Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 374  —  152. mál.
Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi S. Björnsdóttur
um rétt foreldra til stuðnings vegna missis barns.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða rétt eiga foreldrar til fjárhagslegs og faglegs stuðnings, þar á meðal endurhæfingar, og til fjarveru frá vinnu vegna missis barns? Hvaða áhrif hefur það á rétt foreldris í þessu efni hafi það verið lengi utan vinnumarkaðar vegna umönnunar langveiks barns?

    Lög nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, fjalla um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafa greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun.
    Annars vegar er um að ræða fjárhagslega aðstoð þegar foreldri þarf að leggja niður launað starf vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp koma þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun en þá getur foreldri átt sameiginlegan rétt á tekjutengdum greiðslum í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins. Heimilt er að framlengja sameiginleg réttindi foreldra til tekjutengdra greiðslna um allt að þrjá mánuði þegar barnið þarfnast verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar. Tekjutengdar greiðslur til foreldris sem er á vinnumarkaði nema 80% af meðaltali heildarlauna og er þá miðað við tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en barnið greindist. Fjárhæð tekjutengdu greiðslnanna getur að hámarki orðið 650.946 kr. á mánuði árið 2015. Þurfi foreldri að leggja niður störf að hluta getur það átt rétt á hlutfallslegum greiðslum í samræmi við minnkað starfshlutfall.
    Áður en foreldrar geta sótt um tekjutengdar greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þarf foreldrið að hafa nýtt sér rétt sinn sem það kann að eiga hjá sjúkrasjóði stéttarfélags síns. Sjúkrasjóðir stéttarfélaga kveða í reglum sínum á um réttindi félagsmanna sinna þegar börn þeirra eru langveik eða alvarlega fötluð. Hefur Alþýðusamband Íslands beint þeim tilmælum til sjúkrasjóða sinna aðildarfélaga að kveða á um dagpeninga í 90 daga, að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslurnar skulu ekki nema lægri fjárhæð, miðað við starfshlutfall foreldris, en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu sex mánuðum. Fjölskyldu- og styrktarsjóðir stéttarfélaga hjá hinu opinbera gera ráð fyrir sams konar greiðslum í 60 daga.
    Foreldri í námi sem verður að gera hlé á námi vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp koma þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun getur á sama hátt átt sameiginlegan rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins. Í því tilviki er um fasta fjárhæð að ræða. Heimilt er að framlengja sameiginleg réttindi foreldra í námi um allt að þrjá mánuði þegar barnið þarfnast verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar. Fjárhæð greiðslna til foreldra í námi nemur 182.586 kr. á mánuði árið 2015.
    Hins vegar geta þeir foreldrar sem hvorki geta sinnt störfum utan heimilis né námi vegna þess að barn þess þarfnast verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar átt sameiginlegan rétt á svokölluðum grunngreiðslum með hinu foreldri barnsins. Unnt er að fá grunngreiðslur allt til 18 ára aldurs barnsins og geta þær tekið við er foreldrar hafa nýtt rétt sinn til tekjutengdra greiðslna. Við mat á því hversu langan tíma grunngreiðslur skulu greiddar er m.a. litið heildstætt á aðstæður fjölskyldunnar. Foreldrar geta ákveðið hvernig þeir skipta réttinum til grunngreiðslna sín á milli en geta þó ekki fengið greiðslur fyrir sama tímabil.
    Grunngreiðslur nema 182.586 kr. á mánuði árið 2015. Til viðbótar fær foreldri sem hefur börn á framfæri sínu sem eru yngri en 18 ára, sérstakar barnagreiðslur vegna hvers barns, sem nema 26.863 kr. á mánuði árið 2015. Auk þess fær einstætt foreldri sem hefur tvö börn yngri en 18 ára á framfæri sínu 7.777 kr. á mánuði árið 2015 en 20.219 kr. á mánuði hafi það þrjú börn eða fleiri á framfæri. Hafi foreldri aðrar tekjur fyrir sama tímabil og grunngreiðslur eru greiddar, sem eru umfram tiltekin frítekjumörk, hafa þær tekjur áhrif til lækkunar á fjárhæð grunngreiðslnanna. Frítekjumörkin eru 62.921 kr. á mánuði árið 2015.
    Lögin miða við að foreldrar geti skipt með sér umræddum rétti til greiðslna en þeir geti ekki fengið greiðslurnar á sama tíma. Þegar barn nýtur líknandi meðferðar geta foreldrar þó fengið umræddar greiðslur á sama tíma. Andist langveikt barn eða alvarlega fatlað barn er heimilt að halda tekjutengdum greiðslum sem foreldri hefði ella átt rétt á áfram í allt að einn mánuð frá andláti barns enda hafi foreldri ekki áður fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra greiðslna. Hins vegar er heimilt að greiða grunngreiðslurnar sem foreldri hefði ella átt rétt á áfram í allt að þrjá mánuði frá andláti barns.
    Foreldrar geta einnig átt rétt á umönnunargreiðslum samkvæmt lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, sem ætlað er að mæta útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barns. Þær greiðslur koma ekki til frádráttar greiðslum samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Umönnunargreiðslur geta að hámarki orðið 145.351 kr. á mánuði árið 2015 og eru þær skattfrjálsar. Heimilt er að greiða umönnunargreiðslur í allt að sex mánuði eftir andlát barns.
    Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvana barn fæðist eftir 22 vikna meðgöngu hafi foreldrar verið á vinnumarkaði en annars eiga þeir rétt á fæðingarstyrk til jafnlangs tíma. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlátið verður hafi þeir verið á vinnumarkaði en annars eiga þeir rétt á fæðingarstyrk til jafnlangs tíma.
    Foreldrar eiga ekki rétt til fjarveru frá vinnu vegna missis barns þegar fæðingarorlofi sleppir enda þótt ætla megi að vinnuveitendur á innlendum vinnumarkaði sýni starfsmönnum sínum skilning við þær erfiðu aðstæður. Samkvæmt lögum nr. 27/2000, um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna, er óheimilt að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber en með fjölskylduábyrgð samkvæmt lögunum er átt við skyldur starfsmanns gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.
    Enn fremur leggja lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þá skyldu á herðar atvinnurekendum að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þ.m.t. að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.
    Foreldrar geta leitað faglegs stuðnings hjá Barnaspítala Hringsins en þar eru starfandi sálfræðingar og félagsráðgjafar sem veita fjölskyldum langveikra barna aðstoð við að takast á við þær fjölþættu sálfélagslegu aðstæður sem upp geta komið í tengslum við veikindi og það álag sem veikindum og aðstæðum tengdum heilsufari getur fylgt. Á spítalanum starfa jafnframt prestar sem veita stuðning við andlát. Unnt er að kalla þá til hvenær sem er sólarhringsins ef andlát eða annað áfall ber að höndum. Einnig er starfandi á spítalanum áfallateymi. Þá geta foreldrar leitað til félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem lögheimili þeirra er og óskað eftir félagslegri ráðgjöf og fjölbreyttri félagsþjónustu, sbr. lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum.
    Þegar foreldrar þurfa að horfast í augu við fæðingu andvana barns leitast fagfólk fæðingardeilda við að veita faglegan stuðning. Móðirin dvelur á einbýli og getur maki eða aðstandandi einnig dvalið þar. Reynt er að haga því þannig að sem fæstir læknar og ljósmæður annist móðurina á meðan hún dvelur á spítalanum og einnig geta foreldrað óskað eftir að fá til sín prest eða djákna án tillits til lífsskoðana eða trúarafstöðu. Markmið sálgæslunnar er að liðsinna þeim sem glíma við sorg og sárar tilfinningar tengdar áföllum í lífinu. Er hlutverk prestsins eða djáknans að styðja foreldrana í gegnum fyrsta áfallið og vera stuðningur í sorginni. Það gerir hann/hún með því að ræða við foreldrana og veita um leið ráðgjöf og vera þeim innan handar varðandi hugsanleg verkefni sem þeir standa frammi fyrir eftir missinn. Prestur, djákni eða ljósmóðir kynna fyrir foreldrunum þá eftirfylgd sem í boði er af hálfu spítalans. Félagsráðgjafar á kvennadeildum Landspítala bjóða foreldrum sálfélagslegan stuðning og ráðgjöf ásamt upplýsingum um fæðingarorlof eða önnur réttindi. Einnig stendur foreldrum til boða að ræða við sálfræðing en að jafnaði hefur sálfræðingur samband við móður sex til átta vikum eftir fæðingu.