Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 113  —  113. mál.




Fyrirspurn



til forsætisráðherra um framkvæmd
laga um verndarsvæði í byggð.

Frá Heiðu Kristínu Helgadóttur.


1.      Hvaða fagþekking á sviði minjaverndar eða skipulagsmála og arkitektúr er í ráðuneytinu til að meta og leggja til hvaða svæði í byggð skuli vernduð vegna svipmóts byggðarinnar, menningarsögu hennar og listræns gilds og varðveislugildis á landsvísu, sbr. lög um verndarsvæði í byggð, nr. 87/2015? Eru uppi áform um að efla slíka fagþekkingu í ráðuneytinu?
2.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér aðkomu og andmælarétt sveitarfélaga þegar og ef gripið verður til þess að friða svæði í byggð?
3.      Hvernig miðar vinnu að setningu reglugerðar í samræmi við lögin þar sem gert er ráð fyrir að í reglugerð sé útfært margt sem er óljóst í lögunum?
4.      Hver var aðkoma ráðherra að skyndifriðun Minjastofnunar Íslands á hafnargörðum á framkvæmdasvæði við Austurhöfnina í Reykjavík og á hvaða faglegu forsendum byggði hann aðkomu sína?
5.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér samspil skipulagsgerðar á grundvelli skipulagslaga, nr. 123/2010, og ákvörðunar á grundvelli laga um verndarsvæði í byggð um verndun tiltekinnar byggðar? Hafi svæði í byggð verið vernduð á grundvelli laga um verndarsvæði í byggð, hvaða þýðingu hefur þá lögbundin auglýsing um breytt deiliskipulag? Hvernig verður aðkomu og athugasemdum íbúa háttað?
6.      Hefur verið lagt mat á hugsanlega bótaskyldu eða skaðabætur sem kunna að falla á ríkissjóð vegna skerðingar á verðmæti fasteigna, sem kann að leiða af ákvörðun ráðherra um verndarsvæði í byggð?


Skriflegt svar óskast.