Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 85  —  85. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Óttar Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


1. gr.

    Í stað orðanna „leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og skal andvirðið þá renna í ríkissjóð“ í 3. málsl. 3. mgr. 65. gr. laganna kemur: láta hlutkesti ráða úthlutun.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Á 144. löggjafarþingi var lögfest breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Í henni fólst m.a. breyting á 3. mgr. 65. gr. laganna þess efnis að fella brott heimild til að beita hlutkesti þegar tilboð í tilteknar landbúnaðarvörur berast umfram kvóta. Rökin fyrir breytingunni voru dómar sem féllu í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars 2015 þar sem niðurstaðan var sú að það að ráðherra hefði val um hvorri aðferð 3. mgr. 65. gr. laganna væri beitt fæli í sér of víðtækt skattlagningarvald sem væri andstætt 40. og 77. gr. stjórnarskrár.
    Umrædd breyting á lögunum var lögð fram af meiri hluta atvinnuveganefndar sem breytingartillaga við lagafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum o.fl. (694. mál á 144. löggjafarþingi). Í ákvæðum frumvarpsins var kveðið á um breytingar á eftirliti með framkvæmd búvörusamninga auk þess sem markmið þess var að einfalda framkvæmd laganna þannig að stjórnsýsluverkefni yrðu á hendi eins aðila sem væri undirstofnun ráðuneytisins. Breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar var lögð fram í júní 2015 og var hún ekki send til umsagnar eins og önnur ákvæði frumvarpsins.
    Flutningsmenn leggja til breytingu á 3. mgr. 65. gr. búvörulaga í þá veru að ef umsóknir berast um meiri innflutning en sem tollkvóta nemur skuli láta hlutkesti ráða úthlutun og því verði ekki leitað tilboða í heimildir til innflutnings. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að lögfest hafi verið að tollkvótar séu boðnir út ef umsókn berst um meiri innflutning en sem tollkvóta nemur enda fellur útboðskostnaður á neytendur. Þá er þessi aðferð ekki til þess fallin að auka samkeppni í verslun.
    Flutningsmenn benda á að í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samkeppni á dagvörumarkaði kom fram að rétt væri að fella niður útboð á tollkvótum vegna innflutnings á kjöti, smjöri og ostum en yrði það ekki gert lagði Samkeppniseftirlitið til að úthlutun yrði án endurgjalds og að hlutkesti yrði varpað ef ásókn væri umfram kvóta. Í sömu skýrslu kemur fram það mat Samkeppniseftirlitsins að með því að miða við hæsta verð í útboðum eins og gert hefði verið væri stuðlað að hærra matvöruverði.
    Flutningsmenn benda einnig á og taka undir með ýmsum hagsmunasamtökum, m.a. Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, sem hafa bent á að útboðsleiðin vinni gegn almannahagsmunum, hækki vöruverð og hamli samkeppni. Þegar eftirspurn er umfram framboð hafa Neytendasamtökin talið betri leið að láta hlutkesti ráða við úthlutun á tollkvótum en að bjóða þá út, enda er ljóst að sá kostnaður sem útboði fylgir lendir að hluta eða að fullu á neytendum.
    Flutningsmenn átelja að meiri hluti atvinnuveganefndar hafi lagt til veigamikla breytingu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, í þá veru að tollkvótum verði ávallt úthlutað með útboðum og að Alþingi hafi samþykkt þá tillögu, án þess að fram hafi farið ítarleg umræða í nefndinni og án þess að hagsmunaaðilum og viðeigandi stofnunum hafi gefist færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina.