Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 291  —  264. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006 (verkefni erlendis).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
1. gr.

    Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þá er Landhelgisgæslunni heimilt að fengnu samþykki ráðherra að taka þátt í samstarfsverkefni erlendis, enda verði slíkt verkefni ekki það umsvifamikið að stofnunin fái ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum. Landhelgisgæslan gerir ráðherra grein fyrir verkefninu og umfangi þess ásamt hættumati.

2. gr.

Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta, sem er samið í innanríkisráðuneytinu í samráði við Landhelgisgæslu Íslands, er tilkomið vegna ábendingar Ríkisendurskoðunar um að kveðið verði skýrar á um lagaheimild Landhelgisgæslu Íslands til þess að taka að sér verkefni erlendis, sbr. skýrslur Ríkisendurskoðunar til Alþingis, Landhelgisgæsla Íslands: Verkefni erlendis (júní 2012 og júní 2015).
    Markmið lagabreytingarinnar er að kveða skýrt á um heimild Landhelgisgæslu Íslands til að taka að sér verkefni erlendis, m.a. í ljósi þess að umfang slíkra verkefna hefur aukist á undanförnum árum.
    Í 5. gr. laga um stofnunina segir nú að henni sé heimilt að gera þjónustusamninga um einstök verkefni og þegar sérstaklega standi á megi semja um ólögbundin verkefni í samráði við ráðherra. Að mati Ríkisendurskoðunar er æskilegt að kveðið verði skýrar á um lagaheimild Landhelgisgæslu Íslands til að taka að sér verkefni erlendis og að innanríkisráðuneytið hefði markvisst eftirlit með því að verkefni Landhelgisgæslunnar erlendis verði ekki það umsvifamikil að stofnunin geti ekki sinnt hlutverki sínu hér við land í samræmi við lög og markaða stefnu.
    Landhelgisgæslan hefur sinnt verkefnum erlendis frá árinu 2010 með það fyrir augum að afla tekna svo halda megi varðskipum, flugvél og þyrlum í rekstri á aðhaldstímum í ríkisfjármálum. Verkefnin hafa gert stofnuninni kleift að þjálfa starfsfólk, þróa þekkingu þess og afla fjár til að sinna viðhaldi á flugvél, þyrlum og varðskipum. Sýnt þykir að aðhald í ríkisfjármálum verði viðvarandi á næstu árum og því er líklegt að nauðsynlegt verði fyrir Landhelgisgæsluna að afla fjármagns með verkefnum erlendis. Landhelgisgæslan hefur meðal annars unnið fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins (Frontex) og Fiskveiðieftirlitsstofnun Evrópusambandsins (EFCA), í Miðjarðarhafi og við strendur Vestur-Afríku. Verkefnunum erlendis hefur ekki einungis fylgt fjárhagslegur heldur einnig faglegur ávinningur og verkefnin hafa aukið veg Landhelgisgæslu Íslands á alþjóðavettvangi. Þá hafa starfsmenn gæslunnar hlotið sérhæfða þjálfun og reynslu sem þeir hefðu tæplega fengið ella. Hins vegar er ljóst að dýrmætur tækjabúnaður og mannafli er ekki til taks á íslensku forráðasviði meðan á verkefni stendur.
    Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um að Landhelgisgæslan geri ráðherra grein fyrir umfangi verkefna erlendis hverju sinni enda verður stofnunin að geta sinnt með fullnægjandi hætti lögbundnum verkefnum á borð við eftirlit á hafsvæðinu við Ísland og leitar- og björgunarþjónustu. Kröfur um innlent öryggis- og þjónustustig stýra því þannig í hve miklum mæli stofnunin tekur þátt í verkefnum erlendis. Hafin er vinna við gerð landhelgisgæsluáætlana fyrir Landhelgisgæsluna þar sem stofnuninni verða sett skýr viðmið. Landhelgisgæslan á einnig að meta þá hættu sem þátttaka í þessum verkefnum hefur í för með sér fyrir áhafnir og tækjakost. Stofnunin hefur gert slíkt hættumat í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra og einnig notið liðsinnis Rauða krossins og Landspítala vegna áhættu samfara smitsjúkdómum.
    Frumvarpið miðar að því að auðvelda kerfisbundið eftirlit með starfsemi stofnunarinnar. Gera má ráð fyrir að Landhelgisgæslan taki áfram þátt í verkefnum erlendis og því er skýr lagagrundvöllur mikilvægur. Stofnunin hefur lagt áherslu á að þessi verkefni hafi ekki áhrif á þá grunnþjónustu sem henni ber að veita við löggæslu og öryggi hér við land. Að sama skapi hafa þau verið nauðsynleg til að styðja við þessa grunnþjónustu þegar Landhelgisgæslan hefur þurft að hagræða í rekstri.
    Með því að kveða á um samþykki innanríkisráðherra fyrir þátttöku Landhelgisgæslunnar í verkefnum erlendis er einnig gætt að almannahagsmunum og hagsmunum þeirra sem treysta hvað mest á að stofnunin sinni lögbundnum verkefnum sínum innan íslenskrar lögsögu.
    Frumvarpið var birt á vef innanríkisráðuneytisins 17. september 2015 og kostur gefinn á að veita umsögn um frumvarpið til 25. september. Engar umsagnir bárust ráðuneytinu.
    Það er mat ráðuneytisins að frumvarpið samrýmist stjórnarskrá og stangist ekki á við alþjóðlegar skuldbindingar.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006 (verkefni erlendis).

    Í frumvarpi þessu er lagt til að skýrt verði kveðið á um heimild Landhelgisgæslu Íslands til að taka að sér samstarfsverkefni erlendis, svo fremi slíkt verkefni verði ekki það umfangsmikið að stofnunin fái ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Gert er ráð fyrir að stofnunin geri ráðherra grein fyrir verkefninu og umfangi þess ásamt áhættumati. Í gildandi lögum er kveðið á um heimild stofnunarinnar til að gera þjónustusamninga um einstök viðfangsefni á verksviði hennar. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að þegar sérstaklega stendur á sé stofnuninni heimilt að semja um ólögbundin verkefni í samráði við ráðherra. Þar er þó ekki sérstaklega minnst á erlend verkefni og er frumvarpi þessu ætlað að taka af öll tvímæli um að sú lagaheimild sé fyrir hendi. Frumvarpið er í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar um að kveða þurfi skýrar á um slíka lagaheimild og að auk þess þurfi að tryggja markvissara eftirlit innanríkisráðuneytisins með því að verkefni stofnunarinnar erlendis verði ekki svo umfangsmikil að hún geti ekki sinnt hlutverki sínu hér við land með ásættanlegum hætti.
    Í greinargerð frumvarpsins segir m.a. að frá og með árinu 2010 hafi Landhelgisgæslan sinnt verkefnum erlendis til að afla tekna svo halda mætti varðskipum, flugvél og þyrlum í rekstri á aðhaldstímum í ríkisfjármálum. Hefur stofnunin í tengslum við þessar ráðstafanir m.a. þurft að leigja út til þessara verkefna varðskip og flugvél sem keypt voru fyrir Landhelgisgæsluna fyrir umtalsverða fjármuni fyrir nokkrum árum. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu nam kaupverð flugvélarinnar um 32,2 milljónum dollara og kaupverð varðskipsins um 30 milljónum evra, samtals um 8,3 mia. kr. á núverandi gengi. Ráðuneytið gerir ráð fyrir svipuðu hlutfalli verkefna Landhelgisgæslunnar erlendis næstu misserin. Markmiðið er þó að flugvélin verði ekki meira en tvo mánuði í verkefnum erlendis á ári en á síðustu árum hefur hún verið erlendis um 3–6 mánuði á ári. Eins og á við um aðrar ríkisstofnanir hefur Landhelgisgæslan þurft að takast á við aðhaldsaðgerðir í ríkisútgjöldum á tímabilinu eftir fall bankakerfisins. Að jafnaði hefur aðhaldskrafan sem gerð hefur verið til þessara starfsemi hjá ríkinu að mestu verið áþekk því sem átt hefur við um aðrar öryggis- og löggæslustofnanir á tímabilinu. Þrátt fyrir það hafa fjárveitingar til stofnunarinnar í fjárlögum og fjáraukalögum hækkað um 47,6% á milli áranna 2008 og 2015, að undanskildum framlögum vegna loftrýmiseftirlits sem fluttust til stofnunarinnar á árinu 2011. Á föstu verðlagi 2015, samkvæmt vísitölu neysluverðs, nemur hækkunin á tímabilinu um 5,5%.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs þar sem gera má ráð fyrir að velta Landhelgisgæslunnar verði svipuð og undanfarin ár.