Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 61  —  61. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um aðild Íslands að yfirlýsingu um bann við kjarnavopnum.


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Össur Skarphéðinsson, Brynhildur Pétursdóttir, Ögmundur Jónasson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar að Ísland gerist aðili að yfirlýsingu alþjóðlegs átaks, International Campaign to Abolish Nuclear Weapons – ICAN, um bann við kjarnavopnum og eyðingu kjarnavopna. Með samþykkt yfirlýsingarinnar mundi Ísland skipa sér í hóp ríkja sem heitið hafa að vinna að kjarnorkuafvopnun og skora á kjarnorkuveldin að standa við skyldur sínar í því efni.

Greinargerð.

    Nú árið 2015 eru 70 ár liðin frá því að kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Yfir 200 þúsund óbreyttir borgarar létu lífið í þessum árásum. Tugir þúsunda strax við sprengingarnar, aðrir dagana og vikurnar á eftir. Að auki missti fjöldi þeirra sem lifðu sprengingarnar af heilsuna eða lést úr sjúkdómum eins og krabbameini, geislaveiki eða genagöllum sem má rekja beint til sprengjanna. Blessunarlega hefur kjarnavopnum ekki verið beitt aftur í hernaði en því fer þó fjarri að kjarnorkuógnin sé úr sögunni.
    Núna eru ríkin sem búa yfir kjarnorkusprengjum níu og áætlað að sprengjurnar séu tæplega 16 þúsund talsins. Það eru vissulega færri sprengjur en þegar verst lét á tímum kalda stríðsins en mundu þó megna að eyða öllu lífi á jörðinni mörgum sinnum.
    Alþjóðlegu átaki um útrýmingu kjarnavopna (e. International Campaign to Abolish Nuclear Weapons, ICAN) 1 var ýtt úr vör í Vínarborg árið 2007 og er það vettvangur frjálsra félagasamtaka, þingmanna af þjóðþingum og annars áhugafólks um kjarnorkuafvopnun. Samtökin hafa staðið fyrir stórum ráðstefnum um kjarnorkuógnina. Kveikjan að átakinu er óánægja með hversu hægt gengur að fá kjarnorkuveldi heimsins til að axla þá ábyrgð sem gildandi sáttmálar um fækkun kjarnavopna leggja þeim á herðar.
    9. desember 2014 var yfirlýsing um þær ógnir sem mannkyni starfar af kjarnavopnum samþykkt og í ágúst 2015 höfðu 114 ríki staðfest yfirlýsingu um stuðning við alheimsbann á kjarnavopnum. Í þeim hópi eru meðal annars Evrópuríkin Austurríki, Írland, Malta og Kýpur.
    Með því að gerast aðili að yfirlýsingu ICAN mundi Ísland leggja lóð á vogarskálar friðar og afvopnunar í heiminum.

Fylgiskjal.


Mannúðarheit.
(Yfirlýsing ICAN frá 9. desember 2014.)

    

    Í ljósi hinna mikilvægu staðreynda og uppgötvana sem lagðar voru fram á alþjóðlegum ráðstefnum í Osló, Nayarit og Vínarborg, og að loknu ítarlegu mati á gögnum, höfum við, ríkin sem styðja og aðhyllast þessa skuldbindingu, komist að þeim óhjákvæmilegu niðurstöðum sem á eftir fara, og vinnum að því heit að vekja á þeim athygli á þeim vettvangi sem bjóðast kann, þar á meðal í tengslum við Samninginn um að dreifa ekki kjarnavopnum (Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons – NPT) og endurskoðunarráðstefnu tengda honum sem haldin er á árinu 2015.
    Við erum minnug þeirra hörmunga sem fórnarlömb kjarnorkusprenginga og tilrauna með kjarnavopn hafa mátt þola og okkur er ljóst að réttindi þessara tjónþola hafa ekki verið virt né var komið til móts við þarfir þeirra með viðhlítandi hætti.
    Við lýsum skilningi á því að áhrif kjarnorkusprenginga í bráð og lengd eru til muna alvarlegri en áður var talið og munu þau ekki einskorðast við landamæri þjóðríkja heldur hafa áhrif langt utan þeirra, jafnvel á heimsvísu, og geta ógnað tilveru mannkyns.
    Okkur er ljóst að hin flóknu tengsl milli þessara áhrifa á heilsufar, umhverfi, grunngerð, matvælaöryggi, loftslag, þróun, samheldni samfélagsins og efnahag heimsbyggðarinnar ógna grunnkerfum og eru óafturkræf.
    Okkur er kunnugt um að hættan á því að kjarnorkusprengja springi er til muna meiri en áður var talið og eykst hættan raunar með aukinni útbreiðslu kjarnavopna, lægri tækniþröskuldi fyrir framleiðslu kjarnavopna, sífelldri endurnýjun kjarnavopna í vopnabúrum kjarnorkuveldanna og hlutverki slíkra vopna í áætlunum þeirra.
    Við erum þess meðvituð að einungis er unnt að útrýma hættunni sem fylgir notkun kjarnavopna og hinum óásættanlegu afleiðingum kjarnorkuhernaðar með því að eyða öllum kjarnavopnum. Við leggjum áherslu á að afleiðingar kjarnorkusprenginga og hættan sem fylgir kjarnavopnum snertir gervallt mannkynið og því hvílir ábyrgðin á því að hindra hvers kyns notkun kjarnorkuvopna á sérhverju ríki heims.
    Við bendum á að umfang afleiðinga kjarnorkusprenginga og háskinn sem þeim er tengdur vekja upp djúprættar siðferðisspurningar sem snerta málefni handan umræðunnar um lögmæti kjarnavopna.
    Við erum minnug þess að engir viðbragðsaðilar, hvorki meðal þjóða heims né á vegum alþjóðastofnana, megna að bregðast á viðhlítandi hátt við þeim þjáningum og samfélagsvá sem kjarnorkusprenging á byggðu svæði myndi kalla yfir íbúa þar og ekki eru líkur á því að aðilar með getu til slíkra viðbragða verði nokkru sinni tiltækir.
    Við staðhæfum að það er beinlínis í þágu þess að mannkynið lifi af og eigi sér framtíð sem aldrei framar og undir engum kringumstæðum má beita kjarnavopnum.
    Við minnum á hið einkar mikilvæga hlutverk alþjóðastofnana, viðeigandi eininga innan Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins og Rauða hálfmánans, kjörinna fulltrúa, fræðimanna og samtaka borgara í baráttunni fyrir því sameiginlega markmiði að losa heiminn við ógnina sem starfar af kjarnavopnum.
    Við lítum á það sem skyldu okkar og heitum því að færa fram staðreyndir, niðurstöður og sannindamerki frá Vínarráðstefnunni um áhrif kjarnavopna í ljósi mannúðar (Vienna Conference on the Humanitarian Impact of Nuclear Weapons) þar sem byggt var á efni frá fyrri ráðstefnum í Osló og Nayarit, og bera þetta efni fram hvarvetna þar sem það á við en einkum á endurskoðunarráðstefnu samningsins um að dreifa ekki kjarnavopnum (NPT Review Conference) árið 2015 og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem er mikilvægasti vettvangur umfjöllunar um skyldur og skuldbindingar varðandi kjarnorkuafvopnun.
    Við heitum því að krefjast öryggis gegn kjarnavopnum fyrir allt mannkynið og stuðla að vörnum almennra borgara gegn hættunni sem starfar af kjarnavopnum.
    Við skorum á öll aðildarríki NPT að endurnýja skuldbindingu sína við hið brýna verkefni að uppfylla til fulls þær skyldur sem þau hafa þegar undirgengist samkvæmt grein IV og beita í þessu skyni áhrifaríkum aðgerðum til að koma á banni við kjarnavopnum og stuðla að eyðingu þeirra og heitum við því að vinna með hagsmunaaðilum að þessu markmiði.
    Við skorum á þau ríki sem ráða yfir kjarnavopnum að grípa til beinskeyttra aðgerða nú þegar til að draga úr hættunni á því að kjarnorkusprengjur springi, þar á meðal með því að fækka virkum kjarnavopnum og með því að koma slíkum vopnum fyrir í geymslum, með því að draga úr hlutverki kjarnavopna í hernaðaráætlunum og með því að fækka öllum gerðum slíkra vopna með hraði.
    Við heitum því að taka upp samvinnu við alla hlutaðeigandi hagsmunaaðila, þar á meðal ríki, alþjóðastofnanir, alþjóðlega Rauða krossinn og Rauða hálfmánann, þingmenn og borgara með það að markmiði að útskúfa kjarnavopnum, banna þau og eyða þeim í ljósi hinna hörmulegu afleiðinga sem beiting þeirra hefur fyrir mannkynið og áhættunnar sem þeim fylgir.
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá heimasíðu samtakanna: www.icanw.org.