Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 181  —  178. mál.




Fyrirspurn



til mennta- og menningarmálaráðherra um framhaldsskóla, aldur o.fl.

Frá Árna Páli Árnasyni.


1.      Hve mikið fækkaði nemendaígildum í framhaldsskólum frá skólaárinu 2013–14 til skólaársins 2014–15 og svo til nýbyrjaðs skólaárs samkvæmt áætlun í fjárlagafrumvarpi og hver er ástæða fækkunarinnar? Hversu stór hluti er vegna þess að ekki er lengur greitt með nemendum sem eru 25 ára og eldri?
2.      Hve mikið er áætlað að nemendum fækki í framhaldsskólum á yfirstandandi skólaári vegna þess að ekki er lengur greitt með nemendum 25 ára og eldri í bóknámi? Hver er áætlaður sparnaður ríkisins vegna þessarar aðgerðar?
3.      Hve margir nemendur 25 ára og eldri er áætlað að færist frá framhaldsskólastiginu yfir í Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Keili á ári? Hve margir 25 ára og eldri má áætla að hætti við framhaldsnám þegar framhaldsskólar í heimabyggð fá ekki lengur greitt fyrir að bjóða upp á það?
4.      Hvernig verður skipt þeim 105 millj. kr. sem samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að verði varið til fullorðinsfræðslu til að mæta þörf nemenda yfir 25 ára aldri fyrir nám í samræmi við yfirlýsingu aðila vinnumarkaðarins frá 28. maí 2015?
5.      Hver eru áætluð útgjöld ríkisins af framlögum til frumgreinanáms við Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Keili á yfirstandandi skólaári, sundurliðað eftir stofnunum? Hver er hækkun þeirra útgjalda frá skólaárunum 2013–14 og 2014–15? Hverjar eru horfurnar fyrir skólaárið 2016–17?
6.      Hversu háum fjárhæðum er varið til lánveitinga úr LÍN til nemenda í frumgreinanámi við Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Keili á yfirstandandi skólaári og tveimur síðustu, sundurliðað eftir skólagjaldalánum annars vegar og framfærslulánum hins vegar? Hver er spá ráðuneytisins um framtíðarþróun þessara útgjalda að óbreyttum útlánareglum?
7.      Hvaða fagleg greining lá að baki þeirri ákvörðun ráðuneytisins að greiða ekki lengur með nemendum 25 ára og eldri í bóknámi í framhaldsskólum? Hvaða kostnaðar- og ábatagreining lá að baki þeirri ákvörðun?
8.      Telur ráðuneytið frumgreinanám fullnægjandi grunn fyrir allt háskólanám?


Skriflegt svar óskast.