Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 187  —  96. mál.
Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur
um endurgreiðslukröfur Fæðingarorlofssjóðs.


     1.      Hversu margar kröfur hafa verið gerðar um endurgreiðslu fæðingarorlofs frá árinu 2005?
    Meðfylgjandi er tafla frá Fæðingarorlofssjóði þar sem fram kemur sundurliðun á endurgreiðslukröfum sjóðsins frá árinu 2005. Í töflunni kemur m.a. fram að flestar endurgreiðslukröfur á umræddu tímabili hafa verið gerðar á árunum 2011–2013.

    Tafla 1.
Fjöldatölur Heildarfjárhæðir
Heildarfjöldi Feður Mæður Heildarfjárhæðir Feður Mæður
Árið 2005
Árið 2006
Árið 2007 1 1 824.632 824.632
Árið 2008 4 3 1 1.745.272 331.442 1.413.830
Árið 2009 17 12 5 4.126.913 3.567.844 559.069
Árið 2010 64 52 12 10.127.083 9.014.021 1.113.062
Árið 2011 651 498 153 76.255.740 63.496.419 12.759.321
Árið 2012 804 580 224 78.758.550 61.416.134 17.342.416
Árið 2013 553 360 193 53.685.535 37.519.509 16.166.026
Árið 2014 92 58 34 8.382.022 5.998.239 2.383.783
2.186 1.564 622 233.905.747 182.168.240 51.737.507

     2.      Hversu margar endurgreiðslukröfur hafa verið gerðar á hendur foreldrum, sundurliðað eftir stöðu þeirra á vinnumarkaði, þar á meðal hvort þeir séu í fullu starfi, hlutastarfi eða sjálfstætt starfandi?
     3.      Hversu margar endurgreiðslukröfur hafa verið gerðar á hendur foreldrum, sundurliðað eftir því hvort þeir hófu og luku töku fæðingarorlofs um mánaðamót eða á öðrum tíma mánaðar?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði hafa ekki verið unnar greiningar í þessu sambandi er varða stöðu foreldra á vinnumarkaði eða hvenær foreldrar hófu og luku töku fæðingarorlofs. Umbeðnar upplýsingar liggja því ekki fyrir.

     4.      Hversu margar endurgreiðslukröfur hafa verið látnar niður falla eftir að gögn og skýringar hafa borist frá foreldrum, hversu mörgum endurgreiðslukröfum hafa foreldrar orðið við og hversu mörgum hefur verið skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði er öllum foreldrum, sem ekki leggja niður störf eða þiggja of háar greiðslur frá vinnuveitanda á sama tíma og viðkomandi fær greitt úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 15. gr. b laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sent bréf þar sem tilkynnt er um upphaf máls í samræmi við 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, og málið er síðan rannsakað í samræmi við 10. og 13. gr. sömu laga. Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði hafa framangreindar rannsóknir leitt til þess að um helmingur allra mála frá árinu 2005 hefur verið felldur niður þannig að annaðhvort hefur aldrei verið gerð endurkrafa á hendur viðkomandi foreldri eða gögn hafa borist frá foreldri í kjölfar endurkröfu sjóðsins sem leitt hefur til niðurfellingar máls.
    Af þeim 2.186 málum þar sem gerð var endurkrafa á hendur foreldrum á umræddu tímabili (sbr. töflu 1) voru 167 mál að fjárhæð 16.755.866 kr. felld niður í kjölfar þess að fullnægjandi gögn bárust frá viðkomandi foreldrum. Hinn 31. október 2014 höfðu þeir 2.019 foreldrar sem eftir stóðu endurgreitt 193.330.093 kr. og stóðu viðskiptakröfur þá í 23.819.788 kr.
    Þess ber að geta að í kjölfar álita umboðsmanns Alþingis nr. 7022/2012, 7775/2013 og 7790/2013 og orðalags 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, hafa ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs á umræddu tímabili um endurkröfu á hendur foreldrum verið felldar niður og endurgreiðslur foreldra greiddar til baka með vöxtum í samræmi við 5. mgr. 15. gr. a laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Jafnframt hafa verið felld niður öll mál á hendur foreldrum sem Fæðingarorlofssjóður hefur haft til meðferðar þar sem um hefur verið að ræða endurkröfu á hendur foreldrum vegna greiðslna úr sjóðnum. Í því skyni að mæta fyrrnefndum endurgreiðslum Fæðingarorlofssjóðs til foreldra samþykkti Alþingi 70 millj. kr. fjárveitingu í fjáraukalögum ársins 2014. Auk þess voru 215 millj. kr. samþykktar á Alþingi í fjárlögum ársins 2015 til umræddra endurgreiðslna.
    Eftirfarandi upplýsingar fengust hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála um fjölda mála sem nefndinni hefur borist frá árinu 2005 þar sem ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um endurkröfu á hendur foreldri vegna greiðslna úr sjóðnum hefur verið kærð:
     *      Árið 2005 barst ekkert mál.
     *      Árið 2006 barst eitt mál og var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest.
     *      Árið 2007 barst ekkert mál.
     *      Árið 2008 bárust tvö mál og var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest í öðru þeirra.
     *      Árið 2009 bárust þrjú mál og var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest í tveimur þeirra.
     *      Árið 2010 bárust átta mál og var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest í sex þeirra.
     *      Árið 2011 bárust nítján mál og var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest í fjórtán þeirra.
     *      Árið 2012 bárust fimmtíu og fimm mál og var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest í þrjátíu og einu þeirra.
     *      Árið 2013 bárust tuttugu og fjögur mál og var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest í tólf þeirra.
     *      Árið 2014 bárust sex mál og var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest í fjórum þeirra.
    Samkvæmt upplýsingum frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur ekkert mál borist nefndinni það sem af er árinu 2015 þar sem ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um endurkröfu á hendur foreldri vegna greiðslna úr sjóðnum hefur verið kærð.

     5.      Hversu margir úrskurðir úrskurðarnefndarinnar hafa staðfest ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um endurgreiðslukröfu?
    Sjá svar við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.