Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 66  —  66. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.


Flm.: Ögmundur Jónasson, Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir,
Bjarkey Gunnarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Atkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en um mitt ár 2017.

Greinargerð.

    Þessi þingsályktunartillaga var síðast lögð fram sem 20. mál á 144. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Tillagan er endurflutt óbreytt en þegar þingmálið var síðast flutt fylgdi því svofelld greinargerð til skýringar og rökstuðnings og á hún enn við:
    „Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu er lögð fram til þess að kalla fram afstöðu þjóðarinnar til úrsagnar eða áframhaldandi veru Íslands í bandalaginu. Tillaga þessi var áður flutt af Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og fleirum á 140. löggjafarþingi (110. mál) en náði ekki fram að ganga. Hún er nú endurflutt með smávægilegum breytingum.

I. Saga málsins og breytt staða Íslands.
    Því fór fjarri að einhugur væri um þá ákvörðun Alþingis að Ísland skyldi ganga í Norður- Atlantshafsbandalagið árið 1949. Þótt sú ákvörðun hafi að mörgu leyti verið með þeim stærstu og afdrifaríkustu sem teknar hafa verið í íslenskum stjórnmálum hafði þjóðin sjálf aldrei beina aðkomu að málinu. Ákvörðunin leiddi á sínum tíma til fjöldamótmæla og í kjölfarið réttarhalda sem lengi drógu dilk á eftir sér. Ísland var þá sem nú herlaus þjóð en á tímum ólgu og óvissu var byr kalda stríðsins látinn ráða för. Í kjölfarið fylgdi samningur við Bandaríkin og uppbygging herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Sú óeining sem þessar ráðstafanir sköpuðu setti svo sterkan svip á þjóðmálin næstu áratugi að aldrei hefur gróið um heilt.
    Öldin er nú önnur, kalda stríðinu lokið og herinn á brott. Heimsmyndin er flóknari og þær hættur sem greina má að nú steðji að Íslandi og norðurslóðum eru þess eðlis að þær kalla eftir fjölbreyttari úrræðum og annars konar viðbúnaði en áður var og gildir þá einu hver afstaða manna var til aðildarinnar að Norður-Atlantshafsbandalaginu fyrr á tíð. Þessar áskoranir varða hluti eins og auðlindir og umhverfi og öryggi í samgöngum og samskiptum, þætti sem allir eiga það sameiginlegt að krefjast viðbúnaðar og samstarfs á borgaralegum grunni frekar en hernaðarlegum. Forsendurnar fyrir veru Íslands í bandalaginu hafa því breyst mjög á undanförnum árum.

II. Breytt eðli bandalagsins.
    Við endalok kalda stríðsins byrjaði að fjara undan sögulegum grundvelli Norður-Atlantshafsbandalagsins, sem hefur alla tíð síðan verið í leit að nýjum tilefnum til að réttlæta tilvist sína. Þessi leit hefur í krafti forusturíkja bandalagsins leitt það að hernaðarátökum fjarri upprunalegu áhrifasvæði bandalagsins við Norður-Atlantshaf og utan hins hefðbundna og yfirlýsta hlutverks þess sem bandalags um sameiginlegar varnir aðildarríkjanna. Á sama tíma hefur mjög dregið úr umsvifum bandalagsins og forusturíkja þess á Íslandi og nærliggjandi svæðum, eins og brotthvarf herliðsins er til vitnis um.
    Útrás Norður-Atlantshafsbandalagsins og forusturíkja þess hefur á undanförnum árum sett þau í fremstu víglínu átaka í Írak, Afganistan og Líbíu. Áform eru nú uppi meðal leiðtoga bandalagsins um 4.000 manna herlið á vegum bandalagsins til að mæta óskilgreindri ógn frá ríkjum utan bandalagsins. Hvorki sér fyrir endann á þessari útrás bandalagsins né átökunum sem þau standa í nú og í framtíðinni. Nauðsynlegt er að staldra við og gefa landsmönnum færi á að svara þeirri spurningu hvort þeir telji rétt að Ísland eigi aðild að slíkum hernaðaraðgerðum og ljóst að mikil þörf er á opinni og lýðræðislegri umræðu um samflot Íslands í fyrrnefndum hernaðaraðgerðum.

III. Nýjar áherslur í þjóðaröryggisstefnu Íslands.
    Í byrjun árs 2012 var skipuð nefnd tíu þingmanna um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og skilaði nefndin af sér skýrslu á vormánuðum þessa árs. Samstaða var í nefndinni um að forgangsverkefni í þjóðaröryggisstefnu Íslands eigi að snúa að borgaralegum verkefnum svo sem umhverfisvá, netógn og náttúruhamförum. Þá þurfi að huga að skipulagðri glæpastarfsemi, fjármála- og efnahagsöryggi, matvælaöryggi og heilbrigðisöryggi, en ólíklegast sé hins vegar að Íslandi steðji hætta af hernaði eða hryðjuverkum. Eðlilegt er að skoða aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu, sem meðal annars felur í sér aðild að hernaðaraðgerðum bandalagsins um víðan heim, í ljósi þess hvort kröftum Íslands sé ekki betur varið í borgaraleg verkefni á borð við þau sem samstaða náðist um í nefndinni.
    Ekki náðist hins vegar samstaða í nefndinni um veru Íslands í Norður-Atlantshafsbandalaginu. Í bókun fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir að „áherslan á aðild að Atlantshafsbandalaginu og þátttöku m.a. í loftrýmiseftirliti rími illa við þá breiðu nálgun á þjóðaröryggisstefnu sem að öðru leyti er samstaða um. Það er skýr stefna VG að Ísland sé herlaust land og standi utan hernaðarbandalaga en efli frekar þátttöku sína í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum eins og Norðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.“ Í ljósi þess að utanríkisráðherra hefur lýst yfir vilja til að ná þverpólitískri samstöðu um þjóðaröryggisstefnu Íslands er rétt að vísa þeim hluta tillagna nefndarinnar til þjóðarinnar sem snýr að veru Íslands í Norður-Atlantshafsbandalaginu beint til þjóðarinnar og marka þess í stað stefnu um borgaraleg þjóðaröryggismál sem ætla má að náist breiðari samstaða um.

IV. Lokaorð.
    Þjóðin hafði ástæðu til að efast um réttmæti þess að Ísland gerðist aðili að Norður-Atlantshafsbandalaginu fyrir rúmum 60 árum en var ekki gefið færi á að móta heildstæða afstöðu til ákvörðunarinnar. Í ljósi þessarar sögu og breytts eðlis bandalagsins er nú fullt tilefni til að gefa þjóðinni nýtt tækifæri til að segja hug sinn um þróun bandalagsins og áframhaldandi þátttöku Íslands innan þess, sér í lagi þegar haft er í huga að nú stendur yfir vinna við mótun þjóðaröryggisstefnu Íslands þar sem afstaðan til Norður-Atlantshafsbandalagsins er lykilatriði.“