Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 382  —  325. mál.




Beiðni um skýrslu


frá félags- og húsnæðismálaráðherra um hagi og viðhorf aldraðra.

Frá Svandísi Svavarsdóttur, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur,
Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Ögmundi Jónassyni, Katrínu Jakobsdóttur,
Steinunni Þóru Árnadóttur, Steingrími J. Sigfússyni, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur,
Páli Val Björnssyni og Helga Hrafni Gunnarssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félags- og húsnæðismálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um hagi og viðhorf aldraðra þar sem m.a. verði fjallað um ráðstöfunartekjur, húsnæðisstöðu, læknis- og lyfjakostnað, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, viðhorf eldri borgara til félagsþjónustu og félagsstarfs í viðkomandi sveitarfélagi, viðhorf eldri borgara til hækkaðs eftirlaunaaldurs og starfa á eftirlaunaaldri, framboð á hjúkrunarrými, kostnað við dvöl á hjúkrunarheimili og mat á þörf fyrir hjúkrunarrými til ársins 2040. Staða kvenna með tilliti til eftirlauna og ráðstöfunartekna verði sérstaklega til umfjöllunar sem og staða innflytjenda sem náð hafa eftirlaunaaldri en kunna að hafa takmarkaðan eftirlaunarétt hér á landi og annarra sem ekki ná fullum eftirlaunarétti. Sérstaklega verði fjallað um áhrif aldurstengdrar réttindaávinnslu í þessu samhengi.

Greinargerð.

    Hlutfall eftirlaunaþega, þ.e. fólks sem er eldra en 67 ára, er nú um 11% af heildarfólksfjölda á Íslandi. Samkvæmt spá Hagstofu Íslands um mannfjöldaþróun í landinu verður þetta hlutfall um 13% árið 2020 en um 23% árið 2060. Ljóst er að síhækkandi hlutfalli einstaklinga sem eru 67 ára eða eldri hljóta að fylgja ýmsar breytingar á högum þjóðarinnar og mikilvægt er að fylgjast vel með framvindunni og gera ráðstafanir til að bregðast við breyttum aðstæðum á yfirvegaðan hátt, enda er velferð fólks í húfi og einnig miklir fjármunir.
    Hér er farið fram á að upplýsinga verði aflað um kjör og stöðu eldri borgara sem nýtist við ákvarðanir um ráðstöfun opinbers fjár í þeirra þágu og hvaðeina annað sem að þeim snýr. Þetta er mikilvægt þar sem vitað er að hópurinn býr við mjög ólíkar aðstæður með tilliti til efnahags, heilsufars og annars. Þá er farið fram á að eldri borgarar verði inntir eftir afstöðu til hækkaðs eftirlaunaaldurs og starfa eftir að taka lífeyris hefst enda verður þetta tvennt væntanlega mjög til umræðu á komandi árum í ljósi breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Þess er farið á leit að sérstaklega verði hugað að stöðu kvenna með tilliti til lífeyris- og eftirlaunagreiðslna og ráðstöfunum sem kann að vera þörf fyrir til að bæta stöðu þeirra í þessu tilliti en upplýsingar um að fjárhagsstaða kvenna á efri árum sé að jafnaði lakari en karla í þessum aldurshópi liggja þegar fyrir að nokkru leyti í skýrslu um aldraða í hjúkrunarrýmum. 1 Enn fremur er þess farið á leit að staða innflytjenda með tilliti til lífeyrisávinnslu verði könnuð og metin og lagt mat á áhrif aldurstengdrar réttindaávinnslu í samræmi við ábendingar í nýlegri umfjöllun um íslenska lífeyriskerfið. 2
    Ef þessi atriði verða könnuð verður það ekki í fyrsta skipti sem slík athugun er gerð. Í mars árið 1999, sem var ár aldraðra, gerði Gallup viðhorfskönnun meðal aldraðra fyrir heilbrigðisráðuneytið og birtust niðurstöðurnar í samnefndri skýrslu sem unnt er að nálgast á vef velferðarráðuneytisins eins og aðrar skýrslur um málefni aldraðra sem gerðar voru á þessu átaksári. 3 Ekki er að efa að þær gerðu sitt gagn en svo langt er um liðið að tímabært er að taka þennan þráð upp á nýjan leik.
    Öldrunarmál eru víða til umfjöllunar og víða er unnt að sækja fyrirmyndir að rannsóknum á högum og háttum aldraðra. Alþjóðasamtök um öldrun (International Federation on Ageing) eru samtök frjálsra félagasamtaka sem hafa látið gera ýmsar athyglisverðar rannsóknir á högum aldraðra og sérstökum viðfangsefnum sem tengjast efri árunum. Samtökin eru ráðgefandi við Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðavinnumálastofnunina og Evrópuráðið. Þá má nefna AGE Platform Europe sem eru samtök samtaka eldri borgara í Evrópusambandslöndunum sem hafa staðið að útgáfu ýmis konar fræðsluefnis og leiðbeiningarrita. Samtök aldraðra á Norðurlöndum hafa gert slíkt hið sama, svo sem Ældre Sagen í Danmörku, PRO (Pensionärernas riksorganisation) í Svíþjóð og Seniornett í Noregi. Þá hafa hagstofur Norðurlandaríkjanna birt niðurstöður ýmissa athugana á kjörum aldraðra. Því er af ýmsu að taka þegar leitað er fyrirmynda að rannsóknarefnum á kjörum og högum aldraðra sem sjálfsagt er að nýta þegar unnið er að málefnum þeirra.
Neðanmálsgrein: 1
1    Aldraðir í hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum. Lokaskýrsla. Velferðarráðuneytið 19. júní 2014.
     www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur-2014/VEL-Lokaskyrsla-2014.pdf
Neðanmálsgrein: 2
2    Nægjanleiki lífeyrissparnaðar. Fjármálaeftirlitið. Reykjavík 2014, bls. 36.
     www.fme.is/media/frettir/Naegjanleiki-lifeyrissparnadar-04febr15.pdf
Neðanmálsgrein: 3
3     www.velferdarraduneyti.is/media/aldradir/vidhorfskonnun_aldradra.pdf