Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 202  —  97. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um kynáttunarvanda og lagaframkvæmd.


     1.      Hvaða verklagsreglum og fyrirmyndum er einkum fylgt við framkvæmd laga nr. 57/2012, um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda? Er t.d. stuðst við leiðbeiningar, aðferðir og siðareglur World Professional Association for Transgender Health (WPATH) og ef svo er, í hvaða mæli og hvaða útgáfa leiðbeininganna er notuð? Er stuðst við aðrar verklagsreglur í þeirra stað eða samhliða þeim?
    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur teymi spítalans um kynáttunarvanda stuðst við verklagsreglur sem miðast að nokkru leyti við Standards of Care frá WPATH (2012). Auk þess hefur teymið fylgt leiðbeiningum til sænskra lækna sem fram koma í Nationellt kundskapsstöd för vård och behandling av personer med könsdysfori frá Socialstyrelsen (2014). Einstakir starfsmenn teymisins hafa aflað sér reynslu og þekkingar hjá öðrum heilbrigðisstofnunum sem með þessi mál fara og hefur sú menntun nýst við gerð verklagsreglna.

     2.      Hefur teymi Landspítala um kynáttunarvanda samstarf við erlenda aðila og ef svo er, við hverja og í hverju er það einkum fólgið? Hversu oft er leitað eftir upplýsingum frá samstarfsaðilum eða ráðgjöfum?
    Teymið hefur átt í nánu samstarfi við sænska lækna sem fást við kynáttunarvanda þar í landi og leitað ráðgjafar hjá þeim. Frá árinu 2007 hefur teymið unnið með skurðlækninum Gunnari Kratz frá Linköping sem bæði hefur gert aðgerðir á Íslendingum í Svíþjóð og á Landspítalanum. Teymið hefur einnig átt í samstarfi við sænskan talmeinafræðing varðandi talþjálfun og greiningu. Í ljósi þessa þótti teyminu eðlilegt að sníða verklagsreglur að mestu eftir sænskri fyrirmynd.
    Óttar Guðmundsson, geðlæknir á Landspítalanum, hefur um langt skeið verið meðlimur í Svensk förening för transsexuell hälsa og sótt árlega fundi félagsins. Teymi spítalans hefur auk þess sótt ráðstefnur og námstefnur um málefni fólks með kynáttunarvanda, t.d. síðustu ráðstefnu WPATH og EPATH (European Professional Association for Transgender Health).
    Nýlega hóf teymið samstarf við teymi ríkisspítalans í Amsterdam um kynáttunarvanda. Tveir sérfræðingar, sálfræðingur og innkirtlalæknir, komu nýlega til landsins og héldu tveggja daga námskeið fyrir starfsfólk geðdeildar og barna- og unglingageðdeildar (BUGL) um málefni barna með kynáttunarvanda. Fastmælum var bundið að halda því samstarfi áfram og vonast er til þess að starfsmenn teymisins á Landspítalanum geti farið til Amsterdam til að fylgjast með því starfi sem þar er unnið.

     3.      Hvernig er fylgst með greiningar- og meðferðarstarfi sem fer fram samkvæmt lögum nr. 57/2012, hvernig er gætt að eftirfylgni við verklagsreglur og hvert geta þeir einstaklingar snúið sér með umkvartanir og beiðni um úrbætur sem eru ósáttir við veitta meðferð eða telja hana ófullnægjandi?
    Eftirlit með þeim starfsmönnum Landspítalans sem vinna að málefnum einstaklinga með kynáttunarvanda er eins háttað og eftirliti með öðrum starfsmönnum spítalans. Einstaklingar sem eru ósáttir við störf teymisins eða meðferð sem þeir fá geta samkvæmt verklagsreglum spítalans kvartað til yfirstjórnar spítalans. Einnig er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættis landlæknis, sbr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustu heimilt að bera fram forlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.

     4.      Hvernig er háttað greiningu og meðferð einstaklinga undir 18 ára aldri, hvaða aðili annast slíkt, við hvaða verklagsreglur, siðareglur og aðferðir er stuðst og hver er almennur biðtími eftir greiningu og meðferð fyrir þennan hóp?
    Barna- og unglingageðdeild (BUGL) tekur á móti einstaklingum undir 18 ára aldri með kynáttunarvanda og þar er sérstakt kynáttunarteymi. Undanfarin ár hefur verið unnið að stefnumótun og verklagsreglum varðandi greiningu og meðferð einstaklinga undir 18 ára aldri með kynáttunarvanda. Verklagsreglurnar eru byggðar á verklagsreglum WPATH. Starfsmenn BUGL vinna eftir siðareglum starfsstétta.
    Verklagsreglur sem snúa að greiningu og meðferð barna með einkenni kynáttunarvanda eru þannig að tveir fagaðilar úr kynáttunarteyminu bera ábyrgð á vinnslu málsins frá komu til útskriftar. Svokallaður málastjóri ber ábyrgð á að unnið sé eftir þessu verklagi í hverju máli. Málastjóri, teymisstjóri og sérfræðilæknir eru tengiliðir við kynáttunarteymi á Landspítala og sérfræðinga á barnaspítala. Beiðnir berast til inntökuteymis BUGL og finna má nauðsynleg eyðublöð á heimasíðu BUGL. 1 Öll mál sem eru afgreidd eru sett á biðlista A-teymis á göngudeild og forgangur metinn út frá sömu forsendum og önnur mál á biðlista. Gert er ítarlegt mat á geðrænni stöðu einstaklinga með tilliti til mismunagreininga og fylgiraskana og notast við ýmis greiningartæki og matslista. Mikilvægt er talið að foreldrar eða forráðamenn taki þátt í ferlinu og metin er þörf þeirra fyrir stuðning.
    Til að greiningarskilmerkjum um kynáttunarvanda sé náð þarf að vera til staðar knýjandi og verulegt óþol gagnvart eigin líkamlegum kyneinkennum og jafnvel andúð á eða upplifun af því að kyneinkenni séu óviðeigandi fyrir viðkomandi einstakling, ásamt ósk um leiðréttingu þar að lútandi. Eftir að greining liggur fyrir er gerð meðferðaráætlun í samráði við fjölskyldu og BUGL hefur reglubundið eftirlit með einstaklingnum. Byrjað er að huga að hormónabælandi meðferð hjá barnainnkirtlalækni eftir að svokölluðu Tanner-stigi II í kynþroska er náð, en þá koma fram fyrstu einkenni kynþroska. Til þess að barn fái hormónabælandi meðferð þurfa eftirfarandi lágmarksskilyrði að vera uppfyllt:
          1.      Einstaklingurinn hefur sýnt í lengri tíma knýjandi og verulegt óþol gagnvart eigin líkamlegum kyneinkennum og jafnvel andúð á eða upplifun af því að kyneinkenni séu óviðeigandi.
          2.      Knýjandi og viðvarandi óþol og/eða óyndi gagnvart eigin kyni kom eða versnaði við upphaf kynþroska.
          3.      Öll önnur sálfræðileg, læknisfræðileg eða félagsleg vandamál sem gætu truflað meðferð (t.d. sem geta haft áhrif á meðferðarheldni) hafa verið meðhöndluð þannig að ástand viðkomandi er nógu stöðugt til að hefja meðferð.
          4.      Fyrir liggi upplýst samþykki. Þegar einstaklingur hefur ekki náð aldri til að veita slíkt samþykki þurfa foreldrar eða forráðamenn að vera samþykk meðferð og taka þátt í að styðja einstaklinginn í gegnum meðferðarferlið.
Þegar einstaklingur nær 18 ára aldri er hann útskrifaður frá BUGL og getur þá leitað til teymis Landspítalans um kynáttunarvanda.
    Meðalbiðtími eftir þjónustu göngudeildar BUGL er um 9 mánuðir, miðað við lok september 2015. Alvarleiki mála er metinn í hverju einstöku máli út frá fyrirliggjandi upplýsingum og málum forgangsraðað út frá því. Því eru sumir einstaklingar sem bíða skemur, aðrir sem bíða lengur. Á biðlistum eru oft og tíðum einstaklingar sem glíma við alvarleg geðræn vandamál. Ekki hefur þótt tilefni til þess að einstaklingar með kynáttunarvanda verði teknir fram fyrir aðra sem eiga við vanda að stríða á biðlista.

     5.      Hverjar eru forsendur þess að í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/2012 er þess krafist að einstaklingur sem óskar staðfestingar á því að tilheyra gagnstæðu kyni skuli hafa verið í gagnstæðu kynhlutverki í a.m.k. eitt ár áður en til greiningar og meðferðar kemur? Er sambærilegt skilyrði sett fyrir greiningu og meðferð í nágrannalöndunum, samræmist skilyrðið nýjustu WPATH-reglum og við hvaða verklagsreglur er stuðst við framkvæmd þess?
    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/2012, um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, getur sá sem hlotið hefur greiningu og viðurkennda meðferð hjá teymi Landspítala um kynáttunarvanda óskað staðfestingar hjá sérfræðinefnd um kynáttunarvanda um að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Með umsókn skal fylgja greinargerð teymisins og þar skal m.a. koma fram að umsækjandi hafi verið undir eftirliti teymisins í a.m.k. 18 mánuði og hafi verið í gagnstæðu kynhlutverki í a.m.k. eitt ár. Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 57/2012 kemur fram að umsækjandi telst vera í gagnstæðu kynhlutverki ef hann gengur undir nafni hins kynsins, klæðir sig í samræmi við kynhlutverkið allan sólarhringinn og kemur að öðru leyti fram, t.d. í vinnu og skóla, sem hitt kynið. Hefur þetta tímabil jafnan verið kallað reynslutímabilið. Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að reynslutímabilið sé nauðsynlegur undanfari skurðaðgerðar til leiðréttingar á kyni, þ.e. kynleiðréttandi aðgerðar, og fer fram undir handleiðslu teymis Landspítala um kynáttunarvanda. Þar kemur einnig fram að krafan um eins árs lágmarkstíma í gagnstæðu kynhlutverki sé í samræmi við alþjóðlegar vinnureglur WPATH.
    Verklagsreglur Landspítalans á þessu sviði, eins og öðrum, eru í stöðugri endurskoðun. Þess er ekki krafist að einstaklingar lifi í gagnstæðu kynhlutverki áður en til greiningar og meðferðar kemur.

     6.      Getur transfólk sem skilgreinir sig ekki eingöngu sem karlkyns eða kvenkyns fengið aðgang að þjónustu teymis Landspítala um kynáttunarvanda þótt í lögum nr. 57/2012 er einungis gert ráð fyrir að kyn geti verði tvö? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Já, þeir einstaklingar geta leitað til teymis Landspítalans og fengið aðstoð. Teymi spítalans reynir að koma til móts við óskir einstaklinga og mætir hverjum og einum þar sem hann er staddur.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.landspitali.is/bugl