einstaklinga sem hafa nægilegan þroska til að taka þátt í þeim.
    Sé horft til nágrannalanda, t.d. Danmerkur, má sjá að líkur standa til þess að lögleiðing á heimild til reksturs spilahallar hér á landi leiði til þess að ólögleg spilastarfsemi leggist af og starfsemin færist upp á yfirborðið og undir opinbert eftirlit. Má leiða líkur að því að rekstur ólögmætra spilasala muni í kjölfarið eiga erfitt um vik í ljósi þess að þeir yrðu ekki samkeppnishæfir. Með þessu er íslensk löggjöf einnig aðlöguð að þeim raunveruleika sem er fyrir hendi og skýr skilaboð send um að spilamennska skuli stunduð af ábyrgð, undir eftirliti og aðeins af aðilum sem eru til þess bærir.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Markmið frumvarpsins er, eins og áður hefur komið fram, að setja almenna lagaumgjörð um spilahallir á Íslandi. Í fyrsta kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um markmið laganna og gildissvið. Þá er þar að finna orðskýringar, skilgreiningar á helstu hugtökum laganna. Annar kafli frumvarpsins fjallar um annars vegar rekstrarleyfi og veitingu slíks leyfis og hins vegar um afturköllun leyfis. Í fyrri hluta kaflans er að finna ákvæði sem kveða á um hver veiti leyfi til reksturs, hvaða starfsemi teljist leyfisskyld starfsemi, hvernig sækja skuli um leyfi, skilyrði fyrir leyfisveitingu, hvenær synja megi um leyfi o.fl. Þá er einnig að finna ákvæði um tilkynningarskyldar breytingar og um endurnýjun rekstrarleyfis. Í síðari hluta annars kafla er fjallað um afturköllun rekstrarleyfis, kveðið er á um í hvaða tilfellum heimilt sé að afturkalla leyfi og hvernig afturköllun skuli tilkynnt. Í þriðja kafla frumvarpsins má finna ákvæði um spilakassa, spilareglur og framkvæmd spila og þá er í fjórða kafla að finna ákvæði um spilapeninga sem nota skal í spilahöll. Í fimmta kafla er að finna ákvæði um aðgangskröfur, en einstaklingum undir 21 árs aldri er óheimill aðgangur að spilahöllum. Í kaflanum er einnig að finna ákvæði um skyldu til að hafa öryggisgæslu í spilahöll, um heimild leyfishafa að innheimta aðgangseyri og um opnunartíma spilahallar. Í sjötta kafla er að finna ákvæði um skráningu viðskiptamanna. Spilahöll er skylt að skrá upplýsingar um sérhvern viðskiptavin við komu í spilahöll sem og að taka ljósmynd af honum. Í kaflanum er að finna ákvæði um skyldu til geymslu upplýsinga í tiltekinn tíma og eyðingu að þeim tíma loknum. Einnig er að finna í kaflanum ákvæði um heimild viðskiptamanna til að setja sjálfa sig á bannlista hjá spilahöll þannig að viðkomandi sé meinaður aðgangur að spilahöllinni. Þá er í kaflanum að finna heimild til þess að skrá upplýsingar um refsivert athæfi viðskiptamanna að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sem og um skyldu til að varðveita gögn um framkvæmd viðskipta í spilahöll. Í sjöunda kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um starfsfólk spilahalla, m.a. um skilyrði fyrir ráðningu og um bann við spilamennsku starfsmanna. Í kaflanum er jafnframt kveðið á um skyldu leyfishafa til að sjá til þess að komi upp grunur um spilafíkn hjá viðskiptavini, að þá sé honum kynnt sú ráðgjöf og þau meðferðarúrræði sem standa spilafíklum til boða. Þá er í lokaákvæði kaflans kveðið á um heimild leyfishafa til að hafa húsbauk í spilahöll og hvernig fara skal með framlög sem safnast saman í slíkum bauk. Í áttunda kafla er að finna ákvæði um ársuppgjör og endurskoðun. Í níunda kafla er að finna ákvæði um eftirlit með spilahöll en samkvæmt frumvarpinu hefur innanríkisráðherra eftirlit með spilahöll. Þá er gert ráð fyrir því að ávallt sé til staðar á opnunartíma spilahallar óháður bókhaldsfróður eftirlitsmaður sem lýtur stjórn ráðherra, en ekki stjórnendum spilahallar. Jafnframt er í kaflanum að finna ákvæði er tekur til gruns um peningaþvætti og um skyldu til að viðhafa rafræna vöktun með myndavélum í spilahöll. Í tíunda kafla er að finna ákvæði um refsingu við broti á lögum þessum og í ellefta kafla er að finna ákvæði um skattlagningu tekna spilahalla. Loks er í tólfta kafla að finna ákvæði um gildistöku og gildistíma laganna.
    Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar hér á eftir.

IV. Lagabreytingar.
    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga að breytingu á 181., 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga.
    Í 181. gr. almennra hegningarlaga, líkt og ákvæðið hljóðar nú, er að finna heimild til að refsa einstaklingi sem aflar sér framfærslu með ólögmætu móti, svo sem með fjárhættuspili. Þá er í 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga, líkt og ákvæðin hljóða nú, lögð refsing við því að stunda fjárhættuspil og veðmál í atvinnuskyni og koma öðrum til þátttöku í þeim, svo og að hafa beinar eða óbeinar tekjur af því að láta þau fara fram í húsakynnum sínum. Með öðrum orðum er bannað að stunda fjárhættuspil eða veðmál í atvinnuskyni, auk þess sem þeim er lætur slíka starfsemi fara fram í sínum húsakynnum getur verið gerð refsing. Þriðja aðila er því óheimilt að hafa tekjur af fjárhættuspilum eða hýsa þá starfsemi í húsakynnum sínum.
    Orðalag fyrrgreindra ákvæða vísar nú einvörðungu til fjárhættuspila án þess að gerður sé sérstakur áskilnaður um ólögmæti enda hafa fjárhættuspil fram til þessa verið ólögmæt. Ef frumvarp þetta nær fram að ganga er hins vegar búið að samþykkja að fjárhættuspil geti verið boðin fram hér á landi með lögmætum hætti á grundvelli leyfis. Vegna þessa þarf að gera greinarmun í fyrrgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga á annars vegar lögmætum og hins vegar ólögmætum fjárhættuspilum. Því er nauðsynlegt að gera minni háttar breytingu á orðalagi ákvæðanna þannig að vísað verði til ólögmætis, og lögmæt starfsemi sem fram fer á grundvelli leyfis frá ráðherra þannig tekin út fyrir gildissvið ákvæðanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er markmið laganna skilgreint. Meginmarkmið þeirra er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra. Enn fremur er það markmið laganna að öll slík starfsemi fari fram undir opinberu eftirliti og að starfseminni verði sett almenn lagaumgjörð sem kveði m.a. á um háa skattlagningu á spilatekjum. Er um að ræða nýmæli í íslenskri löggjöf þar sem atvinnustarfsemi sem gert hefur út á spilamennsku af þessum toga hefur fram til þessa að meginstefnu til verið óheimil að lögum þó að undantekningar hafi verið gerðar á grundvelli sérlaga. Þrátt fyrir það hafa ólöglegir spilaklúbbar lengi verið starfræktir á höfuðborgarsvæðinu og víðar, auk þess sem fjölmargar heimasíður á veraldarvefnum bjóða upp á hvers konar fjárhættuspil. Þannig hefur sú starfsemi, sem að er stefnt að lögleiða á grundvelli leyfisveitinga, þrifist hér á landi án nokkurs eftirlits í undirheimum, ef svo má að orði komast. Með lögleiðingu í þessu formi er stefnt að því að uppræta þessa ólögmætu starfsemi og bjóða almenningi upp á nýjan afþreyingarmöguleika sem háður er ströngum skilyrðum og eftirliti. Er lagt til grundvallar að slík spilamennska skuli aðeins fara fram á grundvelli leyfisveitingar ráðherra og þannig tryggt að hún verði ábyrg, allsherjarreglu verði haldið uppi og hamlað verði gegn skaðlegum áhrifum spilamennsku.
    Með því að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra má gera ráð fyrir ýmsum afleiddum afleiðingum lögleiðingar, sem þó eru ekki bein markmið laganna. Þannig má gera ráð fyrir að tekjuöflun ríkissjóðs aukist, jákvæðum áhrifum á ferðamannaiðnað, auk þess sem viðskiptavinir rekstrar af þessu formi geti nú notið réttarverndar vegna viðskipta sinna.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er gerð grein fyrir gildissviði laganna. Gert er ráð fyrir að lögin gildi um starfsemi spilahalla sem reknar eru í atvinnuskyni hér á landi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lög þessi gildi sem sérlög um fjárhættuspil þau sem leyfishöfum verður á grundvelli laga þessara heimilað að bjóða upp á í spilahöllum sínum. Hafa ber í huga að ýmsar gerðir fjárhættuspila eru þegar heimilaðar á Íslandi, til að mynda ýmsar gerðir happdrætta, lottó og fleira og um þau fjárhættuspil gilda sérreglur, sbr. lög nr. 38/2005, um happdrætti, og lög nr. 59/1972, um getraunir. Bjóði spilahallir upp á eitthvert af þeim fjárhættuspilum, sem þegar hafa verið heimiluð á grundvelli annarra laga en þessara, gilda viðkomandi lög sem sérlög gagnvart lögum þessum.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til hugtakaskilgreiningar sem nauðsynlegar þykja til að auðveldara sé að átta sig á merkingu hugtaka sem finna má á víð og dreif í frumvarpinu. Á þetta einkum við um skilgreiningar á hugtökum sem ekki eiga sér hliðstæðu í íslenskum lögum og eru sum þeirra nýmæli í íslenskri tungu, svo sem hugtökin spilahöll, húsbaukur og spilapeningar.
    Hvað varðar hugtakið spilahöll þá felur það í stuttu máli í sér tilvísun til starfsstöðvar leyfishafa (e. casino). Er þannig með hugtakinu vísað til þess samkomustaðar þar sem leyfishafi stundar þá leyfisskyldu starfsemi sem lög þessi taka til. Önnur hugtök þarfnast ekki nánari skýringa.
    Þá er hugtakið spilakassi skilgreint í 4. tölul. ákvæðisins. Hugtakið spilakassi á sér nokkra fyrirmynd að því er varðar hlutlæga eiginleika í hugtakaskýringu söfnunarkassa sem fram kemur í lögum nr. 73/1994, um söfnunarkassa. Með hugtakaskýringunni er leitast við að gera frekari grein fyrir ólíkum eiginleikum slíkra kassa en þeir hafa tekið breytingum í gegnum tíðina og eru til dæmis nú flestir vélrænir með snertiskjám. Óháð hlutlægum eiginleikum skiptir mestu máli, að því er varðar skilgreiningu á hugtakinu, það sérstaka inntak spilakassa að fela í sér fjárhættuspil þar sem vinningar grundvallast af röð tákna en úthlutun vinninga byggist á tilviljun. Þá ber að geta þess að hugtakið spilakassi í frumvarpi þessu tekur í raun til sömu, eða a.m.k. sams konar, kassa og gildandi lög um söfnunarkassa. Hins vegar er annað hugtak notað í lögum um söfnunarkassa í ljósi þess að um er að ræða kassa sem starfræktir eru í fjáröflunarskyni fyrir tiltekin samtök og félög, sbr. almennar athugasemdir við frumvarp það er varð að lögum nr. 73/1994, um söfnunarkassa.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. er áréttuð sú meginregla gildandi réttar að fjárhættuspil séu að meginstefnu til óheimil. Þrátt fyrir meginreglu þessa er í ákvæðinu kveðið á um heimild ráðherra til að veita leyfi fyrir ákveðnum rekstri sem byggist á fjárhættuspilum.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að leyfishafa sé heimilt að hefja starfsemi að fengnu rekstrarleyfi, auk þess sem gerð er grein fyrir inntaki slíkra leyfa með upptalningu í dæmaskyni. Um er að ræða yfirheiti sem helstu tegundir spila sem boðið er upp á í spilahöllum falla undir, svo sem hvers konar rúllettu- og teningaspil og þekktir spilaleikir líkt og bakkarat, tuttugu og einn og póker. Í ákvæðinu er einnig almenn tilvísun til þeirra spila sem boðið er upp á í alþjóðlegum spilahöllum en rétt er að geta þess að slík spil hafa almennt ákveðin og skýr einkenni þó að nákvæmar spilareglur kunni að vera eitthvað breytilegar. Vegna þessa, og í ljósi þess að leyfishöfum er heimilað samkvæmt ákvæðum laga þessara að setja sér eigin spilareglur, er hvorki talið tækt né nauðsynlegt að skilgreina spilin með nákvæmari hætti. Þannig er það lagt í hendur leyfishafa að ákveða hvaða spil þeir kjósa að bjóða viðskiptavinum sínum upp á á grundvelli leyfa sinna. Fyrirmæli annarra ákvæða laga þessara gera það þó að verkum að ráðherra hefur undir höndum á hverjum tíma upplýsingar um framboð leyfishafa, fær tilkynningar um breytingar á því og hefur, ef sérstakar ástæður mæla með því, tök á að leggjast gegn framboði nýrra spila, sbr. 2. mgr. 10. gr.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu eru talin upp þau gögn og þær upplýsingar sem fylgja skulu umsókn um leyfi til reksturs spilahallar. Skal slík umsókn berast til ráðuneytisins á skriflegan máta. Eins og sjá má af 10. tölul. greinarinnar er ekki um tæmandi talningu að ræða heldur getur ráðherra óskað eftir öðrum viðeigandi upplýsingum.
    Upplýsingar sem fram skulu koma í umsókn skulu vera ítarlegar og varpa skýru ljósi á umbeðin atriði, enda er það á grundvelli þeirra sem metið er hvort umsækjandi uppfylli skilyrði laganna fyrir leyfisveitingu. Rétt er að geta að af 8. tölul. greinarinnar leiðir að ef búið er að ráða framkvæmdastjóra eða aðra stjórnendur þegar umsókn er lögð fram þá ber umsækjanda að upplýsa um það í umsókn. Telja verður að líkur séu á því að ekki sé búið að ráða í slíkar stöður þegar umsókn um leyfi er lögð fram. Allar líkur eru á því að beðið sé með slíkar ráðningar þangað til umsækjanda hefur verið veitt rekstrarleyfi. Sé atvikum á hinn bóginn þannig háttað að þegar sé búið að ráða í þessar stöður þegar umsókn er lögð fram þá ber umsækjanda að upplýsa um það. Sé ráðið í þessar stöður eftir að rekstrarleyfi er veitt þá leiðir tilkynningarskyldu um það af 6. tölul. 1. mgr. 12. gr., sbr. umfjöllun um 12. gr.

Um 6. gr.

    Við mat á því hvort umsækjandi teljist hæfur til að fá rekstrarleyfi á grundvelli laganna skal ráðherra líta til þeirra skilyrða sem er að finna í lagagrein þessari. Í greininni eru talin upp skilyrði í átta töluliðum sem umsækjandi þarf að uppfylla til að öðlast leyfi til reksturs spilahallar. Uppfylli umsækjandi skilyrði greinarinnar skal ráðherra veita viðkomandi leyfi til reksturs spilahallar samkvæmt lögunum.
    Samkvæmt 1. tölul. skal umsækjandi vera hlutafélag eða einkahlutafélag. Félög í þessum félagaformum starfa á grundvelli sérstakra laga. Ástæða þess að þessi tilhögun er lögð til er sú að um slík félög gilda ítarlegar reglur, sbr. t.d. lög nr. 2/1995, um hlutafélög, og lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og þar með er ákveðin formfesta og gagnsæi í skipulagi þeirra, starfsemi og reikningsskilum. Slíkt er ótvíræður kostur við framkvæmd þess fyrirkomulags sem lagt er til að tekið verði upp með frumvarpi þessu, ekki síst þar sem álögð opinber gjöld munu byggjast að stórum hluta til á rekstrarafkomu einstakra leyfishafa. Með þessu er jafnframt ætlunin að tryggja ákveðið öryggi fyrir íslenska ríkið og hagræði við nauðsynlega upplýsingaöflun, þar sem um hana og starfsemi aðilans gilda skýrar reglur. Mikilvægt er að umgjörð leyfishafa sé skýr og engin vandkvæði að skýra og fylgja eftir þeim skyldum sem á viðkomandi leyfishafa hvíla.
    Samkvæmt 2. tölul. skal umsækjandi hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu. Er þannig lagt til að leyfisveiting verði ekki bundin við innlenda lögaðila eina. Þetta er m.a. lagt til í ljósi athugasemda sem bárust frá Eftirlitsstofnun EFTA um eldri happdrættislög, nr. 6/ 1926, á þá leið að stofnunin telji það brjóta í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að binda happdrættisstarfsemi við íslensk fyrirtæki. Í frumvarpinu er þannig lagt til að leyfisveitingin nái til lögaðila sem hafi staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og er það í samræmi við skuldbindingar Íslands á grundvelli EES-samningsins.
    Í 3. tölul. er að finna skilyrði sem kveður á um að umsækjandi skuli hafa tilkynnt atvinnurekstur til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Þá er enn fremur gert að skilyrði fyrir leyfisveitingu að skráningar umsækjanda hjá stjórnvöldum séu uppfærðar og í samræmi við stöðu umsækjanda við umsókn. Víða í sérlögum má finna ákvæði sem leggja tilkynningarskyldu á félög í því félagaformi sem 1. tölul. vísar til. Á grundvelli slíkra ákvæða ber félögum að tilkynna stjórnvöldum um ýmsar breytingar og ákvarðanir og þykir rétt að gera áskilnað um að umsækjandi hafi fullnægt lögbundinni tilkynningarskyldu sinni og þær opinberu upplýsingar sem liggi fyrir um umsækjanda séu réttar og gefi skýra og rétta mynd af stöðu umsækjanda þannig að hægt sé að styðjast við þær þegar mat er lagt á umsókn hans.
    Í 4. tölul. er það gert að skilyrði fyrir leyfisveitingu að umsækjandi sé fær um að reka spilahöll á ábyrgan hátt. Er hér um að ræða nokkuð matskennt skilyrði sem meta þarf í hverju tilfelli fyrir sig hvort uppfyllt sé eður ei. Ákveðin fyrirmæli er þó að finna í ákvæðinu sjálfu um það til hvaða atriða skal litið við mat á því hvort umrætt skilyrði sé uppfyllt. Í fyrsta lagi er kveðið á um það í ákvæðinu að þegar metið er hvort um sé að ræða aðila sem geti rekið spilahöll á ábyrgan hátt verði að líta til þess hvort fjárhagslegir burðir umsækjanda séu fullnægjandi. Viðskipta- og rekstraráætlun, sem fylgja skal umsókn, sbr. 4. tölul. 5. gr., getur til dæmis gefið ákveðna mynd af því hversu fjárhagslega burðugur umsækjandi er. Í öðru lagi er kveðið á um að umsækjandi þurfi að hafa yfir að ráða alþjóðlegri reynslu af rekstri spilavíta. Er talið nauðsynlegt að setja umrætt skilyrði fyrir leyfisveitingu í ljósi þess að rekstur á spilahöll er vandasamur og krefst þess að að honum komi aðilar sem þekkja vel til og vita hvernig best er að haga slíkum rekstri. Í ljósi þess að rekstur sem þessi hefur fram til þessa ekki verið heimill á Íslandi er nauðsynlegt að gera hér skilyrði um alþjóðlega reynslu. Með þessu skilyrði er verið að undirstrika að ef spilahöll hér á landi á að standa undir nafni í alþjóðlegum samanburði, þar sem markmiðið er til dæmis að gera Reykjavík samanburðarhæfari með tilliti til afþreyingarmöguleika, er nauðsynlegt að spilahöllin sé rekin og henni stýrt á þann hátt að hún standist alþjóðlegan samanburð. Af orðalagi ákvæðisins, hafa yfir að ráða, má sjá að umsækjandi, þ.e. fyrirtækið sem sækir um rekstrarleyfi, þarf ekki að hafa sjálft reynslu af rekstri spilahalla heldur nægir í því samhengi að fyrirtækið hafi greitt aðgengi að slíkri reynslu í gegnum eignarhald og/eða stjórnunar- eða ráðgjafatengsl. Skal leggja til grundvallar að skilyrðinu sé fullnægt ef félag sem hefur sjálft reynslu af rekstri á stóran hlut í umsækjandanum, ráðgjafasamningur við slíkan aðila liggur fyrir eða ef stjórnendur umsækjanda eru aðilar sem hafa alþjóðlega reynslu af rekstri sem þessum. Meginatriðið er að tryggt sé að umsækjandi geti sótt greiðlega í þá reynslu og þekkingu sem fyrir hendi er þannig að hann geti lagt hana til grundvallar í rekstri sínum hér á landi. Með skilyrðum 4. tölul. er því fyrst og fremst leitast við að tryggja trúverðugleika, stöðugleika og fagmennsku í rekstri spilahalla hér á landi.
     Í 5. tölul. er kveðið á um að til þess að öðlast rekstrarleyfi þurfi umsækjandi að hafa yfir nægilegum fjölda ferðamanna að ráða. Þetta skilyrði er sett að fyrirmynd skilyrðis sem danski ráðherrann setti í tilkynningu um útgáfu nýrra leyfa í Danmörku í febrúar 2010. Skilyrðið samrýmist hugmyndum um það markmið að með stofnun spilahalla sé ekki hvað síst verið að efla samkeppnismöguleika landsins, eða einstakra borga, þegar kemur að því að veita ferðamönnum aukna afþreyingarmöguleika hér á landi sem gerir það að verkum að umsækjandi þarf annaðhvort að starfa á vettvangi ferðaþjónustu hér á landi eða hafa sterk tengsl við aðila innan ferðaþjónustunnar.
    Í 6. tölul. er gerður sá áskilnaður að leyfishafi hafi ekki verið sviptur leyfi til rekstrar gististaðar, veitingastaðar eða áfengisveitinga á síðustu fimm árum frá umsókn. Eins og sjá má af 2. mgr. greinarinnar tekur skilyrði þetta ekki aðeins til umsækjanda heldur jafnframt aðila sem fara með virkan eignarhlut í umsækjanda. Hafi umsækjandi, eða aðili sem fer með virkan eignarhlut í umsækjanda, verið sviptur leyfi til rekstrar gististaðar, veitingastaðar eða áfengisveitinga á síðustu fimm árum frá umsókn, en slík svipting verið afturkölluð, telst viðkomandi uppfylla skilyrði þetta.
    Í 7. tölul. er það gert að skilyrði fyrir leyfisveitingu að umsækjandi hafi ekki á síðustu fimm árum gerst sekur um háttsemi sem varðar við tiltekin lög sem talin eru upp í ákvæðinu og reglur settar samkvæmt þeim. Er skilyrði þetta sett til að tryggja að aðeins traustir og ábyrgir rekstraraðilar fái úthlutað leyfi til reksturs spilahallar samkvæmt lögum þessum. Skilyrði þetta tekur ekki aðeins til umsækjanda heldur einnig aðila sem eiga virkan eignarhlut í umsækjanda, til að mynda eigenda, sbr. 2. mgr.
    Samkvæmt 8. tölul. skal umsækjandi ekki skulda skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr. Ákvæði þetta þarfnast ekki frekari útskýringar.
    Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skulu skilyrði 6., 7. og 8. tölul. einnig taka til aðila sem fara með virkan eignarhlut í umsækjanda. Skilyrði þetta er sett til að tryggja að aðilar þeir er standa að baki umsækjanda og hafa veruleg fjárhagsleg eða stjórnunarleg tengsl í honum séu, líkt og umsækjandinn sjálfur, einnig traustir aðilar.

Um 7. gr.

    Ákvæði þetta hefur að geyma nokkur almenn atriði um sjálft rekstrarleyfið.
    Í 1. mgr. er kveðið á um tímalengd rekstrarleyfis sem er 15 ár í senn, en nauðsynlegt þykir að lögbinda slíkt lágmark til að tryggja festu í rekstri af þessu tagi enda upphafskostnaður reksturs veruleg fjárfesting. Í 11. gr. er síðan gerð grein fyrir tilhögun endurnýjunar rekstrarleyfis.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að rekstrarleyfi sé takmarkað við tiltekinn leyfishafa, nafn hans og kennitölu. Þannig er gert ráð fyrir að rekstrarleyfið sé með öllu óframseljanlegt. Þá er rekstrarleyfið enn fremur bundið við staðsetningu spilahallar leyfishafa. Við umsókn er umsækjanda gert að upplýsa um fastanúmer og landnúmer þeirrar fasteignar þar sem fyrirhugað er að starfsemin fari fram. Fái viðkomandi útgefið rekstrarleyfi hjá ráðherra þá er það bundið þeirri fasteign og er leyfishafa óheimilt að reka starfsemi sína á grundvelli rekstrarleyfisins í annarri fasteign.
    Samkvæmt 3. mgr. er ráðherra heimilt að binda leyfi því skilyrði að ráðuneytinu verði sett bankaábyrgð eða samsvarandi ábyrgð til tryggingar á þeim kröfum sem taldar eru upp í ákvæðinu. Þessari heimild er ætlað að standa að nokkru til fyllingar 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. þar sem m.a. er mælt fyrir um það skilyrði fyrir leyfisveitingu að leyfishafi hafi fjárhagslega burði til að reka spilahöll. Þannig getur ráðherra, að teknu tilliti til niðurstöðu mats á fjárhagslegum burðum umsækjanda, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr., gripið til þessarar heimildar og bundið leyfi því skilyrði að leyfishafi setji ráðuneytinu tryggingu fyrir þeim kröfum sem taldar eru upp í ákvæðinu.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um veitingu rekstrarleyfis. Þar er að finna reglur sem ráðherra ber að fara eftir, þ.e. að tilkynna skuli umsækjanda skriflega um leyfisveitingu innan ákveðins tímaramma. Þá er einnig að finna þá reglu í ákvæðinu að ráðherra skuli tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að í rekstrarleyfi skuli tilgreina gildistíma rekstrarleyfis, þá starfsemi sem veitt er leyfi fyrir á grundvelli þess en í því felst að tilgreina þarf þær tegundir spila sem leyfishafa er heimilt að bjóða viðskiptavinum sínum. Þá skal tilgreina þau skilyrði sem kunna að hafa verið sett fyrir leyfi. Um skilyrði þessi sem heimilt er að setja rekstrarleyfi er mælt fyrir í öðrum ákvæðum.

Um 9. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um synjun á rekstrarleyfi. Kemur synjun einna helst til greina þegar eitthvert skilyrða eða einhver skilyrði 6. gr. eru ekki uppfyllt. Þá kann einnig að koma til synjunar ef ómöguleiki stendur í vegi fyrir að veita fleiri rekstrarleyfi á grundvelli laga þessara vegna bráðabirgðaákvæðis II. Skal synjun vera rökstudd og tilkynnt umsækjanda. Er gert ráð fyrir að slík tilkynning berist innan tilskilins tíma, annars vegar innan þriggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar og hins vegar ekki síðar en tólf mánuðum frá móttöku umsóknar. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að þessi tólf mánaða tilkynningarfrestur tekur aðeins til umsókna sem ekki voru fullbúnar og umsækjandi þar af leiðandi ekki fengið tilkynningu skv. 2. mgr. 9. gr. Berist fullbúin umsókn og hafi umsækjanda verið tilkynnt um það í samræmi við 2. mgr. 9. gr. hefur ráðherra aðeins þrjá mánuði til að tilkynna um synjun.

Um 10. gr.

    Hér er kveðið á um hvernig fara skuli með breytingar sem verða á starfsemi sem rekstrarleyfi hljóðar um.
    Allar fyrirhugaðar breytingar á starfsemi eru háðar tilkynningu til ráðherra og er leyfishafa gert að sækja um slíkar breytingar sérstaklega ef þær kalla á breytingar á skilmálum gildandi rekstrarleyfis. Sem dæmi um breytingu sem háð er umsókn til ráðherra er ef leyfishafi óskar eftir samþykki á breytingu á staðsetningu reksturs spilahallar.
    Þrátt fyrir áskilnað 1. mgr. er lagt til grundvallar að leyfishafi hafi nokkuð rýmri heimildir til að gera breytingar á framboði tegunda spila sem hann býður upp á í spilahöll sinni. Leyfishafi þarf þó ávallt að gæta þess að framboð hans rúmist innan marka 2. mgr. 4. gr. og er skylt að tilkynna um breytingar af þessu tagi til ráðherra, þótt þær séu ekki háðar samþykki ráðherra. Ráðherra er þó mögulegt að hafna breytingum leyfishafa af þessu tagi ef sérstakar ástæður mæla með því. Þannig er gætt að því að ráðherra sé á hverjum tíma upplýstur um framboð spila í spilahöll og geti tryggt að framboðið sé í samræmi við önnur ákvæði laga þessara og þau sjónarmið sem að baki þeim standa.
    Í hvorugu framangreindra tilvika, hvort heldur er vegna breytinga skv. 1. mgr. sem kalla á breytingar á skilmálum rekstrarleyfis og háðar eru samþykki ráðherra eða vegna breytinga skv. 2. mgr. sem virkja tilkynningarskyldu en eru ekki háðar samþykki ráðherra, er talið nauðsynlegt að gefa þurfi út nýtt rekstrarleyfi. Lagt er til grundvallar að gildandi rekstrarleyfi haldi gildi sínu en eðli máls samkvæmt er nauðsynlegt að halda skrá yfir breytingar á skilmálum sem sýna stöðu skilmála rekstrarleyfis eins og hún er á hverjum tíma. Er rétt að ráðherra haldi utan um þessa skráningu.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að leyfishafi skuli, óski hann þess, sækja um endurnýjun til ráðherra a.m.k. tólf mánuðum áður en gildandi rekstrarleyfi rennur út.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um heimild ráðherra til að gefa út bráðabirgðaleyfi til leyfishafa, sem er þá umsækjandi að endurnýjun, á meðan umsókn hans um endurnýjun er til meðferðar. Er slíkt leyfi í öllum atriðum grundvallað á því fyrra, eftir atvikum að teknu tilliti til síðari breytinga, og bundið sömu starfsemi og skilyrðum fyrir henni. Gildistími bráðabirgðaleyfis getur verið allt að þrír mánuðir og telst það hæfilegur tími til að afgreiða umsókn um endurnýjun en heimilt er að framlengja ef tafir á útgáfu endurnýjaðs leyfis eru ekki umsækjanda að kenna. Með þessu ætti að vera tryggt að ekki þurfi að stöðva rekstur þótt endurnýja eigi rekstrarleyfi, enda má gera ráð fyrir að afgreiðsla á endurnýjuðu rekstrarleyfi taki ekki lengri tíma.
    Í 3. mgr. eru nefnd þau sjónarmið sem líta ber til við mat á umsókn um endurnýjun. Samkvæmt ákvæðinu ber að taka mið af því hvernig starfsemi hefur gengið á leyfistíma og þeirri reynslu sem fengist hefur af rekstrinum. Þá ber að líta til þess hvort reksturinn hafi verið starfræktur á ábyrgan og tryggan máta. Við endurnýjun er því hægt að leggja mat á það hvað reynslan af starfsemi af þessu tagi hér á landi hefur leitt í ljós. Á þessum tímapunkti mætti þannig til að mynda skoða hvort starfsemi hafi haft áhrif á almannareglu og öryggi, hvort arðsemi hafi verið af rekstri fyrir þjóðfélagið o.s.frv. Þá segir í ákvæðinu að ef niðurstaða ráðherra að lokinni skoðun verði sú að rekstur hafi verið starfræktur á ábyrgan og tryggan máta þá sé ráðherra rétt að gefa út nýtt leyfi. Er með þessu komið í veg fyrir að leyfishafar þurfi að sæta því að alger óvissa ríki um það hvort endurnýjun rekstrarleyfis fáist eður ei. Þá er umrætt fyrirkomulag til þess fallið að skapa aukinn innbyggðan hvata fyrir leyfishafa til að gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja að rekstur sé ábyrgur og tryggur.

Um 12. gr.

    Í greininni er kveðið á um í hvaða tilfellum ráðherra getur afturkallað rekstrarleyfi. Eru ástæðurnar taldar upp í sjö töluliðum í 1. mgr. Skilyrði þessi skýra sig að mestu sjálf og því óþarft að skýra þau nánar hér. Rétt er þó að benda á að í 6. tölul. er gert ráð fyrir að heimilt sé að afturkalla rekstrarleyfi ef breytingar verða m.a. á framkvæmdastjórn leyfishafa. Hér er átt við bæði þegar framkvæmdastjóri/-stjórn er ráðinn í upphafi rekstrar sem og þegar skipt er um framkvæmdastjóra/-stjórn eftir að rekstur er hafinn. Af 2. mgr. leiðir svo að ráðherra verður ávallt að gæta þess að leyfishafa sé veittur hæfilegur frestur til úrbóta, en þó aðeins ef ráðherra telur unnt að koma við úrbótum. Allan vafa um hvort unnt sé að koma við úrbótum verður þó að túlka leyfishafa í hag.
    Í 3. mgr. er fjallað um skyldu ráðherra til að rökstyðja afturköllun rekstrarleyfis svo og um skyldu til að upplýsa leyfishafa um rétt hans til að bera slíka ákvörðun ráðherra undir dómstóla. Í rökstuðningi skal ráðherra gæta þess að fram komi á rökstuddan og skýran hátt hver eða eftir atvikum hverjar hafi verið ástæður afturköllunar. Þá skal auk þess gerð grein fyrir því hvort og eftir atvikum hvernig leyfishafa var gefinn kostur á að koma fram úrbótum. Það verður að telja að afturköllun á rekstrarleyfi sé í flestum tilfellum verulega þungbær viðkomandi leyfishafa, sérstaklega ef rekstur er í gangi, og því mikilvægt að leyfishafi sé upplýstur um stöðu sína og honum gefnar fullnægjandi forsendur til að taka afstöðu til lögmætis afturköllunar ef af henni verður.
    Í 4. mgr. er fjallað um réttaráhrif afturköllunar sé hún borin undir dómstóla. Meginreglan er sú að málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum afturköllunar, sbr. 13. gr. Hins vegar er að finna í ákvæðinu heimild dómara til að úrskurða að leyfishafa sé heimilt að reka spilahöll áfram á grundvelli afturkallaðs leyfis á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum. Dómari getur þó ekki úrskurðað um það nema að framkominni kröfu leyfishafa, sbr. orðalag ákvæðisins.

Um 13. gr.

    Ákvæðið fjallar um með hvaða hætti ráðherra skuli standa að því að tilkynna leyfishafa um afturköllun rekstrarleyfis. Kveður greinin á um það að afturköllun skuli tilkynnt stjórn viðkomandi leyfishafa með sannanlegum hætti. Gefur orðalag greinarinnar þannig til kynna að ráðherra þurfi að gæta að því að hægt sé að færa sönnur fyrir því að stjórn viðkomandi leyfishafa hafi verið tilkynnt um afturköllunina og hafi þannig í raun og veru verið upplýst um afturköllunina.
    Þá er jafnframt kveðið á um hvenær réttaráhrif afturköllunar verða virk. Er meginreglan sú að réttaráhrif afturköllunar verði virk við móttöku stjórnar leyfishafa á afturköllun. Undantekningu frá þeirri meginreglu má finna í 4. mgr. 12. gr., sem fjallað er um hér að framan.

Um 14. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um spilakassa, sbr. 3. gr. Um er að ræða spilakassa sem eru sambærilegir svokölluðum söfnunarkössum sem er að finna víða á Íslandi, t.d. í söluturnum, á veitingahúsum, í spilasölum og á fleiri stöðum. Hingað til hefur aðeins Íslenskum söfnunarkössum (ÍSK), félagi í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands, verið heimilað að starfrækja slíka söfnunarkassa, sbr. 1. gr. laga nr. 73/1994, um söfnunarkassa.
    Er gert ráð fyrir að leyfishafa samkvæmt lögum þessum verði gert heimilt að setja upp spilakassa í spilahöll á grundvelli rekstrarleyfis en heimild sú er þó háð því skilyrði að aðeins viðskiptavinum viðkomandi spilahallar sé heimilaður aðgangur að þeim. Þannig geta aðeins viðskiptavinir spilahallar sem fullnægja aðgangsskilyrðum, svo sem að hafa náð 21 árs aldri og hafa greitt aðgangseyri að spilahöllinni, haft aðgang að spilakössunum. Með þessu eru aðgangstakmarkanir vegna spilakassa gerðar ríkari og að öllum líkindum mun virkari en áður hefur þekkst gagnvart söfnunarkössum hér á landi. Almennt hefur það verið látið óátalið í framkvæmd að söfnunarkassar standi í opnum almenningsrýmum og getur til dæmis reynst erfitt fyrir starfsmenn söluturna, veitingastaða eða annarra staða sem hafa söfnunarkassa að framfylgja aldurstakmarki. Þá má ætla að ástundun í söfnunarkassa komi vart til með að minnka þrátt fyrir tilkomu spilahalla enda ólíklegt að margir greiði aðgangseyri í spilahöll til þess eins að leika í spilakössum þegar það er þeim að kostnaðarlausu að leika í söfnunarkössunum.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um spilakassa, til að mynda um öryggiskröfur, vinninga, útborgun vinninga, tölvukerfi og eftirlit með þeim. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð, ekki ósvipaða reglugerð um söfnunarkassa nr. 320/2008 sem sett var á grundvelli laga nr. 73/1994, um söfnunarkassa. Skal ráðherra m.a. kveða á um að hver spilakassi skuli vera búinn rafrænum teljarabúnaði sem notaður er til að skrá heildargreiðslur í spilakassa og útborgaða vinninga. Einnig skal kveða á um reglur um lágmarksvinningshlutfall spilakassa og að hver kassi skuli merktur með vinningaskrá þar sem vinningar skulu skilgreindir. Þá skal ráðherra setja reglur um útborgun vinninga sem og um tölvukerfi sem hver spilahöll skal reka til að halda utan um allar mælastöður og fjárhagsupplýsingar hvers kassa. Að lokum skal í reglugerð kveðið á um eftirlit með kössunum.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu leyfishafa til að semja spilareglur. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 16. gr.

    Í greininni er kveðið á um framkvæmd spila en í 1. mgr. er að finna vísireglu um skyldu leyfishafa til að gæta að aðbúnaði í spilahöll og að því að þjónusta er hann veitir standist áskilnað laga og reglna settra samkvæmt þeim.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur í reglugerð um framkvæmd spila. Meðal annars er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um hæstu og lægstu upphæð sem leggja má undir í hverju spili. Er talið nauðsynlegt að slíka reglu sé að finna í reglugerð til að tryggja öryggi viðskiptavina og koma í veg fyrir eftir fremsta megni að spilað sé með of mikla fjármuni í spilum. Einnig er gert ráð fyrir því að ráðherra setji nánari reglur í reglugerð um tækjabúnað spilanna og um eftirlit með þeim búnaði. Skal í slíkum reglum kveðið nákvæmlega á um hvers konar búnaður það er sem uppfyllir kröfur ráðuneytisins um öryggi og eftirlit og er þannig heimilt að nota í spilahöll og hvaða fagaðilar það eru sem ráðherra samþykkir að votti öryggi búnaðarins. Sem dæmi þurfa rúllettuhjól að vera yfirfarin og vottuð af fagaðilum sem ráðherra samþykkir. Þarf slík vottun til dæmis að staðfesta að það séu sömu vinningslíkur á hverju og einu talnabili á hjólinu, að viðkomandi fagaðili hafi innsiglað hjólið þannig að ómögulegt sé fyrir leyfishafa eða aðra að breyta vinningslíkum og þá ber að merkja hjól með merki fagaðilans sem og dagsetningu yfirferðar, sem ómögulegt er að fjarlægja án þess að eyðileggja merkinguna. Ekki á að vera hægt að breyta slíkri merkingu og blekkja þannig eftirlitsmenn um hvenær viðkomandi búnaður var yfirfarinn og vottaður eða færa slíkar merkingar á milli tækjabúnaðar, t.d. yfir á tæki sem ekki hefur verið yfirfarið eða ekki staðist slíka yfirferð.

Um 17. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um spilapeninga en gert er ráð fyrir að í spilahöll verði notast við sérstaka spilapeninga í öllum spilum, að frátöldum spilakössum, en ekki reiðufé. Þannig skal viðskiptavinur ávallt leggja undir í spilum, að spilakössum frátöldum, með spilapeningum sem sérstaklega eru útbúnir fyrir hverja spilahöll fyrir sig og merktir viðkomandi spilahöll. Þá skal greiða alla vinninga í spilum út í spilapeningum, að frátöldum spilakössum. Um er að ræða fyrirkomulag sem tíðkast í spilahöllum um allan heim. Líkt og að framan greinir skulu spilapeningar spilahallar vera merktir með merki viðkomandi spilahallar.
    Samkvæmt 3. mgr. er heimilt að skipta reiðufé í spilapeninga bæði við skiptikassa spilahallar og eins við spilaborðin sjálf. Hins vegar er aðeins heimilt að skipta spilapeningum yfir í reiðufé við skiptikassa spilahallar. Til að tryggja að rétt sé farið með spilapeninga gilda um þá strangar reglur um eftirlit, uppgjör og bókhald. Er talið nauðsynlegt að afmarka verulega þá staði þar sem hægt er að skipta á spilapeningum og reiðufé til þess að tryggja öryggi með þessi viðskipti og auðvelda eftirlit með uppgjöri.
    Lögð er sú skylda á leyfishafa í 4. mgr. að halda daglegt bókhald yfir viðskipti með spilapeninga sem fram fara í spilahöll. Gert er ráð fyrir að í bókhaldi sé haldið utan um öll viðskipti með spilapeninga þannig að ljóst sé hve miklu reiðufé er skipt í spilapeninga daglega og jafnframt hve mörgum spilapeningum er skipt yfir í reiðufé. Er gert ráð fyrir að óháður eftirlitsmaður, sem fjallað er um í 39. gr., hafi eftirlit með daglegu uppgjöri og að allt sé fært rétt til bókar.

Um 18. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað nánar um skiptingu reiðufjár í spilapeninga við spilaborð. Greinin þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 19. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað nánar um útborgun vinninga. Er í 1. mgr. að finna undantekningu frá þeirri meginreglu að ávallt skuli greiða út vinninga í formi reiðufjár. Er í málsgreininni að finna heimild ráðherra til að leyfa spilahöll að greiða út vinninga í formi ávísunar eða í formi innborgunar á bankareikning viðskiptavinar undir sérstökum kringumstæðum. Er heimild sem þessi talin nauðsynleg þar sem telja verður nauðsynlegt fyrir viðskiptavini að hafa möguleika á að yfirgefa spilahöll án þess að bera mikið magn reiðufjár á sér. Einnig verður að telja heimild þessa mikilvæga til þess að draga úr magni reiðufjár í spilahöll hverju sinni og þar með hugsanlega hættu á ráni o.s.frv. Sé farin sú leið að greiða vinningsfé út í formi innborgunar á bankareikning viðskiptavinar er rétt að viðskiptavinur fái afrit af kvittun fyrir innborgun sem staðfestir innborgun þá þegar. 1. mgr. tekur ekki aðeins til spilakassa heldur til allra spila sem boðið er upp á í spilahöll.
    Í 2.–4. mgr. er kveðið á um útborgun vinningsfjárhæða úr spilakössum. Þá er í 5. mgr. kveðið á um eftirlit óháðs eftirlitsmanns með útborgun vinninga í formi ávísana og innborgana á bankareikning viðskiptavinar. Í 6. mgr. er að finna skyldu spilahallar til að geyma reiðufé sem viðskiptavinir hafa unnið sér inn í spilum í spilahöll, óski þeir þess.

Um 20. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimild viðskiptavina til að greiða fyrir tóbak og veitingar sem seldar eru innan veggja spilahallar með spilapeningum. Er heimild þessi sett til að auðvelda og gera þjónustu spilahalla sem þægilegasta fyrir viðskiptavini. Á spilahöll hvílir hins vegar sú skylda að skipta þeim spilapeningum sem greitt er með yfir í reiðufé í lok hvers dags, sbr. 2. mgr.

Um 21. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um aðgangskröfur í spilahöll.
    Í 1. mgr. er kveðið á um aldursmark að spilahöll. Gert er ráð fyrir 21 árs aldursmarki til aðgangs og er ekki veitt svigrúm til neinna frávika frá umræddu aldursmarki.
    2. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að viðskiptamönnum sé óheimilt að hafa undir höndum hvers konar rafrænan hugbúnað sem kann að nýtast til útreikninga á vinningslíkum í spilum. Er þessi regla sett í því skyni að tryggja öryggi spilahalla og annarra viðskiptavina og koma í veg fyrir hvers konar brellur og brögð í spilum.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að meina skuli einstaklingum í annarlegu ástandi aðgang að spilahöll. Er skylda þessi lögfest til að tryggja öryggi spilahallar og viðskiptavina hennar sem og til að skapa gott og friðsælt spilaumhverfi í spilahöll. Þá eru þeir aðilar sem eru augljóslega ölvaðir eða í vímu jafnframt verndarandlag ákvæðisins en ljóst er að aðilar í slíku ástandi eru sjaldnast færir um að taka þátt í spilum með skynsamlegum hætti. Þannig er spilahöll skylt að vísa frá augljóslega ölvuðum einstaklingum eða einstaklingum sem augljóslega eru undir áhrifum vímuefna. Þá er spilahöll einnig skylt að meina einstaklingum aðgang sem ekki eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna en eru líklegir til að valda ónæði.

Um 22. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu til að hafa mannaða öryggisgæslu í spilahöll á opnunartíma. Það er ljóst að ef spilahallir kjósa að sækja um leyfi til vínveitinga á grundvelli laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er í þeim lögum mælt fyrir um skyldu til að hafa dyraverði og gerð frekari grein fyrir umfangi og inntaki þeirrar skyldu. Með þessu ákvæði er gerð krafa um ákveðna lágmarksgæslu í spilahöll leyfishafa. Það liggur fyrir að öryggisgæsla, bæði í formi dyravörslu og gæslu inni í spilahöll, er nauðsynleg til að tryggja gott eftirlit í spilahöll og mikilvægt að gott samstarf sé á milli öryggisgæslu og lögreglu.

Um 23. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar er leyfishafa veitt heimild til að taka aðgangseyri af viðskiptavinum við komu í spilahöll.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um opnunartíma spilahalla, þ.e. á hvaða tíma leyfishafa er heimilt að hafa spilahöll opna. Er miðað við að leyfilegt sé að hafa spilahöll opna frá kl. 14 til kl. 4 alla daga vikunnar.
    Eitt af meginmarkmiðum löggjafans með lögfestingu laga þessara er að útrýma hvers konar ólögmætri spilastarfsemi sem þrífst hér á landi í leynd og án nokkurs eftirlits. Er talið nauðsynlegt að spilahöll sem rekin er á grundvelli leyfis og undir eftirliti geti verið opin allt til kl. 4 að nóttu alla daga vikunnar til þess að hin lögmæta starfsemi geti að því er varðar opnunartíma verið samkeppnishæf gagnvart hinni ólöglegu starfsemi. Er það á flestra vitorði að ólögmætir spilaklúbbar hér á landi eru að mestu aðeins starfræktir frá því seint á kvöldin og fram til morguns. Það liggur því í augum uppi að ef leyfishafa er gert að loka spilahöll snemma að nóttu þá er mikil hætta á því að viðskiptavinir leiti annað, í ólögmæta spilaklúbba, til að halda áfram að spila, og þannig yrði markmiði laga þessara um að útrýma ólöglegri spilastarfsemi ekki náð.
    Þegar litið er til reynslu nágrannalanda okkar, t.d. Danmerkur, er ljóst að langflestir viðskiptavinir spilahalla leggja leið sína þangað seinni part kvölds eða fyrri part nætur. Lítið er um viðskiptavini yfir daginn en þegar líður á kvöld fjölgar almennt jafnt og þétt í hópi viðskiptavina. Að sama skapi er ljóst að reynsla ferðamanna af alþjóðlegum spilahöllum er sú að opnunartími þar sé a.m.k. til kl. 4 að nóttu alla daga vikunnar og má því ætla að þeir mundu vænta sambærilegs opnunartíma hér á landi.
    Í samræmi við framangreint er talið nauðsynlegt að leyfishafa sem rekur spilahöll í samræmi við lög og reglur og undir eftirliti sé gert kleift að starfrækja spilahöll til kl. 4 að nóttu og er heimild þessi í fullu samræmi við lög og reglur nágrannalanda okkar, Danmerkur og Svíþjóðar.

Um 24. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu leyfishafa að halda skrá yfir tilteknar upplýsingar um sérhvern viðskiptavin. Upplýsingarnar um nafn, kennitölu eða í tilviki erlendra ferðamanna auðkennisnúmer þess persónuskilríkis sem framvísað er, til að mynda vegabréfsnúmer, þjóðerni og komutíma, skal skrá við komu viðskiptavinar í spilahöll. Spilahöll er skylt að varðveita upplýsingarnar í fimm ár frá komu viðskiptavinar í spilahöll. Nauðsyn skráningar og varðveisla þessara upplýsinga leiðir af eðli starfseminnar. Spilahöll þarf að geta tryggt að aðgangsskilyrðum sé fullnægt, hafa yfirsýn yfir komur viðskiptavina sinna og þarf að geta tryggt að þeir viðskiptavinir sem komast inn í spilahöll séu bærir um að fylgja settum reglum innan spilahallarinnar. Þá kveður ákvæðið á um skyldu spilahalla til að eyða framangreindum upplýsingum að fimm árum liðnum. Það að halda skrá yfir viðskiptavini tryggir sem fyrr getur öryggi spilahallar og viðskiptavina hennar sem og eftirlit með rekstri. Gera má ráð fyrir að spilahöll setji sér húsreglur, til að mynda um bann við komu viðskiptavinar í spilahöll í tiltekinn tíma ef hann verður uppvís að ósæmilegri hegðun í spilahöll eða brýtur reglur spilahallar. Það að heimila geymslu upplýsinga og ljósmynda af viðskiptavinum í fimm ár gerir spilahöll kleift að skrá upplýsingar um bann við aðgangi að spilahöll í dágóðan tíma sem kann að vera nauðsynlegt ef viðskiptavinur verður uppvís að grófu broti. Jafnframt tryggir slík skráning öryggi viðskiptavina en með því að skrá niður komur viðskiptavina má fylgjast með heimsóknarfjölda þeirra og -munstri. Ef heimsóknir hafa aukist verulega eða aukast jafnt og þétt má til að mynda gera ráð fyrir að viðkomandi aðili þurfi mögulega á ráðgjöf og aðstoð að halda vegna spilafíknar. Viðskiptavinir spilahallarinnar eru þannig sjálfstætt verndarandlag skráningar og vörslu upplýsinga.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að samhliða skráningu skv. 1. mgr. sé tekin ljósmynd af viðskiptavini. Skal ljósmyndin vera af andliti viðskiptavinar þannig að mögulegt sé að bera kennsl á viðkomandi einstakling. Skal ljósmyndin vistuð í skráningarkerfi spilahallar samhliða skráningu skv. 1. mgr. Þessi skráning getur verið nauðsynleg fyrir spilahöll til að hægt sé að hafa uppi á viðskiptavinum sem sjást á eftirlitsmyndavélum brjóta reglur eða gerast brotlegir um refsivert athæfi. Spilahöll er skylt að eyða ljósmynd á sama tíma og skráningu skv. 1. mgr. er eytt, þ.e. fimm árum eftir skráningu.
    3. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Hvað varðar aðgang þriðja aðila að skráningu sem kveðið er á um í grein þessari þá er að finna í 4. mgr. algert bann við því að veita þriðja aðila aðgang eða afrit af þeim upplýsingum sem skráðar eru skv. 1. og 2. mgr. Aðeins er heimilt að veita aðila aðgang eða afrit á grundvelli dómsúrskurðar. Eina undantekningu er að finna í ákvæðinu en hún er sú að heimilt er að veita lögreglu þessar upplýsingar. Er þetta gert í ljósi þess að upp geta komið tilvik þar sem nauðsynlegt er að kalla eftir aðstoð lögreglu, t.d. þegar grunur er uppi um refsivert athæfi í spilahöll, og getur þá verið nauðsynlegt að veita lögreglu aðgang að þessum upplýsingum. Eins getur það komið lögreglu vel, jafnvel verið henni nauðsynlegt, að fá aðgang að skráningum þessum við rannsókn mála sem upp koma en varða spilahöllina sjálfa ekki beint. Ákvæði þetta er í samræmi við þá línu sem lögð er til grundvallar í frumvarpi þessu um að nauðsynlegt sé að gott samstarf sé fyrir hendi milli leyfishafa og lögreglu í hvívetna.

Um 25. gr.

    Í 1. mgr. er að finna ákvæði sem ætlað er að koma til móts við einstaklinga sem eiga við spilafíkn að etja og vilja takmarka aðgang sinn að spilahöll. Þannig geta einstaklingar óskað eftir að skráð verði í kerfi spilahalla að heimilt sé að meina viðkomandi einstaklingi aðgang að spilahöll. Þannig er rétt að leyfishafi útbúi form sem einstaklingar geta fyllt út í kjölfar þess að þeir leggja fram munnlega eða skriflega beiðni um að sér verði meinaður aðgangur að spilahöll.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að einstaklingar sem skráðir eru skv. 1. mgr. geti hvenær sem er óskað eftir því að skráningunni sé eytt og þeim heimilaður aðgangur að spilahöll að nýju. Slíka beiðni má setja fram jafnt munnlega sem skriflega en til að tryggja öryggi viðskiptavina gera lögin ráð fyrir að slík beiðni taki ekki gildi fyrr en að 30 dögum liðnum frá því að spilahöll hefur móttekið beiðnina. Það er því ljóst að einstaklingur sem hefur skráð sig skv. 1. mgr. getur ekki breytt afstöðu sinni gagnvart eigin aðgangstakmörkun án þess að grípa til sérstakra aðgerða og bíða í 30 daga til að fá takmörkun sinni aflétt. Þannig er komið í veg fyrir að einstaklingar geti í fljótfærni og án ígrundunar aflétt eigin takmörkun.
    Í 3. mgr. er að finna skyldu spilahalla til að upplýsa einstaklinga sem óska eftir skráningu skv. 1. mgr. um ráðgjöf og meðferðarúrræði við spilafíkn. Þá er í 4. mgr. kveðið á um eyðingu skráningar skv. 1. mgr. og loks í 5. mgr. er kveðið á um að óheimilt sé að veita þriðja aðila upplýsingar um skráningu skv. 1. mgr. Ákvæði þessi þarfnast ekki nánari útskýringar.

Um 26. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um heimild leyfishafa til að meina viðskiptavinum aðgang að spilahöll sem uppvísir hafa verið að því að hafa haft rangt við í spilum eða að öðru refsiverðu athæfi í tengslum við spil, eða teljast hlutdeildarmenn í slíku athæfi. Verður að telja eðlilegt að í lögum þessum sé að finna heimild sem þessa til að tryggja öryggi spilahalla og viðskiptavina hennar. Þá er umrædd heimild til þess fallin að leyfishafi geti betur gætt skyldu sinnar til að tryggja að framvinda spila í spilahöll hans fari fram á drengilegan máta, sbr. 16. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. er leyfishafa heimilt að skrá hjá sér upplýsingar um framangreint en þó er skráningunni sett það skilyrði að samtímis sé viðkomandi athæfi kært til lögreglu. Það að setja slíkt skilyrði fyrir skráningu tryggir áreiðanleika skráningar og réttindi viðskiptavina, að þeir séu ekki skráðir að ósekju.
    Í 2. mgr. er tekið á þeim tilfellum þar sem kæra leiðir ekki til ákæru. Þá hvílir ákveðin tilkynningarskylda á lögreglu og sú skylda á leyfishafa að eyða skráningu skv. 1. mgr. Þannig er leyfishafa ekki lengur heimilt að meina viðkomandi aðila aðgang að spilahöll, a.m.k. ekki á grundvelli skráningar 1. mgr. Hið sama gildir um tilfelli þar sem aðili er sýknaður fyrir dómstólum, sbr. orðalag ákvæðisins.
    3. mgr. kveður á um eyðingu skráningar skv. 1. mgr. ef um er að ræða tilvik sem endar í dómsfellingu. Þannig er leyfishafa, í þeim tilfellum þar sem ákæra hefur leitt til þess að viðkomandi er dæmd refsing eða gerð er dómsátt, heimilt að halda skrá skv. 1. mgr. í fimm ár. Að fimm árum liðnum, þ.e. fimm árum eftir að niðurstaða kemst í viðkomandi refsimál, dómur fellur eða dómsátt er staðfest, skal eyða skráningunni. Þá er leyfishafa ekki lengur heimilt að meina viðkomandi aðgang að spilahöll á grundvelli skráningar skv. 1. mgr.
    Í 4. mgr. er tekið á heimild til miðlunar upplýsinga sem skráðar eru skv. 1. mgr. Líkt og með aðrar skráðar upplýsingar um viðskiptavin er meginreglan sú að óheimilt er að veita þriðja aðila upplýsingar eða afrit af skráningu. Tvær undantekningar eru frá þessari meginreglu og er kveðið á um þær í málsgreininni. Annars vegar er heimilt að veita lögreglunni slíkar upplýsingar. Hins vegar er heimilt að veita öðrum spilahöllum upplýsingar um skráningu viðskiptavinar skv. 1. mgr. ef viðkomandi viðskiptavinur hefur verið fundinn sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök og dómur hefur fallið í máli hans eða sátt gerð. Er heimild þessi sett í lög til að tryggja öryggi annarra spilahalla, en spilahöll sem móttekur slíkar upplýsingar er heimilt að skrá þær hjá sér og á grundvelli þeirra synja viðkomandi aðila um aðgang. Hvað varðar eyðingu slíkra upplýsinga tekur ákvæði þetta jafnframt til þess. Regla 3. mgr. gildir einnig og ber spilahöll, sem móttekur framangreindar upplýsingar og skráir þær hjá sér, að eyða slíkri skráningu fimm árum eftir að dómur hefur fallið í viðkomandi máli eða dómsátt hefur verið gerð.
    Í 5. mgr. er að finna sambærilegt ákvæði og í 4. mgr. nema það tekur til aðila sem hafa verið fundnir sekir um að hafa rangt við í spilum eða um annað refsivert athæfi í sambandi við spil á erlendri grundu. Fái spilahöll staðfestar upplýsingar um framangreint er henni heimilt að skrá þær upplýsingar hjá sér og nota þær upplýsingar sem grundvöll fyrir því að meina viðkomandi aðila aðgang að spilahöllinni. Líkt og í 4. mgr. þá gildir regla 3. mgr. um eyðingu um ákvæði þetta, þ.e. spilahöll er skylt að eyða skráningu á upplýsingum sem þessum þegar fimm ár eru liðin frá því að dómur féll eða sátt var gerð í viðkomandi máli.

Um 27. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um geymslu á skjölum og skrám sem tengjast viðskiptum í spilahöll. Skal slík gögn geyma í a.m.k. fimm ár frá framkvæmd viðskiptanna. Er hér um að ræða öll gögn er varða viðskipti með spilapeninga í spilahöll.
    Í 2. og 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um hvernig haga skuli geymslu gagna og upplýsinga sem skylt er að geyma í tiltekinn tíma skv. 1. mgr. þessarar greinar og 24. gr. þegar starfsemi á grundvelli rekstrarleyfis er hætt. Tekur þetta til þess þegar leyfishafi hættir sjálfviljugur starfsemi eða ef starfsemi er hætt þar sem leyfishafi er úrskurðaður gjaldþrota. Fari svo að starfsemi er hætt skal síðasta virka stjórn leyfishafa sjá til þess að þau gögn sem kveðið er á um í 1. mgr. þessarar greinar og 24. gr. séu geymd í samræmi við þau ákvæði, þ.e. í fimm ár frá framkvæmd viðskipta eða skráningu. Hafi leyfishafi hins vegar verið úrskurðaður gjaldþrota er heimild í 3. mgr. fyrir héraðsdómara að fela þriðja aðila að framfylgja ákvæði 2. mgr., til að mynda ef dómari telur að ekki sé hægt að treysta að síðasta virka stjórn leyfishafa framfylgi ákvæðinu.

Um 28. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu leyfishafa til að sjá til þess að haldið sé utan um alla skráningu um viðskiptavini í öruggu skráningarkerfi. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringar.

Um 29. gr.

    Í ákvæðinu er að finna skilyrði sem starfsfólk spilahalla verður að uppfylla til að geta starfað í spilahöll. Er gerður áskilnaður um að starfsfólk hafi hlotið samþykki lögreglu og vísað til nokkurra atriða sem lögregla skal m.a. líta til við mat á því hvort einstaklingar teljist nægilega traustir og öruggir til að geta starfað í spilahöll. Lögreglu er rétt að taka a.m.k. sakaskrá viðkomandi til skoðunar en jafnframt er lögreglu heimilt að líta til annarra atriða sem kunna að vera til þess fallin að draga megi í efa hvort starfsmaður sé nægilega traustur eða öruggur til að geta starfað í spilahöll. Um er að ræða nokkuð matskennda heimild lögreglu en telja verður að nauðsynlegt sé að lögregla geti haft nokkuð frjálsar hendur við mat þar sem afar mikilvægt er að starfsfólk spilahallarinnar sé bært til starfa í spilahöll. Öryggi og gæði starfsemi spilahalla byggist að stórum hluta til á því að starfsfólk spilahallarinnar sé traust og öruggt og er því með áskilnaði þessa ákvæðis í senn leitast við að tryggja öryggi í starfsemi spilahallar, öryggi leyfishafa og ekki síst öryggi viðskiptavina.

Um 30. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um spilamennsku starfsmanna. Meginreglan er sú að starfsmönnum sé með öllu óheimilt að taka þátt í spilum í spilahöll. Eina undantekningin frá því er þegar það er hlutverk starfsmanns að taka þátt í viðkomandi spili. Sum þeirra spila sem almennt er boðið upp á í alþjóðlegum spilahöllum gera ráð fyrir því að starfsmaður spilahallar taki þátt í spilinu. Til að mynda er í spilinu tuttugu og einn gjafari á vegum spilahallar og spila viðskiptavinir spilahallar við gjafarann. Sama gildir um fjölda annarra spila. Þegar svo háttar til er nauðsynlegt að heimilt sé að starfsmaður spilahallar taki þátt í spili en þó aðeins í framangreindu hlutverki, fyrir aftan spilaborðið. Með öllu er óheimilt að starfsmaður spili sem óbreyttur borgari eða sem viðskiptavinur spilahallar. Regla þessi á við hvort sem viðkomandi starfsmaður er á vakt eða ekki. Þarf gjafari að vera óvilhallur og hlutlaus gagnvart viðskiptavinum hverju sinni. Til að tryggja það er talið rétt að leggja til grundvallar að starfsfólk spilahallar geti aldrei tekið þátt í spilum sem almennur viðskiptamaður, enda talið hætt við því að hlutleysi gjafara kunni að verða dregið í efa af öðrum viðskiptavinum ef samstarfsmaður hans, undirmaður eða yfirmaður, er meðal viðskiptavina við spilaborðið. Meðal annars vegna þessa er ekki talið æskilegt, undir neinum kringumstæðum öðrum en framangreindum, að starfsmaður spilahallar taki þátt í spilum innan veggja spilahallarinnar.
    Í 2. mgr. segir að starfsmönnum spilahalla sé með öllu óheimilt að þiggja gjafir eða önnur fríðindi frá viðskiptavinum spilahallar. Er skilyrði þetta sett til að tryggja að starfsmenn spilahalla séu algerlega hlutlausir og óvilhallir gagnvart öllum viðskiptavinum spilahallar. Það að heimila að starfsmenn þiggi gjafir eða önnur fríðindi frá viðskiptavinum eykur hættuna á því að starfsmenn gerist viðkomandi viðskiptavinum vilhallir og telji viðkomandi aðila eiga inni greiða hjá sér sem gæti falist í hjálp í spilum eða annað slíkt sem er með öllu óheimilt í spilahöll. Eina undantekningin frá þessari reglu er að finna í málsgreininni en þar kemur fram að regla þessi taki ekki til framlaga viðskiptavina í húsbauk. Er nauðsynlegt að undanskilja framlag þetta frá meginreglu 2. mgr. í ljósi þess að í 2. mgr. 32. gr. er gert ráð fyrir að framlag í húsbauk skiptist á milli starfsfólks spilahallar.
    Þá er það áréttað í 3. mgr. að reglur 1. og 2. mgr. taka jafnframt til framkvæmdastjóra leyfishafa, þeirra sem eiga sæti í stjórn leyfishafa sem og til þeirra aðila er eiga virkan eignarhlut í leyfishafa. Verður að telja æskilegt að skýrt sé kveðið á um framangreint í lögum þessum til verndar spilahöll og þá sérstaklega starfsmönnum hennar, enda verður að telja ótilhlýðilegt að setja starfsmenn í þá stöðu að yfirmenn þeirra og hátt settir aðilar er stjórna leyfishafa sitji við spilaborð sem þeir stjórna, sem almennir viðskiptavinir. Er hér, líkt og með 1. mgr., leitast við að tryggja hlutleysi við spilaborðin.

Um 31. gr.

    Í greininni er fjallað um skyldu leyfishafa að bregðast við ef upp kemur grunur um að viðskiptavinur eigi við spilafíkn að stríða. Er gert ráð fyrir að leyfishafi gæti að því að bregðast við í slíkum tilfellum með því að kynna viðkomandi viðskiptavini þá ráðgjöf og þau meðferðarúrræði sem völ er á. Er æskilegt að leyfishafi hafi samráð við viðkomandi félagasamtök, til að mynda félagasamtök sem bjóða meðferð gegn spilafíkn, um hvernig best er að aðhafast í tilvikum sem þessum.
    Þá er í 2. mgr. lögfest sú skylda að leyfishafi setji sér sérstakar reglur sem eru kynntar starfsmönnum spilahallar og kveða á um hvernig brugðist er við tilvikum sem þessum í spilahöll.

Um 32. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um heimild til að hafa húsbauk í spilahöll sem gerir viðskiptavinum kleift að umbuna starfsfólki spilahalla með framlögum í slíka bauka. Algengt er að húsbaukur samanstandi af mörgum ílátum sem séu a.m.k. staðsett á eða í hverju spilaborði og eftir atvikum víðar í spilahöll. Leyfishafi hefur nokkuð frjálsar hendur varðandi það hvernig hann hagar staðsetningu og útfærslu húsbauka í spilahöll sinni en hann þarf þó að gæta að því að einstakir starfsmenn eða aðrir utanaðkomandi geti ekki einir og sér opnað ílátin sem mynda húsbauk spilahallarinnar. Það þarf að vera tryggt að engir fjármunir fari úr húsbauk fyrr en hann er opnaður við talningu undir eftirliti eftirlitsmanns.
    Það er þekkt í alþjóðlegum spilahöllum, til að mynda í Danmörku, að laun starfsfólks ráðist að verulegu leyti af innkomu í húsbauk. Framlagi í húsbauk skal í samræmi við það og 2. mgr. skipt milli starfsfólks spilahalla, að undanskildum stjórnarmönnum, framkvæmdastjórn og eftirlitsmönnum. Þó er leyfishafa heimilt að áskilja sér 10% hlut úr húsbauknum í hverjum mánuði.

Um 33. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu stjórnar og framkvæmdastjóra leyfishafa til að semja ársreikning leyfishafa fyrir hvert reikningsár. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 34. gr.

    Í ákvæðinu er að finna vísireglu um góða reikningsskilavenju. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 35. gr.

    Í ákvæðinu er að finna upptalningu á atriðum sem fram eiga að koma í skýrslu stjórnar. Ekki er um tæmandi talningu að ræða enda er í 2. mgr. að finna tilvísun í VI. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga, þar sem fjallað er um skýrslu stjórnar og þau atriði sem fram eiga að koma í slíkri skýrslu. Gilda ákvæði VI. kafla laga nr. 3/2006 eftir því sem við á.

Um 36. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skyldu leyfishafa til að fá endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki til þess að endurskoða ársreikninga félagsins. Þá kemur skýrt fram að ekki sé heimilt að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki starfi í þágu leyfishafa við annað en endurskoðun.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu endurskoðanda að tilkynna stjórn leyfishafa og ráðherra ef hann verður var við atriði sem talin eru upp í ákvæðinu. Þá leiðir af 4. mgr. að slík tilkynning teljist ekki brot á þagnarskyldu, hvorki lögbundinni þagnarskyldu né samningsbundinni. Sætir endurskoðandi engri ábyrgð vegna tilkynningar skv. 3. mgr.
    Í 4. mgr. er loks að finna tilvísun í IX. kafla laga um ársreikninga þar sem fjallað er um endurskoðun ársreikninga. Gilda ákvæði þess kafla um endurskoðun á ársreikningi leyfishafa að öðru leyti en því sem kveðið er á um í frumvarpinu.

Um 37. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skil og birtingu ársreiknings leyfishafa. Er kveðið á um það að undirritaðan ársreikning ásamt skýrslu stjórnar skuli senda ráðherra innan tilskilinna tímafresta, sem og breyttan ársreikning. Þá gerir ákvæði 3. mgr. ráð fyrir að ársreikningur ásamt skýrslu stjórnar sé öllum aðgengilegur, þar á meðal viðskiptavinum spilahallar, á afgreiðslustað leyfishafa innan tveggja vikna frá samþykkt aðalfundar. Ákvæði þetta þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 38. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um eftirlit ráðherra og þær heimildir sem hann hefur til að halda uppi eftirliti.
    Í 2. mgr. er ráðherra falin víðtæk heimild til gagna- og upplýsingaöflunar sem og heimild til að framkvæma rannsókn í spilahöll þegar hann telur þörf á. Getur slík rannsókn farið fram á hvaða tíma sem er og án þess að til hennar hafi verið boðað fyrir fram.
    Í 3. mgr. er ráðherra falin sú heimild að fá þar til bært stjórnvald til að framkvæma þá rannsókn sem kveðið er á um í 2. mgr. Getur ráðherra þannig falið stjórnvaldi að framkvæma rannsókn í sínu umboði, til að mynda stjórnvaldi sem hefur meiri þekkingu og mannskap til að framkvæma slíka rannsókn.
    Þá er í 4. mgr. kveðið á um heimild ráðherra til að krefja leyfishafa um kostnað sem verður til vegna eftirlits ráðherra, þ.e. þegar stofnað er til kostnaðar með því að kveðja sérfróða menn til þátttöku, ýmist í rannsókn skv. 2. mgr. eða þegar um er að ræða almennt eftirlit með búnaði og tækjakosti leyfishafa sem og að farið sé að skilyrðum laga þessara.
    Í ljósi þess að sú starfsemi sem lög þessi taka til hefur fram til þessa verið óheimil hér á landi er ekki fyrir hendi stjórnvald sem hefur eftirlit með þessum málaflokki. Þegar sambærileg lög voru upphaflega sett í Danmörku var sama staða uppi þar og eftirlit með lögunum falið ráðherra þar í landi. Eftir nokkra reynslu af starfsemi á þessu sviði var farin sú leið að útbúa nýja heildarlöggjöf sem tekur til reksturs spilahalla, lottós, happdrættis og annarra sambærilegra spila og leikja og samhliða var sett á laggirnar nýtt stjórnvald sem hefur eftirlit með allri starfsemi á grundvelli laganna. Komi til endurskoðunar laga þessara og verði reynsla Íslendinga sambærileg reynslu Dana er rétt að hafa í huga hvort rétt sé að taka til skoðunar hvort tilefni sé til að útbúa heildarlöggjöf um hvers konar fjárhættuspil hér á landi með samhliða stofnun nýs eftirlitsstjórnvalds. Það mun tíminn einn leiða í ljós.

Um 39. gr.

    Ákvæðið fjallar um óháðan bókhaldsfróðan eftirlitsmann sem ávallt skal vera til staðar á opnunartíma spilahalla. Skal fjöldi eftirlitsmanna á vakt metinn í hverju tilviki fyrir sig og skal taka mið af tegund, stærð og umfangi starfsemi viðkomandi spilahallar.
    Í ákvæðinu er kveðið á um skipun og skipunartíma, en eftirlitsmaður er skipaður af ráðherra til tveggja ára í senn.
    Mikilvægt skilyrði er að finna í 4. mgr. þar sem kveðið er á um að eftirlitsmaður skuli vera með öllu óháður leyfishafa. Þannig má eftirlitsmaður ekki vera fjárhagslega tengdur leyfishafa, eiga hlut í leyfishafa, félagi sem á hlut í leyfishafa, nákominn aðili hans má ekki vera fjárhagslega tengdur leyfishafa o.s.frv. Ráðherra skal gæta að því að eftirlitsmenn séu algerlega óháðir og meta það í hverju tilviki fyrir sig.
    Í 5. mgr. er fjallað um skyldu leyfishafa til að greiða ríkinu þann kostnað sem ríkið verður fyrir vegna eftirlitsmanna. Um er að ræða fjárhæð sem svarar til alls launa- og stjórnunarkostnaðar sem ríkið hefur af eftirlitsmönnum. Þannig ber spilahöll allan kostnað af eftirlitsmönnum þrátt fyrir að þeir séu ekki starfsmenn spilahalla og lúti ekki stjórn leyfishafa.
    Í 6. mgr. er fjallað um tilkynningarskyldu eftirlitsmanns til ráðherra og/eða lögreglu. Ber honum skylda til að tilkynna ráðherra um allt það sem hann telur aðfinnsluvert í spilahöll, þ.e. varðandi framkvæmd spilanna og annað því um líkt. Eftirlitsmaður tilkynnir lögreglu ef hann fær vitneskju um refsivert athæfi, eða rökstuddur grunur vaknar um slíkt athæfi, í spilahöll.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er loks að finna heimild ráðherra til að setja nánari reglur um starfsskyldur eftirlitsmanna.
    Rétt er að grein þessi verði endurskoðuð innan fimm ára. Það hefur sýnt sig í Danmörku að staða eftirlitsmanns sé í raun óþörf og eru nú uppi á borðum áætlanir um að fella ákvæði um eftirlitsmann úr dönskum lögum. Rétt þykir hins vegar að a.m.k. fyrst um sinn verði gert ráð fyrir því í lögum þessum að óháður eftirlitsmaður verði ávallt til staðar á opnunartíma spilahallar. Síðan mun reynslan leiða það í ljós hvort rétt sé að endurskoða það og fella þessa grein út, en eins og sjá má á 38. gr. þá stæðu enn eftir víðtækar eftirlitsheimildir ráðherra til þess að afla gagna og upplýsinga hjá spilahöll sem og að framkvæma rannsókn í spilahöll þegar hann telur þess þörf.

Um 40. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 41. gr.

    Greinin fjallar um rafræna vöktun með myndavélum í spilahöll. Er leyfishafa skylt að halda uppi myndbandseftirliti í spilahöll, m.a. með öllum aðgerðum skiptikassa í spilahöll og öllum aðgerðum við framkvæmd spila við spilaborð. Þannig verður að vera tryggt að alltaf sé hægt að komast í upptökur ef nauðsyn þykir, t.d. ef uppi er grunur um að viðskiptavinur hafi rangt við í spilum eða ef upp kemur ágreiningur milli starfsmanns og viðskiptamanns um úrslit spila.
    Í 2. mgr. er að finna tilvísun í lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Skal öll vöktun í spilahöll fullnægja áskilnaði þeirra laga.

Um 42. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að tiltekin brot gegn ákvæðum frumvarpsins varði sektum svo lengi sem þyngri refsing liggi ekki við broti samkvæmt öðrum lögum. Lagt er til að brot gegn ákvæðum laganna sem eru mikilvæg og ekki hafa fullnægjandi úrræði í för með sér varði sektum. Hér má taka sem dæmi starfsemi leyfishafa sem fellur ekki innan rekstrarleyfis þess og verður ekki réttlætt með öðrum ákvæðum laganna. Þá falla tiltekin ákvæði um aðgang að spilakössum hér undir, svo og um framkvæmd spila, meðferð spilapeninga, um aðgangskröfur viðskiptamanna, öryggisgæslu, opnunartíma, skráningu viðskiptavina, geymslu gagna, skilyrði fyrir ráðningu starfsfólks, bann við spilamennsku starfsmanna og móttöku gjafa, ákvæði um húsbauk, svo og ákvæði um ársreikninga og endurskoðun. Fleiri ákvæði falla hér undir sem kveða á um tilteknar skyldur leyfishafa, t.d. um myndbandsvöktun í spilahöll, um óháðan eftirlitsmann sem ávallt skal vera til staðar á opnunartíma sem og um tilkynningarskyldu ef grunur kemur upp um peningaþvætti eða óreglu við framkvæmd spila.

Um 43. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að fyrirtæki sem rekur spilahöll á grundvelli rekstrarleyfis samkvæmt lögum þessum skuli skattleggja í samræmi við XI. kafla laganna. Ákvæði kaflans eru öll nýmæli en í þeim er m.a. að finna afmörkun á skattskyldum aðilum, nýjum skattstofni, svokölluðum spilaskatti og skattprósentu. Sú skattlagning sem mælt er fyrir um í kaflanum er töluvert hærri en almenn skattlagning á lögaðila samkvæmt gildandi rétti.

Um 44. gr.

    Í ákvæðinu er gerð grein fyrir skattstofni, svokölluðum spilaskatti, en um er að ræða nýjan skattstofn og skattprósentu. Um er að ræða skatt sem lagður er á hagnað leyfishafa af spilum í spilahöll.
     Í 1. mgr. er mælt fyrir um að spilaskattsstofn skuli fenginn með því að afmarka vergar spilatekjur leyfishafa.
    Í 2. mgr. er gerð grein fyrir því hvernig þær skuli reiknaðar. Í raun er um að ræða þann hagnað sem leyfishafi hefur af hvers kyns spilum og spilakössum í spilahöll sinni.
    Í 1. mgr. er jafnframt kveðið á um að allur spilaskattur renni í ríkissjóð að undanskildum þeim greiðslum sem renna í sérstakan sjóð sem ráðherra skal setja skv. 45. gr. frumvarpsins. Um sjóðinn vísast til umfjöllunar um 45. gr.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um hvernig spilaskattur reiknast af spilaskattsstofninum. Er lagt til að lágmarksskattlagning nemi 40% og tekur hún til fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. á hinu tveggja mánaða gjaldtímabili. Eftir það hækkar skattprósentan um 10% fyrir hverjar 50.000.000 kr. sem tekjurnar hækka. Hæsta skattþrepið tekur til þess ef skattstofn nemur hærri fjárhæð en 350.000.000 kr. og nemur hann þá 80%. Þannig er í samræmi við það sem viðgengst annars staðar á Norðurlöndum, svo sem í Danmörku, lagt til grundvallar að hagnaður af spilum verði skattlagður mjög hátt, lágmarksskattlagning nemur tvöfaldri almennri skattlagningu á lögaðila samkvæmt gildandi rétti og hámarksskattlagning fjórfaldri almennri skattlagningu af hagnaði.

Um 45. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að ráðherra stofni sjóð sem hefur það hlutverk að stuðla að rannsóknum og efla meðferðarúrræði sem miða að því að sporna við spilafíkn. Er í ákvæðinu jafnframt að finna þá reglu að 3% af þeim spilaskatti sem innheimtur er á grundvelli laganna skuli renna til sjóðsins. Skv. 1. gr. frumvarpsins er eitt af markmiðum þess að stuðla að ábyrgri spilamennsku á Íslandi og hamla gegn skaðlegum áhrifum á almenning. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að tilteknum hluta spilaskatts sé sérstaklega ráðstafað til forvarna, þ.e. að sporna við spilafíkn.
    Í 2. mgr. má finna nánari fyrirmæli varðandi framangreindan sjóð, þ.e. um skipun og skipunartíma stjórnarmanna og varamanna í stjórn sjóðsins, skipun formanns sjóðsstjórnar sem og fyrirmæli um að ráðherra setji sjóðnum stofnskrá og nánari reglur um umsóknir og skilyrði um úthlutun úr sjóðnum.

Um 46. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um álagningu spilaskatts en skv. 1. mgr. annast ríkisskattstjóri álagningu skattsins.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að uppgjörstímabil spilaskatts verði hið sama og uppgjörstímabil hjá skattaðila, sbr. lög um virðisaukaskatt. Er þannig gert ráð fyrir að tímabilið verði tveir mánuðir. Markmiðið með því að hafa uppgjörstímabilið tvo mánuði í stað eins er m.a. að draga nokkuð úr vinnu gjaldenda og þeirri vinnu sem skattyfirvöld þurfa að leggja í við úrvinnslu á skýrslum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að gjalddagi spilaskatts sé fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Þetta þýðir að spilaskatti ásamt skýrslu vegna t.d. tímabilsins janúar – febrúar skal skilað eigi síðar en 5. apríl, en samkvæmt 3. málslið 3. mgr. skal skattskyldur aðili skila ríkisskattstjóra skýrslu vegna spilaskatts, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, sbr. 4. mgr.

Um 47. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram að spilaskattur á leyfishafa teljist ekki rekstrarkostnaður og sé ekki frádráttarbær samkvæmt lögum um tekjuskatt.
    Í 2. mgr. er lagt til að spilaskattskröfur ríkisins á grundvelli laga þessara njóti rétthæðar við gjaldþrotaskipti skv. 3. tölul. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

Um 48. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um hvernig skuli skattleggja tekjur sem spilahöll hefur af framlögum í húsbauk. Samkvæmt ákvæðinu teljast fjármunir sem safnast fyrir í húsbauk ekki til tekna leyfishafa og hvílir þar af leiðandi ekki skylda á leyfishafa að greiða af þeim hvers konar tekjuskatt. Eina skattlagning á fjármuni þessa skal því vera í formi tekjuskatts við útgreiðslu til starfsmanna.
    Undantekningu frá þessari reglu er að finna í ákvæðinu en kveðið er á um að framangreint gildi ekki um fjármuni sem leyfishafi áskilur sér úr húsbauk á grundvelli 2. mgr. 32. gr. Nýti leyfishafi sér heimild þess ákvæðis og áskilji sér allt að 10% hlut af fjárframlögum í húsbauk ber að skattleggja þann hlut sem tekjur leyfishafa, eftir þeim reglum laga sem almennt gilda um skattlagningu tekna lögaðila.

Um 49. gr.

    Ákvæðið felur í sér að almennar reglur íslenskra skattalaga skuli lagðar til grundvallar að undanskildum frávikum á grundvelli frumvarps þessa.

Um 50. gr.

    Í ákvæðinu er að finna heimild ráðherra til að setja frekari fyrirmæli um skattlagningu á grundvelli laganna í reglugerð.

Um 51. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 52. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til nokkrar breytingar sem nauðsynlegt er að gera á almennum hegningarlögum samhliða því að heimilað verður að gefa út rekstrarleyfi til reksturs spilahalla. Einn megintilgangur og meginmarkmið frumvarps þessa er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra. Á grundvelli leyfis ráðherra samkvæmt frumvarpinu er leyfishafa heimilt að bjóða upp á tiltekna flokka fjárhættuspila sem almennt eru boðnir í alþjóðlegum spilahöllum. Almenn hegningarlög leggja bann við hvers konar fjárhættuspilum og er því nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á lögunum samhliða nýjum heildarlögum um spilahallir.
    Í 181. gr. almennra hegningarlaga er að finna heimild til að refsa einstaklingi sem aflar sér framfærslu með ólögmætu móti, svo sem með fjárhættuspili. Þá er í 183. og 184. gr. lögð refsing við því að stunda fjárhættuspil og veðmál í atvinnuskyni og koma öðrum til þátttöku í þeim, svo og að hafa beinar eða óbeinar tekjur af því að láta þau fara fram í húsakynnum sínum. Samkvæmt almennum hegningarlögum er bannað að stunda fjárhættuspil eða veðmál í atvinnuskyni, auk þess sem þeim er lætur slíka starfsemi fara fram í húsakynnum sínum getur verið gerð refsing. Þriðja aðila er því óheimilt að hafa tekjur af fjárhættuspilum eða hýsa þá starfsemi í húsakynnum sínum.
    Orðalag fyrrgreindra ákvæða vísar nú einvörðungu til fjárhættuspila án þess að gerður sé sérstakur áskilnaður um ólögmæti enda hafa fjárhættuspil fram til þessa verið ólögmæt. Nái frumvarp þetta fram að ganga verður samþykkt að fjárhættuspil geti verið boðin fram hér á landi með lögmætum hætti á grundvelli leyfis. Því er nauðsyn að gerður sé greinarmunur í viðeigandi ákvæðum almennra hegningarlaga annars vegar á lögmætum og hins vegar ólögmætum fjárhættuspilum. Lagðar eru til breytingar þess efnis í greininni. Vísað er til ólögmætis og lögmæt starfsemi sem fram fer á grundvelli leyfis frá ráðherra þannig undanskilin.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að lög á grundvelli frumvarps þessa skuli endurskoðuð innan sjö ára frá gildistöku þeirra. Eru nokkur sjónarmið sem búa að baki því að lögin skuli endurskoðuð á þeim tíma. Í fyrsta lagi má ætla að á þeim tíma verði komin nokkur reynsla á starfsemi spilahallar hér á landi og hugsanlega leiðir sú reynsla í ljós nauðsyn breytinga á umgjörð þessarar starfsemi. Í öðru lagi er ljóst að lögin eru að miklu leyti í samræmi við þá löggjöf sem upphaflega var sett í Danmörku um rekstur af þessu tagi. Umræddri löggjöf í Danmörku hefur síðan verið breytt, hún aðlöguð að reynslu Dana og slakað töluvert á kröfum sem upphafleg lög gerðu til leyfishafa. Var farin sú leið í frumvarpi þessu að gera ríkar kröfur til leyfishafa á meðan reynsla fengist af starfseminni hér á landi en hugsanlega verður reynsla Íslendinga sambærileg reynslu Dana og þá er rétt að við endurskoðun verði lagt mat á hana og nauðsyn breytinga.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Lagt er til að fyrst um sinn verði ráðherra aðeins heimilt að gefa út eitt rekstrarleyfi á grundvelli laga þessara. Eru margþættar ástæður fyrir því að byrja eigi á einu rekstrarleyfi hér á landi. Í fyrsta lagi liggur fyrir að sú leið var farin í nágrannalöndum okkar að takmarka fjölda leyfa og var við þá takmörkun m.a. litið til þess hvað rekstrargrundvöllur væri fyrir mörgum leyfum. Er óhætt að álykta, með hliðsjón af alþjóðlegri reynslu, að rekstrargrundvöllur hér á landi standi vart undir fleiri leyfum en einu, a.m.k. á sama landsvæði. Í öðru lagi er ljóst að umfang eftirlits með spilahöll er töluvert og á meðan reynsla fæst af starfseminni verður að telja rétt að fara hægt í sakirnar og auðvelda ráðherra að fullnægja eftirlitshlutverki sínu með því að afmarka fjölda spilahalla. Sömu sjónarmið gilda um aðkomu lögreglunnar að starfsemi spilahalla en rétt er að lögreglan fái líkt og ráðherra svigrúm til að laga sig að hlutverki sínu gagnvart rekstrinum og eftirliti með honum. Margvísleg önnur rök mæla með fjöldatakmörkun fyrst um sinn en í ljósi þess hversu veigamikil framangreind sjónarmið eru er óþarfi að tíunda þau frekar hér. Eðli máls samkvæmt kemur ákvæði þetta til endurskoðunar þegar endurskoðun samkvæmt bráðabirgðaákvæði I fer fram, þ.e. innan sjö ára. Er þá hægt að leggja mat á það hvort tilefni sé til að heimila frekari leyfisveitingar á grundvelli laga þessara og þá í hvaða mæli það er mögulegt.
    Ljóst er að með þessari tilhögun er verið að takmarka aðgang aðila að leyfum á grundvelli laga þessara. Hugsanlega sækja fleiri en einn aðili um leyfi á grundvelli laga þessara og þarf þá að leggja mat á það hver þeirra telst fullnægja best skilmálum 6. gr. Mikilvægt er að sá aðili sem fær fyrsta rekstrarleyfið sé talinn traustur, ábyrgur og til þess fallinn að geta rekið spilahöll af fagmennsku og alúð.