Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 378  —  172. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt
á fjármálafyrirtæki, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um stöðugleikaskatt
(nauðasamningsgerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur og Leif Arnkel Skarphéðinsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Málinu var vísað til nefndarinnar milli 2. og 3. umræðu þar sem nauðsynlegt er að gera breytingar til viðbótar þeim sem gerðar voru við 2. umræðu, sbr. þingskjal 354, og gerð var grein fyrir í nefndaráliti á þingskjali 353.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 3. gr. frumvarpsins sem lýtur að breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, með síðari breytingum. Með þessari breytingu er stefnt að sama markmiði og stefnt var að með frumvarpinu, þ.e. að skylda til greiðslu bankaskatts falli niður árið 2016 gagnvart þeim lögaðilum sem ljúka munu slitameðferð með nauðasamningi.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á millivísun sem leiðir af öðrum breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu.
    Í þriðja lagi er lagt til að við lög um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Við 2. umræðu var kölluð aftur breytingartillaga þess efnis í þeim tilgangi að skýra betur efni ákvæðisins þannig að ekki fari á milli mála að 1. mgr. ákvæðisins er ætlað að ná til þeirra lögaðila sem hafa lokið slitameðferð með staðfestum nauðasamningi fyrir 15. mars 2016. Þá telur meiri hluti nefndarinnar rétt að 2. mgr. ákvæðisins taki aðeins til þeirra lögaðila sem þegar hafa lokið slitameðferð með staðfestum nauðasamningi en hafa ekki getað efnt greiðslur samkvæmt honum vegna fjármagnshafta. Lögaðilar sem héraðsdómur hefur úrskurðað um að skuli teknir til gjaldþrotaskipta falla eftir sem áður undir skattskyldusvið laga um stöðugleikaskatt.
     Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 4. nóvember 2015.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Sigríður Á. Andersen,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason. Willum Þór Þórsson.