Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 175  —  172. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt
á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki
(nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir 4. málsl. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæðið gildir auk þess ekki um vexti sem greiddir eru af skuldabréfum sem gefin eru út í eigin nafni af lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir en sæta slitameðferð skv. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eða hafa lokið slitameðferð með nauðasamningi sem staðfestur hefur verið af dómstólum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: lögaðilar sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, sbr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, en hafa lokið slitameðferð með nauðasamningi sem staðfestur hefur verið af dómstólum.

III. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 103. gr. a laganna:
     a.      Á eftir 9. málsl. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Slitastjórn er heimilt að gera tillögu að því á kröfuhafafundi að einungis þeir kröfuhafar sem skráðir eru í kröfuskrá á þeim degi sem frumvarp að nauðasamningi er lagt fram hafi heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi. Verði aðilaskipti að kröfu í búið eftir það tímamark og fram að fundi sem boðaður hefur verið til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi hefur nýr kröfuhafi þó heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi ef hann tilkynnir slitastjórn um kröfuhafaskiptin og afhendir gögn sem sanna framsal kröfunnar. Hið sama gildir að breyttu breytanda um rétt til móttöku greiðslu samkvæmt ákvæðum frumvarps að nauðasamningi eftir að frumvarpið hefur verið staðfest.
     b.      Í stað 11. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Slitameðferð telst lokið í samræmi við ákvæði þessarar málsgreinar þegar nauðasamningur hefur verið staðfestur, nema 1. mgr. eigi við. Um efndir á skuldbindingum við kröfuhafa fer eftir efni nauðasamnings.
     c.      Í stað tölunnar „90“ í 12. málsl. kemur: 85.
     d.      15. málsl. færist og kemur á undan 13. málsl.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
     a.      1. gr. kemur til framkvæmda í staðgreiðslu eftir birtingu laga þessara og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016.
     b.      2. gr. kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016.
     c.      3. gr. tekur til fjármálafyrirtækja í slitameðferð sem hefja nauðasamningsferli eftir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Tilefni þess að frumvarpið er lagt fram er að á undanförnum vikum hafa komið í ljós nokkur atriði sem nauðsynlegt er talið að skýra betur í löggjöf eða einfalda til að auðvelda slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja gerð nauðasamninga. Frumvarpið er því lagt fram með það að markmiði að skapa frekari forsendur fyrir því að þeir lögaðilar sem falla undir skattskyldusvið laga um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, geti lokið þeim áfanga í slitameðferð að hafa fengið nauðasamning staðfestan af dómstólum fyrir næstu áramót.

II. Meginefni frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting sem lýtur að skattlagningu vaxta vegna skuldabréfa sem lögaðilar, sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, gefa út í eigin nafni sem lið í fullnustu nauðasamnings við kröfuhafa sína. Nánar tiltekið er lagt til að hvers konar vextir af slíkum skuldabréfum, þ.m.t. afföll, verði undanþegnir tekjuskatti í hendi raunverulegs eiganda skuldabréfs sem ekki ber ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi.
    Í öðru lagi er lögð til breyting er lýtur að afmörkun skattskyldu samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010 (bankaskatt).
    Í þriðja lagi eru lagðar til tvær efnislegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Annars vegar er lögð til breyting á hlutfalli bak við samþykki nauðasamningsfrumvarps eftir fjárhæðum og hins vegar er lagt til að slitastjórnir hafi heimild til þess að gera tillögu að því á kröfuhafafundi að einungis þeir kröfuhafar sem skráðir eru í kröfuskrá á þeim degi sem tilgreindur er í frumvarpi að nauðasamningi fjármálafyrirtækis hafi heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi. Ef slík heimild er nýtt gilda sérstakar reglur um tilkynningar og sönnun á kröfuhafaskiptum á samþykktum kröfum eftir það tímamark. Þá eru lagðar til nokkrar lagfæringar á ákvæðum til að auka skýrleika þeirra.
    Nánar er fjallað um einstaka liði frumvarpsins hér á eftir.

A.     Undanþága frá skattskyldu og greiðslu afdráttarskatts af vöxtum sem greiddir eru úr landi.
    Samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skulu allir aðilar sem ekki bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi greiða hér á landi skatt af vaxtatekjum sem þeir hafa hérlendis. Frá þessari reglu eru nokkrar undantekningar en skattskyldan nær m.a. til vaxta af skuldabréfum sem eru gefin út af lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir og óskað hafa eftir undanþágu til Seðlabanka Íslands frá lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Undanþágan byggist á þeirri forsendu að leggi þeir fram svokallað stöðugleikaframlag sæti eignir þeirra ekki lengur fjármagnshöftum og verði þeir því undanþegnir þeim takmörkunum sem kveðið er á um í fyrrnefndum lögum um gjaldeyrismál við efndir samkvæmt staðfestum nauðasamningi.
    Samkvæmt fulltrúum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja hafa þær upplýsingar borist þeim að stærstu félög á sviði utanumhalds og uppgjörs vegna útgáfu skuldabréfa í Evrópu muni að óbreyttu ekki taka við skráningu á skuldabréfum sem gefin eru út af lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir þar sem þeim yrði skylt að halda eftir afdráttarskatti af fjármagnstekjuskatti samkvæmt núverandi löggjöf, sem gæti haft í för með sér bæði tilkynningarskyldu sem og mögulega aðra ábyrgð gagnvart íslenskum skattyfirvöldum. Slíkar skyldur falla að sögn félaganna ekki að starfsemi þeirra og því hyggist þau ekki skrá og annast umsýslu skuldabréfa sem eru gefin út af framangreindum lögaðilum nema komi til breytinga á löggjöfinni. Þeir lögaðilar sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir telja sér ekki fært að halda utan um uppgjör skuldabréfanna án þeirrar þjónustu sem fyrrnefnd félög bjóða fram, en gera má ráð fyrir að í kjölfar staðfestingar nauðasamninga muni nokkur þúsund kröfuhafa, sem flestir eru erlendir, fá skuldabréf útgefin af lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir sem hluta af efndum á nauðasamningi.
    Umrædd skuldabréf munu ekki bera vexti í öllum tilvikum og auk þess hefur ekki verið gert ráð fyrir tekjum af þeim í tekjuáætlunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Með hliðsjón af þessu er talið vel gerlegt að bregðast við þessari hindrun, sem a.m.k. öðrum þræði er tæknilegs eðlis, með lagabreytingu sem felst í því að nýrri undanþágu verði bætt við ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt. Undanþágunni er ætlað að leysa framangreindan vanda.

B.     Breyting á afmörkun skattskyldra aðila samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010.
    Skylda til að greiða sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010 hvílir á fjármálafyrirtækjum, sem hafa fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, og öðrum aðilum sem hafa fengið leyfi til að taka við innlánum. Skattskyldan tekur einnig til útibúa erlendra fjármálafyrirtækja sem taka við innlánum eða hafa sambærilegar starfsheimildir og viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki. Þá tekur skattskyldan einnig til aðila sem sætir slitameðferð, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þ.m.t. lögaðila sem héraðsdómur hefur úrskurðað að skuli tekinn til gjaldþrotaskipta.
    Í áætlunum stjórnvalda um losun fjármagnshafta er miðað við að slitabú hinna föllnu fjármálafyrirtækja, sem falla undir skattskyldusvið laga um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, verði leyst undan skyldu til greiðslu sérstaks skatt á fjármálafyrirtæki (bankaskatts). Þessi áform stjórnvalda endurspeglast þó ekki í orðalagi 2. gr. laga um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010. Í frumvarpinu er því lagt til að úr þessu verði bætt og skýrlega kveðið á um að skattskylda þessara aðila falli niður að fenginni endanlegri staðfestingu dómstóla á nauðasamningi.

C.     Breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Lagðar eru til fjórar breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem fjallar m.a. um slit fjármálafyrirtækja. Nánar tiltekið eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 103. gr. a laganna sem fjallar um nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja í slitameðferð og lok slitameðferðar með staðfestum nauðasamningi.
    Fyrsta breytingin sem lögð er til varðar heimild fyrir slitastjórn til þess að leggja fram tillögu á kröfuhafafundi sem kveður á um það að einungis þeir kröfuhafar sem skráðir eru í kröfuskrá á þeim degi sem frumvarp að nauðasamningi er lagt fram hafi heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi. Ef slík tillaga er lögð fram og samþykkt og aðilaskipti verða að kröfum hafa nýir kröfuhafar þó heimildir til þess að tilkynna slitastjórn um aðilaskiptin og leggja fram sönnur á aðilaskiptum að kröfunni. Með því hafa þeir þá heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi. Slík heimild getur einnig náð til móttöku greiðslu samkvæmt staðfestum nauðasamningi. Að breyttu breytanda mundi þá nýr kröfuhafi hafa heimild til þess að tilkynna um aðilaskipti og færa sönnur á þau.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á 11. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laganna til þess að skýra betur inntak umræddrar reglu, sem fjallar um ákvörðun þess tímamarks þegar slitameðferð lýkur. Í núgildandi ákvæði er kveðið á um að ef nauðasamningur er staðfestur skuli slitastjórn efna skuldbindingar samkvæmt honum eftir þörfum og ljúka síðan slitameðferð eftir því sem segir í 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Seinni tilvísunin mundi þó sjaldnast eiga við því að þar er fjallað um þá aðstöðu þegar kröfur á hendur félagi hafa verið greiddar og slitameðferð lýkur með því að afhenda félagið aftur eigendum sínum eða greiða þeim út eignarhluti. Eins og fram kemur í 3. mgr. er hins vegar gert ráð fyrir því að nauðasamnings sé leitað þegar eignir duga ekki til greiðslu krafna að mati slitastjórnar og einnig er þar sérstaklega heimilað að í frumvarpi að nauðasamningi sé hluta krafna varið til að greiða fyrir nýja hluti í viðkomandi fyrirtæki þegar svo stendur á. Við þær aðstæður ætti því hvorki við sú aðstaða sem gert er ráð fyrir í 1. eða 2. mgr. Því er nauðsynlegt að skýra sérstaklega að hinni eiginlegu slitameðferð lýkur með staðfestingu nauðasamnings samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Greiðslur á grundvelli nauðasamnings geta tekið nokkurn tíma og ekki er nauðsynlegt að slitastjórn annist þær að öðru leyti en leiðir af lögbundnum skyldum. Þess vegna, og til að taka af öll tvímæli, er hér lagt til að lögfest verði að slitameðferð vegna nauðasamningsgerðar fjármálafyrirtækis ljúki með staðfestingu nauðasamnings. Um efndir nauðasamnings færi eftir efni hans, t.d. hvort slitastjórn mundi taka að sér að koma nauðasamningi í framkvæmd eða hvort hið endurreista félag, sem áður var fjármálafyrirtæki í slitameðferð, tæki að sér að framkvæma efni nauðasamningsins.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 12. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laganna sem kveður á um hlutfall samþykkis nauðasamnings eftir fjárhæðum. Við þinglega meðferð frumvarps sem varð að lögum nr. 59/2015 kom fram að endurheimtuhlutfall gæti verið lágt við slit fjármálafyrirtækja, og var í nefndaráliti bent á að ef til vill þyrfti 95% atkvæða eftir fjárhæðum til þess að nauðasamningur væri samþykktur. Var á það bent að svo hátt hlutfall torveldaði samþykki nauðasamnings, þótt meginþorri kröfuhafa væri honum samþykkur og hann sé til hagsbóta fyrir alla kröfuhafa, en með því væri litlum minni hluta veitt neitunarvald gagnvart miklum meiri hluta kröfuhafa miðað við fjárhæðir, jafnvel þótt engin skynsamleg rök byggju að baki synjuninni. Var því lagt til við meðferð nefndarinnar að leggja til nýja reglu um að 90% kröfuhafa miðað við kröfufjárhæð nægi ætíð til samþykktar frumvarpi að nauðasamningi, jafnvel þótt fyrirhugaðar afskriftir næmu hærra hlutfalli en 90% af fjárhæð lýstra samningskrafna. Í því samhengi var bent á að vernd minni hluta hefði verið aukin í frumvarpinu þar sem almennt mundu þær breytingar sem gerðar voru samhliða á efni frumvarpsins leiða til þess að smáir kröfuhafar fengju meira í sinn hlut að tiltölu vegna áskilnaðar um lágmarksgreiðslu sem lögð var til í frumvarpinu.
    Eftir samþykkt laganna hafa borist ábendingar um að framangreint þak kunni að vera of hátt miðað við þann fordæmalausa fjölda kröfuhafa sem hafi lýst kröfum við slit þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð. Hefur t.d. verið bent á í því sambandi að í sumum búunum hafi mikill fjöldi smárra og meðalstórra krafna borist frá kröfuhöfum sem ekki hafi síðar haft sig frammi við slitin og óljóst er hvort taki þátt í nauðasamningsumleitunum. Í ljósi þeirra ríku þjóðhagslegu hagsmuna sem eru húfi að slitum fjármálafyrirtækjanna verði lokið og þar sem það er liður í afnámi fjármagnshafta er fallist á að lækka framangreint þak í 85%, en með því er reynt að vega saman hagsmuni smærri kröfuhafa og þeirra sem mynda meiri hluta í hverju búi fyrir sig. Fallist er á að hægt sé að færa framangreint þak niður í 85% til þess að liðka fyrir gerð nauðasamnings, en um nauðasamninga fjármálafyrirtækja í slitum gilda að mörgu leyti önnur sjónarmið en um almenna nauðasamninga eftir lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Er þá jafnframt haft í huga að með lögum nr. 59/2015 var slitastjórnum veitt aukin heimild til að sækja skrifleg atkvæði þeirra sem hafa lýst kröfum við nauðasamningsumleitanir, og þá var rýmkuð heimild slitastjórna til að greiða lágmarkskröfur til allra kröfuhafa. Verður ekki séð annað en að með fyrrgreindri breytingu ætti að vera rutt úr vegi stórri hindrun við samþykkisferli nauðasamninga, án þess að vega um of að rétti smærri kröfuhafa. Breytingin sem lögð er til í frumvarpi þessu er einnig talin ná betur þeim markmiðum sem að var stefnt með breytingu á lögunum á 144. löggjafarþingi.
    Fjórða breytingin sem lögð er til á 3. mgr. 103. gr. a laganna tengist breytingum sem gerðar voru á sömu lögum með lögum nr. 59/2015. Við setningu laga nr. 59/2015 urðu þau mistök að tveir nýir málsliðir lentu á röngum stað með e-lið 2. gr. laga nr. 59/2015. Hér er því einungis um breytingu á röð málsliða að ræða og er lagt til að þetta verði leiðrétt.

III. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur annars vegar í sér ákvæði um undanþágur frá skattskyldu og hins vegar breytingar á reglum sem gilda um nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja í slitum. Breytingarnar sem lagðar eru til varðandi undanþágur frá skattskyldu eru ívilnandi og eru þær ekki taldar ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar eða alþjóðlegum skuldbindingum. Breytingar sem lagðar eru til varðandi nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja í slitameðferð eiga að auðvelda og einfalda slitabúum nauðasamningsferlið og vera kröfuhöfum til hagsbóta. Breytingarnar eru ekki taldar ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar eða alþjóðlegum skuldbindingum, þar á meðal samkvæmt EES-samningnum.

IV. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við ríkisskattstjóra. Þá var einnig tekið mið af ýmsum ábendingum frá fulltrúum slitabúa fjármálafyrirtækja.

V. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir því að slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja verði gert auðveldara en ella að ljúka gerð nauðasamninga.
    Upplýsingar eða gögn um þá sem taka á móti vaxtagreiðslum sem um ræðir í 1. gr. frumvarpsins liggja ekki fyrir að öðru leyti en því að reiknað er með að fjöldi þeirra verði nokkur. Séu þessir aðilar búsettir í ríki sem Ísland hefur tvísköttunarsamning við eru yfirgnæfandi líkur á að í þeim samningum sé að finna undanþágu frá slíkum afdráttarskatti. Þá liggur fyrir að í einhverjum tilvikum munu þau skuldabréf sem um ræðir ekki bera vexti. Í áætlunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur ekki sérstaklega verið gert ráð fyrir tekjum af útgáfu þessara tilteknu skuldabréfa. Að teknu tilliti til framangreinds er því erfitt að segja með vissu hvort ríkið verður af einhverjum tekjum vegna þessara breytinga en líklegt er talið að það tekjutap verði óverulegt.
    Um undanþágu umræddra fyrirtækja frá sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki, svokölluðum bankaskatti, má nefna að á árinu 2014 nam álagning hans á þrjú stærstu slitabú fallinna fjármálafyrirtækja samtals 26 ma.kr. Gert er ráð fyrir ívið lægri álagningu á þessu ári, eða nálægt 25 ma.kr. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er hins vegar, vegna varúðarsjónarmiða, miðað við að bankaskatturinn á slitabúin nemi aðeins tæplega 18 ma.kr. ásamt þeirri undirliggjandi forsendu að falli hann niður í tengslum við losun gjaldeyrishaftanna muni hluti þeirra fjármuna sem þar koma til mæta tekjutapi ríkisins af bankaskattinum. Gildir þar einu hvort um er að ræða tekjur af stöðugleikaskatti eða stöðugleikaframlagi en um ráðstöfun hvors tveggja fer skv. 2. mgr. 1. gr. laga um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015. Á bls. 34 í almennum athugasemdum við frumvarp til laga um stöðugleikaskatt kemur fram að tekjum af stöðugleikaskatti verði í fyrsta lagi varið til að mæta tekjutapi af lækkun tekna af sérstökum bankaskatti. Ráðstöfun stöðugleikaskatts og eftir atvikum stöðugleikaframlags skal að öðru leyti samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um fjármálafyrirtæki eru ekki af því tagi að þær hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga, um tekjuskatt, nr. 90/2003, skulu allir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi af m.a. skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Það á m.a. við um vexti af skuldabréfum sem gefin eru út til að efna nauðasamninga lögaðila sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir og óskað hafa eftir undanþágu Seðlabanka Íslands frá lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Þetta byggist á þeirri forsendu að leggi þeir fram svokallað stöðugleikaframlag sæta eignir þeirra ekki lengur fjármagnshöftum og eru þeir því undanþegnir þeim takmörkunum sem kveðið er á um í fyrrnefndum lögum um gjaldeyrismál.
    Í ákvæðinu er lagt til að sú undanþága sem fyrir er í 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna verði rýmkuð en hún tekur til skuldabréfa sem gefin eru út af fjármálafyrirtækjum og orkufyrirtækjum. Með breytingunni nær undanþágan einnig til vaxta af skuldabréfum sem gefin eru út af lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, en sæta slitameðferð skv. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eða hafa lokið slitameðferð með nauðasamningi sem hlotið hefur staðfestingu dómstóla. Undanþágan nær til vaxta af skuldabréfum sem þessir lögaðilar gefa út til efnda á nauðasamningum bæði meðan þeir sæta formlegri slitameðferð og einnig eftir að slitameðferð er lokið.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, skal m.a. leggja sérstakan skatt á aðila sem sæta slitameðferð, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í ákvæðinu er lagt til að kveðið verði skýrt á um það að skattskyldan taki ekki til þeirra lögaðila sem lokið hafa slitameðferð með nauðasamningi sem hlotið hefur endanlega staðfestingu dómstóla og er því ætlað að taka af allan vafa um það við hvaða tímamark skattskyldu þessara aðila lýkur samkvæmt lögunum.

Um 3. gr.

    Með 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 103. gr. a laganna sem fjallar um lok slitameðferðar.
    Með a-lið er lagt til að við 3. mgr. greinarinnar bætist heimild fyrir slitastjórn til þess að leggja fram tillögu á kröfuhafafundi sem kveður á um að einungis þeir kröfuhafar sem skráðir eru í kröfuskrá á þeim degi sem frumvarp að nauðasamningi er lagt fram hafi heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi. Ef aðilaskipti verða að kröfum eftir það tímamark er ekki lokað á það að nýr kröfuhafi greiði atkvæði um nauðasamninginn á þar til gerðum fundi heldur geti hann mætt á fundinn eða sent slitastjórn erindi fyrir fundinn um að aðilaskipti hafi orðið að kröfunni og lagt fram sönnun um aðilaskiptin. Hið sama gildir einnig að breyttu breytanda eftir að fundurinn hefur farið fram og nauðasamningur hefur verið staðfestur og fram að því tímamarki að greiðsla til kröfuhafa samkvæmt ákvæðum nauðasamningsins fer fram.
    Breytingin sem lögð er til í b-lið er til að árétta inntak málsgreinarinnar um það hvenær skilameðferð lýkur formlega með nauðasamningi. Skv. 3.–6. mgr. 103. gr. a laganna er gert ráð fyrir því að formlegri slitameðferð ljúki með staðfestingu nauðasamnings samkvæmt þeim reglum sem um nauðasamningsferli og staðfestingu nauðasamnings gilda. Séu hins vegar þær aðstæður fyrir hendi hjá fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem kveðið er á um í 1. mgr. 103. gr. a laganna þá verður slitum lokið í samræmi við það. Hvað varðar þau fjármálafyrirtæki sem nú eru í slitum hér á landi mundi slíkt ekki eiga við en ekki er útilokað að slíkar aðstæður gætu komið upp í framtíðinni. Með orðalagi 2. málsl. a-liðar 3. gr. frumvarpsins er áréttað að um efndir nauðasamnings fer eftir efni hans, t.d. hver fari með það hlutverk að koma nauðasamningi í framkvæmd eftir staðfestingu en það gæti t.d. verið slitastjórn eða endurreist félag sem áður var fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Að öðru leyti er vísað í almennar athugasemdir við frumvarp þetta til nánari skýringa.
    Með c-lið greinarinnar er lagt til að hlutfallið 90 af hundraði verði fært niður í 85 af hundraði. 12. málsl. 3. mgr. greinarinnar (sem áður var 6. málsl. 3. mgr.) var breytt í meðförum Alþingis á síðasta löggjafarþingi (144. löggjafarþingi) með d-lið 2. gr. laga nr. 59/2015, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Með breytingunni var lögfest sú regla að frumvarp að nauðasamningi teldist samþykkt ef því væri greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf af samningskröfum ætti að nema samkvæmt frumvarpi að nauðasamningi en þó að lágmarki 60 hundraðshlutum og að hámarki 90 hundraðshlutum. Jafnframt er áskilið samþykki 60 hundraðshluta atkvæða þeirra atkvæðismanna sem greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi. Nokkrar röksemdir voru lagðar fram fyrir breytingunni þegar hún var gerð með lögum nr. 59/2015 og eru þær raktar í almennum athugasemdum við frumvarpið. Eftir að breytingin var gerð í meðförum Alþingis og frumvarpið samþykkt sem lög nr. 59/2015 tók fjármála- og efnahagsráðuneytið umrædda breytingu og sjónarmið að baki henni til frekari skoðunar. Að mati ráðuneytisins getur hlutfallið vel verið 85 af hundraði með sömu rökum og lögð voru fram með breytingunni á seinasta löggjafarþingi.
    Með d-lið er lagt til að 15. málsl. 3. mgr. greinarinnar færist og komi á eftir 12. málsl. 3. mgr. Telja verður eðlilegt að núgildandi 15. málsl. 3. mgr. komi í kjölfar 12. málsl. 3. mgr. greinarinnar en báðir málsliðirnir fjalla um hlutfall að baki samþykkis nauðasamnings. Við setningu laga nr. 59/2015 urðu þau mistök að tveir nýir málsliðir lentu á röngum stað.

Um 4. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki (nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja).

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að greiða fyrir gerð nauðasamninga fallinna fjármálafyrirtækja.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting á lögum um tekjuskatt þess efnis að undanþága frá skattskyldu vaxtatekna í 8. tölul. 3. gr. laganna taki einnig til vaxtatekna af skuldabréfum sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja gefa út til kröfuhafa til efnda á nauðasamningum. Upplýsingar eða gögn um þá kröfuhafa sem koma til með að hafa vaxtatekjur af þessum skuldabréfum liggja ekki fyrir og erfitt er að segja með vissu hvort ríkissjóður verði af einhverjum tekjum vegna þessara breytinga. Talið er að umtalsverður hluti þessara kröfuhafa hafi búsetu í ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamninga við þar sem kveðið er á um slíka undanþágu hvort sem er. Auk þess má ætla að einhver hluti slíkra skuldabréfa muni ekki bera vexti. Má því telja líklegt að tekjutap ríkissjóðs vegna þessarar undanþágu verði óverulegt. Ekki hefur verið gert sérstaklega ráð fyrir tekjum af skuldabréfum af þessum toga í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019.
    Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að í lög um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki verði bætt ákvæði sem undanskilur álagningu þess skatts þá lögaðila sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir en hafa lokið slitameðferð með nauðasamningi sem staðfestur hefur verið af dómstólum. Í athugasemdum frumvarps til laga um stöðugleikaskatt sem lögfest var á 144. löggjafarþingi og í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis um það frumvarp er miðað við að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja sem ljúka slitum með staðfestum nauðasamningi og greiðslu stöðugleikaframlaga greiði eftir það ekki sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, enda mynda skuldir skattaðila skattstofninn. Fram kemur í athugasemdum frumvarps þess sem hér er til umfjöllunar að þessi áform stjórnvalda komi ekki nægilega skýrt fram í lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og er því í frumvarpinu lagt til að úr því verði bætt með því að setja í lögin skýrt ákvæði sem undanþiggur þessa aðila álagningu skattsins. Í fyrrnefndri umsögn ráðuneytisins kemur einnig fram að gert sé ráð fyrir því að tekjum af stöðugleikaskatti verði varið til að mæta hugsanlegu tekjutapi af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki að hámarki 20 mia.kr. á árunum 2016 og 2017 hvort ár um sig miðað við þágildandi tekjuáætlun ríkissjóðs. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 og meðfylgjandi ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 er vegna varúðarsjónarmiða áætlað að sérstakur skattur á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja skili tæplega 18 mia.kr. tekjum á árunum 2016 og 2017 en falli síðan niður. Jafnframt er gengið út frá þeirri undirliggjandi forsendu að falli skatturinn fyrr niður í tengslum við losun fjármagnshafta verði ríkissjóði bætt það tekjutap með tekjum af stöðugleikaskatti og/eða stöðugleikaframlagi. Telja má líkur á að stærstur hluti stöðugleikaframlaga muni færast til tekna hjá ríkissjóði í ár, svo sem sá hluti sem greiddur verður með reiðufé og öðrum óskilyrtum eignum. Þó má gera ráð fyrir að talsverður hluti framlaganna muni falla til eða bókfærast sem tekjur á næstu árum, svo sem að hluti þeirra muni fela í sér fyrirvara um að tiltekin atburðarás gangi fram, að verðmat tiltekinna eignasafna sem yfirfærast til ríkisins kunni að hækka síðar eða að hugsanleg sala á hlutum í viðskiptabönkunum kunni að leiða til ábata fyrir ríkissjóð. Horfur eru á að tekjufærslur næstu tvö árin vegna slíkra fjármálagerninga geti orðið talsvert meiri en tekjur af sérstökum skatti á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja sem reiknað hefur verið með í ríkisfjármálaáætluninni. Ekki er því gert ráð fyrir að lögfesting þessa frumvarps raski gildandi tekjuáætlun ríkissjóðs hvað varðar nýtingu tekna af stöðugleikaskatti eða stöðugleikaframlögum til að mæta minni tekjum af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki.
    Í þriðja lagi eru í þessu frumvarpi lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þær breytingar miða annars vegar að því að auka skýrleika laganna á því hvenær slitameðferð telst formlega lokið og hins vegar að auðvelda nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja svo sem með því að lækka tilskilið hlutfall kröfuhafa sem taka þátt í atkvæðagreiðslu um samþykkt nauðasamnings. Ekki verður séð að þessar breytingar hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð.
    Í samræmi við framangreint er gert ráð fyrir því að bein áhrif frumvarpsins á fjárhag ríkissjóðs, verði það óbreytt að lögum, verði óveruleg frá því sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 og að lögfesting þess raski ekki forsendum í tekjuhlið ríkisfjármálaáætlunar fyrir árin 2016–2019.