Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 183  —  180. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.


Flm.: Kristján L. Möller, Össur Skarphéðinsson, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé,
Helgi Hrafn Gunnarsson, Árni Páll Árnason, Steinunn Þóra Árnadóttir,
Brynhildur Pétursdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Svandís Svavarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um réttindi fatlaðs fólks sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 13. desember 2006.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að fullgilda samning um réttindi fatlaðs fólks sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 13. desember 2006. 1 Samningurinn er fylgiskjal með tillögunni.
    Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja jafna stöðu allra einstaklinga óháð skerðingum. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skuli fötluðu fólki sömu mannréttindi og tækifæri og öðrum.
    Í samningnum felst viðurkenning alþjóðasamfélagsins á því að fatlað fólk hafi í gegnum tíðina ekki notið sama réttar og tækifæra til samfélagsþátttöku og aðrir. Samningurinn byggist á félagslegri sýn á fötlun, sbr. 2. mgr. 1. gr. samningsins, sem segir að til fatlaðs fólks teljist m.a. þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.
    Samningurinn var samþykktur 13. desember 2006 með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 61/611. Hann var lagður fram til undirritunar í New York 30. mars 2007 og undirritaður fyrir Íslands hönd sama dag. Samningurinn tók gildi 3. maí 2008 þegar 20 ríki höfðu fullgilt hann. 156 ríki eru nú aðilar að honum, auk Evrópusambandsins.
    Við undirritun samningsins af hálfu Íslands var ekki talið nauðsynlegt að gera fyrirvara við einstök ákvæði hans. Hér á eftir verður gerð grein fyrir ákvæðum samningsins með hliðsjón af íslenskum lagaákvæðum.

Efni samningsins.
    Uppbygging samningsins er með sama hætti og annarra nýlegra mannréttindasamninga, svo sem barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í formálsorðum samningsins er áréttað að mannréttindi séu samtvinnuð, óumdeilanleg og gagnvirk. Þess vegna er ákvæðum sem fjalla um stjórnmálaleg réttindi blandað saman við ákvæði sem fjalla um réttindi af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum toga. Samningurinn er þar með, líkt og barnasáttmálinn, heildrænn þegar skyldum ríkja er lýst.
    Samningurinn skiptist í fimm hluta. Í fyrsta hluta koma fram, auk formálsorða, markmið samningsins og skilgreiningar. Í öðrum hluta (3.–9. gr.) er að finna grundvallarreglur samningsins. Í þriðja hluta (10.–30. gr.) er kveðið á um þau réttindi sem eiga að njóta verndar samkvæmt samningnum. Í fjórða hluta (31.–40. gr.) eru ákvæði um framkvæmd samningsins og eftirlit með honum og í fimmta hluta (41.–50. gr.) eru hefðbundnar lokagreinar.

Réttindi sem njóta verndar samkvæmt samningnum.
    Samningurinn er fyrst og fremst jafnréttissamningur sem á að tryggja fötluðu fólki jafna stöðu á við aðra. Mörg ákvæðin fela í sér skyldu ríkisins til þess að vinna að stöðugum framförum í málaflokknum, með öðrum orðum fela í sér viðvarandi verkefni við að virða, vernda og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Með hliðsjón af þeirri staðreynd að mannréttindavernd er viðvarandi verkefni ber að líta til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við skýringar á samningnum og greinum hans.
    Markmiðið með samningnum er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess (1. mgr. 1. gr.). Samningurinn nær til alls fatlaðs fólks. Til fatlaðs fólks teljast m.a. þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem mæta ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra (2. mgr. 1. gr.). Meginreglur samningsins eru: a) virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði, þ.m.t. frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga, b) bann við mismunun, c) full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar, d) virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni, e) jöfn tækifæri, f) aðgengi, g) jafnrétti á milli karla og kvenna, h) virðing fyrir getu fatlaðra barna sem þróast og breytist og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína (3. gr.). Aðildarríkjum ber að tryggja fötluðu fólki þau réttindi sem samningurinn kveður á um með því að samþykkja viðeigandi lagaákvæði og stjórnsýsluráðstafanir, með stefnumótun og með því að útrýma mismunun, framkvæma og efla rannsóknir á algildri hönnun, vörum, þjónustu og tækjum, láta fólki í té upplýsingar á aðgengilegu formi, virða, vernda og gera ráðstafanir til að gera efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum hærra undir höfði og sinna samráðsskyldu við stefnumótun og lagasetningu (4. gr.). Aðildarríkin viðurkenna að allir séu jafnir fyrir lögum og að hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar skuli bönnuð. Í því skyni skuli aðildarríkin gera ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki viðeigandi aðlögun. Nauðsynlegar sérstakar ráðstafanir til að flýta fyrir eða til þess að ná fram jafnrétti teljast ekki til mismununar samkvæmt samningnum (5. gr.).
    Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismununar og skulu þau gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær njóti til fulls allra mannréttinda og frelsis til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja þroska, framgang og valdeflingu kvenna (6. gr.). Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn (7. gr.).
    Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að standa að vitundarvakningu á öllum sviðum samfélagsins, vinna gegn staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki. Umræddar ráðstafanir skulu einnig vera til þess að auka vitund um getu og framlag fatlaðs fólks (8. gr.).
    Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Ráðstafanirnar skulu miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að efnislegu umhverfi, samgöngum, upplýsingum og samskiptum (9. gr.).
    Aðildarríkin árétta að sérhver manneskja eigi rétt til lífs (10. gr.). Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir (11. gr.).
    Í samningnum er kveðið á um sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fatlað fólk á alls staðar rétt á viðurkenningu sem aðilar að lögum og skal njóta gerhæfis til jafns við aðra og skulu aðildarríkin tryggja aðgengi að þeim stuðningi sem þörf er á. Skulu ráðstafanirnar vera viðeigandi og árangursríkar. Ráðstafanirnar skulu vera í samræmi við og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings. Ríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að erfa og eiga eignir. Jafnframt skal tryggt að fatlað fólk verði ekki svipt eignum sínum (12. gr.).
    Virkur aðgangur fatlaðs fólks að réttarkerfinu skal vera tryggður (13. gr.). Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk njóti réttar til frelsis og mannhelgi til jafns við aðra og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu (14. gr.). Frelsi frá pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu skal tryggt (15. gr.). Einnig skal tryggja frelsi frá misnotkun, ofbeldi og misþyrmingum (16. gr.) Allt fatlað fólk á rétt á því að líkamleg og andleg friðhelgi þess sé virt (17. gr.).
    Aðildarríkin skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks til ferðarfrelsis til jafns við aðra, m.a. að ábyrgjast að fatlað fólk hafi rétt til að öðlast ríkisfang og hafi frelsi til að yfirgefa hvaða land sem er. Fötluð börn skulu eiga sama rétt og önnur til skráningar, nafngiftar og þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra (18. gr.).
    Samningurinn kveður á um rétt fatlaðs fólks til þess að lifa sjálfstæðu lífi og lífi án aðgreiningar í samfélaginu, m.a. með því að tryggja að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform gildir. Einnig skal tryggt að fatlað fólk hafi aðgang að margs konar félagsþjónustu, svo sem aðstoð inni á heimili og öðrum stuðningi, m.a. persónulegri aðstoð sem er nauðsynleg til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu. Jafnframt skal tryggt að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða (19. gr.).
    Aðildarríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi og að hvetja framleiðendur hjálpartækja til þess að horfa til allra möguleika fatlaðs fólks til að fara sinna ferða (20. gr.).
    Kveðið er á um tjáningar- og skoðanafrelsi í samningnum. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, m.a. með því að láta fötluðu fólki í té upplýsingar sem almenningi eru ætlaðar í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni. Aðildarríkin skulu viðurkenna og auðvelda notkun táknmáls, blindraleturs og óhefðbundinna tjáskiptaleiða. Fjölmiðlar skulu hvattir til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki (21. gr.).
    Ákvæði eru í samningnum um virðingu fyrir einkalífi (22. gr.) og virðingu fyrir heimili og fjölskyldu (23. gr.).
    Í samningnum eru almenn ákvæði um menntun fatlaðs fólks (24. gr.), heilsu (25. gr.), hæfingu og endurhæfingu (26. gr.) og vinnu og starf (27. gr.). Einnig viðurkenna aðildarríkin rétt fatlaðs fólks til viðunandi lífskjara og sífellt batnandi lífsskilyrða (28. gr.), einnig skulu aðildarríkin tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra (29. gr.). Þá er kveðið á um rétt fatlaðs fólks til þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi (30. gr.).
    Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum sem gera þeim kleift að ná markmiðum samningsins (31. gr.). Aðildarríkin viðurkenna einnig mikilvægi alþjóðlegs samstarfs (32. gr.).

Framkvæmd samningsins.
    Aðildarríkin skulu koma á kerfi til þess að vinna að framkvæmd samningsins og hafa eftirlit með honum innan lands. Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu (33. gr.).
    Sérstök nefnd skal fylgjast með framkvæmd samningsins (34. gr.). Aðildarríkjum ber að senda nefndinni heildstæða skýrslu um þær ráðstafanir sem ríki gera í því skyni að efna skuldbindingar sínar innan tveggja ára frá því að samningurinn öðlast gildi. Eftir það skulu skýrslur sendar eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti (35. gr.). Nefndin tekur skýrslurnar til umfjöllunar og leggur fram almenn tilmæli (36. gr.). Nefndin skal eiga í samstarfi við aðildarríkin (37. gr.) og sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna (38. gr. og 39. gr.).
    Í 40.–50. gr. eru hefðbundin ákvæði um þing aðildarríkjanna, vörslu samningsins, samþykki samningsins, gildistöku, fyrirvara, breytingar, úrsögn og gildi texta. Í 44. gr. er fjallað um aðild svæðisbundinna samvinnustofnana. Einnig kemur fram að texti samningsins skuli vera til á aðgengilegu sniði (49. gr.).

Athugasemdir við einstakar greinar samningsins.
1. gr.
    Í fyrstu grein samningsins er fjallað um markmið samningsins og skilgreint hverjir teljast til fatlaðs fólks. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Til fatlaðs fólks teljast m.a. þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.
    Í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Einnig er tekið fram að við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.
    Samningurinn stangast ekki á við umrædd markmiðsákvæði laganna. Þó ber þess að geta að skerpa mætti á umræddu ákvæði laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992.

2. gr.
    Í greininni eru grundvallarhugtök samningsins skilgreind og hafa þær skilgreiningar áhrif á skýringu allra efnisgreina samningsins. Gildandi lög stangast ekki á við ákvæðið.

3. gr.
    Í 3. gr. samningsins er kveðið á um almennar meginreglur hans. Þær hafa einnig áhrif á skýringu hugtaka og efnisgreina samningsins. Gildandi löggjöf stangast ekki á við ákvæðið.

4. gr.
    Í 4. gr. er kveðið á um almennar meginreglur samningsins. Gildandi löggjöf stangast ekki á við ákvæði samningsins. Segja má að virðing gagnvart þessum meginreglum sé viðvarandi verkefni sem ávallt skuli gæta að við alla stefnumótun, áætlanagerð og löggjafarstarf.

5. gr.
    Ákvæðið kveður á um jafnræði og bann við mismunun. Ákvæðið er byggt á sama grunni og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Bann við mismunun er hliðstætt 2. mgr. 2. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, 1. mgr. 2. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, og 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í framhaldi af fullgildingu þyrfti að leggja fram frumvarp um breytingu á 180. og 235. gr. almennra hegningarlaga, þar sem banni við mismunun á grundvelli fötlunar væri bætt við ákvæðin.

6. gr.
    Ákvæðið tengist með beinum hætti 65. gr. stjórnarskrárinnar og alþjóðasamningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum og lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Greinin felur í sér viðvarandi verkefni sem ávallt skal gæta að við alla stefnumótun, áætlanagerð og löggjafarstarf.

7. gr.
    Ákvæðið tengist barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnalögum og barnaverndarlögum. Greinin felur í sér viðvarandi verkefni sem ávallt skal gæta að við alla stefnumótun, áætlanagerð og löggjafarstarf.

8. gr.
    Baráttan gegn hamlandi viðhorfum er einn af hornsteinum samningsins. Greinin felur í sér viðvarandi verkefni sem ávallt skal gæta að við alla stefnumótun, áætlanagerð og löggjafarstarf.

9. gr.
    Ákvæðið tengist lögum um mannvirki, nr. 160/2010, skipulagslögum, nr. 123/2010, fjarskiptalögum, nr. 81/2003, lögum um þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda, nr. 160/2008, siglingalögum, nr. 34/1985, lögum um loftferðir, nr. 60/1998, lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, o.fl. Greinin felur í sér viðvarandi verkefni sem ávallt skal gæta að við alla stefnumótun, áætlanagerð og löggjafarstarf.

10. gr.
    Ákvæðið er hliðstætt ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki hefur verið talin þörf á lagabreytingum á grundvelli þessa ákvæðis.

11. gr.
    Ákvæðið tengist lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, og lögum um samræmda neyðarsímsvörun, nr. 25/1995. Gildandi löggjöf og framkvæmd rýmingaráætlana stangast ekki á við ákvæðið.

12. gr.
    Ákvæðið tengist lögræðislögum, nr. 71/1997, og lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Lögræðislögum var breytt með lögum nr. 84/2015 til að gæta samræmis við þessa grein. Ekki er þörf á að breyta lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

13. gr.
    Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, og lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, eiga að tryggja aðgang að réttarkerfinu. Gildandi löggjöf er í samræmi við samninginn að þessu leyti. Sá hluti greinarinnar sem kveður á um viðeigandi þjálfun og fræðslu fyrir þá sem starfa á sviði réttindagæslu felur í sér viðvarandi verkefni sem ávallt skal gæta að við alla stefnumótun, áætlanagerð og löggjafarstarf.

14. gr.
    Ákvæðið tengist m.a. lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Þeim lögum var breytt með lögum nr. 84/2015, til samræmis við ákvæðið.

15. gr.
    Gildandi löggjöf er í samræmi við ákvæðið.

16. gr.
    Gildandi löggjöf er í samræmi við ákvæðið. Þó þarf að tryggja í kjölfar fullgildingar að bann við mismunun á grundvelli fötlunar verði tryggt með sérstökum hætti í upptalningu 180. og 235. gr. almennra hegningarlaga, 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

17. gr.
    Gildandi löggjöf er í samræmi við ákvæðið.

18. gr.
    Ákvæðið tengist lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Gildandi löggjöf er í samræmi við ákvæðið. Þó þarf að huga að því í kjölfar fullgildingar að sett skal inn ákvæði um rétt fatlaðra barna til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.

19. gr.
    Ákvæðið tengist lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og reglugerð nr. 1054/2010, um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu. Í kjölfar fullgildingar þarf að tryggja rétt fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs.

20. gr.
    Ákvæðið tengist lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, og lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Gildandi löggjöf er í samræmi við ákvæðið. Sá hluti greinarinnar sem kveður á um viðeigandi þjálfun og fræðslu felur í sér viðvarandi verkefni sem ávallt skal gæta að við alla stefnumótun, áætlanagerð og löggjafarstarf.

21. gr.
    Ákvæðið er hliðstætt 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 13. gr. barnasáttmálans. Í 73. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

22. gr.
    Ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, eru í samræmi við greinina. Íslensk löggjöf er í samræmi við þessa grein.

23. gr.
    Hjúskaparlög, nr. 31/1993, tengjast þessu ákvæði. Lögin eru í samræmi við ákvæðið. Ákvæðið tengist einnig barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Í kjölfar fullgildingar þarf að tryggja að mat á foreldrahæfni sé ávallt gert með hliðsjón af þeim félagslega stuðningi sem fatlaður einstaklingur á rétt á og að barn sé aldrei tekið frá foreldrum sínum sakir fötlunar barnsins eða foreldrisins. Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, skulu skoðuð í framhaldi af fullgildingu.

24. gr.
    Íslensk lög eru í samræmi við þessa grein. Í því sambandi er bent á lög um leikskóla, nr. 90/2008, lög um grunnskóla, nr. 91/2008, lög um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, lög um háskóla, nr. 63/2006, lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, og lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992.

25. gr.
    Íslensk lög eru í samræmi við þessa grein. Í því sambandi má benda á lög um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, og lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Í framhaldi af fullgildingu ætti að tryggja bann við mismunun á grundvelli fötlunar við upptalningu 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga.

26. gr.
    Íslensk lög eru í samræmi við þessa grein.

27. gr.
    Ákvæðið varðar m.a. ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og laga um opinber innkaup, nr. 84/2007. Í kjölfar fullgildingar skal frumvarp lagt fram sem tryggi bann við mismunun á grundvelli fötlunar á vinnumarkaði, líta má þar til tilskipunar nr. 2000/78/EB.

28. gr.
    Ákvæðið tengist m.a. lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, lögum um eftirlaun til aldraðra, nr. 113/1994, og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Ákvæði felur í sér skyldu ríkisins til að tryggja fötluðu fólki viðunandi lífskjör og stöðugt batnandi lífsskilyrði, án mismununar vegna fötlunar. Ákvæðið felur þar með í sér viðvarandi verkefni til að bæta stöðu fatlaðs fólks til jafns við aðra.

29. gr.
    Ákvæðið varðar m.a. lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, og lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Ákvæðum kosningalaga var breytt með lögum nr. 111/2012 til samræmis við ákvæði samningsins.

30. gr.
    Íslensk lög eru í samræmi við þessa grein, sbr. m.a. lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, lög um fjölmiðla, nr. 38/2011, bókasafnalög, nr. 150/2012, safnalög, nr. 141/2011, lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011, lög um menningarminjar, nr. 80/2012, lög um Þjóðminjasafn Íslands, nr. 140/2011, höfundalög, nr. 72/1973, lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, íþróttalög, nr. 64/1998, og æskulýðslög, nr. 70/2007.

31. gr.
    Íslensk lög eru í samræmi við þessa grein, sbr. lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð, nr. 163/2007.

32. gr.
    Íslensk lög eru í samræmi við þessa grein, sbr. t.d. lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008.

33. gr.
    Ákvæði 33. gr. kveður á um framkvæmd og eftirlit innan lands. Almennt er viðurkennt að ákvæði íslenskra laga eru ekki í samræmi við ákvæði greinarinnar. Þörf er á sjálfstæðri stofnun sem hefur eftirlit með réttindunum sem kveðið er á um í samningnum, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Að því sögðu skal hér tekið fram að þó svo að slíku kerfi hafi ekki verið komið á, kemur það ekki í veg fyrir fullgildingu samningsins. Skortur á uppbyggingu eftirlitsúrræða getur aldrei réttlætt seinkun á þátttöku Íslands í alþjóðlegu mannréttindastarfi. Í kjölfar fullgildingar skal unnið að því að koma á fót viðeigandi eftirlitsstofnun hér á landi.

34.–50. gr.
    Þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Um nauðsyn fullgildingar samningsins.
    Líkt og að framan greinir var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks undirritaður fyrir Íslands hönd 30. mars 2007. Með þeirri undirritun var stigið hálft skref í átt að því að gera samninginn skuldbindandi á Íslandi. Ákvæði 43. gr. samningsins hefur að geyma fyrirvara um fullgildingu. Nú þegar hefur 151 af 157 aðilum að samningnum fullgilt hann.
    Að mati flutningsmanna þessarar tillögu er tímabært að íslensk stjórnvöld aflétti fyrirvaranum og stígi skrefið til skuldbindingargildis þessa mikilvæga samnings til fulls.


Fylgiskjal.


Samningur um réttindi fatlaðs fólks.



www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s0183-f_I.pdf


Neðanmálsgrein: 1
1     www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2013/CRPD-islensk-thyding---lokaskjal.pdf