Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 174  —  171. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um skattlagningu á fjármagnshreyfingar – Tobin-skatt.


Flm.: Ögmundur Jónasson, Valgerður Bjarnadóttir,
Frosti Sigurjónsson, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að því á alþjóðavettvangi að komið verði á skatti á fjármagnshreyfingar – Tobin-skatti. Þá ályktar Alþingi að fela fjármálaráðherra að skipa starfshóp er kanni hvort fýsilegt sé að taka upp slíkan skatt á Íslandi með það að markmiði að hann verði þá innleiddur 1. janúar 2017. Fjármálaráðherra kynni Alþingi niðurstöðu starfshópsins eigi síðar en 15. mars 2016.

Greinargerð.

    Árið 1972, ári eftir að Bretton Woods-samkomulagið um gulltryggða fastgengisstefnu helstu gjaldmiðla heims rann sitt skeið og flotgengisstefna tók við, kynnti bandarískur hagfræðiprófessor, James Tobin (1918-2002), hugmyndir sínar um skatt á fjármagnsflutninga í háskólafyrirlestri. Árið 1978 útfærði hann og reifaði hugmyndir sínar í þessa átt í grein sem ber heitið „A Proposal for International Monetary Reform“ og birtist í tímaritinu Eastern Economic Journal þetta ár. Tobin prófessor var kunnur af rannsóknum sínum á ýmsum sviðum hagfræðinnar og fyrir þær hlotnuðust honum Nóbelsverðlaun árið 1981 en að líkindum eru það hugmyndir hans um skatt á fjármagnsflutninga sem einkum halda nafni hans á lofti nú enda eru slíkir skattar gjarnan kenndir við Tobin.
    Hinar miklu breytingar sem afnám gullfótar Bandaríkjadals og fastgengisstefnu á öndverðum 8. áratug síðustu aldar ollu á heimsviðskiptum urðu James Tobin tilefni til að leita leiða til að hemja fjármagnsöflin sem tóku úr þessu að geysast um hina alþjóðlegu markaði með meira offorsi en nokkru sinni fyrr. Þótti Tobin – og raunar fleirum – sem hin útbreidda spákaupmennska með fjármuni á alþjóðamarkaði væri til þess fallin að veikja efnahagsstefnu og markmið þeirra ríkja sem fyrir slíku yrðu og auka sveiflu í gengi gjaldmiðla. Taldi Tobin að skattur á fjármagnsflutninga, einkum þegar um skammvinna fjármálagerninga væri að ræða, gæti reynst hentugt stjórntæki til að fást við afleiðingar spákaupmennsku á fjármálakerfi ríkja og benti auk þess á skattinn sem haldbæra leið til tekjuöflunar til ýmissa brýnna opinberra viðfangsefna.
    Undirtektir við hugmyndir James Tobin um skatt á fjármagnsflutninga voru daufar framan af enda voru kenningar frjálshyggjuhagfræðinga áhrifamestar á framvindu stjórnmálanna víða um lönd á 9. og 10. áratug 20. aldarinnar og skattheimta af skyndigróða féll ekki að þeim. En eins og rakið er í greinargerð með þingsályktunartillögu Ögmundar Jónassonar um upptöku Tobin-skatts frá 126. löggjafarþingi (11. mál) og sams konar þingsályktunartillögu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur frá 140. löggjafarþingi (119. mál) fékk þetta úrræði til að takast á við hagsveiflur af völdum spákaupmennsku aukna athygli eftir að fjármálakreppa lagðist yfir mörg lönd Suðaustur-Asíu undir lok síðustu aldar.
    Enn jókst áhuginn á Tobin-skatti í kjölfar fjármála- og efnahagskreppunnar sem hófst á Vesturlöndum haustið 2008 og leiddi í ljós fjölmargar brotalamir og margháttaða vankanta á markaðskerfinu. Kreppan leiddi ærin vandkvæði yfir almenning víða um lönd og eins og gefur að skilja hefur verið leitað svara við því hvað olli því að aðrar eins ófarir gátu átt sér stað og lagt á ráðin um hvernig unnt væri að búa svo um hnúta að slíkt og þvílíkt gerist ekki á nýjan leik. Hefur gjarnan verið bent á hinn óhamda fjármálamarkað fyrirhrunsáranna, þar sem gróðasjónarmiðin ríktu ofar öllu en lítt eða ekki var skeytt um varúðarreglur eða aðrar takmarkanir, sem eina meginskýringu þess að fjöldi fjármálastofnana, sem sumar höfðu starfað um margra áratuga skeið, komust í slíkar ógöngur að þær féllu um koll og urðu að hætta rekstri en aðrar voru reistar við með fé úr opinberum sjóðum og ærnum álögum á almenning.
    Reynslan af síðustu fjármála- og efnahagskreppunni sem gekk yfir Vesturlönd hefur orðið til þess að skattlagning á fjármagnshreyfingar er nú meðal þeirra skattheimtu- og hagstjórnaraðgerða sem ræddar eru í fullri alvöru og áform eru um að beitt verði. Skal í þessu sambandi vakin athygli á skýrslu sem unnin var á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að beiðni G-20 hópsins svokallaða, en í honum eru fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar helstu efnahagsvelda heimsins. Skýrsla þessi ber heitið Financial Sector Taxation. The IMF's Report to the G-20 and Background Material og kom út árið 2010. Í henni er sagður kostur og löstur á skattlagningarhugmyndum Tobins og viðlíka sköttum á fjármálastarfsemi og útfærslu þeirra. Sýnir skýrslan að vissulega er að mörgu að hyggja við skattlagningu af þessu tagi og mikilvægt er að undirbúa hana vel ef af henni verður.
    Helstu tíðindi af áformum um álagningu Tobin-skatts um þessar mundir eru vafalaust þau að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði haustið 2011 fram tillögu að tilskipun um skatt á fjármagnshreyfingar í löndum Evrópusambandsins 1 þar sem gert er ráð fyrir 0,1% skatti á hluta- og skuldabréf og 0,01% skatti á afleiðuviðskipti. Enn hefur ekki tekist að ljúka umræðu um tillöguna, en 11 ESB-ríki, þar sem um 2/ 3 hlutar af landsframleiðslu ESB verður til, hafa tjáð sig samþykk áformum um skatt á fjármagnshreyfingar en önnur eru á móti, þar á meðal Bretar sem óttast áhrif skattsins á hin miklu kauphallarviðskipti sem fara fram þar í landi, einkum í Lundúnum. Undanfarið hefur verið lítil hreyfing á þessu máli innan ESB, en talið er af sérfræðingum sem fylgjast með framvindu þess að hreyfing kunni að komast á það síðla árs 2015 og jafnvel geti tekist að ljúka málinu og innleiða skattinn í ársbyrjun 2017. 2
    Eins og fyrr sagði hafa Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir flutt þingmál um upptöku Tobin-skatts, Ögmundur á 126. löggjafarþingi en Guðfríður Lilja á 140. löggjafarþingi og aftur á 141. löggjafarþingi. Þau ár sem liðu frá því að Ögmundur lagði til á Alþingi að innleiðing Tobin-skatts yrði könnuð haustið 2000 og þar til Guðfríður Lilja tók málið upp á sína arma voru tímabil mikilla sviptinga í íslensku efnahagslífi og sér þess stað í greinargerðum með þingsályktunartillögunum. Í greinargerðinni frá árinu 2000 er þannig lögð áhersla á að greina frá sívaxandi gjaldeyrisveltu hér á landi en árið 2011 var efnahagsbólan sprungin og gjaldeyrishöftum hafði verið komið á.
    Meðal þeirra sem bentu á að íslenska fjármálakerfið væri í háska statt skömmu áður en það féll haustið 2008 var Robert Z. Aliber, bandarískur hagfræðingur og háskólakennari, sem haldið hefur nokkra fyrirlestra um hagfræði og fjármál hér á landi. Ábendingum hans þá var afar fálega tekið af íslenskum stjórnvöldum og bankamönnum sem kunnugt er. Í fyrirlestri sem haldinn var í Háskóla Íslands um miðjan júní sl. ræddi Aliber gjaldeyrismarkaði og gengisfyrirkomulag og benti á hlutverk seðlabanka við að stýra og vernda gengi gjaldmiðla þar sem þeir ættu, að hans mati, að gegna lykilhlutverki og m.a. beita skattlagningu á fjármagnshreyfingar í þessu skyni.
    Sú stefna hefur verið mörkuð að gjaldeyrishöftum verði aflétt og gripið hefur verið til ráðstafana í því skyni. Má því ætla að fjármagnshreyfingar milli Íslands og annarra landa færist í vöxt á næstunni og mikilvægt að gerðar verði ráðstafanir til að ófarirnar frá síðasta áratug endurtaki sig ekki. Tobin-skattur gæti verið liður í slíkum ráðstöfunum eins og Gylfi Zoëga hagfræðingur hefur bent á, 3 enda mundi skatturinn styrkja hagstjórnartæki Seðlabankans og stuðla að stöðugra verðlagi hér á landi.
    Í ljósi þess að svo kann að fara að Tobin-skattur verði tekinn upp í Evrópulöndum áður en langt líður og að afnám gjaldeyrishafta er á dagskrá stjórnvalda er mikilvægt að kannað verði ítarlega hvort og þá með hvaða hætti eigi að beita slíkri skattheimtu hérlendis enda getur það reynst mikilvægt fyrir framtíðarhag landsmanna. Með þessari þingsályktunartillögu er stuðlað að því að þessu verkefni verði komið til leiðar.
Neðanmálsgrein: 1
1     Proposal for a Council Directive on a common system of financial transaction tax and amending Directive 2008/7/EC.
Neðanmálsgrein: 2
2     Sjá: www.kpmg.com/uk/en/services/tax/corporatetax/pages/european-financial-transaction-tax.aspx (10. sept. 2015).
Neðanmálsgrein: 3
3     Gylfi Zoëga: Tobin-skattur og peningastefnan. Vísbending. Vikurit um viðskipti og efnahagsmál, 23. jan. 2012, bls. 1–2, 4.