Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 140  —  140. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013,
með síðari breytingum (varúðarregla, almannaréttur,
sérstök vernd, framandi tegundir o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Orðin „eftir miðja 18. öld“ í 8. tölul. falla brott.
     b.      Í stað „58. gr.“ í a-lið 17. tölul. kemur: 56. gr.
     c.      19. tölul. orðast svo: Óbyggt víðerni: Svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.
     d.      20. tölul. orðast svo: Ræktað land: Land sem er nýtt til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, gróðursetningu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum. Land telst óræktað eftir langvarandi notkunarleysi. Lóð undir frístundahús í notkun telst ræktað land í skilningi laga þessara, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 3. tölul. 2. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008.
     e.      25. tölul. orðast svo: Vegur: Til vega samkvæmt lögum þessum teljast þjóðvegir, sveitarfélagsvegir og einkavegir, svo sem þeir eru skilgreindir í vegalögum. Auk þess aðrir vegir utan flokkunarkerfis vegalaga sem skráðir eru í vegaskrá í samræmi við ákvæði 32. gr.
     f.      28. tölul. orðast svo: Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra. Afmarka má þéttbýli með öðrum hætti í aðalskipulagi sveitarfélags.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Þegar tekin er stjórnvaldsákvörðun á grundvelli laga þessara, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna, skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Til þess að koma varúðarreglu 1. mgr. til framkvæmdar skal ráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um:
                  a.      þær kröfur sem ber að gera til gæða upplýsinga, þ.m.t. úttekta og kannana, sem varða vísindalega vissu eða óvissu þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir skv. 1. mgr.,
                  b.      ábyrgð framkvæmdaraðila (umsækjanda) á að afla upplýsinga og greiða fyrir þær, þ.m.t. úttektir og kannanir skv. a-lið, og hvenær þær þurfi að liggja fyrir,
                  c.      sérstaka matsferla sem framkvæmdaraðila (umsækjanda) ber að beita til þess að meta með nægilegri vissu hvaða áhrif stjórnvaldsákvörðun skv. 1. mgr. hefur á náttúruna,
                  d.      í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra, hvernig og í hvaða tilvikum stjórnvald skuli meta saman efnahagslegan ávinning og hættu á umtalsverðum neikvæðum afleiðingum þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir skv. 1. mgr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „umsýsluáætlana“ í 2. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi tölu og beygingarfalli: stjórnunar- og verndaráætlana.
     b.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Náttúrufræðistofnun Íslands annast m.a. skráningu náttúruminja og mat á verndargildi þeirra, hefur umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár og gerir tillögur um skráningar í hann í samráði við fagráð náttúruminjaskrár, sbr. 15. gr., sem og tillögur um minjar sem ástæða þykir til að setja á framkvæmdaáætlun.
     c.      Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, 4. og 5. mgr., svohljóðandi:
                  Náttúrustofum er heimilt að annast einstök verkefni á sviði náttúruverndar, svo sem fræðslu, vöktun og eftirlit, í samræmi við samninga sem ráðherra er heimilt að gera skv. 10. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.     
                  Umhverfisstofnun er heimilt að gera samninga við sveitarfélög, einstaka landeigendur eða rétthafa lands um verkefni á sviði náttúruverndar á svæðum sem ekki hafa hlotið friðlýsingu, friðun eða vernd samkvæmt ákvæðum laga þessara en teljast sérstök sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs.
     d.      Við 4. mgr., er verður 6. mgr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um heimildir til samningagerðar skv. 5. mgr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Orðin „sbr. 2. mgr. 34. gr.“ í 7. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 7. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fagráðið skal jafnframt vera Náttúrufræðistofnun Íslands og Skógrækt ríkisins til ráðgjafar um skráningu náttúrufyrirbæra, sbr. 61. gr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 17. gr. laganna:
     a.      Orðin „og vegslóða“ falla brott.
     b.      Í stað orðsins „kortagrunni“ kemur: skrá yfir vegi í náttúru Íslands.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Við 2. málsl. 1. mgr. bætist: svo sem vegna beitar eða ræktunar hrossa eða nautgripa.
     b.      Í stað 2. og 3. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir að skógræktarsvæði teljist ræktað land í skilningi laga þessara er för um svæðið og dvöl þar ekki háð samþykki eiganda þess eða rétthafa eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.

7. gr.

    2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um umferð hjólreiðamanna.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „hrossastóð“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: hross.
     b.      5. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um umferð ríðandi manna og rekstur hrossa.

9. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Um umferð um vötn fer samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Við alfaraleið í byggð er heimilt, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr. 18. gr., að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi tjöldum sem ætluð eru til gistingar, en leita skal leyfis landeiganda eða annars rétthafa áður en tjaldað er nærri bústöðum manna eða bæ og ætíð ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða eða ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur.
     b.      Í stað orðanna „setja niður hefðbundin viðlegutjöld“ í 2. mgr. kemur: slá upp tjöldum sem ætluð eru til gistingar.
     c.      Orðin „eða slóðum“ í 3. mgr. falla brott.
     d.      4. mgr. orðast svo:
                  Utan alfaraleiðar, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að slá upp tjöldum sem ætluð eru til gistingar nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um viðkomandi landsvæði.

11. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Umhverfisstofnun getur í verndarskyni, að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags eða landeiganda eða að eigin frumkvæði, takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum ef hætta er á verulegu tjóni af völdum ágangs á svæði. Skal stofnunin gera grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu skv. 2. mgr. 77. gr. Slíkar ákvarðanir eru háðar staðfestingu ráðherra og skal birta þær með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Stofnunin skal ávallt hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarfélag áður en tillaga samkvæmt ákvæði þessu er send til ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein skal endurmeta árlega.
    Ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags, landeiganda eða að eigin frumkvæði. Samráð skal haft um slíka ákvörðun við hlutaðeigandi sveitarfélag og fulltrúa ferðaþjónustu og útivistarfólks sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið. Ef um eignarland er að ræða skal ætíð haft samráð við eiganda lands eða rétthafa áður en ákvörðun er tekin. Takmörkunin eða lokunin skal að jafnaði ekki standa lengur en tvær vikur en ef nauðsyn krefur er heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein skal birta í dagblöðum og útvarpi og á vefsíðum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs í atvinnuskyni, m.a. reglur um sjálfbæra nýtingu.
     b.      5. og 6. mgr. falla brott.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „svo fremi jörð sé frosin“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: og snævi þakin.
     b.      Í stað orðanna „þétt við veg“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: bílbreidd frá vegi.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. er við akstur vegna starfa við landbúnað heimilt, ef nauðsyn krefur, að aka utan vega á landi sem sérstaklega er nýtt til landbúnaðar ef ekki hljótast af því náttúruspjöll. Við eftirleitir er bændum heimilt að sækja sauðfé inn á miðhálendið á léttum vélknúnum ökutækjum, svo sem fjórhjólum, enda verði þeim gripum ekki náð með öðru móti og ekki talin hætta á náttúruspjöllum. Einnig er heimilt, ef nauðsyn krefur, að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við landgræðslu og heftingu landbrots, vegalagnir, línulagnir og lagningu annarra veitukerfa, björgunarstörf, lögreglustörf, sjúkraflutninga, rannsóknir, landmælingar og landbúnað, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt. Heimilt er, ef nauðsyn krefur og með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar, að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við viðhald skála og neyðarskýla og vegna kvikmyndagerðar, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt.

14. gr.

    32. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Skrá yfir vegi í náttúru Íslands.


    Vegagerðin skal halda skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil, sbr. 2. mgr. 7. gr. vegalaga, nr. 80/2007.
    Sveitarfélög gera tillögu að skrá skv. 1. mgr. innan sinna marka við gerð aðalskipulags og hlýtur hún samþykkt samhliða afgreiðslu aðalskipulags, sbr. 32. gr. skipulagslaga, nr. 123/ 2010. Slík vegaskrá er jafnframt háð samþykki Umhverfisstofnunar, eða annarra stjórnvalda þjóðgarða þegar við á, á landsvæðum sem liggja innan friðlýstra svæða og þjóðgarða. Skipulagsstofnun ber að sjá til þess að Vegagerðinni berist upplýsingar um vegaskrá í viðkomandi sveitarfélagi til skráningar og birtingar í vegaskrá skv. 1. mgr. þegar aðalskipulag hefur verið staðfest. Við gerð skrárinnar skulu sveitarfélög hafa samráð við Umhverfisstofnun eða önnur stjórnvöld þjóðgarða ef við á, Vegagerðina, Landgræðslu ríkisins, Landmælingar Íslands, samtök útivistarfélaga, náttúru- og umhverfisverndarsamtök, Bændasamtök Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar.
    Við mat á því hvort tilteknir vegir skuli tilgreindir í vegaskrá skv. 1. mgr. skal sérstaklega líta til þess hvort akstur á þeim sé líklegur til að raska viðkvæmum gróðri, valda jarðvegsrofi, hafa neikvæð áhrif á landslag, víðerni og ásýnd lands eða hafa að öðru leyti í för með sér náttúruspjöll. Einnig má líta til þess hvort um greinilegan og varanlegan veg sé að ræða, hvort löng hefð sé fyrir akstri á honum og hvort umferð á tilteknum vegi skuli takmarka við ákveðnar gerðir ökutækja, viss tímabil, náttúrufarslegar aðstæður eða við akstur vegna ákveðinna starfa.
    Upplýsingar um heimila vegi í vegaskrá fela ekki í sér að þeir séu færir öllum vélknúnum ökutækjum og leiða ekki til ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga á viðhaldi þeirra.
    Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um gerð og birtingu skrár yfir vegi í náttúru Íslands um vegi samkvæmt þessari grein. Birta skal í B-deild Stjórnartíðinda auglýsingu um vegaskrá og breytingar á henni. Eftir útgáfu kortagrunns skv. 1. mgr. skulu útgefendur vegakorta, þar á meðal stafrænna korta fyrir GPS-tæki og álíka búnað, sjá til þess að upplýsingar á kortum þeirra séu svo sem kostur er í samræmi við vegaskrá skv. 1. mgr. Útgefendum korta, þ.m.t. stafrænna korta, er skylt að skrá á kort sín eða í ítarefni sem þeim fylgir útgáfunúmer og útgáfutíma vegaskrárinnar sem nýtt er og upplýsingar um aðgang að nýjustu útgáfu kortagrunnsins, t.d. með vefslóð. Ef á þessu verður alvarlegur misbrestur er Umhverfisstofnun heimilt að krefjast þess með skriflegri áskorun að útgefendur hætti dreifingu vegakorta sem veita rangar upplýsingar um heimildir til aksturs vélknúinna ökutækja á vegum samkvæmt ákvæði þessu og að þeir innkalli þau frá öðrum dreifingaraðilum. Verði útgefendur ekki við áskorun stofnunarinnar innan tilskilins frests er henni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni, sbr. 3. mgr. 87. gr.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Á undan orðinu „A-hluti“ í 1. tölul. 2. mgr. kemur: Friðlýst svæði.
     b.      Orðin „og 54. og 55. gr.“ í 1. tölul. 2. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „sbr. 58. gr.“ í 1. tölul. 2. mgr. kemur: sbr. IX. kafla, og önnur svæði vernduð samkvæmt sérlögum.
     d.      Á undan orðinu „B-hluti“ í 2. tölul. 2. mgr. kemur: Framkvæmdaáætlun um friðlýsingar og friðun.
     e.      Á undan orðinu „C-hluti“ í 3. tölul. 2. mgr. kemur: Aðrar mikilvægar náttúruminjar.
     f.      Á eftir orðunum „skal birta í“ í 3. mgr. kemur: viðauka við.
     g.      Í stað „57. gr.“ í 3. mgr. kemur: 61. gr.

16. gr.

    2. mgr. 34. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „X. kafla“ í 1. mgr. kemur: IX. kafla.
     b.      Í stað orðanna „fimm ára“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: eins árs.
     c.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Forðast ber að raska svæðum eða náttúrumyndunum sem skráðar hafa verið á C-hluta náttúruminjaskrár nema nauðsyn beri til og annarra kosta hafi verið leitað.
     d.      Í stað „57. gr.“ í 4. málsl. 3. mgr. kemur: 61. gr.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Orðin „og 54. og 55. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Við friðlýsingu heildstæðra vatnakerfa er þó áskilið að viðkomandi svæði hafi ekki verið flokkað í nýtingarflokk eða biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar.
     c.      Í stað „54. gr.“ í 2. mgr. kemur: 53. gr.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stofnunin skal í kjölfarið vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir hvort náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.
     b.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Umhverfisstofnun er heimilt að semja við landeiganda, rétthafa lands eða lögaðila um að hann taki þátt í umönnun friðlýsts svæðis með því að annast þar tilteknar aðgerðir gegn þóknun.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
     a.      Á undan orðunum „afmörkun þess“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: hnitsetta.
     b.      Í stað orðanna „notkun veiðiréttar og framkvæmdum“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og notkun veiðiréttar.
     c.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.

21. gr.

    Á eftir 40. gr. laganna kemur ný grein, 40. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Hætta á röskun friðlýstra náttúruminja.


    Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til framkvæmda og vegna starfsemi þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum. Um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði gilda lög um Vatnajökulsþjóðgarð og um framkvæmdir í Þingvallaþjóðgarði gilda lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum.
    Leiti framkvæmandi ekki leyfis er Umhverfisstofnun heimilt að krefjast þess með skriflegri áskorun að framkvæmdir verði ekki hafnar eða þær stöðvaðar. Verði ekki orðið við áskorun stofnunarinnar er henni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni, sbr. 87. gr.

22. gr.

    1. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
    Hindri friðlýsing eða ákvörðun skv. 2. mgr. 37. gr. fyrirhugaða nýtingu landeiganda eða rétthafa lands á landinu eða geri hana til mun erfiðari, umfram það sem teljast má til almennra takmarkana eignarréttar, skal landeigandi eða rétthafi lands eiga rétt á bótum fyrir fjárhagslegt tjón sem hann verður fyrir.

23. gr.

    4. mgr. 45. gr. laganna fellur brott.

24. gr.

    3. mgr. 46. gr. laganna fellur brott.

25. gr.

    Á eftir 50. gr. laganna kemur ný grein, 50. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.


    Friðlýsa má landsvæði til verndar vistkerfum og búsvæðum ásamt þeim menningarlegu gildum sem tengjast þeim og hefðbundnum nytjum náttúruauðlinda. Viðmið um friðlýsingu slíkra svæða skal vera að þau séu stór, að mestu leyti náttúruleg en hluti þeirra nýttur á sjálfbæran hátt.
    Markmið með verndun svæða samkvæmt grein þessari er hófsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda sem ekki er iðnvædd og samrýmist náttúruvernd.

26. gr.

    3. mgr. 52. gr. laganna fellur brott.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á IX. kafla laganna:
     a.      54. gr. færist í VIII. kafla laganna og verður 53. gr. og breytist greinatala þess kafla samkvæmt því.
     b.      55. gr. fellur brott ásamt fyrirsögn.
     c.      56. gr. færist í X. kafla og verður 62. gr.
     d.      Fyrirsögn kaflans verður: Friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á X. kafla laganna:
     a.      Í stað orðanna „10.000 m 2“ í a-lið 1. mgr. 57. gr., sem verður 61. gr., kemur: 20.000 m 2.
     b.      B-liður 1. mgr. 57. gr. orðast svo: sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar og leifar þeirra þar sem eru m.a. gömul tré.
     c.      B-liður 2. mgr. 57. gr. orðast svo: fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, þar á meðal hrúðri og hrúðurbreiðum.
     d.      C-liður 2. mgr. 57. gr. fellur brott.
     e.      1. málsl. 3. mgr. 57. gr. orðast svo: Forðast ber að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. eins og kostur er.
     f.      Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 3. málsl. 3. mgr. 57. gr. kemur: Umhverfisstofnunar.
     g.      4. málsl. 3. mgr. 57. gr. fellur brott.
     h.      Í stað orðsins „niðurstöðu“ í 5. mgr. 57. gr. kemur: umsagnir.
     i.      Orðin „Náttúrufræðistofnun Íslands og“ í 6. mgr. 57. gr. falla brott.
     j.      2. málsl. 7. mgr. 57. gr. orðast svo: Stofnanirnar skulu birta skrárnar, auk þess sem þær eru birtar sem viðauki við náttúruminjaskrá.
     k.      58.–62. gr. færast í IX. kafla og verða 56.–60. gr.
     l.      Á eftir orðunum „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 2. málsl. 2. mgr. 59. gr., sem verður 57. gr., kemur: Umhverfisstofnunar.
     m.      Orðin „Náttúrufræðistofnun Íslands og“ í 4. mgr. 59. gr. falla brott.
     n.      Á eftir orðunum „einstaka landeigendur eða rétthafa“ í 1. málsl. 2. mgr. 61. gr., sem verður 59. gr., kemur: lands eða sveitarfélög.
     o.      Fyrirsögn kaflans verður: Sérstök vernd tiltekinna vistkerfa, jarðminja o.fl.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á XI. kafla laganna:
     a.      1. og 2. mgr. 63. gr. orðast svo:
                  Óheimilt er að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Þetta gildir þó ekki um búfé eða framandi plöntutegundir sem hafa verið notaðar til garðyrkju, túnræktar, jarðræktar, landgræðslu og skógræktar nema innflutningur sé bannaður samkvæmt reglugerð, sbr. 5. mgr.
                  Með umsókn um leyfi skv. 1. mgr. skal fylgja áhættumat sem umsækjandi hefur aflað og skal þar m.a. koma fram mat á hættu á því hvort viðkomandi lífverur séu ágengar og þeim áhrifum sem það kann að hafa á líffræðilega fjölbreytni. Ef lífverurnar eru fluttar til landsins í því augnamiði að dreifa þeim skal umsóknin taka bæði til innflutningsins og dreifingarinnar og skal þá einnig fylgja greinargerð um þau áhrif sem gera má ráð fyrir að dreifingin hafi á lífríkið.
     b.      Á eftir orðinu „innflutningurinn“ tvívegis í 3. mgr. 63. gr. kemur: eða dreifingin.
     c.      Á eftir orðinu „innflutning“ tvívegis í 5. mgr. 63. gr., kemur: og dreifingu.
     d.      64. gr. fellur brott ásamt fyrirsögn.
     e.      Orðin „og 64.“ í 1. og 2. mgr. 66. gr. falla brott.
     f.      Fyrirsögn kaflans verður: Innflutningur og dreifing lifandi framandi lífvera.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Í stað „57. gr.“ í 2. mgr. kemur: 61. gr.
     b.      Í stað „54. gr.“ í 4. mgr. kemur: 53. gr.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 74. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: eða reglum settum á grundvelli þeirra.
     b.      Á eftir orðunum „Vöktunaráætlun fyrir friðlýst svæði skal“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 2. mgr. 81. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „vöktun“ kemur: uppbyggingu.
     b.      Á eftir orðunum „miðlun upplýsinga“ kemur: verndaraðgerðir.

33. gr.

    Orðin „sem ráðherra staðfestir“ í 3. málsl. 1. mgr. 86. gr. laganna falla brott.

34. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 90. gr. laganna:
     a.      Orðin „5. mgr. 27. gr.“ í b-lið 1. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „nema ökutækið sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn“ í 1. málsl. 6. mgr. falla brott.

35. gr.

    2. mgr. 94. gr. laganna fellur brott.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 95. gr. laganna:
     a.      1. tölul. fellur brott.
     b.      4. tölul. orðast svo: Lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 4. gr. laganna:
                      i.      Orðin „verndargildi vistkerfa og náttúruminja og“ í e-lið falla brott.
                      ii.      Síðari málsliður i-liðar, sbr. 3. gr. laga nr. 169/1998, fellur brott.
                      iii.      Við bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
                            j.     að skrá náttúruminjar, annast mat á verndargildi þeirra og hafa umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár,
                            k.     að bera ábyrgð á vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru að því marki sem hún er ekki falin öðrum stofnunum með lögum eða reglum settum á grundvelli þeirra.
                  b.      Á eftir orðunum „starfssvæði náttúrustofu“ í 5. málsl. 10. gr. laganna kemur: skilgreind verkefni.
     c.      5. tölul. fellur brott.
     d.      Í stað „57. gr.“ í 2. mgr. b-liðar 7. tölul. kemur: 61. gr.
     e.      Í stað „57. gr.“ í 8. tölul. kemur: 61. gr.
     f.      11. tölul. fellur brott.
     g.      Í stað „57. gr.“ tvívegis í 12. tölul. kemur: 61. gr.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
     a.      1. tölul. fellur brott.
     b.      Í stað ártalsins „2015“ í 1. málsl. 2. tölul. kemur: 2017.
     c.      3. málsl. 2. tölul. orðast svo: Þar til ráðherra gefur út náttúruminjaskrá skv. 33. gr. skal gildandi náttúruminjaskrá halda gildi sínu en um minjar á skránni, aðrar en þær sem eru friðlýstar, skal fara samkvæmt ákvæðum 67. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, þar til endurmati verndargildis þeirra minja hefur verið lokið í samræmi við 3. tölul.
     d.      Við 2. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi náðst samkomulag um friðlýsingu eða friðun náttúruminja skv. 58. gr. laga nr. 44/1999 er ráðherra heimilt að ljúka þeim þó svo að ekki hafi verið gefinn þriggja mánaða frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu skv. 2. mgr. 39. gr. laga þessara.
     e.      Í stað ártalsins „2020“ í 3. tölul. kemur: 2021.
     f.      5. tölul. orðast svo: Ráðherra skal taka til endurskoðunar XI. kafla laga þessara, í samstarfi við þann ráðherra er fer með málefni sem varða inn- og útflutning dýra og plantna og erfðaefni þeirra, og leggja fram frumvarp til laga um nýjan XI. kafla á vorþingi 2016. Endurskoðun kaflans skal lúta að því að sameina réttarheimildir um innflutning og dreifingu lífvera hjá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun, sem fer m.a. með eftirlit á grundvelli laga nr. 54/1999, um innflutning dýra, laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, laga nr. 51/1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, og laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

38. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, voru samþykkt á Alþingi 28. mars 2013 og áttu að taka gildi 1. apríl 2014. Á haustþingi 2013 lagði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra fram frumvarp til laga um brottfall laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem gert var ráð fyrir að lögin yrðu endurskoðuð frá grunni. Eftir fyrstu umræðu frumvarpsins var því vísað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Nefndin skilaði nefndaráliti 19. febrúar 2014 þar sem hún, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði til að í stað þess að fella lagabálkinn úr gildi yrði gildistöku hans frestað til 1. júlí 2015 og umhverfis- og auðlindaráðherra falið að fara yfir lögin og gera nauðsynlegar breytingar. Í nefndarálitinu kemur m.a. fram að „þótt einstakir þættir laga nr. 60/2013 séu umdeildir [telji] allmargir að ávinningur felist í þeirri vinnu sem lögð hefur verið í heildarendurskoðun laganna“. Í niðurstöðukafla álitsins kemur eftirfarandi jafnframt fram: „Nefndin hefur komist að samkomulagi um að leggja áherslu á endurskoðun tiltekinna ákvæða laganna og tryggja um leið innbyrðis samræmi milli ákvæða. Í þeim efnum skal byggt á fyrirliggjandi vinnu, þeirri heildarhugmyndafræði sem liggur lögunum til grundvallar og á þeim sjónarmiðum að reynt sé að ná aukinni sátt um lokaniðurstöðu.“
    Í fyrrnefndu nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar vísaði nefndin til þess að þeir þættir laganna sem hefðu verið sérstaklega umdeildir vörðuðu ákvæði um varúðarregluna, kaflann um almannarétt, kaflann um utanvegaakstur og kortagrunn, ákvæði um sérstaka vernd og kaflann um framandi lífverur. Við endurskoðun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á lögum nr. 60/2013 var því lögð áhersla á þau atriði sem sérstaklega eru tilgreind í nefndarálitinu auk þess sem önnur atriði voru skoðuð, til að mynda verkaskipting stofnana, ferli friðlýsinga o.fl.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 60/2013 kemur fram að ný viðhorf í umhverfismálum kalli á lagabreytingar og að ítrekað hafi verið bent á nauðsyn þess að endurskoða gildandi náttúruverndarlög, nr. 44/1999.
    Lög nr. 60/2013 byggjast á nýrri nálgun í náttúruvernd, svokallaðri vistkerfisnálgun. Sú nálgun er aðferð til að ná fram samþættri stjórn á nýtingu náttúruauðlinda og hún miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu með sanngirni að leiðarljósi. Með lögunum er jafnframt leitast við að uppfylla ýmsar þær skyldur sem Ísland hefur gengist undir með aðild að alþjóðasamningum á sviði umhverfis- og náttúruverndar auk þess sem lögfestar eru meginreglur umhverfisréttarins, en hluti þeirra var settur fram í Ríó-yfirlýsingunni árið 1992.
    Eins og fram hefur komið voru lög nr. 60/2013 samþykkt á Alþingi 28. mars 2013. Við vinnslu málsins á Alþingi komu fram umfangsmiklar athugasemdir frá ólíkum hópum samfélagsins um ýmis atriði frumvarpsins. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frum-varpi miða að því að skýra betur framkvæmd laganna og skapa betri samstöðu um málið á sama tíma og unnið er áfram með þann ramma sem ný lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, skapa. Ef ekki verða gerðar breytingar á lögunum til að eyða þeirri óvissu sem ríkir um einstök atriði þeirra er hætta á að gildistöku laganna verði ítrekað frestað og þau að lokum felld úr gildi og núgildandi náttúruverndarlög, nr. 44/1999, látin gilda áfram. Þær umbætur sem ný náttúruverndarlög fela í sér yrðu þá að engu og sú vinna sem lögð hefur verið í nauðsynlega endurskoðun náttúruverndarlaga yrði fyrir bí.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu miðast að því að skýra betur framkvæmd ákveðinna greina laganna og að betri samstöðu verði náð um málefni nýrra náttúruverndarlaga, en ljóst er að réttarreglur náttúruverndar þurfa að líta til margra og ólíkra hagsmuna og sjónarmiða. Gildistaka laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, er nauðsynlegt framfaraskref í náttúruvernd á Íslandi.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Eins og áður hefur komið fram er nauðsynlegt að gerðar verði ákveðnar breytingar á lögum nr. 60/2013 til skýra betur framkvæmd ákveðinna ákvæða laganna. Helstu breytingar sem frumvarp þetta hefur að geyma eru eftirfarandi:
     1.      Lagðar eru til breytingar á skilgreiningum nokkurra hugtaka, til skýringar og einföldunar.
     2.      Lögð er til breyting á framsetningu varúðarreglunnar í 9. gr. laganna.
     3.      Skýrt er betur í ákveðnum greinum hvert hlutverk stofnana samkvæmt lögunum er, sérstaklega milli Umhverfisstofnunar, sem er sú stjórnsýslustofnun sem annast stjórn-sýslu laganna og fer m.a. með eftirlit með framkvæmd þeirra, og Náttúrufræðistofnunar Íslands sem er rannsóknastofnun á sviði náttúruverndar og ber m.a. ábyrgð á vöktun í samræmi við ákvæði laganna. Að auki er lagt til að auka möguleika á því að náttúrustofur geti haft hlutverk við framkvæmd laganna með breytingum á lögum um samninga ráðuneytisins við stofurnar á grundvelli ákvæða laga nr. 60/1992.
     4.      Ákvæði almannaréttar í IV. kafla laganna eru skýrð og leitast við að tryggja almannarétt til frjálsrar farar á sama tíma og rétti til að takmarka umferð um landsvæði er breytt á þann hátt að ítarlegri ákvæði eru um heimildir til að takmarka umferð, bæði á grundvelli nýtingar landeigenda og lokunar í verndarskyni þegar veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar. Jafnframt er fallið frá því að færa ákvæði um umferð um vötn úr vatnalögum, nr. 15/1923, yfir í náttúruverndarlög.
     5.      Ný nálgun er í V. kafla um akstur utan vega á þann hátt að gert er ráð fyrir að birting kortagrunns verði í höndum Vegagerðarinnar þannig að samræmi verði tryggt milli vegaskrár stofnunarinnar og þeirrar skrár sem unnin er samkvæmt nýrri 32. gr.
     6.      Dregið er úr réttaráhrifum skráningar minja á náttúruminjaskrá skv. 37. gr., en hins vegar er leitast við að styrkja réttaráhrifin frá því sem er í lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd.
     7.      Ákvæði um friðlýsingu svæða eru einfölduð og uppsetningu og samspili ákvæða VII.–X. kafla laganna er breytt þannig að skýrara verði um hvaða málsmeðferð og réttaráhrif er verið að fjalla í hverjum kafla fyrir sig.
     8.      57. gr. laganna um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja er styrkt frá 37. gr. gr. laga nr. 44/1999 en komið er til móts við athugasemdir og ábendingar um að réttaráhrif þess ákvæðis megi ekki ganga eins langt og boðað var í lögum nr. 60/2013.
     9.      Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði XI. kafla um framandi tegundir verði endurskoðuð með það að markmiði að sameina stjórnsýslu Umhverfisstofnunar samkvæmt þeim kafla við stjórnsýslu Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með innflutningi dýra og ýmiss konar meindýrum.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er eignarrétturinn friðhelgur og engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og fullt verð eignarinnar þarf að koma fyrir. Þrátt fyrir að ákvæðið kveði ekki á um aðrar heimildir til að skerða eignarrétt manna er það viðurkennt í íslenskum rétti að löggjafanum sé heimilt að mæla fyrir um almennar takmarkanir eignarréttarins sem hefur ekki í för með sér bótaskyldu ríkisins. Þau atriði frumvarpsins sem helst snerta eignarrétt manna eru ákvæði þess um friðlýsingu svæða og ákvæði almannaréttar. Hvað varðar friðlýsingu og friðun hefur frumvarpið ekki í för með sér grundvallarbreytingar frá gildandi löggjöf. Hins vegar eru ákvæði einfölduð frá því sem nú er og skýrar kveðið á um bótarétt landeiganda telji hann sig verða fyrir hindrunum við nýtingu á landi sínu. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðum frumvarpsins um almannarétt og heimild landeiganda til að takmarka för um land sitt að öðru leyti en því að tekið er dæmi um hvað geti talist nýting í skilningi laganna auk þess sem lagðar eru til breytingar á samspili skilgreiningar ræktaðs lands og lands sem er skógi vaxið.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa það að markmiði að lög nr. 60/2013 geti tekið gildi í víðtækri sátt á milli ólíkra hagsmunaaðila. Í lögum nr. 60/2013 eru gerðar breytingar á réttarreglum þeim er gilda um náttúruvernd, m.a. til að uppfylla skyldur sem Ísland hefur gengist undir samkvæmt ýmsum alþjóðlegum sáttmálum. Frumvarp þetta hefur því óneitanlega í för með sér sterk tengsl við þá sáttmála, svo sem samninginn um líffræðilega fjölbreytni, Ramsar-samninginn um votlendi sem hefur alþjóðlegt verndargildi, og Bernarsamninginn um villtar plöntur og dýr og búsvæði þeirra í Evrópu. Ítarlegri umfjöllun um tengsl laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands er að finna í frumvarpi því er varð að lögum nr. 60/2013, þingskjal 573 í 429. máli á 141. löggjafarþingi.

V. Samráð.
    Frumvarp þetta er unnið í ítarlegu samráði við stofnanir og aðra hagsmunaaðila. Í kjölfar samkomulags umhverfis- og auðlindaráðherra og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um að fresta gildistöku laganna og láta endurskoða ákveðin atriði þeirra hófst vinna í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu við að yfirfara rækilega og kortleggja þau atriði sem sérstaklega þurftu endurskoðun. Í málinu liggja fyrir ótalmargar umsagnir, bæði hjá ráðuneytinu og Alþingi, frá ýmsum fyrri stigum sem farið var skipulega yfir í ráðuneytinu. Óskaði ráðuneytið jafnframt eftir umsögnum fagstofnana sinna. Þess má að auki geta að ráðuneytið naut ráðgjafar Aðalheiðar Jóhannsdóttur, prófessors í umhverfis- og auðlindarétti við Háskóla Íslands, við útfærslu ákveðinna atriða frumvarpsins.
    Haustið 2014 var boðað til samráðs með hagsmunaaðilum, auk þess sem aðilum var gert kleift að leggja til hvaða atriði sérstaklega yrði horft á. Í kjölfar þess fundar voru haldnir margir minni fundir með ýmsum hagsmunaaðilum þar sem farið var yfir ábendingar og athugasemdir viðkomandi. Á þeim fundum var farið nánar yfir þau atriði sem aðilar gerðu helst athugasemdir við og var þeim gert kleift að koma með tillögur til úrbóta.
    Við vinnslu frumvarpsins átti ráðuneytið nokkra fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem farið var yfir þau atriði í nefndaráliti nefndarinnar sem hún taldi að krefðust meiri skoðunar.
    Drög að frumvarpi því sem hér liggur fyrir voru birt 10. mars 2015 á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytis til almennrar kynningar og var óskað eftir umsögnum um frumvarpið. Jafnframt voru frumvarpsdrögin kynnt sérstaklega á tveimur fundum með hagsmunaaðilum auk þess sem ráðuneytið fundaði með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á meðan á umsagnarfresti stóð. Alls bárust ráðuneytinu yfir 20 umsagnir, m.a. frá stofnunum, sveitarfélögum, félagasamtökum og einstaklingum. Vandlega var farið yfir umsagnirnar og gerðar ýmsar breytingar á frumvarpsdrögunum með hliðsjón af þeim ábendingum sem fram komu. Þær breytingar lutu einkum að skilgreiningu hugtaka, ákvæðum um umferð gangandi manna og takmörkun umferðar, ákvæðum um akstur utan vega og skrá yfir vegi í náttúru Íslands og ákvæði um rétt til bóta auk lagatæknilegra breytinga. Þá var bætt við lagaskilaákvæði vegna friðlýsinga sem búið er að ná samkomulagi um á grundvelli 58. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, en samkvæmt því verður ráðherra heimilt að ljúka þeim málum þó svo að ekki hafi verið gefinn þriggja mánaða frestur til athugasemda eins og lög nr. 60/2013 gera ráð fyrir.

VI. Mat á áhrifum.
    Frumvarp þetta skýrir betur framkvæmd laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, sem taka eiga gildi 15. nóvember 2015. Með gildistöku þeirra laga er skerpt á skyldum almennings til að ganga vel um náttúru landsins, almannarétturinn er styrktur og skýrar er kveðið á um heimildir landeigenda til að takmarka umferð um land sitt.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir skýrari verkaskiptingu þeirra stofnana er hafa með náttúruvernd að gera. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi hafa í för með sér skýrari verkaskiptingu milli Umhverfisstofnunar sem stjórnsýslustofnunar og Náttúrufræðistofnunar sem rannsóknastofnunar er skráir náttúruminjar og sinnir vöktunarhlutverki samkvæmt ákvæðum laganna.
    Í frumvarpinu er skýrar kveðið á um réttaráhrif skráningar minja á náttúruminjaskrá auk réttaráhrifa sérstakrar verndar tiltekinna vistkerfa og jarðminja skv. 57. gr. laganna, sem verður 61. gr. Vernd samkvæmt ákvæðum 37. og 61. gr. (áður 57. gr.) er styrkt þannig að auknar kröfur eru gerðar til málsmeðferðar sveitarstjórna þegar þær hafa til afgreiðslu umsóknir um leyfi til framkvæmda á þeim svæðum sem ákvæðin ná til.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. eru lagðar til breytingar skilgreiningum nokkurra hugtaka í lögunum. Í a-lið greinarinnar er lagt til að skilgreining á framandi lífverum verði ekki háð því að þær hafi flust út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði eftir miðja 18. öld heldur verði útgangspunkturinn ávallt sá að maðurinn hafi flutt þær út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði vísvitandi eða óvitandi. Ártalið hefur í för með sér að tegundir sem komu fyrir miðja 18. öld munu ekki flokkast sem framandi þrátt fyrir að hafa komið sannanlega til landsins fyrir tilstuðlan manna.
    Í b-lið er breyting á tilvísun í ákvæði laganna í kjölfarið á öðrum breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og eru lagatæknilegs eðlis.
    Í c-lið eru lagðar til breytingar á hugtakinu óbyggt víðerni á þá vegu að bætt er við hugtakið þeim huglæga þætti skilgreiningarinnar sem er að finna í skilgreiningu hugtaksins ósnortið víðerni í lögum nr. 44/1999. Ef eingöngu er miðað við stærðarafmörkun hugtaksins er ljóst að fá óbyggð víðerni væri að finna á Íslandi í dag. Þar sem upplifun víðerna er mikilvægur hluti af hugtakinu er lagt til að það komi fram í skilgreiningu þess. Breytingin er jafnframt í samræmi við 2. mgr. 46. gr. laganna þar sem fjallað er um heimildir til að friðlýsa óbyggð víðerni.
    Í d-lið er lagt til að hugtakið ræktað land sé skýrt og þá sérstaklega með það í huga að kveða á um að ræktaður skógur teljist ræktað land þó svo að tré hafi náð þeim þroska að venjuleg umferð sakar ekki. Með þessari breytingu er almannaréttarákvæði laganna jafnframt einfaldað þar sem lagt er til að sérstakt ákvæði um skógræktarsvæði falli brott. Í því skyni er breyting einnig gerð á 18. gr. laganna um umferð gangandi manna á þá vegu að þrátt fyrir að skógræktarsvæði teljist ræktað land er för um svæðið og dvöl þar ekki háð samþykki eiganda þess eða rétthafa eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.
    Í e-lið eru lagðar til breytingar á skilgreiningu hugtaksins vegur. Hugtakinu vegslóðar er í lagaákvæðinu fléttað inn í skilgreininguna og getur það valdið ruglingi í notkun þess. Til skýringar er lagt til að orðið falli á brott hvar sem það er notað í lögunum og í stað þess sé orðið vegur notað þar sem ekki er þörf á að nota bæði hugtökin. Að auki eru lagðar til breytingar á hugtakinu í samræmi við breytingar á ákvæðum V. kafla laganna um akstur utan vega og skrá yfir vegi í náttúru Íslands.
    Í f-lið er lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins þéttbýli. Breytingin miðar að því að skilgreining hugtaksins sé sú sama og hún er í skipulagslögum.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á framsetningu varúðarreglunnar í 9. gr. laganna með það að markmiði að skýra nánar hvenær hún eigi við og til að koma í veg fyrir réttaróvissu. Óvissa, yfirleitt vísindaleg óvissa, og skortur á upplýsingum um hvort ákveðnar athafnir eða athafnaleysi muni hafa óæskileg áhrif á náttúruna, eru rökin að baki varúðarreglunni. Til þess að hægt sé að innleiða regluna í náttúruverndarlög er hins vegar nauðsynlegt að fyrir liggi hvernig beita eigi henni. Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir hvaða kröfur um gæði ber að gera til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Í öðru lagi þarf að meta það hvaða viðbótarupplýsinga þarf að afla og tilgreina að framkvæmdaraðili (umsækjandi) sé sá aðili sem á að afla upplýsinganna og greiða fyrir þær. Er það í samræmi við fyrirkomulag sem er að finna í lögum um mat á umhverfisáhrifum, eins og áður hefur komið fram. Í þriðja lagi er skylda lögð á framkvæmdaraðila að viðhafa sérstaka matsferla til þess að meta með nægilegri vissu hvaða áhrif stjórnvaldsákvörðun skv. 1. mgr. hefur á náttúruna og í fjórða lagi þurfa að vera til staðar viðmið um hvernig og í hvaða tilvikum stjórnvald skuli meta saman efnahagslegan ávinning og hættu á umtalsverðum neikvæðum afleiðingum þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir skv. 1. mgr.
    Öll þessi atriði hafa í för með sér að raunverulegt mat þarf að fara fram á kostum ákveðinnar framkvæmdar eða stjórnvaldsákvörðunar skv. 1. mgr. ákvæðisins í ljósi þeirrar hættu á umtalsverðum neikvæðum afleiðingum sem framkvæmdin eða stjórnvaldsákvörðunin hefur hugsanlega í för með sér. Í tillögunum er lagt til að varúðarreglan eigi við þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli laganna. Stjórnvaldsákvarðanir geta til að mynda verið ákvarðanir stjórnvalds um að veita tiltekin leyfi eða samþykkja undanþágur frá ákvæðum laganna í þeim tilvikum sem gert er ráð fyrir möguleika á þeim. Í 31. gr. laganna um bann við akstri utan vega er kveðið á um að ráðherra geti veitt undanþágur frá slíku banni vegna sérstakra aðstæðna. Í breyttri 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að Umhverfisstofnun geti veitt leyfi til aksturs utan vega vegna starfa við viðhald skála og neyðar-skýla og vegna kvikmyndagerðar. Með lögfestingu varúðarreglunnar er gert ráð fyrir að stjórnvöld hafi varúðarregluna að leiðarljósi við afgreiðslu slíkra undanþágubeiðna. Að auki má nefna 41. gr. um undanþágu frá ákvæðum friðlýsinga, 3. mgr. 57. gr. (sem verður 61. gr.) sem kveður á um að skylt sé að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atkvæðum bygg-ingarleyfis, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér röskun á náttúruminjum sem njóta sérstakrar verndar, 60. gr. (sem verður 58. gr.) um undanþágu frá ákvæðum auglýsingar um friðun og 63. gr. um leyfi til innflutnings og dreifingar lifandi framandi lífvera auk annarra stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli laganna. Verði stjórnvald fyrir kostnaði vegna beitingar reglunnar er eðlilegt að framkvæmdaraðili (umsækjandi) beri þann kostnað. Slíkt fyrirkomulag er m.a. að finna í lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdaraðili beri kostnað af málsmeðferð sveitarfélaga vegna ákvörðunar um matsskyldu fyrirhugaðrar framkvæmdar.
    Í b-lið ákvæðisins er lagt til að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um þær kröfur sem ber að gera til gæða upplýsinga þegar stjórnvaldsákvarðanir skv. 1. mgr. ákvæðisins eru teknar sem varða vísindalega vissu eða óvissu, um ábyrgð framkvæmdaraðila (umsækjanda) á að afla og greiða fyrir upplýsingar, þ.m.t. úttektir og kannanir, skv. a-lið og hvenær þær þurfi að liggja fyrir, um sérstaka matsferla sem framkvæmdaraðila (umsækjanda) ber að beita til þess að meta með nægilegri vissu hvaða áhrif stjórnvaldsákvörðun skv. 1. mgr. hefur á náttúruna og um það hvernig og í hvaða tilvikum stjórnvald skuli meta saman efnahagslegan ávinning og hættu á umtalsverðum neikvæðum afleiðingum þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir skv. 1. mgr., í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra.

Um 3. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 13. gr. laganna er snýr að yfirstjórn ráðherra og hlutverki stofnana samkvæmt lögunum. Í fyrsta lagi er lagt til að í stað orðsins umsýsluáætlanir sé notað stjórnunar- og verndaráætlanir hvar sem það er að finna í lögunum. Stjórnunar- og verndaráætlun nær betur yfir þau atriði sem er að finna í slíkri áætlun, er meira lýsandi og er jafnan notað af umhverfisyfirvöldum í stað orðsins umsýsluáætlana.
    Í b-lið er lagt til að kveðið sé skýrar á um hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands er viðkemur C-hluta náttúruminjaskrár. Breytingin leggur til að hlutverk stofnunarinnar verði að gera tillögur um skráningar í skrána en að það verði gert í samráði við fagráð náttúruminjaskrár sem kveðið er á um í 15. gr. laganna.
    Í c-lið er lagt til að bætt verði við tveimur nýjum málsgreinum. Annars vegar er um að ræða hlutverk náttúrustofa og hins vegar heimild til handa Umhverfisstofnun til að gera samninga við sveitarfélög, landeigendur eða rétthafa lands um verkefni á sviði náttúruverndar á svæðum sem ekki hafa hlotið friðlýsingu, friðun eða vernd samkvæmt ákvæðum laganna en teljast sérstök sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs. Með fyrri málsgreininni verður til skýrari leið fyrir hugsanlega valddreifingu í framkvæmd náttúruverndarmála í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Með síðari málsgreininni verður til sú viðbót við fram-kvæmd laganna að stjórnvöld geti tekið upp samstarf við sveitarfélög, landeigendur og aðra rétthafa lands um málefni náttúruverndar á tilteknu landsvæði þrátt fyrir að viðkomandi svæði sé ekki friðlýst, friðað eða fellt undir sérstaka vernd samkvæmt ákvæðum laganna. Slíkt fyrirkomulag er til samræmis við þá þróun sem verið hefur í framkvæmd náttúru-verndarmála víða um heim. Sem dæmi má nefna ýmis verkefni sem lúta að vernd tegunda eða vistkerfa og verkefni tengd endurheimt, þanþoli eða þjónustu vistkerfa.
    Í d-lið er reglugerðarheimild ráðherra breytt á þann veg að bætt er við heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um heimildir til samningagerða skv. 5. mgr.

Um 4. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 15. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að tilvísun til 2. mgr. 34. gr. laganna í 7. málsl. 2. mgr. falli brott, en það er í samræmi við ákvæði 15. gr. frumvarps þessa.
    Í öðru lagi er í ákvæðinu lagt til að breytingar verði gerðar á hlutverki fagráðs náttúruminjaskrár á þann veg að ráðið verði Náttúrufræðistofnun Íslands og Skógrækt ríkisins til ráðgjafar um skráningu þeirra náttúrufyrirbæra sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum laganna. Í fagráðinu sitja sérfræðingar opinberra stofnana auk fulltrúa Samtaka náttúrustofa sem og náttúru- og umhverfisverndarsamtaka. Verður að teljast eðlilegt að slíkir sérfræðingar séu hafðir með í ráðum við skráningar umræddra náttúrufyrirbæra, enda mikil þekking til staðar sem vert er að nýta.

Um 5. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til lagatæknilegar breytingar vegna breytinga sem gerðar eru á 32. gr. laganna.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 18. gr. laganna er fjallar um umferð gangandi manna. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að mönnum sé heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Þó sé í sérstökum tilvikum heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og stiga för manna og dvöl á afgirtu óræktuðu eignarlandi í byggð ef það er nauðsynlegt vegna nýtingar þess eða verndunar. Er lagt til að bætt verði við ákvæðið orðunum „svo sem vegna beitar eða ræktunar hrossa eða nautgripa“ til að taka af allan vafa um að slík nýting óræktaðs lands veiti eigendum þess eða rétthafa heimild til að takmarka umferð manna um landið. Það sé því skýrt í lögum að heimild til að takmarka umferð um óræktað land sé eingöngu vegna nýtingar eða verndunar.
    Í b-lið 6. gr. er kveðið á um að þrátt fyrir að skógræktarsvæði teljist ræktað land í skilningi laga þessara sé för um svæðið og dvöl þar ekki háð samþykki eiganda þess eða rétthafa eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið. Breytingin er í samræmi við d-lið 1. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á skilgreiningu hugtaksins ræktað land. Eðlilegt þykir að skógræktarsvæði teljist ræktað land þó svo að fyrstu stigum skógræktar sé lokið. Landeigandi getur áfram takmarkað för um slíkt svæði á fyrstu stigum ræktunarinnar þegar hætta er á að förin valdi spjöllum eða skemmdum á ræktuninni. Þegar skógurinn hefur náð þeim þroska að umferð gangandi manna veldur ekki spjöllum á trjáplöntum er eðlilegt að leyfa umferð gangandi manna um slík svæði svo framarlega sem hún veldur ekki land-eiganda eða rétthafa tjóni. Líkur á tjóni eru litlar eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið og auk þess fylgir almannaréttinum skylda til að ganga vel um náttúru landsins, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.

Um 7. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að ráðherra þurfi ekki að setja í reglugerð nánari ákvæði um umferð hjólreiðamanna heldur sé honum það heimilt.

Um 8. gr.


    Í ákvæðinu eru tvenns konar breytingar lagðar til á 20. gr. laganna. Annars vegar er um að ræða orðalagsbreytingu í 1. mgr. á þann veg að í stað orðsins hrossastóð er notað orðið hross. Hrossastóð er einkum notað um ótamin hross í hóp og nær því í raun ekki yfir það þegar ferðamenn fara í hestaferðir með hrossum og mönnum. Með orðalagsbreytingunni er leitast við að ná yfir öll þau tilvik þar sem ákvæðið gæti átt við, þ.e. um rekstur bæði taminna og ótaminna hrossa yfir gróið land.
    Í b-lið er lögð til sambærileg breyting og í 6. gr. frumvarpsins, þ.e. að reglugerðarákvæðinu er breytt á þann veg að ráðherra sé heimilt en ekki skylt að setja reglugerð.

Um 9. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að fallið verði frá áætlun um að færa ákvæði um umferð um vötn úr vatnalögum, nr. 15/1923, í náttúruverndarlög. Í stað þess gildi ákvæði vatnalaga áfram en í 2. málsl. 1. mgr. 115. gr. vatnalaga er kveðið á um að ráðherra náttúruverndarmála geti í reglugerð sett takmarkanir við umferð vélknúinna báta og annarra vélknúinna farartækja um vötn og vatnasvæði. Sú reglugerðarheimild mun því standa áfram þrátt fyrir að ákvæðin verði ekki að finna í náttúruverndarlögum.

Um 10. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á því ákvæði laganna er snýr að heimild til að tjalda. Breytingarnar lúta einkum að því að hugtakið hefðbundin viðlegutjöld er fellt brott og í stað þess er vísað til heimildar til að tjalda tjöldum sem ætluð eru til gistingar. Breytingarnar hafa ekki í för með sér efnislegar breytingar á ákvæðinu heldur er um að ræða breytingar til einföldunar og til að koma í veg fyrir misskilning. Önnur ákvæði laganna gilda áfram þannig að ef aðili hefur hug á að tjalda við alfaraleið þar sem ekki er að finna veg sem heimilt er að aka hefur það í för með sér að hann getur eingöngu tjaldað tjaldi sem hann getur borið á staðinn þar sem annars þyrfti hann að brjóta ákvæði laganna um bann við akstri utan vega. Það er því óþarfi að tilgreina nákvæmlega hvers konar tjöld er heimilt að reisa.

Um 11. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 25. gr. laganna er fjallar um takmörkun umferðar. Breytingarnar snúa að möguleikum á að stýra betur umferð um viðkvæm svæði þar sem mikill ágangur hefur í sér verulega hættu á tjóni. Lagt er til að hlutverk sveitarfélaga verði aukið, þ.e. að þau geti leitað til Umhverfisstofnunar óski þau eftir því að svæði verði lokað eða umferð takmörkuð. Eðlilegt verður að teljast að viðkomandi sveitarfélög geti metið þá ólíku hagsmuni sem geta verið í húfi, þ.e. verndun viðkvæmrar náttúru svæðis annars vegar og samfélagslega hagsmuni af því að hafa aðgengi að svæðinu opið en þó með nauðsynlegum takmörkunum. Að auki er lagt til að landeigendur geti leitað til hvort heldur er viðkomandi sveitarfélags eða Umhverfisstofnunar óski þeir eftir því að umferð um eignarland verði takmörkuð eða svæði lokað samkvæmt ákvæðinu.
    Með mikilli fjölgun ferðamanna hefur álag á náttúru landsins aukist verulega og vinna þarf að stjórnun þess með heildarhagsmuni að leiðarljósi líkt og með aðra auðlindastjórnun, svo sem sauðfjárbeit og fiskveiðar. Slík auðlindastjórnun er ekki viðfangsefni þessara laga en með þeim breytingartillögum sem liggja fyrir í frumvarpi þessu er lagt til að styrkja bæði landeigendur og sveitarfélög í að bregðast við því ef ágangur ferðamanna veldur spjöllum á náttúru landsins.
    Þrátt fyrir breytingartillögur ákvæðisins mun Umhverfisstofnun áfram hafa heimild til að loka svæði í verndarskyni að eigin frumkvæði, þ.e. breytingarnar hafa ekki í för með sér að beiðni sveitarfélags um lokun eða takmörkun umferðar sé grundvallarforsenda slíkrar aðgerðar.

Um 12. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæði 27. gr. laganna, um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs. Lagt er til að sú nákvæma upptalning sem fram kemur í 4. mgr. um hvað megi vera í reglugerð ráðherra um tínslu í atvinnuskyni falli brott og í stað þess verði vísað til þess að slíkar reglur verði að grundvallast á sjálfbærri nýtingu. Í öðru lagi er lagt til að 5. og 6. mgr. ákvæðisins falli brott en talið er óþarfi að kveða á um að ráðherra geti í reglugerð sett ákvæði um notkun tækja og verkfæra til tínslu jarðargróðurs samkvæmt greininni. Ef nauðsynlegt þykir að setja slíkar reglur eru helst líkur á að það sé á friðlýstum svæðum. Reglurnar mundu þar einfaldlega koma fram í friðlýsingarskilmálunum og því óþarfi að slík heimild sé sjálfstæð í náttúruverndarlögum.

Um 13. gr.


    Í 13. gr. eru lagðar til breytingar á 31. gr. laganna er snúa að banni við akstri utan vega. Í fyrsta lagi er lagt til að jörð þurfi að vera bæði frosin og snævi þakin til að heimilt sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega, en til að tryggja verndun gróðurs eða jarðmyndana er ekki fullnægjandi að jörð sé eingöngu frosin. Í öðru lagi er lagt til að mælikvarði á heimild til að leggja vélknúnum ökutækjum utan vega sé bílbreidd ökutækisins út frá vegbrún, en óskýrt er hvað er átt við með að leggja ökutæki þétt við veg eins og segir í lagagreininni. Með breytingunni er leitast við að koma í veg fyrir að heimildin sé matskennd og þurfi sérstaka skoðun í hverju tilviki fyrir sig.
    Í c-lið er lagt til að heimildir til að aka utan vega vegna starfa við landbúnað verði skýrari. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðinu til skýringar á því við hvaða aðstæður almennar heimildir til aksturs utan vega gilda og hvenær þörf er á sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar til slíks aksturs. Er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að heimilt sé, ef nauðsyn krefur, að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við landgræðslu og heftingu landbrots, vegalagnir, línulagnir og lagningu annarra veitukerfa, björgunarstörf, lögreglustörf, sjúkraflutninga, rannsóknir, landmælingar og landbúnað, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt. Í öðru lagi er kveðið á um að vegna starfa við viðhald skála og neyðarskýla og vegna kvikmyndagerðar sé heimilt að aka utan vega ef nauðsyn krefur og með sérstakri heimild Umhverfisstofnunar, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt. Engin efnisleg breyting er í b- og c-liðum önnur en sú að bætt er við heimild til að óska eftir leyfi Umhverfisstofnunar til að aka utan vega þegar unnið við kvikmyndagerð, en sambærilega heimild er að finna í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð. Frá því að lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, voru samþykkt hafa ítrekað komið upp tilvik þar sem kvik-myndatökufólk hefur óskað eftir því að fá að keyra utan vega vegna kvikmyndagerðar. Slíka heimild er ekki að finna í lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, en í ljósi þeirrar þróunar sem verið hefur á undanförnum árum með gífurlegri fjölgun verkefna hér á landi í tengslum við kvikmyndagerð verður að teljast eðlilegt að slík heimild sé til staðar. Ekki er talið forsvaranlegt að veitt sé almenn heimild heldur verði slík heimild bundin við leyfi Umhverfisstofnunar.

Um 14. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til grundvallarbreytingar á 32. gr. laganna er fjallar um korta-grunn um vegi og vegslóða. Lagt er upp með að þessi vinna verði samræmd til framtíðar öðrum samgöngumálum í landinu. Í stað þess að gefinn verði út kortagrunnur sem Landmælingar Íslands hafa umsjón með er lagt til að Vegagerðin skuli halda skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands sem heimilaðir eru vélknúnum ökutækjum til umferðar. Í 2. mgr. 7. gr. vegalaga, nr. 80/2007, er að finna heimild til handa Vegagerðinni til að halda slíka skrá yfir aðra vegi en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð er takmörkuð eða árstíðabundin og skal slík skrá gerð í samráði við Umhverfisstofnun og sveitarfélög. Engar skyldur hvíla hins vegar á ríkissjóði vegna vega samkvæmt þessari málsgrein. Ákvæði frumvarpsins gerir ráð fyrir að sveitarfélög geri tillögu að slíkri skrá innan sinna marka við gerð aðalskipulags og að hún hljóti samþykkt samhliða afgreiðslu þess, sbr. 32. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Kveðið er á um að skráin sé háð samþykki Umhverfisstofnunar eða annarra stjórnvalda þjóðgarða þegar við á þegar um ræðir landsvæði sem liggja innan friðlýstra svæða og þjóðgarða. Skipulagsstofnun fær það hlutverk að sjá til þess að Vegagerðinni berist upplýsingar um vegaskrá í viðkomandi sveitarfélagi til skráningar og birtingar þegar aðalskipulag hefur verið staðfest. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um samráð sem sveitarfélögin skulu viðhafa við ákveðna aðila við gerð skrárinnar. Með þessum breytingum er gert ráð fyrir að skráin verði birt á sama stað og skrá yfir aðra vegi, sem Vegagerðin hefur umsjón með, er birt. Þannig verði til ein skrá yfir alla vegi landsins, hvort sem um er að ræða vegi Vegagerðarinnar eða aðra vegi í náttúru Íslands sem heimilt er að aka en ekki er veghald á. Skráin muni síðan uppfærast eftir því sem við á eins og skrá yfir vegi Vegagerðarinnar gerir.
    Í 5. mgr. er lagt til að ráðherra kveði í reglugerð nánar á um gerð og birtingu skrár yfir vegi í náttúru Íslands samkvæmt ákvæðinu Nauðsynlegt er til að mynda að kveða skýrt á um hvernig vegir í skránni skulu flokkaðir, t.d. hvort um sé að ræða vegi sem eru opnir fyrir almenna umferð, með takmörkunum eftir því sem við á, og jafnframt vegi sem ætlaðir eru til takmarkaðra nota en ekki almennrar umferðar. Birta skal í B-deild Stjórnartíðinda auglýsingu um vegaskrá og breytingar á henni.

Um 15. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 33. gr. laganna til að lýsa betur hvað hver hluti náttúruminjaskrár fjallar um. Lagt er til að A-hluti beri heitið Friðlýst svæði, og innihaldi ekki eingöngu skrá yfir friðlýst svæði flokkuð eftir ákvæðum náttúruverndarlaga heldur einnig svæði sem eru vernduð samkvæmt sérlögum. B-hluti beri heitið Framkvæmdaáætlun um friðlýsingar og friðun og C-hluti beri heitið Aðrar mikilvægar náttúruminjar. Ætti með breytingunum að vera skýrara um hvaða atriði er verið að fjalla þegar vísað er til einstakra hluta náttúruminjaskrár.
Aðrar breytingar á ákvæðinu eru til að laga tilvísanir innan laganna í kjölfar þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Um 16. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að 2. mgr. 34. gr. laganna falli brott. Málsgreinin er óþörf þar sem hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands er varðar C-hluta náttúruminjaskrár kemur skýrt fram í 13. gr. laganna sem fjallar um yfirstjórn ráðherra og hlutverk stofnana. Er því um tvítekningu að ræða og því lagt til að málsgreinin falli brott.

Um 17. gr.


    Í 17. gr. eru lagðar til breytingar á 37. gr. laganna sem kveður á um réttaráhrif skráningar minja á náttúruminjaskrá. Í b-lið er lagt til að í stað þess að tímabundið bann skv. 2. mgr. 37. gr. geti gilt í allt að fimm ár með sérstakri ákvörðun ráðherra geti það gilt í allt að eitt ár. Málsgreinin kveður á um að ráðherra sé heimilt að kveða á um tímabundið bann við framkvæmdum eða nýtingu sem skaðað getur verndargildi náttúruminja sem teknar eru á B-hluta náttúruminjaskrár. Í ljósi þess að eingöngu er um að ræða heimild sem tekur til náttúruminja sem Alþingi hefur samþykkt að verði sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, og að áætlunin er bindandi við gerð skipulagsáætlana, verður að teljast eðlilegt að ráðherra geti gripið til slíkrar ráðstöfunar í ljósi vilja Alþingis um friðlýsingu minjanna.
    Í c-lið eru lagðar til breytingar er snúa að réttaráhrifum skráningar á C-hluta náttúruminjaskrár. Lagt er til að orðalaginu verði breytt þannig að þar verði kveðið á um að forðast beri að raska svæðum eða náttúrumyndunum sem skráðar hafa verið á C-hlutann nema nauðsyn beri til og annarra kosta hafi verið leitað. Breytingin miðar að því að draga úr réttaráhrifum skráningar á C-hluta náttúruminjaskrár, en bent hefur verið á að sé þörf á frekari verndun svæðisins er tækifæri til þess að friðlýsa það í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í lögunum. Þrátt fyrir að verið sé að draga úr réttaráhrifunum er um að ræða sterkari réttaráhrif frá því sem er í lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Um 18. gr.


    Í 18. gr. eru lagðar til breytingar á 38. gr. laganna. Í b-lið 27. gr. frumvarpsins er lagt til að felldur sé úr lögunum friðlýsingarflokkur heilla vatnakerfa. Heimild ráðherra er þó áfram til staðar í 38. gr. laganna. Í samræmi við það eru í a- og c-lið gerðar breytingar á lagatilvísunum. Í b-lið ákvæðisins er bætt við nýjum málslið sem tekur af allan vafa um að þegar heilt vatnakerfi er friðlýst sé þó áskilið að viðkomandi svæði hafi ekki verið flokkað í nýtingarflokk eða biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, en það ákvæði var áður að finna í 55. gr. laganna sem lagt er til að verði felld brott.

Um 19. gr.


    Í 19. gr. er lagt til að við 2. mgr. 39. gr. bætist nýr málsliður sem kveði á um að Umhverfisstofnun skuli vísa málum formlega til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir hvort náðst hafi samkomulag um friðlýsingu við hlutaðeigandi aðila. Samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga er það Umhverfisstofnun sem hefur það hlutverk að vinna að undirbúningi friðlýsinga, m.a. að gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Stofnunin á að auki að kynna fyrir landeigendum og öðrum rétthöfum lands rétt til bóta skv. 42. gr. laganna. Hins vegar er skortur á því að skýrt sé kveðið á um hvenær það er sem stofnunin vísar málinu formlega til ráðherra, en það er ráðherra sem tekur lokaákvörðun um friðlýsingu samkvæmt ákvæðum laganna. Með breytingartillögunni er lagt til að þessi málsmeðferð verði skýrari.
    Í b-lið er lagt til að orðalagi verði breytt þannig að ljóst sé að Umhverfisstofnun sé einnig heimilt að semja við lögaðila um að hann taki þátt í umönnun friðlýsts svæðis. Slíkt fyrirkomulag þekkist í dag og hefur gengið vel og því nauðsynlegt að slíka heimild sé að finna í nýjum náttúruverndarlögum.

Um 20. gr.


    Í a-lið greinarinnar er lagt til að skýrt sé kveðið á um að í auglýsingu um friðlýsingu svæðis skuli fylgja kort sem sýnir hnitsetta afmörkun þess.
    Í b-lið er lögð til breyting á 2. mgr. 40. gr. er snýr að framkvæmdum á friðlýstum svæðum. Í ákvæðinu eins og það er óbreytt er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að ákveða að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis, og um heimild stofnunarinnar til að setja skilyrði fyrir slíkum leyfum ef það er nauðsynlegt til að tryggja að markmið verndarinnar náist. Skv. 38. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, eru framkvæmdir á friðlýstu svæði ávallt háðar leyfi. Það fyrirkomulag kveður því á um skýra skyldu til að sækja um leyfi og skýra heimild fyrir stjórnvald sem stýrir friðlýstu svæði að geta leyft eða hafnað framkvæmdum eftir því sem samræmist markmiðum friðlýsingar. Með breytingu á 2. mgr. 40. gr. laganna og nýrri grein sem lögð er til í 21. gr. frumvarpsins er lagt til að áfram verði kveðið á um að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til framkvæmda og vegna starfsemi þar sem hætta er á að spilla verði friðlýstum náttúruminjum.

Um 21. gr.


    21. gr. frumvarpsins er nátengd breytingum sem lagðar eru til í 20. gr. Bætt er við lögin ákvæði er kveður á um að framkvæmdir og starfsemi á friðlýstum svæðum sé ávallt háð leyfi Umhverfisstofnunar. Í auglýsingum um friðlýst svæði er ýmist tekið fram að framkvæmdir séu háðar leyfi eða ekki, en almennt hefur verið litið svo á að regla 38. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, gildi um öll svæði. Verði ekki skýrt kveðið á um að framkvæmdir og starfsemi innan friðlýstra svæða sé leyfisskyld er hætta á að óvissa skapist um heimildir Umhverfisstofnunar til að krefjast þess að sótt sé um slíkt leyfi, jafnvel þó að kveðið sé á um í auglýsingu um friðlýsingu viðkomandi svæðis að leyfi stofnunarinnar sé nauðsynlegt. Með breytingunni er því lagt til að færa til fyrri vegar ákvæði um leyfisskyldu fyrir framkvæmdum og starfsemi innan friðlýstra svæða. Um framkvæmdir og starfsemi annarra náttúruminja er fjallað í öðrum greinum frumvarpsins. Jafnframt er áréttað að um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði gildi lög nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð, og að um framkvæmdir í Þingvallaþjóðgarði gildi lög nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Um 22. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 42. gr. laganna er fjallar um rétt til bóta. Breytingin tekur mið af bótaréttarákvæði 51. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Viðurkennt er í íslenskum rétti að löggjafanum er heimilt að mæla fyrir um almennar takmarkanir eignarréttar sem ekki hafa í för með sér bótaskyldu ríkisins. Með breytingunum er ekki ætlunin að útvíkka bótaskyldu ríkisins heldur eingöngu að kveða skýrar á um að framkvæmdaraðili þurfi ekki að hafa fengið útgefið leyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda til að eiga rétt á bótum fyrir fjárhagslegt tjón, enda ljóst að hann geti orðið fyrir miklu tjóni vegna ákvörðunar um friðlýsingu þótt hann hafi ekki fengið útgefið framkvæmdaleyfi, en ljóst er að ýmiss konar nýting getur kallað á langvarandi og kostnaðarsamar rannsóknir áður en ljóst er hvort nýtingar- eða framkvæmdaleyfi verði gefið út.

Um 23. gr.


    Lagt er til að 4. mgr. 45. gr. falli brott. Þar segir að stofnun náttúruvés á eignarlandi sé háð samþykki landeiganda og náist ekki samkomulag megi beita eignarnámi. Ákvæðið er óþarft í ljósi þeirra skýru málsmeðferðarreglna sem lögin kveða á um varðandi friðlýsingu svæða almennt.

Um 24. gr.


    Lagt er til að 3. mgr. 46. gr. falli brott. Þar segir að landsvæði óbyggðra víðerna skuli vera í ríkiseign nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli ráðherra og landeigenda. Ekki eru sérstakar ástæður fyrir því sem mæla með því að óbyggð víðerni séu eingöngu í ríkiseign. Stór landsvæði á Íslandi eru í einkaeign og verður ekki séð að gildar ástæður séu fyrir því að óbyggð víðerni séu eingöngu í ríkiseign. Þar sem lögin kveða á um skýrar málsmeðferðarreglur er snúa að friðlýsingu svæða er ákvæðið um ríkis-eign óbyggðra víðerna óþarft.

Um 25. gr.


    Í 25. gr. er lagt til að bætt verði við flokki friðlýstra svæða, þ.e. verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Ákvæði laganna um flokka friðlýstra svæða byggjast að mestu á flokkum Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) og til þess að samræmis sé gætt er lagt til að bæta þessum flokki við, en um er að ræða IUCN flokk VI. Með þeirri viðbót endurspegla lögin alla friðlýsingarflokka IUCN.

Um 26. gr.


    Í greininni er lagt til að 3. mgr. 52. gr. falli brott. Í málsgreininni er kveðið á um að landsvæði fólkvanga skuli vera í eigu sveitarfélags nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli sveitarfélags og landeigenda. Ekki er þörf á að takmarka stofnun fólkvanga eingöngu við landsvæði í eigu sveitarfélaga, kjósi sveitarfélög að efna til slíks friðlýsts svæðis. Ef um það næst samkomulag er ekkert því til fyrirstöðu að fólkvangur sé í eigu annars en sveitarfélags.

Um 27. gr.


    Í a-lið er lagt til að ákvæði 54. gr. laganna, um friðlýsingu svæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, færist í VIII. kafla og þannig verði í lögunum einungis einn kafli um flokka friðlýstra svæða. Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á ákvæðinu.
    Í b-lið er lagt til að 55. gr., um friðlýsingu heilla vatnakerfa, verði felld brott. Í ljósi þeirrar skírskotunar sem lögin hafa til flokka IUCN um friðlýst svæði má teljast rökrétt að friðlýsingar heilla vatnakerfa geti verið framkvæmdar hvort sem um væri að ræða friðlönd, þjóðgarða, landslagsverndarsvæði eða verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.
    Í c-lið er lagt til að 56. gr., um vernd bakkagróðurs, færist í X. kafla og verði 62. gr. Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á ákvæðinu.
    Í d-lið er lagt til að fyrirsögn IX. kafla verði Friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda.

Um 28. gr.


    Í 28. gr. eru lagðar til breytingar á X. kafla laganna, einkum 57. gr.
    Í a-lið er lagt til að stærðarmörk votlendis sem nýtur sérstakrar verndar skv. 57. gr., sem verður 61. gr., verði 20.000 m 2 í stað 10.000 m 2. Í lögum nr. 44/1999 er miðað við 30.000 m 2 en í lögum nr. 60/2013 er viðmiðið 10.000 m 2. Með tillögunni er leitast við að styrkja almenna vernd óraskaðs votlendis en ganga ekki eins langt og lög nr. 60/2013 kveða á um.
    Í b-lið er lögð til breyting á orðalagi b-liðar 1. mgr. 57. gr. þannig að ljóst sé að það séu ekki allir birkiskógar sem einkennast af náttúrulegri nýliðun og aldursdreifingu sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðinu heldur sé um að ræða sérstæða og vistfræðilega mikilvæga birkiskóga og leifar þeirra. Birkiskógar eru víða í mikilli útbreiðslu vegna náttúrulegrar nýliðunar, t.d. meðfram þjóðvegum landsins. Verður því að telja heppilegra að þeir skógar sem sannanlega eru sérstæðir og vistfræðilega mikilvægir falli undir ákvæði sérstakrar verndar. Skógrækt ríkisins mun bera ábyrgð á því að meta hvaða birkiskóga um ræðir, eins og fram kemur í 7. mgr. ákvæðisins.
    Í c- og d-lið er lagt til að b- og c-liður 2. mgr. 57. gr. falli saman og að sérstök vernd fossa nái ekki til umhverfis þeirra í allt að 200 metra radíus frá fossbrún. Ekki liggur fyrir nákvæm skilgreining á því hvernig foss skuli afmarkast landfræðilega og er því óheppilegt að binda töluleg viðmið í lög fyrr en fyrir liggur hvar náttúrufyrirbærin er að finna. Skráning fossanna skv. 7. mgr. 58. gr. mun hins vegar styrkja ákvæði sérstakrar verndar frá því sem var í lögum nr. 44/1999.
    Í e-lið er lögð til breyting á 1. málsl. 3. mgr. 57. gr., sem verður 61. gr., á þann veg að forðast ber að raska vistkerfum og jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar eins og kostur er en felld er út skylda um að brýna nauðsyn þurfi að bera til og að sýnt þyki að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi ef raska þarf vistkerfum. Þar sem í ákvæðinu er fjallað um sérstaka vernd náttúrufyrirbæra hvar sem þau er að finna í náttúrunni en ekki skráningu á náttúruminjaskrá sem miðast við ákveðin svæði verður að teljast eðlilegt að munur sé á réttaráhrifum þess að falla undir sérstaka vernd annars vegar og skráningu á C-hluta náttúruminjaskrár hins vegar. Mikilvægt er að haft sé í huga að hafi náttúrufyrirbæri sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðinu ákveðna sérstöðu er eðlilegt að slíkt fyrirbæri sé sett á náttúruminjaskrá.
    Í f- og g-lið er lagt til að það sé hlutverk Umhverfisstofnunar að veita umsögn um fyrirhugaðar framkvæmdir, enda sú stofnun sem fer með eftirlit laganna.
    Í h-lið er lögð til orðalagsbreyting á þann veg að í stað þess að vísað sé til niðurstöðu umsagnaraðila þá sé vísað til umsagna þeirra. Í slíkum umsögnum er oft ekki að finna ákveðna niðurstöðu og því er það sett í hendur leyfisveitenda að túlka umsögnina og finna niðurstöðuna. Með breytingunni er lagt til að ekki þurfi að liggja fyrir ákveðin niðurstaða, heldur einungis umsögn umsagnaraðila sem getur falið í sér tillögur.
    Í j-lið er kveðið á um að skrár yfir náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar skv. 57. gr. skuli birta í viðauka við náttúruminjaskrá þannig að aðgengi þeirra verði almennt. Slík skráning felur í sér verulegar umbætur frá gildandi lögum nr. 44/1999.
    Í ákvæðinu er að auki lögð til breyting á uppsetningu X. kafla á þá leið að 58.-62. gr. færast í IX. kafla sem mun bera fyrirsögnina Friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda. X. kafli mun hins vegar innihalda tvær greinar, um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja og vernd bakkagróðurs. Með þessum breytingum er uppsetning kaflanna skýrari þannig að ákvæði laganna er fjalla um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda, sem framkvæmd er með sérstakri auglýsingu, eru óháð ákvæðum um sérstaka vernd náttúrufyrirbæra sem njóta þeirrar verndar óháð því hvar þau er að finna í náttúru Íslands og án þess að kveðið sé sérstaklega á um vernd þeirra með sérstakri auglýsingu. Aðrar breytingar á ákvæðum X. kafla lúta einkum að því að leyfisveitandi þurfi eingöngu að senda einni stofnun afrit af útgefnu leyfi og verður að telja eðlilegt að það sé Umhverfisstofnun sem haldi utan um þau. Sé þörf á að aðrar stofnanir fái slík afrit er eðlilegt, í anda skilvirkari stjórnsýslu, að viðkomandi stofnun annist miðlun slíkra upplýsinga.

Um 29. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á XI. kafla laganna er fjallar um innflutning og dreifingu lifandi framandi lífvera. Er lagt til að 63. og 64. gr. falli saman og fjalli um bæði innflutning og dreifingu lifandi framandi lífvera. Þannig er gert ráð fyrir að í umsókn um innflutning verði sameiginlega gerð grein fyrir ástæðu innflutnings og áformum um dreifingu. Leyfi til innflutnings muni því jafnframt ná til skilyrða um dreifingu viðkomandi lifandi lífveru innan landsins. Efnislegar breytingar á ákvæðum kaflans lúta einkum að því að lagt er til að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum. Leyfi er hins vegar óþarft ef um er að ræða búfé eða framandi plöntutegundir sem hafa verið notaðar til garðyrkju, túnræktar, jarðræktar, landgræðslu og skógræktar nema innflutningur sé bannaður samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Jafnframt er lagt til að almenn undanþága fyrir alla garðyrkju sé felld brott enda geti hún ekki talist skynsamleg í ljósi þeirra hagsmuna sem fjallað er um í kaflanum. Ef ætlunin er að flytja inn lifandi framandi lífveru sem ekki hefur áður verið flutt inn til landsins þarf leyfi Umhverfisstofnunar.
    Í a-lið er jafnframt kveðið á um að með umsókn um leyfi til innflutnings og dreifingar þurfi að fylgja áhættumat þar sem fram kemur m.a. mat á hættu á því hvort viðkomandi lífverur séu ágengar og þeim áhrifum er það kann að hafa á líffræðilega fjölbreytni. Ef lífverurnar eru fluttar til landsins í því augnamiði að dreifa þeim á umsóknin að taka bæði til innflutnings og dreifingar og þá skal einnig fylgja greinargerð um þau áhrif sem gera má ráð fyrir að dreifingin hafi á lífríkið.
    Aðrar breytingar á ákvæðum XI. kafla eru lagatæknilegar.

Um 30. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á tilvísunum í önnur ákvæði laganna í samræmi við þær breytingar á uppbyggingu laganna sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Um 31. gr.


    Í 31. gr. eru lagðar til breytingar á 74. gr. laganna. Í a-lið er lögð til viðbót við 1. mgr. á þá vegu að einnig þurfi að horfa til reglna settra á grundvelli laga þegar metið er hver það er sem ber ábyrgð á vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru.
    Í b-lið er lagt til að vöktunaráætlanir fyrir friðlýst svæði skuli vera unnar í samráði við Umhverfisstofnun. Nauðsynlegt er að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi samráð við Umhverfisstofnun þegar um er að ræða friðlýst svæði, en síðarnefnda stofnunin hefur eftirlit og umsjón með þeim svæðum. Niðurstöður vöktunar eru að auki lykilatriði í stjórnunaraðgerðum friðlýstra svæða og gefa vísbendingar um það hvar þurfi að bregðast við með auknum verndarráðstöfunum.

Um 32. gr.


    Í 32. gr. er lagt til að stjórnunar- og verndaráætlun friðlýstra svæði skuli einnig fjalla um þá uppbyggingu sem talin er þörf á innan viðkomandi svæðis, ekki síst vegna nýtingar ferðaþjónustu, svo og verndaraðgerðir. Með auknum fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim hefur skapast gífurleg þörf á uppbyggingu innviða í náttúrunni, til verndar henni og þeim menningarminjum sem þar er að finna. Eðlilegt er að í stjórnunar- og verndaráætlun friðlýstra svæða, sem er það tæki sem Umhverfisstofnun mun nota til að stuðla að verndun svæðis, sé kveðið á um uppbyggingu sem nauðsynlegt er að ráðast í til að verndargildi svæðis sé ekki í hættu. Að sama skapi er eðlilegt að stjórnunar- og verndaráætlun feli í sér hvaða verndaraðgerðir æskilegt er að ráðist verði í til þess að tryggja að verndargildi svæðis haldist.

Um 33. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að orðin „sem ráðherra staðfestir“ í 3. málsl. 1. mgr. 86. gr. falli brott. Ákvæðið veitir Umhverfisstofnun heimild til að stofna og reka gestastofur á náttúruverndarsvæðum eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Stofnunin skal hafa samstarf við náttúrustofur um rekstur gestastofa þegar við á og gera skal sérstakan samning um samstarfið. Óþarfi er að ráðherra þurfi að staðfesta slíkan samning, enda eingöngu um að ræða heimild Umhverfisstofnunar til slíkrar samningagerðar og sérstaklega er vísað til fjárlaga hverju sinni til að tryggja að innstæða sé fyrir slíkum samningum.

Um 34. gr.


    Í greininni er lagt til að felld verði út sú setning ákvæðisins að ekki megi gera upptækt með dómi vélknúið ökutæki sem er eign manns sem ekkert er viðriðinn brot samkvæmt ákvæðinu. Með breytingunni er leitast við að skapa meira jafnræði við meðferð mála er varða brot á banni við akstri utan vega. Vert er að taka fram að áskilið er að alvarleg spjöll verði á náttúru landsins við brot skv. 31. gr. eða að brotið teljist sérlega vítavert að öðru leyti. Það mun því ekki skipta máli hvort ökumaður bílsins er eigandi hans eða ekki, heimilt verður að gera ökutækið upptækt hvort heldur sem er, að undangengnum dómi eins og ákvæðið kveður á um. Aðrar breytingartillögur eru lagatæknilegs eðlis og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 35. gr.


    Þegar lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, voru samþykkt á Alþingi var kveðið á um að V. kafli þeirra, er fjallar um akstur utan vega, ætti að falla úr gildi 1. janúar 2018. Í ákvæði til bráðabirgða var jafnframt kveðið á um að ráðherra skyldi taka kaflann til endurskoðunar og leggja fram frumvarp um nýjan V. kafla eigi síðar en á haustþingi 2017. Í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru fram í þessu frumvarpi er talið óþarft að taka kaflann til endur-skoðunar. Því er lagt til að 2. mgr. 94. gr. falli brott.

Um 36. gr.


    Í a-lið er lagt til að XII. kafli vatnalaga, nr. 15/1923, falli ekki brott enda er í frumvarpinu fallið frá þeim áætlunum að færa ákvæði er varða umferð um vötn úr vatnalögum í náttúruverndarlög.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, í takti við þær breytingar sem gerðar eru á 13. og 74. gr. laganna.
    Í c-lið er lagt til að fella brott breytingar á lögum um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, nr. 61/1992, en lögin voru felld úr gildi á vorþingi 2015 með samþykkt frumvarps til laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.
    Í f-lið er lagt til að 11. tölul. falli brott, en í honum er gert ráð fyrir breytingum á hlutverki Landmælinga Íslands í lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006. Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir nýrri nálgun í gerð skrár yfir vegi í náttúru Íslands sam-kvæmt nýrri 32. gr. laganna verður það ekki hlutverk Landmælinga Íslands að annast gerð og uppfærslu kortagrunnsins heldur verður það hlutverk Umhverfisstofnunar í samstarfi við sveitarfélög. Vegagerðin mun síðan hafa það hlutverk að birta skrána og samræma við vegakerfi landsins. Þar af leiðir að óþarft er að breyta lögum um landmælingar og grunn-kortagerð og er því lagt til að fallið verði frá fyrirhugaðri breytingu á þeim.
    Aðrar breytingar í greininni eru lagatæknilegs eðlis og varða breytingar á tilvísunum í greinanúmer laganna.

Um 37. gr.


    Í a-lið er lagt til að 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða falli brott. Frumvarpið gerir ráð fyrir grundvallarbreytingum á V. kafla laganna um akstur utan vega og skráningu vega í náttúru Íslands sem heimilaðir eru til aksturs vélknúinna ökutækja. Þar sem Vegagerðin mun fara með birtingu skrárinnar og samræmingu hennar við vegakerfi landsins er 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða óþarfur.
    Í b-lið er lagt til að ártalinu 2015 verði breytt í 2017 þannig að ráðherra skuli eigi síðar en 2017 leggja fyrir Alþingi í fyrsta sinn þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, sbr. 13. gr. Þar sem gildistöku laga nr. 60/2013 var frestað til 15. nóvember 2015 er ljóst að ekki næst að leggja fram tillögu til þingsályktunar það ár. Raunhæft er að kveða á um að það skuli gert eigi síðar en árið 2017.
    Í c-lið er lagt til að núgildandi náttúruminjaskrá haldi gildi sínu þar til ráðherra gefur út náttúruminjaskrá skv. 33. gr. laganna. Hins vegar er lagt til að réttaráhrif núgildandi náttúruminjaskrár verði þau sömu og þau eru í dag, sbr. 67. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða kveður á um að endurmeta skuli verndargildi þeirra minja sem standa á gildandi náttúruminjaskrá og að því verki skuli verða lokið eigi síðar en í árslok 2021 til að ráðherra geti gefið út nýja náttúruminjaskrá í samræmi við ákvæði laganna. Þar sem náttúruverndarlög, nr. 60/2013, kveða á um meiri réttaráhrif náttúruminja á C-hluta náttúruminjaskrár en eru í núgildandi lögum verður að teljast eðlilegt að þau verði óbreytt þar til verndargildið hefur verið endurskoðað. Þar sem skráning á C-hluta náttúruminjaskrár getur haft í för með sér meiri takmörkun á nýtingarrétti landeiganda en er í dag er eðlilegt að endurskoðun verndargildis svæðanna sé grundvöllur þess að svæði verði fært inn á C-hlutann.
    Í d-lið er lagt til að bætt verði við lagaskilaákvæði vegna þeirra friðlýsinga sem eru til vinnslu hjá Umhverfisstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Lagt er til að heimilt verði að ljúka þeim málum hafi náðst samkomulag um fyrirhugaða friðlýsingu eða friðun náttúruminja skv. 58. gr. laga nr. 44/1999. Kveðið er á um að heimilt verði að ljúka þeim málum þó svo að ekki hafi verið gefinn þriggja mánaða frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu eins og ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 60/2013 kveða á um.
    Í f-lið er nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að ráðherra skuli taka til endurskoðunar XI. kafla laganna í samstarfi við þann ráðherra er fer með inn- og útflutning dýra og plantna og erfðaefni þeirra, og leggja fram frumvarp um nýjan XI. kafla á vorþingi 2016. Endurskoðunin eigi að lúta að því að sameina réttarheimildir um innflutning og útflutning lífvera hjá Umhverfisstofnun annars vegar og Matvælastofnun hins vegar. Með þessu er leitast við að einfalda stjórnsýslu og tryggja samhæft áhættumat vegna innflutnings og dreifingar lifandi framandi lífvera.

Um 38. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd,
nr. 60/2013, með síðari breytingum (varúðarregla, almannaréttur,
sérstök vernd, framandi tegundir o.fl.).

    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd, sem eiga að taka gildi 15. nóvember næstkomandi. Gildistöku laganna var frestað eftir að frumvarp um niðurfellingu þeirra var lagt fram á haustþingi árið 2013. Í þessu frumvarpi hafa verið gerðar breytingar á umdeildum ákvæðum laganna auk breytinga á skilgreiningum, verkaskiptingu stofnana, ferli friðlýsinga o.fl.
    Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á skilgreiningum nokkurra hugtaka og framsetningu varúðarreglu, hlutverk stofnana eru skýrð betur, svo sem Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, ákvæði almannaréttar eru skýrð og leitast er við að tryggja almannarétt til frjálsrar farar á sama tíma og lagt er til að réttur til að takmarka umferð um landsvæði verði ítarlegri. Lagt er til að Umhverfisstofnun geti veitt leyfi til að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við viðhald skála og neyðarskýla og vegna kvikmyndagerðar ef nauðsyn krefur. Gert er ráð fyrir að kostnaður Umhverfisstofnunar aukist um 3 m.kr. vegna leyfisveitinga og eftirlits í tengslum við þetta. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að Vegagerðin haldi skrá í stafrænum kortagrunni um aðra vegi en þjóðvegi sem heimilaðir eru vélknúnum ökutækjum til umferðar. Í áður samþykktum lögum var gert ráð fyrir að Landmælingar Íslands tækju verkefnið að sér. Í kostnaðarumsögn um lög nr. 60/2013 var gert ráð fyrir að verkefnið rúmaðist innan útgjaldaramma umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Landmælinga Íslands þar sem gerð, viðhald og miðlun upplýsinga á stafrænu formi um vegi og samgöngur er nú þegar hluti af starfsskyldum Landmælinga Íslands. Hjá Vegagerðinni er um að ræða nýtt verkefni og er áætlaður kostnaður vegna þessa 5 m.kr. Fyrirhugað er að flytja fjárheimild í fjárlögum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að standa undir þeim kostnaði. Þá er í frumvarpinu fallið frá því að færa ákvæði um umferð um vötn úr vatnalögum. Einnig er lagt til að dregið verði úr réttaráhrifum skráningar minja á náttúruminjaskrá, ákvæði um friðlýsingu eru einfölduð og dregið er úr réttaráhrifum verndar tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Þá er gert ráð fyrir að ákvæði um framandi tegundir verði endurskoðuð og að frumvarp þess efnis verði lagt fram á vorþingi árið 2016. Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um bótarétt verði breytt á þann veg að framkvæmdaraðili þurfi ekki að hafa fengið útgefið leyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Ætla má að breytingin feli mögulega í sér rýmkun á bótarétti þótt slíkt sé ekki ætlunin heldur eingöngu að skýra bótarétt.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs kunni að aukast um 3 m.kr. þar sem gert er ráð fyrir kostnaði hjá Umhverfisstofnun vegna leyfisveitingar í tengslum við utanvegaakstur, svo sem vegna kvikmyndagerðar. Ekki er gert ráð fyrir þessum kostnaði í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016.