Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 255  —  92. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Bjarnadóttur um
fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.


     1.      Hve margir sóttu um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum nr. 9/2014 árið 2014 og fyrstu sex mánuði þessa árs?
    Umboðsmanni skuldara höfðu borist 529 umsóknir um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta 30. júní sl. Þar af bárust 446 umsóknir árið 2014 og 83 umsóknir á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2015.

     2.      Hve margar umsóknir voru afgreiddar, hve margar samþykktar og hve mörgum hafnað?
    Eins og fram kemur í eftirfarandi töflu hafði umboðsmaður skuldara afgreitt 496 umsóknir 30. júní sl. Þar af hafði embættið samþykkt 218 umsóknir og synjað 278 umsóknum. Af þeim 218 umsækjendum sem hlutu fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta höfðu 175 lagt fram kröfu um gjaldþrotaskipti hjá héraðsdómi 1. júlí 2015.

Fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta 2014 1. janúar – 30. júní 2015 Samtals
Fjöldi umsókna 446 83 529
Fjöldi afgreiddra mála 393 103 496
Fjöldi samþykktra mála 165 53 218
Fjöldi synjaðra mála 228 50 278

     3.      Hvernig skiptast ástæður þess að umsóknum var hafnað, sbr. a–f-lið 2. mgr. 3. gr. laganna?
    Skipting ástæðna þess að umsóknum um fjárhagsaðstoð var synjað kemur fram í eftirfarandi töflu. Rétt er að geta þess að umboðsmaður skuldara getur synjað umsókn af fleiri en einni ástæðu og því er fjöldi ástæðna synjana, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna, fleiri en fjöldi þeirra umsókna sem synjað hefur verið.

Ástæða synjunar Fjöldi Hlutfall af fjölda synjana
1. mgr. 3. gr. laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta
a-liður 1. mgr. 3. gr.
– Ekki hefur verið sýnt fram á að umsækjandi eigi í verulegum greiðsluörðugleikum og að ekki verði talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma 13 5%
b-liður 1. mgr. 3. gr.
– Ekki hefur verið sýnt fram á að umsækjandi geti ekki staðið skil á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr. 67. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., að teknu tilliti til eigna- og skuldastöðu, sem og ráðstöfunartekna hans og framfærslubyrði 67 24%
c-liður 1. mgr. 3. gr.
– Ekki hefur verið sýnt fram á að önnur greiðsluvandaúrræði hafi verið reynd eða umboðsmaður skuldara metur það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda 142 51%
2. mgr. 3. gr. laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta
b-liður 2. mgr. 3. gr.
Skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu 1 0%
c-liður 2. mgr. 3. gr.
– Skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu 52 19%
d-liður 2. mgr. 3. gr.
– Skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar 5 2%
e-liður 2. mgr. 3. gr.
– Skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt 11 4%
f-liður 2. mgr. 3. gr.
– Greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. c- og d-lið 1. mgr. og d–g-lið 2. mgr. 6. gr. og 12. gr. sömu laga 29 10%

    Í þessu sambandi er rétt að nefna að þegar einstaklingur sækir um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta byrjar umboðsmaður skuldara ávallt á því að afla nauðsynlegra gagna svo unnt sé að leggja mat á málið. Meðal þess sem ber að líta til við mat á umsókn er hvort umsækjandi hefur leitað annarra greiðsluvandaúrræða eða hvort önnur úrræði séu ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda, sbr. c-lið 1. mgr. 3. gr. laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Horft er til þeirra úrræða sem umboðsmaður skuldara hefur framkvæmd með, svo og þeirra úrræða sem bankar og aðrir kröfuhafar bjóða upp á. Geti einstaklingur ekki sýnt fram á að hann hafi leitað annarra úrræða og umboðsmaður skuldara metur það svo að önnur úrræði væru tæk til að leysa greiðsluvanda hans fer embættið yfir þá möguleika sem standa umsækjanda til boða, allt eftir því hver staða viðkomandi umsækjanda er. Þannig getur umsækjanda verið ráðlagt að sækja um ráðgjöf eða greiðsluaðlögun, kanna möguleika á samningi við innheimtustofnun sveitarfélaga, fá undanþágu frá afborgun hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og frestun á greiðslum hjá Íbúðalánasjóði svo nokkur dæmi séu nefnd.
    Þetta er gert í öllum tilfellum áður en umsókn er afgreidd og mörg þessara mála fara því strax í réttan farveg þar sem umsækjandi dregur umsókn sína um fjárhagsaðstoð til baka og kemur þá ekki til þess að þeim sé synjað um fjárhagsaðstoð. Í þeim tilvikum þar sem umsókn er synjað á þessum forsendum hafa umsækjendur því fengið góðar leiðbeiningar í aðdraganda ákvörðunar um hvaða úrræða þeir gætu leitað og er því fylgt eftir þegar ákvörðun um synjun liggur fyrir í málinu.
    Eins og fram kemur í töflunni hér að framan hefur umboðsmaður skuldara synjað 142 umsóknum á grundvelli c-liðar 1. mgr. 3. gr. laga um fjárhagaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Í kjölfarið hafa borist 42 umsóknir, annars vegar 25 umsóknir um greiðsluaðlögun og hins vegar átta umsóknir um ráðgjöf. Af framangreindum umsóknum bárust níu umsóknir án þess að þær teldust fullbúnar. Rétt er að taka fram að 20 umsækjendur höfðu sótt um greiðsluaðlögun en dregið umsókn sína til baka áður en þeir sóttu um fjárhagsaðstoð og viðkomandi umsækjendur hafa ekki sótt aftur um greiðsluaðlögun. Þá var vinnslu greiðsluaðlögunarmála 12 umsækjanda ekki lokið þegar viðkomandi sótti um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar.