Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 144  —  144. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á ákvæðum ýmissa laga um bann við mismunun (réttindi fatlaðs fólks).

Flm.: Freyja Haraldsdóttir, Brynhildur S. Björnsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir,
Heiða Kristín Helgadóttir, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir orðinu „kynþáttar“ í 1. mgr. 180. gr. og 233. gr. a laganna kemur: fötlunar.

II. KAFLI
Breyting á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, með síðari breytingum.
2. gr.

    Á eftir orðinu „þjóðerni“ í 2. mgr. 11. gr. laganna kemur: fötlun.

III. KAFLI
Breyting á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu
lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, með síðari breytingum.

3. gr.

    Á eftir orðinu „þjóðerni“ í 1. gr. laganna kemur: fötlun.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, með síðari breytingum.
4. gr.
    

    Á eftir orðinu „kynferðis“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: fötlunar.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, eins og þeim var breytt með lögum nr. 152/2010, segir að markmið laganna sé að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Í 2. mgr. greinarinnar er um framkvæmd laganna sérstaklega vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 152/2010 segir eftirfarandi varðandi markmiðsgreinina: „Lögð er til sú breyting að tekið verði skýrar fram en áður að tekið skuli mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laganna og er þar sérstaklega vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þáverandi félagsmálaráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd íslenskra stjórnvalda 30. mars 2007 og stendur yfir vinna að undirbúningi fyrir fullgildingu samningsins en jafnframt stefna stjórnvöld að því að leggja til við Alþingi að samningurinn verði lögfestur í heild sinni.“
    Alþingi samþykkti 11. júní 2012 þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Á grundvelli áætlunarinnar hefur innanríkisráðuneytið leitt vinnu samstarfsnefndar ráðuneyta við að undirbúa fullgildingu samningsins. Ráðuneytin hafa farið yfir löggjöf hvert á sínu sviði og lagt til breytingar á lögum til samræmis við ákvæði samningsins.
    Í greinargerð innanríkisráðuneytisins um fullgildingu samningsins um réttindi fatlaðs fólks, frá 23. apríl 2013, er m.a. fjallað um 5. gr. samningsins sem ber yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“. Í 2. tölul. þeirrar greinar segir: „Aðildarríkin skulu leggja bann við hvers kyns mismunun vegna fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og nægilega réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.“ Í fyrrnefndri greinargerð innanríkisráðuneytisins segir um 5. gr. samningsins: „Í 5. gr. sáttmálans má finna ákvæði um jafnrétti og bann við mismunun. Í skilgreiningu 2. gr. sáttmálans segir að í mismunun felist hvers kyns útilokun eða takmörkun, vegna fötlunar, sem hefur þann tilgang eða áhrif að koma í veg fyrir að fatlað fólk fái notið mannréttinda sinna til jafns við aðra. Þá telst það einnig mismunun ef fötluðu fólki er neitað um svokallaða viðeigandi aðlögun. Mikilvægt er að löggjöf sem tekur á jafnrétti endurspegli þennan skilning á jafnréttishugtakinu. Sömuleiðis þarf að skoða sérstaklega stöðu fatlaðra kvenna og fatlaðra barna og grípa til aðgerða til að tryggja vernd þeirra gegn fjölþættri mismunun. Þá þarf jafnframt að bæta upptalningu á ólögmætum mismunarástæðum í íslensku regluverki. Þar má nefna almenn hegningarlög nr. 19/1940, lög um starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda nr. 55/1980, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.“
    Bann við mismunun fólks á tilteknum grundvelli gengur eins og rauður þráður í gegnum fjölþjóðlega mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að virða. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er engin undantekning frá því eins og fram kemur í mörgum ákvæðum hans, m.a. í 5. gr. sem vitnað er til hér að framan. Það er ekki að ástæðulausu að svo mikil áhersla er á það lögð í samningnum að fatlað fólk fái nægilega og skýra réttarvernd gegn mismunun af ýmsu tagi. Alls staðar í heiminum hefur fatlað fólk þurft að þola mikla mismunun í gegnum tíðina og svo er enn. Ísland er engin undantekning frá því.
    Með samþykkt þessa frumvarps til laga væri stigið skref í þá átt að skýra og bæta réttarvernd fatlaðs fólks gegn mismunun á tilteknum mikilvægum sviðum með því að bæta fötlun við upptalningu á ólögmætum mismununarástæðum í ákvæðum þeirra laga sem sérstaklega voru tilgreind í því sambandi í tilvitnaðri greinargerð innanríkisráðuneytisins frá 23. apríl 2013, þ.e. í almennum hegningarlögum, lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, stjórnsýslulögum og lögum um réttindi sjúklinga. Umrædd lög lúta að afar mikilsverðum réttindum fólks sem reynslan sýnir að mjög mikilvægt er að tryggð séu fötluðu fólki til jafns við aðra sem og að það sé varið fyrir mismunun hvað það varðar. Lagt er til að þessar lagabreytingar verði samþykktar nú þegar þó að endurskoðun sú á íslensku lagaverki sem unnið er að til að undirbúa fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé ekki lokið, enda leikur ekki vafi á að þær breytingar sem hér eru lagðar til á mismununarákvæðum umræddra laga eru nauðsynlegur liður í að uppfylla kröfur samnings Sameinuðu þjóðanna um að „tryggja fötluðu fólki jafna og nægilega réttarvernd gegn mismunun“ á þeim mikilvægu sviðum sem þessi lög ná til. Verður því ekki séð að nokkur rök standi til að láta það dragast meira en orðið er að gera þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til þannig að fatlað fólk fái örugglega notið skýrrar og góðrar réttarverndar gegn mismunun á þeim sviðum.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. 180. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að það varði þann refsingu sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Í 2. mgr. sömu greinar segir að það varði sömu refsingu að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi.
    Fatlað fólk á langa sögu af mismunun vegna skorts á aðgengi að almenningsstöðum sem gerir það að verkum að það hefur ekki kost á að sækja verslanir, banka, veitingastaði, bókasöfn, kvikmynda- og leikhús, íþróttahús og fleiri staði sem ófatlað fólk hefur greiðan aðgang að. Því er jafnframt reglulega neitað um vörur eða þjónustu á grundvelli fötlunar. 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks tekur m.a. á þessari mismunun með því að kveða á um rétt til aðgengis.
    Því er lagt til að 180. gr. almennra hegningarlaga verði breytt þannig að fötlun bætist við upptalningu þeirra ólögmætu og refsiverðu mismununarástæðna sem þar eru tilgreindar.
    Í 233. gr. a almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skuli sæta refsingu.
    Fatlað fólk hefur í gegnum söguna verið notað sem viðföng aðhláturs og auðmýkingar. Fötlunarhugtök eru gjarnan notuð til þess að gera lítið úr ófötluðum manneskjum ásamt því sem fatlað fólk verður gjarnan fyrir aðkasti vegna fötlunar sinnar. Sýna rannsóknir, einkum breskar, að með aukinni hatursorðræðu gagnvart fötluðu fólki aukast hatursglæpir gegn því. Viðurkennt er að fatlað fólk er oft berskjaldað gagnvart misnotkun og ómannúðlegri og lítillækkandi meðferð af ýmsu tagi.
    Því er lagt er til að 233. gr. a almennra hegningarlaga verði breytt þannig að fötlun verði sérstaklega tilgreind í greininni eins og þjóðerni, litarháttur, kynþáttur, trúarbrögð, kynhneigð og kynvitund.

Um 2. gr.

    Jafnræðisregla stjórnsýslulaga tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Regluna er að finna í 11. gr. laganna og hljóðar 2. mgr. þeirrar greinar svo: „Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.“
    Margt fatlað fólk þarf að reiða sig á þjónustu hins opinbera í daglegu lífi og þarf því að eiga mikil samskipti við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Reynsla fatlaðs fólks af því er almennt ekki góð en það mætir mörgum kerfislægum hindrunum, er oft illa upplýst um réttindi sín og þau úrræði sem í boði eru auk þess sem bið eftir úrlausnum er gjarnan ekki í samræmi við málshraðareglur. Afar mikilvægt er að fatlað fólk njóti án mismununar þeirra réttinda sem það á og þarf að sækja til ríkis og sveitarfélaga og að sá réttur þess sé skýr og mjög sýnilegur. Í a-lið 1. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega mælt fyrir um skyldu aðildarríkja til þess að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningnum nái fram að ganga.
    Því er lagt til að fötlun verði bætt við þær mismununarástæður sem sérstaklega eru tilgreindar í 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Um 3. gr.

    Í 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda er mælt fyrir um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.
    Viðurkennt er að fatlað fólk stendur mjög oft höllum fæti á vinnumarkaði og getur átt erfitt með að standa vörð um réttindi sín þar og verið berskjaldað fyrir mismunun á því sviði. Það er því mjög mikilvægt að réttindi fatlaðs fólks til launa og annarra starfskjara samkvæmt kjarasamningum séu vel og skýrlega varin í lögum.
     Í 1. mgr. 27. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið sérstaklega á um rétt fatlaðs fólks til þess að starfa án aðgreiningar á vinnumarkaði og afla sér lífsviðurværis auk þess sem 28. gr. samningsins kveður á um rétt til viðunandi lífskjara og félagslegrar verndar. Bæði ákvæðin útlista með leiðbeinandi hætti hvernig aðildarríki geta unnið að því marki.
    Því er lagt til að í 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda verði fötlun sérstaklega tilgreind eins og kyn og þjóðerni nú.

Um 4. gr.

    Í 1. gr. laga um réttindi sjúklinga er ákvæði um markmið laganna. Í 1. mgr. segir að markmið þeirra sé að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Í 2. mgr. greinarinnar segir að óheimilt sé að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
    Margar alþjóðlegar rannsóknir sýna að fatlað fólk stendur höllum fæti innan heilbrigðiskerfisins. Aðgengi að heilsugæslustöðvum og tækjum, t.d. krabbameinsleitartækjum, er ekki tryggt fyrir margt fatlað fólk, ásamt því sem veikindi þess eru oft ekki tekin alvarlega og fordómar innan heilbrigðiskerfisins geta stuðlað að því að fatlað fólk leitar sér síður læknishjálpar. Ljóst er að fatlað fólk er oft mjög háð heilbrigðiskerfinu og þeirri þjónustu sem þar er veitt. Það er því eðlilegt og mikilvægt að tryggja þeim góða og skýra vernd í lögum gegn allri hugsanlegri mismunun á því sviði. Í 25. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega kveðið á rétt fatlaðs fólks til heilbrigðisþjónustu og til þess að njóta góðrar heilsu án mismununar.
    Því er lagt til að fötlun verði bætt við í upptalningu mismununarástæðna sem sérstaklega eru tilgreindar í 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga.