Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 325  —  296. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).

Flm.: Sigríður Á. Andersen, Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson, Sandra Dís Hafþórsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      4. tölul. orðast svo: Þar sem íbúar eru fleiri en 50.000: 15–23 aðalmenn.
     b.      5. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um fjölda sveitarstjórnarmanna í sveitarfélögum. Í 4. tölul. málsgreinarinnar segir að þar sem íbúar séu 50.000–99.999 skuli sveitarstjórnarmenn vera 15 hið fæsta en 23 hið flesta. Í 5. tölul. segir svo að þar sem íbúar séu 100.000 eða fleiri skuli sveitarstjórnarmenn vera „23–31 aðalmenn“, eins og það er orðað í lögunum. Augljóst er að nú og um fyrirsjáanlega framtíð er 5. tölul. ætlað að vera sérstakt ákvæði um fjölda sveitarstjórnarmanna í Reykjavík og samkvæmt því munu allt að „31 aðalmenn“ geta setið í borgarstjórn Reykjavíkur í senn.
    Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 15 og hafa aldrei verið fleiri, að einu kjörtímabili undanskildu. Á kjörtímabilinu 1978–1982 var ákveðið að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 en strax á næsta kjörtímabili ákvað borgarstjórn að fækka þeim aftur í 15, og hefur síðan ekki séð ástæðu til að fjölga þeim aftur. Engin ástæða er til að löggjafinn þvingi borgaryfirvöld til slíkrar fjölgunar og er því lagt til að heimilt verði að borgarfulltrúarnir verði áfram 15. Með breytingunni er einnig lagt til að hámarksfjöldi borgarfulltrúanna verði færður niður í 23. Eins og áður var rakið hefur borgarstjórn aðeins einu sinni ákveðið að fjölga borgarfulltrúum svo þeir verði fleiri en fimmtán, og sú fjölgun var dregin til baka strax á næsta kjörtímabili. Engin ástæða er til að ganga svo langt í lögum að í borgarstjórn geti setið allt að „31 aðalmenn“, enda mun Reykjavíkurborg ekki hafa óskað eftir slíkri lagaheimild.
    Að öðru leyti skýrir frumvarpið sig sjálft.