Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 146  —  146. mál.
Flutningsmaður.




Tillaga til þingsályktunar


um jafnræði í skráningu foreldratengsla.


Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að setja reglugerð um framkvæmd laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, þar sem tryggt verði að jafnræði ríki með foreldrum barna með tilliti til skráningar foreldratengsla í þjóðskrá og afnumin sú mismunun sem nú á sér stað gagnvart mæðrum í samkynja hjúskap eða sambúð.

Greinargerð.

    Mæðrum í samkynja hjúskap eða staðfestri sambúð er gert að afhenda þjóðskrá yfirlýsingu um að barn þeirra sé getið með tilstyrk tæknifrjóvgunar, ella verður sú kona ein foreldri sem ól barnið. Þessi krafa er ekki gerð til gagnkynhneigðs fólks í hjúskap eða staðfestri sambúð sem hefur notið atbeina tæknifrjóvgunar við barnsgetnað og verður þessi framkvæmd því til þess að fólki er mismunað á grundvelli kynferðis.
    Þjóðskrá skýrir ákvörðun sína með því að ákvæði barnalaga, nr. 76/2003, krefjist þess að kona tilgreini föður barns síns. Lögin tryggja þannig rétt barns til vitneskju um uppruna sinn og þjóðskrá grundvallar eftirfylgni sína við lög nr. 54/1962 hvað varðar kröfu um að mæður í samkynja hjúskap eða staðfestri sambúð gefi yfirlýsingu um að barn þeirra sé getið með tilstyrk tæknifrjóvgunar.
    Samkvæmt hinni svokölluðu „pater est“-reglu er gengið út frá því sem vísu að eiginmaður eða sambúðarmaður konu sem elur barn sé faðir þess. Af augljósum náttúrulegum ástæðum er ekki hægt að ganga út frá þessu þegar tvær konur búa saman í hjónabandi eða sambúð og parinu fæðist barn.
    Án þess að ætlunin sé að rýra rétt einstaklinganna til að öðlast vitneskju um uppruna sinn sýnist það furðu mikill ósveigjanleiki að gera þá kröfu til samkynhneigðra kvenna einna að þær sanni aðild tæknifrjóvgunar að getnaði barnsins þegar málum er svo háttað að fjöldi gagnkynhneigðra einstaklinga í hjúskap eða sambúð nýtir sér einnig leið tæknifrjóvgunar til að geta börn 1 en þarf ekki að standa þjóðskrá nein skil á upplýsingum um uppruna erfðaefnis þeirra.
    Þar sem þjóðskrá hefur ekki sýnt neina tilburði til að breyta verklagi sínu þótt undan því hafi verið kvartað og ekki verður fallist á það sjónarmið sem haldið hefur verið fram af hennar hálfu að nauðsynlegt sé að breyta barnalögum til þess að hverfa megi frá mismununinni, er lagt til að innanríkisráðherra taki málið í sínar hendur og láti útbúa reglugerð sem bindi endi á þá mismunun sem mæður í samkynja hjúskap eða sambúð þurfa nú að þola af hendi þjóðskrár.
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá skýrslur frá fæðingarskráningunni sem kvenna- og barnasvið Landspítalans hefur gefið út um árabil með upplýsingum um fjölda barna sem fæðast eftir tæknifrjóvgun.