Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 239  —  89. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur
um niðurfærslu húsnæðislána samkvæmt 110%-leiðinni.


    Eftirfarandi byggist á upplýsingum sem ráðuneytinu bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) í mars 2012 og sýna stöðu niðurfærslu lána samkvæmt 110%-leiðinni í lok janúar 2012. Nýrri gögn liggja ekki fyrir en SFF hætti söfnun þessara upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum (þ.m.t. Íbúðalánasjóði) og lífeyrissjóðum á þeim tíma.

     1.      Hve miklar voru afskriftir lána að meðaltali í 110%-leiðinni?
    Heildarniðurfærslur skulda heimila vegna 110%-leiðarinnar námu 46 milljörðum kr. Alls bárust um 16.700 umsóknir (heimili). Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið frá samtökum fjármálafyrirtækja var meðalniðurfærsla lána samkvæmt 110%-leiðinni 3,6 millj. kr.

     2.      Hversu margir fengu afskriftir að upphæð:
                  a.      2.000.000–4.000.000 kr.,
                  b.      4.000.001–6.000.000 kr.,
                  c.      6.000.001–8.000.000 kr.,
                  d.      8.000.001–10.000.000 kr.,
                  e.      10.000.001–12.000.000 kr.,
                  f.      12.000.001–14.000.000 kr.,
                  g.      14.000.001–16.000.000 kr.,
                  h.      16.000.001–18.000.000 kr.,
                  i.      18.000.001–20.000.000 kr.,
                  j.      yfir 20.000.000 kr.?

     3.      Hver var hámarksafskrift einstaklings í krónum talin?
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hvernig niðurfærslur dreifðust eftir hópum. Ráðuneytið leitaði til ríkisskattstjóra eftir upplýsingum, en þær eru einungis til um þá einstaklinga sem sóttu um lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána árið 2014 og því ekki mögulegt að vinna svör um dreifingu niðurfærslu samkvæmt 110%-leiðinni úr fyrirliggjandi gögnum. Ríkisskattstjóri fékk gögnin afhent í þeim eina tilgangi að reikna rétt umsækjenda til höfuðstólslækkunar.

     4.      Hver var kostnaður af 110%-leiðinni fyrir
                  a.      ríkissjóð,
                  b.      Íbúðalánasjóð?

    Ríkissjóður bar ekki beinan kostnað af 110%-leiðinni þar sem hún var framkvæmd af fjármálafyrirtækjunum (þ.m.t. Íbúðalánasjóði) og lífeyrissjóðum samkvæmt samkomulagi við stjórnvöld. Báru þeir aðilar alfarið kostnaðinn við framkvæmdina.
    Kostnaður Íbúðalánasjóðs var um 7,5 milljarðar kr. samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og er sá kostnaður jafnframt óbeinn kostnaður ríkissjóðs.

     5.      Hver var kostnaður umboðsmanns skuldara í tengslum við 110%-leiðina?
    Í svari embættis umboðsmanns skuldara kemur fram að beinn kostnaður embættisins hafi verið 169.791 kr. vegna bréfa sem send voru til skjólstæðinga embættisins til að benda á þetta úrræði og nauðsyn þess að sækja um.

     6.      Hversu margir fengu úrlausn mála og hve lengi voru umsóknir í vinnslu að meðaltali?
    Liðlega 16.700 umsóknir bárust. Af þeim voru tæplega 13.000 samþykktar. Ekki er vitað hversu lengi umsóknir voru í vinnslu að meðaltali, en 99% umsókna voru afgreidd innan sjö mánaða frá því að umsóknarfresti lauk.

     7.      Hvernig skiptist hópurinn sem fékk úrlausn mála eftir mánaðartekjum:
                  a.      0–250.000 kr.,
                  b.      250.001–500.000 kr.,
                  c.      500.001–750.000 kr.,
                  d.      750.001–1.000.000 kr.,
                  e.      yfir 1.000.000 kr.?

     8.      Hversu margir einstaklingar sem fóru 110%-leiðina borguðu auðlegðarskatt af eigum sínum eftir afskriftir á meðan skatturinn var innheimtur?
     9.      Hvernig skiptust afskriftir samkvæmt 110%-leiðinni eftir landshlutum?
     10.      Hvernig skiptist 110%-leiðin eftir aldri þeirra sem fengu afskriftir, þ.e.:
                  a.      25–35 ára,
                  b.      36–45 ára,
                  c.      46–55 ára,
                  d.      56 ára og eldri?

    Sjá svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar hér að framan.