Ferill 82. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 82  —  82. mál.




Beiðni um skýrslu



frá mennta- og menningarmálaráðherra um blandaðar bardagaíþróttir.



Frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni,
Óttari Proppé, Willum Þór Þórssyni, Karli Garðarssyni, Haraldi Einarssyni,
Brynjari Níelssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Sigríði Á. Andersen, Ásmundi Friðrikssyni,
Össuri Skarphéðinssyni og Unni Brá Konráðsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að mennta- og menningarmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um þær reglur sem gilda í Svíþjóð um viðburði þar sem keppt er í blönduðum bardagaíþróttum, þann undirbúning sem fram fór fyrir setningu reglnanna og það mat sem hefur farið fram á framkvæmd og áhrifum þeirra þar í landi. Jafnframt er þess óskað að lagt verði mat á jákvæð áhrif þess á ferðaþjónustu ef slíkir viðburðir færu fram hér á landi.

Greinargerð.

    Mál þetta var áður flutt á 144. löggjafarþingi (659. mál).
    Blandaðar bardagaíþróttir njóta vaxandi vinsælda hér á landi líkt og víðar. Því til stuðnings má vísa til þess að íþróttafélagið Mjölnir er með keppnislið tólf einstaklinga sem hafa það að markmiði að gera það að atvinnu að keppa í blönduðum bardagaíþróttum. Einn þeirra er Gunnar Nelson sem keppir fyrir alþjóðlegu bardagasamtökin UFC. Bardagar hans hafa vakið mikla athygli og áhorf hér á landi og aukið áhuga ungs fólks á blönduðum bardagaíþróttum. Vegna þessa er mikilvægt að umræða eigi sér stað um hugsanlega viðburði af þessum toga hér á landi og kröfur um öryggi og eftirlit, en ekki síður áhrif þeirra á íþróttaiðkun og ferðaþjónustu.
    Í skýrslubeiðni þessari er horft til Svíþjóðar í þessu augnamiði, enda hefur víðtæk skoðun og umræða farið fram um þessi málefni undanfarin ár þar í landi. Svíar hafa farið þá leið að gera viðburði tengda bardagaíþróttum, sem fela í sér hugsanleg höfuðhögg, leyfisskylda með tilheyrandi eftirliti opinberra aðila. Að baki þessari útfærslu liggja ýmsar úttektir og skýrslur þar sem mat er lagt á áhættu og áhrif á heilsu keppenda. Frá því að lög þessa efnis voru sett árið 2006 hefur jafnframt farið fram mat á áhrifum þeirra og reynslu af fyrirkomulaginu þar í landi. Vegna þessa er nærtækt að líta til nágrannaþjóðar okkar til grundvallar nauðsynlegri umræðu hér á landi um þessi málefni. Í því sambandi er mikilvægt að líta til heilsufars- og öryggisþátta sem tengjast þátttöku í slíkum viðburðum. Þá er einnig mikilvægt að horfa til jákvæðra efnahagslegra áhrifa vegna aukins áhuga á Íslandi í alþjóðlegu umhverfi blandaðra bardagaíþrótta ef um stórviðburði væri að ræða. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að blandaðar bardagaíþróttir fyrirfinnast nú þegar hér á landi og að Íslendingar taka þegar þátt í slíkum viðburðum á erlendri grundu. Því er löngu tímabært að huga að því hvernig þessum málum verður best háttað innan landsteinanna.