Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 72  —  72. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um lífeyrisréttindi íslenskra ríkisborgara erlendis.


Flm.: Svandís Svavarsdóttir.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og gera samninga um lífeyrisréttindi við þau lönd þar sem verulegur fjöldi íslenskra ríkisborgara býr.
    Gerð verði könnun á fjölda íslenskra ríkisborgara erlendis sem hafa verið búsettir á Íslandi í einhvern tíma á aldursbilinu 16–67 ára og þannig áunnið sér rétt til lífeyris á Íslandi, einkum til ellilífeyris. Þegar niðurstöður liggja fyrir verði unnið að samningum um lífeyrisréttindi við þau ríki þar sem umræddir einstaklingar búa. Þar verði ákvæði um lagaskilareglur, m.a. um jafnræði einstaklinga, greiðslu bóta úr landi, ákvæði um hvaða löggjöf skuli beita, útsenda starfsmenn frá hvoru samningslandi um sig og samlagningu réttindatímabila.

Greinargerð.

    Þessi þingsályktunartillaga var fyrst flutt á 144. löggjafarþingi (724. mál) en varð ekki útrædd og er því endurflutt.
    Nokkur fjöldi Íslendinga býr erlendis stóran hluta ævi sinnar og eyðir ævikvöldinu þar. Langflestir búa annars staðar á Norðurlöndum og njóta þar allra félagslegra réttinda eins og heimafólk samkvæmt norrænum samningum. Íslenskir ríkisborgarar á Evrópska efnahagssvæðinu njóta og sömu réttinda. En þessir Íslendingar geta líka sótt hingað rétt sinn til ellilífeyris og tengdra greiðslna jafnvel þótt þeir hafi búið lengi erlendis.
    Öðru máli gegnir um þá íslensku ríkisborgara sem ekki búa á Evrópska efnahagssvæðinu eða í Kanada, en í gildi er samningur við Kanada um gagnkvæm lífeyrisréttindi íslenskra og kanadískra ríkisborgara. Þeir Íslendingar sem ná ellilífeyrisaldri utan þeirra svæða og ríkja sem fyrr voru talin hafa ekki rétt til íslensks ellilífeyris þó að þeir hafi búið á Íslandi hluta starfsævi sinnar. Þetta á til dæmis við um þá Íslendinga sem fluttust búferlum til Ástralíu og Nýja-Sjálands á 7. áratug síðustu aldar. Þetta fólk er nú komið á efri ár en það fær hvorki ellilífeyri hér á landi né tengdar greiðslur.
    Önnur norræn ríki hafa gripið til aðgerða vegna lífeyrisréttar ríkisborgara sinna í öðrum löndum og leysa slík mál með samningum þegar annarra ráðstafana nýtur ekki við. Með þessari tillögu er lagt til að þessi háttur verði einnig tekinn upp hér á landi og ríkisstjórninni því falið að vinna að samningagerð við þau ríki þar sem ástæða er til að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara til lífeyris. Væri að mati flutningsmanns rétt að byrja á samningagerð við Ástralíu og Nýja-Sjáland þar sem vitað er af nokkrum hópi aldraðra Íslendinga. Auðvelt er að leita fyrirmyndar í samningum annarra norrænna ríkja við stjórnvöld í Ástralíu.