Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 188  —  183. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.

Flm.: Vilhjálmur Árnason, Valgerður Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Willum Þór Þórsson, Karl Garðarsson, Birgitta Jónsdóttir.

1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Stefnandi faðernismáls getur verið barnið sjálft, móðir þess, maður sem telur sig föður barns eða foreldri ákvarðað skv. 2. mgr. 6. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var flutt á 144. löggjafarþingi (469. mál) og er nú endurflutt óbreytt.
    Í frumvarpinu er lagt til að manni sem telur sig föður barns verði í barnalögum veitt heimild til höfðunar faðernismáls.
    Við setningu núgildandi barnalaga, nr. 76/2003, var sett ákvæði sem fól í sér afdráttarlausa skyldu móður til að feðra barn sitt. Með þessum breytingum var réttur barns til að þekkja báða foreldra sína virtur, sbr. ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Þegar frumvarp til nýrra barnalaga var lagt fram á Alþingi árið 2002 var lögð til breyting á ákvæðum barnalaga um aðild að faðernismálum, þannig að maður sem teldi sig föður barns gæti höfðað faðernismál. Ákvæði frumvarpsins var í samræmi við meginreglur sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um lagalega stöðu barns. Í athugasemdum við frumvarpið var vísað til dóms Hæstaréttar frá 18. desember árið 2000, en þar var fjallað um heimild manns til þess að fá úr því skorið með dómi hvort hann væri faðir barns en samkvæmt þágildandi barnalögum var sóknaraðili faðernismáls barnið sjálft eða móðir þess. Í framangreindu máli hafði maður leitt að því líkur að hann væri faðir tiltekins barns og krafðist hann viðurkenningar á því. Héraðsdómur hafði vísað málinu frá á þeim grundvelli að maðurinn gæti ekki samkvæmt barnalögum átt aðild að faðernismáli. Niðurstaða Hæstaréttar var hins vegar sú að eins og á stæði gætu takmarkanir barnalaga á aðild faðernismáls ekki staðið í vegi fyrir því að maðurinn fengi úrlausn dómstóla um efniskröfur sínar. Ákvæði barnalaga voru með öðrum orðum talin brjóta gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í ljósi dóms Hæstaréttar og þeirrar afdráttarlausu skyldu móður til að feðra barn sitt var lögð til breyting á ákvæðum barnalaga um aðild að faðernismálum.
    Við meðferð frumvarpsins fyrir allsherjarnefnd var lögð til sú breyting á 10. gr. frumvarpsins að stefnandi faðernismáls gæti verið barnið sjálft, móðir þess eða maður sem teldi sig föður barns. Lagt var til að við þetta bættist „enda hafi barnið ekki verið feðrað“. Með breytingunni, sem nefndin lagði til, var lögð á það áhersla að hefði barn verið feðrað eftir almennum feðrunarreglum væri málshöfðun ekki heimil samkvæmt þessu ákvæði. Megintilgangurinn með þessari breytingu var að koma í veg fyrir tilhæfulausar málshöfðanir.
    Verulegar breytingar hafa orðið á viðhorfum í barnarétti og hefur kastljósinu í auknum mæli verið beint að þeim rétti barns að þekkja báða foreldra sína og rétti þess til að njóta samvista við þá. Viðurkenning á rétti manns, sem telur sig föður barns, til að höfða faðernismál er til þess fallin að styrkja þessi réttindi barns. Núgildandi löggjöf felur í sér takmörkun á stjórnarskrárvörðum rétti aðila sem telur sig föður barns, sér í lagi ef litið er til þeirra ákvæða er fjalla um feðrunarreglur um börn hjóna og foreldra í skráðri sambúð þar sem barnið feðrast sjálfkrafa. Í ljósi þessa, sem og því sem fram kemur í áðurnefndum dómi Hæstaréttar, er lagt til að horfið verði til upphaflegra tillagna sifjalaganefndar um fyrrgreindar breytingar á málsaðild föður.