Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 73  —  73. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (biðlaun).

Flm.: Ögmundur Jónasson.


1. gr.

    Á eftir 43. gr. laganna kemur ný grein, 43. gr. a, svohljóðandi:
    Nú er starf lagt niður og skal þá starfsmaður jafnan halda óbreyttum launakjörum sem starfinu fylgdu í sex mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði, enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sambærilegu starfi á vegum ríkisins.
    Nú tekur maður sem launagreiðslna nýtur skv. 1. mgr. við starfi í þjónustu ríkisins áður en liðinn er sex eða tólf mánaða tíminn og skulu þá launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef laun þau sem nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau sem hann naut í fyrra starfi. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka sex eða tólf mánaða tímabilsins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þetta lagafrumvarp var áður flutt á 144. löggjafarþingi (544. mál) en kom ekki til umræðu. Málið er endurflutt óbreytt þar sem engar breytingar hafa orðið á launagreiðslum við starfsmissi opinberra starfsmanna og erindið því jafn brýnt og áður.
    Ákvæði um biðlaun voru sett í lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna árið 1954. Réttur til biðlauna er viðurkenning á þeirri erfiðu stöðu sem einstaklingar lenda í við starfsmissi. Þá hafa þau verið talin mikilvægur hluti af launakjörum opinberra starfsmanna sem um margt búa ekki við sama vinnuumhverfi og á almennum markaði. Opinberir starfsmenn bjuggu við biðlaunarétt hér á landi fram til ársins 1996 en þá var hann numinn brott með núgildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gegn hörðum andmælum heildarsamtaka opinberra starfsmanna.
    Biðlaunaréttur gildir eftir sem áður gagnvart embættismönnum sem búa við fimm ára skammtímaráðningu skv. 34. gr. laganna. Það er fullkomlega eðlileg ráðstöfun og jafnsjálfsögð og ranglátt var að nema réttinn brott frá öðrum opinberum starfsmönnum. Einnig halda þeir starfsmenn sem féllu undir hin eldri starfsmannalög, þ.e. voru skipaðir eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga nr. 70/1996, biðlaunarétti skv. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða.
    Biðlaun hafa verið við lýði á Norðurlöndum hjá opinberum starfsmönnum en í seinni tíð hefur verið þrengt að þessum rétti. Í Svíþjóð er biðlaunaréttur þannig vart lengur fyrir hendi nema hjá æðstu yfirmönnum ríkisins þar sem um aðra gildir að einungis er hægt að semja um réttinn og hann því algerlega háður geðþóttavaldi vinnuveitanda. Í Danmörku hefur verið fækkað verulega í hópi þeirra sem njóta réttarins en embættismenn eiga þó slíkan rétt líkt og hér. Í Noregi er biðlaunarétturinn hins vegar víðtækari. Þar gildir sú regla að sé starf lagt niður eða gerðar skipulagsbreytingar sem leiða til starfsmissis, geti starfsmaður ekki á grundvelli sjúkdóms sinnt starfi sínu eða teljist ekki lengur hafa þá hæfni sem þarf til að sinna starfinu skuli starfsmanninum boðið annað hentugt starf ef mögulegt er hafi hann starfað eitt ár samfellt hjá ríkinu, sbr. 13. gr. laga um opinbera starfsmenn frá 1983 (tjenestemannsloven). Reynist ekki unnt að bjóða annað starf við hæfi hjá ríkinu og eigi viðkomandi ekki rétt til lífeyris að öðru leyti kemur til mögulegra biðlauna hafi viðkomandi starfað a.m.k. tvö ár (fastráðning) eða fjögur ár (tímabundin ráðning) samfellt hjá ríkinu. Tímalengd biðlauna ræðst af aldri starfsmannsins (allt frá þremur árum til tólf ára, þó er hún að hámarki heildarfjöldi þeirra ára sem viðkomandi var við störf hjá ríkinu), fjárhæðin ákvarðast að hámarki til þriggja ára í senn og endurskoðast rétturinn reglulega á biðlaunatímanum. Réttur til biðlauna er jafnframt háður því skilyrði að viðkomandi aðili sé virkur atvinnuleitandi á því tímabili sem um ræðir. Því er um nokkuð aðra nálgun að ræða en tíðkast hefur hér á landi en rökin eru að sjálfsögðu þau sömu í grunninn – að tryggja starfsmönnum lífsviðurværi við starfsmissi.
    Biðlaun tíðkast í reynd á vinnumarkaði hér á landi þegar einstaklingar missa starf sitt. Einstaklingar fá nú iðulega greidd laun þegar störf þeirra eru lögð niður en nú kallast það fyrirkomulag starfslokasamningar en ekki biðlaun. Þeir eru frábrugðnir gamla biðlaunaréttinum að því leyti að nú er byggt á einhliða geðþóttavaldi launagreiðanda en ekki réttindum launamanns. Hvað starfslokasamninga áhrærir hefur orðið hin versta öfugþróun hin síðari ár. Hálaunafólk nýtur iðulega himinhárra starfslokasamninga, jafnvel þótt það hafi sjálft og að eigin frumkvæði sagt upp starfi sínu, á sama tíma og millitekju- og láglaunafólk má þakka fyrir að fá einhverjar greiðslur við starfsmissi. Það er mikið réttlætismál að breyta þessu. Það á að vera eðlilegur hluti af starfskjörum hvers vinnandi einstaklings að njóta einhverrar aðlögunar við að ganga inn í annað efnahagsumhverfi sem iðulega verður við starfsmissi og felur oft í sér atvinnuleysi tímabundið eða til lengri tíma. Vegna þessa er frumvarp þetta lagt fram til að endurvekja biðlaunarétt almennra opinberra starfsmanna.