Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 267  —  247. mál.
Flutningsmenn. Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar


um mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum.


Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Róbert Marshall, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Guðmundur Steingrímsson, Birgitta Jónsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Elín Hirst, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Willum Þór Þórsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að móta stefnu í þeim tilgangi að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum og upplýsa neytendur um tilvist skaðlegra efna og áhrif þeirra á heilsu og umhverfi manna. Ráðherra kynni stefnuna fyrir Alþingi á vorþingi 2016.

Greinargerð.

    Nú á dögum kemst mannkynið í snertingu við fleiri gerðir af efnum og efnasamböndum en nokkru sinni fyrr. Mörg efni sem eru notuð í neysluvörur hafa skaðleg áhrif á heilsu fólks og lífríkið. Þrátt fyrir að sú vitneskja liggi fyrir hefur löggjöf á þessu sviði tekið of mikið mið af hagsmunum framleiðenda á kostnað hagsmuna almennings.
    Eflaust gera sér fæstir grein fyrir því hversu gríðarlegt magn af kemískum efnum er að finna í umhverfi okkar. Allt til ársins 1981 komu fjölmörg efni á markað án þess að þau hefðu verið rannsökuð eða áhættumetin með tilliti til skaðlegra áhrifa á heilsu fólks eða á umhverfi. Það var ekki fyrr en árið 1981 sem sett voru lög í Evrópu sem skylduðu framleiðendur til að áhættumeta ný efni. Eftir að lögin tóku gildi hafa um 3.000 efni komið á markað en eftir stendur að um 100.000 efni eru á markaði sem ekki hafa verið áhættumetin. Sum þessara efna eru þrávirk, þ.e. þau safnast upp í vefjum manna og dýra, önnur geta valdið skertri æxlunargetu, sum efni geta verið ofnæmisvaldandi eða krabbameinsvaldandi, og skaðleg umhverfinu svo fátt eitt sé talið. Um margvísleg efni er að ræða sem finna má í algengum neysluvörum sem neytendur nota daglega, t.d. snyrtivörum, hreinsivörum, matarílátum, leikföngum og ýmsum vörum sem ætlaðar eru börnum, fatnaði, raftækjum o.fl.
    Árið 2007 tóku gildi nýir lagabálkar í Evrópu, REACH (Regulation on Registration, Evaluation, Authorisation and Restriction of Chemicals; Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 og tilskipun 2006/121/ESB) sem hafa m.a. þann tilgang að skrá í gagnagrunn þessi 100.000 efni sem finna má á markaði nú. Efni sem eru framleidd eða flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið þarf að áhættumeta nema til séu næg gögn til að meta áhættu af notkun þeirra. Kostnaður vegna þessa fellur á framleiðanda eða innflytjanda. Þá hefur verið útbúinn listi, „kandídatslisti“, sem á eru sérlega hættuleg efni (Substance of Very High Concern). Þessi efni eru metin sérstaklega og geta í framhaldinu ýmist verið bönnuð eða framleiðendum gert skylt að sækja um sérstakt leyfi fyrir notkun þeirra. 163 efni voru á kandídatslistanum á miðju ári 2015. Neytendur eiga rétt á því að vita hvort vara inniheldur efni á kandídatslistanum en þó með takmörkunum því ekki falla allir vöruflokkar þar undir. Þá þarf neytandinn sjálfur að kalla eftir þessum upplýsingum og hefur seljandi 45 daga frest til að svara. Það má því í raun segja að neytendum sé lítill greiði gerður og þessi „réttur“ neytenda frekar sýndarmennska en eitthvað annað. Fyrir það fyrsta þarf neytandi að vera upplýstur um að efni, sem þykja svo skaðleg að þau eru sett á sérstakan válista, séu yfir höfuð leyfð í neysluvörum. Hann þarf að vita að til er slíkur listi og að hann eigi rétt á upplýsingum um það hvort vara sem hann hefur áhuga á að kaupa innihaldi efni á listanum. Þá þarf neytandinn að vera mjög þolinmóður því seljandi hefur 45 daga til að svara. Í sumum löndum Evrópu hefur verið brugðist við með því að útbúa forrit fyrir snjallsíma (app) og aðrar lausnir til að auðvelda neytendum aðgang að þessum upplýsingum. Neytandi getur t.d. skannað strikamerki vöru með símanum og séð hvort og þá hvaða skaðlegu eða umdeildu efni varan inniheldur.
    Það eru þó ekki bara þau efni sem rata á kandídatslistann sem valda áhyggjum. Eins og áður sagði á eftir að rannsaka þúsundir efna sem nú þegar eru í notkun og í mörgum tilfellum leikur rökstuddur grunur á að efnin séu skaðleg. Þótt REACH-löggjöfin hafi vissulega verið framfaraskref er fjarri því að þeirri hættu sem fólki stafar af skaðlegum efnum í neysluvörum hafi verið eytt. Ennþá eru óteljandi efni í notkun sem ástæða er til að hafa áhyggjur af og þau er að finna í neysluvörum sem fólk notar á hverjum degi. Mikil umræða hefur t.d. verið um hormónaraskandi efni sem finna má í ýmsum vörum. Um er að ræða efni sem líkja eftir hormónum í líkamanum og geta m.a. haft áhrif á æxlunargetu en eru einnig talin geta aukið líkur á sjúkdómum eins og krabbameini og sykursýki. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur hvatt til þess að sett verði strangari löggjöf um hormónaraskandi efni og þau verði rannsökuð miklu betur. Í skýrslu, sem Alþjóðasamtök kvensjúkdóma- og fæðingarlækna (FIGO) stóðu að og kom út í október 2015, kemur fram að það mikla magn eiturefna sem mannkynið kemst í snertingu við ógnar heilsu fólks, eykur ófrjósemi, veldur milljónum dauðsfalla á ári hverju og hefur gríðarlegan kostnað í för með sér. 1 Þá hafa einnig verið uppi áhyggjur af svokölluðum „kokteiláhrifum“, en það er þegar efni og efnasambönd blandast öðrum efnum í vörunni og áhrif þeirrar blöndu geta verið allt önnur og meiri en áhrif efnanna hvers um sig.
    Áhrif kemískra efna í neysluvörum geta verið skaðleg fyrir neytendur sem nota vörurnar en ekki er síður ástæða til að huga að aðstæðum þeirra sem vinna við að framleiða neysluvarninginn. Framleiðslan fer gjarnan fram í löndum þar sem framleiðslukostnaður er lágur m.a. vegna þess að kröfur varðandi vinnuöryggi starfsfólks og umhverfisvernd er minni en á Vesturlöndum. Starfsfólk getur því verði útsett fyrir skaðleg efni í miklum mæli og þar sem umhverfislöggjöf er slök eru mörg dæmi um að skaðlegum efnum sé veitt beint út í nærliggjandi ár og umhverfi með tilheyrandi mengun.

Stefna stjórnvalda á Norðurlöndunum.
    Víða hafa stjórnvöld áhyggjur af stöðu mála og hafa lagt sitt af mörkum til að gæta betur að hagsmunum neytenda. Það á sérstaklega við á Norðurlöndunum. Þar viðurkenna stjórnvöld að löggjöfin sé ófullkomin og að brýnt sé að bæta hana en jafnframt að upplýsa og fræða neytendur þannig að þeir geti forðast umdeild efni og haft þannig áhrif á framboðið. Norræna umhverfismerkið Svanurinn 2 er gott dæmi um norræna samvinnu en vörur sem hafa fengið vottun og mega bera Svansmerkið innihalda eins lítið af óæskilegum efnum og mögulegt er. Markmiðið er að svansmerkt vara sé eins umhverfisvæn og kostur er og hún hefur undirgengist strangar kröfur.
    Danir hafa haft málið á dagskrá um árabil. Danir voru fyrstir þjóða til að banna ákveðnar tegundir þalata auk þess sem þeir bönnuðu efnið bispehnol-A í pelum og í matarílátum fyrir börn árið 2010, ári áður en Evrópusambandið gerði slíkt hið sama. Dönsk stjórnvöld náðu árið 2013 þverpólitískri sátt um að fara í átak gegn skaðlegum efnum í neysluvörum fyrir tímabilið 2014–2017. Sett var á fót sérstakt ráð sem í sátu m.a. aðilar frá neytendasamtökum, samtökum í iðnaði og stjórnvöldum og hefur ráðið m.a. það markmið að deila þekkingu og upplýsingum.
    Sem lið í átakinu veittu stjórnvöld dönsku neytendasamtökunum, Forbrugerrådet, 17,4 millj. DKK til að setja á fót verkefnið „Tænk kemi“. Hlutverk „Tænk kemi“ er að fræða neytendur með ýmsum ráðum og hjálpa þeim að forðast skaðleg efni. Það er gert m.a. með því að kanna innihald ýmissa algengra neysluvara og halda úti snjallsímaforritinu „Tjekkemien“. 3
    Í Svíþjóð hafa stjórnvöld sett langtímastefnu í umhverfismálum sem nær langt út yfir kjörtímabil og lesa má um á vefnum. 4 Umhverfisstefnan nær yfir 16 höfuðstefnumál svo sem loftgæði, hlýnun jarðar, hreint vatn og eiturefnalaust umhverfi („giftfri miljö“). Þegar kemur að eiturefnalausu umhverfi er almenn stefna landsins að auka rannsóknir á skaðlegum eiginleikum efna, bæta upplýsingaflæði til neytenda og stuðla að lagaumhverfi sem verndar umhverfi og fólk. Undir hverju stefnumáli eru sérhæfari undirmarkmið skilgreind, en alls eru 8 slík í flokknum um eiturefnalaust umhverfi. Sem dæmi um undirmarkmið má nefna að draga úr áhrifum efnavara á vöxt og þroska barna (Minska barns exponering för farliga kemikalier), að bæta upplýsingaflæði um efnainnihald vöru (Information om farliga ämnen i varor) og að ríkið beiti sér fyrir bættu efnaeftirliti innan ESB (Effektivare kemikalietillsyn inom EU). Hvert markmið inniheldur svo aðgerðir eða áherslur sem miða að því að ákveðinn mælanlegur árangur náist innan skilgreinds tímaramma. Efnaeftirlit Svíþjóðar hefur framkvæmdarvald í málaflokknum.
    Norska þingið samþykkti í janúar 2015 þingsályktun um að stjórnvöld skyldu gera aðgerðaráætlun um eiturefnalausan virkan dag („giftfri hverdag“). Í aðgerðaráætluninni er m.a. gert ráð fyrir auknu eftirliti með skaðlegum efnum í neysluvörum og betri upplýsingum til neytenda. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að Danir og Svíar hafi í mörg ár haft stefnu í þessum málum og kominn tími til að Norðmenn gerðu slíkt hið sama. Sérstaklega væri mikilvægt að vernda börn gegn þeim fjölmörgu efnum sem þau væru útsett fyrir. 5
    Norðurlandaráð hefur kallað eftir árangursríkari stefnu varðandi kemísk efni sem verndi neytendur, og þá sérstaklega börn, fyrir þeim heilsuspillandi efnum sem eru í notkun. Þá er hvatt til þess að notkun á efnum sem eru á kandídatslistanum sé stöðvuð án tafar. 6
    Stjórnvöld á Íslandi virðast aldrei hafa mótað stefnu í þessum málaflokki eða sett fjármagn í sérstakt átak eins og þekkist á hinum Norðurlöndunum. Ekki er að sjá að umfjöllun um skaðleg efni á neysluvörum hafi farið fram á Alþingi nema e.t.v. í tengslum við innleiðingar á EES-tilskipunum. Í ljósi þess að löggjöf um efni og efnavörur verndar ekki neytendur og hefur í of miklum mæli tekið mið af hagsmunum framleiðenda þá er ábyrgðarhluti af stjórnvöldum að sjá ekki til þess að neytendum sé tryggð góð upplýsingagjöf. Það liggur fyrir að allt of mörg skaðleg efni eru í umferð sem hafa áhrif á heilsu fólks og umhverfið og það er líka staðfest að mörg þeirra eru heilsuspillandi. Neytendur eiga rétt á þessum upplýsingum, þeir eiga rétt á því að geta tekið meðvitaða ákvörðun við kaup og að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda fólk og umhverfi fyrir skaðlegum efnum. Þá er sérstaklega mikilvægt að vernda börn sem eru mun viðkvæmari fyrir áhrifum skaðlegra efna en fullorðnir.
    Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að stjórnvöld móti stefnu um það hvernig megi draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum og koma í veg fyrir að þau hafi skaðleg áhrif á fólk og umhverfi. Horfa mætti til Norðurlandanna sem eru nú þegar langt á undan Íslendingum hvað varðar stefnumótun í þessum málaflokki.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.sciencedaily.com/releases/2015/10/151001100058.htm
Neðanmálsgrein: 2
2     www.ust.is/einstaklingar/umhverfismerki/svanurinn/
Neðanmálsgrein: 3
3     kemi.taenk.dk/?genvej=forside
Neðanmálsgrein: 4
4     www.miljomal.se
Neðanmálsgrein: 5
5     www.stortinget.no/no/Saker-og-publikasjoner/Publikasjoner/Innstillinger/Stortinget/2014-2015/Inns-201415-146/
Neðanmálsgrein: 6
6     www.norden.org/da/aktuelt/nyheder/udtalelse-nordisk-raad-efterlyser-en-giftfri-hverdag/