Ferill 213. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 221  —  213. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970
(lóðir kirkna og prestsbústaða).

Flm.: Heiða Kristín Helgadóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Óttarr Proppé.


1. gr.

    5. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Samkvæmt 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970, er sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Einnig er kveðið á um að presti sé skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni og er þá sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans ef um embættisbústað í eigu ríkissjóðs er að ræða.
    Lögin um Kristnisjóð o.fl. byggjast í meginatriðum á tillögum prestakallanefndar sem kirkjumálaráðherra skipaði hinn 23. apríl 1965. Ljóst er að lögin voru sett á þeim tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri.
    Lög um Kristnisjóð o.fl. vísa til hinnar íslensku þjóðkirkju og má segja að ákvæði 5. gr. laganna eigi við um kirkjur hennar. Mörg sveitarfélög hafa hins vegar litið svo á að á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar beri þeim einnig að leggja til ókeypis lóðir undir sambærilegt húsnæði annarra skráðra trúfélaga og undanskilja þær gatnagerðargjaldi.
    Flutningsmenn telja að ákvæðið eigi ekki við í nútímasamfélagi þar sem lóðir eru takmörkuð auðlind. Ákvæðið felur í sér tímaskekkju þar sem sveitarfélög eru einhliða skylduð til að ráðstafa dýrmætu landi án endurgjalds til þeirra trúfélaga sem sækjast eftir því.
    Það má færa rök fyrir því að nokkurt ójafnvægi sé í aðstöðumuninum sem er milli þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Með því að fella þetta ákvæði brott sé sá munur jafnvel aukinn enn frekar. Það er hins vegar mat flutningsmanna að með því að fella brott þetta ákvæði nú þegar ýmsum trúfélögum sem óskað hafa eftir því hefur verið úthlutað lóðum í Reykjavík sé brugðist við breyttum veruleika í trúarlífi þjóðarinnar og aukinni eftirspurn eftir landsvæði vegna fólksfjölgunar. Er því lagt til að ákvæðið verði fellt brott og trúfélög greiði fyrir lóðir líkt og önnur starfsemi.