Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 257  —  237. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005,
með síðari breytingum (uppfærsla stjórnvaldsfyrirmæla).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 7. gr. a, svohljóðandi:
    Ef gefin er út breyting við stjórnvaldsfyrirmæli skv. 3. gr. eða við samning skv. 4. gr. skal fella texta hennar við gildandi stjórnvaldsfyrirmæli eða samning og birta á vef þess ráðuneytis sem fer með framkvæmd málaflokksins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað þess efnis að breytingar á stjórnvaldsfyrirmælum og samningum skuli fella inn í gildandi stjórnvaldsfyrirmæli eða samning og birta á vef viðkomandi ráðuneytis. Breyting þessi er lögð til í því skyni að auðvelda aðgengi þeirra sem þurfa að fara eftir ákvæðum stjórnvaldsfyrirmæla eða vilja kynna sér efni þeirra.
    Flutningsmenn benda á að reglulega eru gerðar breytingar á t.d. reglugerðum en ekki virðist unnt að nálgast í einu skjali viðkomandi reglugerð með áorðnum breytingum. Verði frumvarpið að lögum verður auðveldara og fljótlegra að kynna sér ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla sem gerðar hafa verið breytingar á.