Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 243  —  126. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur
um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags
samkvæmt þingsályktun nr. 35/128.

    
     1.      Hvernig voru nýttar tillögur nefndar sem Byggðastofnun kallaði saman samkvæmt þingsályktun um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi, nr. 35/128?
    Forsætisráðherra fól iðnaðar- og viðskiptaráðherra að annast framkvæmd þingsályktunarinnar í júní 2003. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra fól Byggðastofnun verkefnið sem í nóvember 2003 skipaði nefndina og hafði umsjón með störfum hennar. Nefndin lauk störfum haustið 2004 og skilaði Byggðastofnun tillögum nefndarinnar til ráðherra í kjölfarið. Tillögurnar voru metnar af ráðuneytinu og voru sumar þess eðlis að framkvæmd þeirra kallaði á ákvarðanir um löggjöf á sviði skatta- og sjávarútvegsmála sem töldust ekki framkvæmanlegar fyrir eitt einstakt byggðarlag umfram önnur. Mikilvægt var talið að efla landshlutann sem eina heild og draga fram sérstöðu sveitarfélaga á Vestfjörðum sem þó voru ólík innbyrðis.
    Samhliða vinnu nefndarinnar skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra í september 2003 verkefnisstjórn til að gera tillögur til ráðherra um aðgerðir í byggðamálum fyrir Vestfirði. Verkefnisstjórnin hafði m.a. til grundvallar byggðaáætlun fyrir Vestfirði sem kom út í mars 2003 og var unnin af fulltrúum allra sveitarfélaga á Vestfjörðum og fjölda aðila úr atvinnu-, mennta- og menningarlífi Vestfjarða. Verkefnisstjórnin lagði fram grunn að nýju verklagi í uppbyggingu atvinnulífs með eflingu byggðakjarna, byggða á aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs og svæða.
    Hið nýja verklag gekk undir nafninu vaxtarsamningur og var meginverkefni hans að stuðla að uppbyggingu klasa og tengslaneta með öflugu ráðgjafa- og stuðningsferli. Vaxtarsamningar byggðust á samvinnu fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga um eflingu atvinnulífs og bætt umhverfi fyrir atvinnustarfsemi. Kostnaður samstarfsins var borinn sameiginlega af þátttakendum. Fyrsta vaxtarsamningi Vestfjarða var hleypt af stokkunum árið 2006 og til ársins 2014 styrkti samningurinn fjölmörg verkefni sem byggðust á klasahugmyndafræðinni og tengjast framþróun sjávarútvegs, ferðaþjónustu, menntun og rannsóknum.

     2.      Er áformað að grípa til aðgerða til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi eða annars staðar á grundvelli hugmynda um verndun menningarminja, menningararfs og menningarumhverfis landslags á borð við þær sem lágu að baki þingsályktun nr. 35/128?
    Mikil breyting hefur átt sér stað á samráði og samstarfi milli stjórnsýslustiga á sviði byggðamála undanfarin ár, m.a. með þróun og innleiðingu vaxtarsamninga sem þróuðust svo yfir í sóknaráætlanir. Lengi hafa sveitarfélög sóst eftir að fá meira forræði á byggðamálum. Haustið 2011 var fyrst kallað eftir tillögum frá landshlutasamtökum sveitarfélaga að sóknaráætlunarverkefnum fyrir árin 2012–2015. Verkefnið var í kjölfarið formgert innan Stjórnarráðsins og skilgreint sem samstarfsverkefni allra ráðuneyta. Skipaður var stýrihópur og tekið upp náið samstarf við landshlutasamtök sveitarfélaga. Í maí 2014 var ábyrgðin á sóknaráætlunum færð til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fyrstu skref tekin að því að samþætta framlög til byggðaþróunar í hverjum landshluta. Gerðir hafa verið samningar um svæðisbundnar þróunaráætlanir (sóknaráætlanir) milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og allra landshlutasamtaka sveitarfélaga um sóknaráætlanir landshluta til fimm ára sem undirritaðir voru 10. febrúar 2015. Í samningunum er ráðstöfun fjárframlaga sóknaráætlana, vaxtarsamninga og menningarsamninga færð í einn farveg sem heimamenn hafa ráðstöfunarvald yfir. Heildarupphæð þeirra samninga er ríflega 3,2 milljarðar kr. yfir fimm ára tímabil.
    Mikilvægt þótti að auka festu og stöðugleika þessa nýja fyrirkomulags með því að binda í lög nokkra af grunnþáttum þess. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði því fram frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir á 144. löggjafarþingi sem Alþingi samþykkti 30. júní 2015. Sóknaráætlunum er ætlað að útfæra svæðisbundnar áherslur byggðaáætlunar og taka mið af öðrum áætlunum ríkisins ásamt því að móta langtímastefnumörkun hvers landshluta og framtíðarsýn. Meginmarkmið laganna er að efla byggðaþróun á landinu öllu, auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og á milli stjórnsýslustiga. Aukin ábyrgð er færð til sveitarstjórna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Með því næst betri nýting á fjármunum og ákvarðanataka er færð nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna.
    Verklag sóknaráætlana og samskipti á milli Stjórnarráðsins og átta landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem verið hefur í mótun frá árinu 2011, hefur nú verið lögfest. Tryggð hefur verið aðkoma heimamanna að stefnumótun og áætlanagerð fyrir þeirra svæði og ábyrgð þeirra á forgangsröðun verkefna innan þess. Ábyrgð á byggðaþróun er færð á fleiri hendur og heimamenn fá tækifæri til að setja fjármagn í verkefni sem þeir leggja áherslu á í sínu nærsamfélagi.