Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 335  —  111. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur
um endurgreiðslur vegna gleraugnakaupa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hyggst ráðherra endurskoða á næstunni upphæðir endurgreiðslna vegna kaupa á nauðsynlegum gleraugum fyrir sjúkratryggða samkvæmt reglugerð nr. 1155/2005 og fylgiskjali með henni?

    Undanfarin ár hafa ákvæði reglugerðar 1155/2005 komið reglulega til umræðu bæði meðal starfsmanna Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og í viðræðum við ráðuneytið. Einnig hafa mögulegar útfærslur breytinga verið ræddar óformlega við ýmsa barnaaugnlækna.
    Stór hluti endurgreiðslna, eða til rúmlega 80% foreldra/forráðamanna barna, eru 7.000 kr. og hefur sú upphæð ekki breyst frá því reglugerðin tók gildi árið 2005.
    Ákveðinn hópur barna og fullorðinna, eða um 800 manns, fengu á árinu 2014 hærri endurgreiðslur en 7.000 kr. vegna flóknari og þar af leiðandi dýrari sjónglerja. Það er mat ráðuneytisins að stöðu þessa hóps þurfi að skoða sérstaklega með tilliti til frekari hækkunar á endurgreiðslum. Sú skoðun þarf að eiga sér stað með sérfræðingum utan Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar, m.a. sérfræðingum í barnaaugnlækningum, en í vissum tilfellum má líta á ákveðnar tegundir glerja sem meðferðarúrræði.
    Formleg vinna við endurskoðun á stöðu þeirra sem þurfa dýrari sjóngler hefur ekki farið fram en í markmiðaáætlun Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar verði endurskoðuð og þar muni miðstöðin óska eftir aðkomu barnaaugnlækna og annarra þeirra sem best þekkja til. Ráðuneytið gerir ráð fyrir því að niðurstöður þeirrar vinnu liggi fyrir eigi síðar en undir lok fyrsta ársfjórðungs 2016.