Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 132  —  132. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum
(leyfilegur munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. skal lífeyrissjóði vera heimilt að hafa allt að 15% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2011 og allt að 13% mun fyrir árin 2012, 2013 og 2014, án þess að honum sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins.
     b.      Í stað „2012 og 2013“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 2012, 2013 og 2014.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, þar sem mælt er fyrir um tímabundnar heimildir lífeyrissjóðs til þess að hafa aukinn mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga við tryggingafræðilega athugun. Samkvæmt núgildandi ákvæði má munurinn á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga ekki vera meiri en 10% fyrir árið 2014. Tryggingafræðileg athugun á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga fyrir árið 2014 hefur leitt í ljós 12,3% mun á milli eignarliða og skuldbindinga. A-deild sjóðsins er því utan leyfilegra marka að óbreyttum lögum.
    Viðræður hafa staðið yfir milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og samtaka launþega á opinberum vinnumarkaði hins vegar um hvernig haga skuli lífeyrismálum opinberra starfsmanna þannig að þau falli að því markmiði, sem almenn samstaða er um milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, að komið verði á einu lífeyriskerfi fyrir alla sem lúta skyldubundinni aðild að lífeyrissjóði. Vonir standa til að niðurstaða fáist í þá vinnu á næstu misserum en samhliða þeim breytingum sem slík niðurstaða fæli í sér yrði tryggingafræðileg staða opinberra lífeyrissjóða að vera tryggð með tilliti til almennra viðmiða í lögum.
    Í a-lið 1. gr. er lagt til að lífeyrissjóði verði heimilað að hafa allt að 13% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2014 í stað 10%.
    Í b-lið 1. gr. er lagt til að árið 2014 bætist við til samræmis við að lífeyrissjóði verði heimilað að hafa 13% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga fyrir það ár.



Fylgiskjal I.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga
skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, þar sem mælt er fyrir um tímabundnar heimildir lífeyrissjóða til þess að hafa aukinn mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga við tryggingafræðilega athugun.
Samkvæmt núgildandi ákvæði má munurinn á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga ekki vera meiri en 10% fyrir árið 2014. Tryggingafræðileg athugun á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga fyrir árið 2014 hefur leitt í ljós 12,3% mun á milli eignarliða og skuldbindinga og er því utan leyfilegra marka að óbreyttum lögum. Árið 2014 er sjöunda árið í röð þar sem tryggingafræðileg staða A-deildar sjóðsins er neikvæð um meira en 10%.
    Með þeirri lagabreytingu sem lögð er til í frumvarpinu er því varnað að grípa þurfi til ráðstafana á næsta ári vegna neikvæðrar stöðu A-deildarinnar með öðrum hætti, eins og með hækkun á iðgjöldum sem sveitarfélög greiða af launum starfsmanna sinna. Í reglum um A-deild sjóðsins er kveðið á um að deildin skuli á hverjum tíma eiga eignir til að mæta skuldbindingum sínum. Með þessari frestun gefst meiri tími til að vinna að varanlegri úrlausn á stöðu A-deilda lífeyrissjóða opinberra starfsmanna í heildstæðu samhengi við lífeyrisréttindi og kjaramál á vinnumarkaði. Að undanförnu hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins unnið að tillögum um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Sú vinna hefur tekið lengri tíma en áætlað var og enn eru nokkur atriði óútkljáð í þeirri vinnu. Meðal atriða sem eru til athugunar er hvernig tryggingafræðileg staða opinberra lífeyrissjóða verði tryggð með tilliti til almennra viðmiða í lögum. Þykir rétt að veita aðilum aukinn tímafrest til þess að leggja lokahönd á tillögurnar.
    Lögfesting þessa frumvarps mun hafa þau áhrif fyrir fjárhag sveitarfélaga að ekki verður þörf á því að hækka framlag vinnuveitenda sem greiða framlag til Lánasjóðs sveitarfélaga. Umsögn þessi hefur verið borin undir Samband íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við efni hennar.



Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum
(leyfilegur munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, þar sem mælt er fyrir um tímabundnar heimildir lífeyrissjóða til þess að hafa aukinn mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga við tryggingafræðilega athugun.
    Samkvæmt núgildandi ákvæði má munurinn á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga ekki vera meiri en 10% fyrir árið 2014. Tryggingafræðileg athugun á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga fyrir árið 2014 hefur leitt í ljós 12,3% mun á milli eignarliða og skuldbindinga og er því utan leyfilegra marka að óbreyttum lögum. Árið 2014 er sjöunda árið í röð þar sem tryggingafræðileg staða A-deildar sjóðsins er neikvæð um meira en 10%.
    Með þeirri lagabreytingu sem lögð er til í frumvarpinu er því varnað að grípa þurfi til ráðstafana á næsta ári vegna neikvæðrar stöðu A-deildarinnar með öðrum hætti, eins og með hækkun á iðgjöldum sem sveitarfélög greiða af launum starfsmanna sinna. Í reglum um A-deild sjóðsins er kveðið á um að deildin skuli á hverjum tíma eiga eignir til að mæta skuldbindingum sínum. Með þessari frestun gefst meiri tími til að vinna að varanlegri úrlausn á stöðu A-deilda lífeyrissjóða opinberra starfsmanna í heildstæðu samhengi við lífeyrisréttindi og kjaramál á vinnumarkaði. Að undanförnu hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins unnið að tillögum um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Sú vinna hefur tekið lengri tíma en áætlað var og enn eru nokkur atriði óútkljáð í þeirri vinnu. Meðal atriða sem eru til athugunar er hvernig tryggingafræðileg staða opinberra lífeyrissjóða verði tryggð með tilliti til almennra viðmiða í lögum. Þykir rétt að veita aðilum aukinn tímafrest til þess að leggja lokahönd á tillögurnar.
    Lögfesting þessa frumvarps hefur ekki áhrif á fjárhag ríkissjóðs, sem er til umfjöllunar í þessari umsögn, en fjallað er um hugsanleg áhrif lagasetningarinnar á fjárhag sveitarfélaga í annarri umsögn.