Ferill 142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 256  —  142. mál.
Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Freyju Haraldsdóttur
um samstarfsverkefni um innleiðingu notendastýrðrar
persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk.


     1.      Hver hefur verið kostnaður ríkis og sveitarfélaga af samningum um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk frá upphafi samstarfsverkefnis um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk, þ.e.:
                  a.      sameiginlegur heildarkostnaður,
                  b.      kostnaður að meðaltali,
                  c.      kostnaður á klukkustund?
    Í töflu 1 má sjá yfirlit heildarkostnaðar við tilraunaverkefnið um notendastýrða persónulega aðstoð frá 2011 til 2014. Kostnaður vegna ársins 2015 liggur ekki fyrir en til ráðstöfunar af ríkisins hálfu eru um 135 millj. kr. Gert er ráð fyrir óbreyttum fjölda eldri samninga og að nýjum samningum geti fjölgað eitthvað í lok árs.

Tafla 1.
Ár Sveitarfélög Ríki (framlög frá Jöfnunarsjóði)
2011 0 0
2012 48.728.304 9.745.661
2013 455.369.206 91.073.841
2014 577.745.815 115.549.163
1.081.843.325 216.368.665

    Í töflu 2 má sjá yfirlit meðaltalskostnaðar við hvern samning og meðalríkisframlags á hvern samning.

Tafla 2.
Ár Sveitarfélög Fjöldi samninga Meðalkostnaður samninga Ríki (framlög frá Jöfnunarsjóði Framlög, meðaltal á samning
2011 0
2012 48.728.304 19 2.564.648 9.745.661 512.930
2013 455.369.206 54 8.432.763 91.073.841 1.686.553
2014 577.745.815 51 11.328.349 115.549.163 2.265.670
1.081.843.325 216.368.665

    Meðalkostnaðar á hverja tímaeiningu er allt frá 2.800 kr. til 3.090 kr. Í einstaka samningum er einnig að finna hærri kostnað á tímaeiningu.

     2.      Hyggst ráðherra gangast fyrir því að ríki og sveitarfélög mæti auknum kostnaði við samningana vegna kjarasamningsbundinna launahækkana aðstoðarfólks þannig að réttur aðstoðarfólks sé tryggður án þess að komi til þjónustuskerðingar eða aukins kostnaðar fyrir notendur? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að svo verði óháð því í hvaða sveitarfélagi notendur búa?
    Þegar tilraunaverkefnið um notendastýrða persónulega aðstoð var sett á laggirnar tóku ríki og þau sveitarfélög sem vildu taka þátt í verkefninu ákvörðun um að kostnaðarskipting við framkvæmd verkefnisins skyldi vera þannig að sveitarfélög greiddu 80% og ríkið 20%. Allar áætlanir ráðuneytisins um kostnað vegna hlutdeildar þess hafa miðast við þessa kostnaðarskiptingu. Fyrir liggur þó að ráðuneytið hefur allan tilraunatímann farið þess á leit við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem hefur vistað verkefnið, að ætíð yrðu greidd 20% af þeim upphæðum sem sveitarfélög hafa sótt um greiðslu á. Þá gildir einu hvert viðmiðunargjaldið hefur verið. Ráðuneytið hefur reiknað með því að þeir samningar sem sveitarfélögin gera við umsjónaraðila, hvort sem um er að ræða að samið sé beint við notandann eða við umsjónaraðila fyrir þeirra hönd, fylgi ákvæðum kjarasamninga. Markmiðið með tilraunaverkefninu er m.a. að hvert sveitarfélag sem tæki þátt í verkefninu hefði um það val, í samráði við notanda, hvernig samningsgerð vegna launamála yrði háttað. Ráðuneytið hefur birt viðmiðunartölur til leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin en þau hafa í reynd greitt mismunandi mikið fyrir hverja vinnustund. Ráðuneytið hefur því ekki gert athugasemdir við þá framkvæmd á grundvelli þess hversu aðstæður geta verið mismunandi. Ráðuneytið hefur því ekki forsendur til þess að breyta þessari framkvæmd en væntir þess að sveitarfélögin greiði samkvæmt gildandi kjarasamningum þannig að áhrif kjarasamningsbundinna launahækkana geri það ekki að verkum að þjónustan skerðist. Ráðuneytið væntir þess að sveitarfélögin greiði aðstoðarfólki umsamdar hækkanir á meðan á tilraunaverkefninu stendur. Í framhaldi verði síðan teknar upp viðræður við sveitarfélögin um framkvæmd verkefnisins og kostnað þegar notendastýrð persónuleg aðstoð verður lögfest, sem vonandi gerist á árinu 2016.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að notendur notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar geti flust á milli sveitarfélaga án þess að komi til þjónustuskerðingar eða aukins kostnaðar fyrir þá á meðan á samstarfsverkefninu stendur?
    Þetta atriði hefur komið til umræðu í nefnd ráðherra sem fjallar um endurskoðun félagsþjónustulaga og laga um málefni fatlaðs fólks. Ljóst er að niðurstaða þarf að nást í nefndinni áður en frekari skref verða stigin. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöðu er að vænta.

     4.      Hvernig stendur vinna við faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu sem mælt er fyrir um í lokamálsgrein ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992? Hver eru efnistök matsins? Verður tryggt að við matið verði tekið mið af skoðunum notenda til jafns við skoðanir annarra hagsmunaaðila?
    Vinna við verkefnið „Mat á samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð“ er í fullum gangi. Eigindlegum viðtölum er lokið, sem og undirbúningi við spurningakönnun. Gert er ráð fyrir að úthringingar spurningakönnunar hefjist í október. Að því loknu tekur við úrvinnsla og samþætting niðurstaðna. Í verkefninu er aflað upplýsinga frá ýmsum aðilum sem tengjast verkefninu í því skyni að fá fram reynslu og viðhorf þeirra sem hafa haft aðkomu að samstarfsverkefninu á ólíkum forsendum. Þá hafa nú þegar verið tekin níu eigindleg viðtöl við NPA-notendur, tvö viðtöl við réttindagæslumenn, fjögur viðtöl við aðila sem starfa við umsýslu NPA-samninga og loks símaviðtöl við starfsfólk sem starfar við skipulagningu þjónustu við fatlað fólk hjá þjónustusvæðum landsins.

    Meginmarkmið verkefnisins fela í sér samanburð á NPA og öðrum þjónustuúrræðum og að meta það hvort NPA stuðli að sjálfstæðu lífi, aukinni þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og auknum lífsgæðum notenda. Til að fá svör við þessum spurningum er megináhersla lögð á upplýsingar frá þjónustunotendum og aðstandendum þeirra. Því verður, auk eigindlegra viðtala, aflað upplýsinga um reynslu og viðhorf þjónustunotenda með síma- og netkönnun. Könnunin mun ná til NPA-notenda, samanburðarhóps þjónustunotenda sem nýtir sér önnur þjónustuúrræði sem og aðstandenda beggja hópa.

     5.      Hvað er áætlað að samningum um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk fjölgi mikið til ársloka 2016? Hvernig stendur til að fjármagna þá fjölgun?
    Í fjárlagatillögum ársins 2016 er gert ráð fyrir því að ríkisframlagið hækki í 150 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að ríkisframlag við hvern samning verði óbreytt, eða 20% af heildarkostnaði. Um fjölda nýrra samninga fer eftir stærð þeirra og hvenær ársins þeir eru gerðir.